Mynd: Birgir Þór Harðarson

Allt í járnum í Reykjavík

Þótt meirihlutinn í borgarstjórn haldi eins og staðan er í dag þá stendur það mjög tæpt. Líklegast er að átta borgarfulltrúar muni dreifast á sex flokka. Þetta er niðurstaða nýjustu sætaspár Kjarnans.

Meirihlutinn í Reykjavík myndi halda með naumindum samkvæmt nýjustu sætaspákosningaspár Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar. Þeir þrír flokkar innan hans sem verða í framboði myndu fá tólf borgarfulltrúa ef kosið yrði í dag. Síðasti kjörni fulltrúi Samfylkingarinnar er þó mjög tæpur inni og lítið þarf til að hann dytti út. Þá væri meirihlutinn, eins og hann er samansettur í dag, fallinn.

Sætaspáin er framkvæmd þannig að keyrðar eru 100 þúsund sýndarkosningar miðað við fylgi flokka í kosningaspánni sem birt var 27. apríl síðastliðinn. Í hverri þeirra er úthlutað 23 borgarfulltrúum og þar sem sýndarkosningarnar eru allar með innbyggða óvissu þá getur fylgið í hverri einstakri sýndarkosningu stundum hærra og stundum lægra, þótt meðaltal kosninganna allra sé það sama og kom fram í kosningaspánni.

Niðurstöður kosningaspárinnar 27. apríl 2018
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2018.

Líklegasta niðurstaða sætarspár allra flokka skilar að þessu sinni einungis 21 borgarfulltrúum, sem þýðir að síðustu tvö sætin eru í mikilli tvísýnu og sannarlega í leik fyrir þau framboð sem eru nálægt því að krækja í þau. Eins og staðan er nú er líklegast að þau lendi annars vegar hjá Framsóknarflokki og hins vegar hjá Flokki fólksins og tryggi hvorum flokki fyrir sig einn borgarfulltrúa. Þó er vert að benda á að fylgi þeirra flokka sem mælast með undir tveggja prósenta fylgi, og flokkast því sem „annað“, hefur verið að vaxa hratt undanfarnar vikur og mælist nú fimm prósent.

Verði ofangreint niðurstaða kosninga þá myndi Samfylkingin fá átta borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn sjö, Píratar og Vinstri græn tvo hvor en Miðflokkurinn, Viðreisn, Framsóknarflokkur og Flokkur fólksins einn hvor. Næstu menn inn eru Pawel Bartozek, annar maður á lista Viðreisnar, og Baldur Borgþórsson, sem situr í öðru sæti á lista Miðflokksins.

Með meirihluta fulltrúa en minnihluta atkvæða

Líkt og Kjarninn greindi frá á laugardag þá dalar fylgi meirihlutans í Reykjavík örlítið samkvæmt nýjustu kosningaspánni. Þeir þrír flokkar sem standa að honum mælast nú með 47,5 prósent fylgi en voru með 48,2 prósent um miðja síðustu viku. Breytingin er þó vart marktæk.

Samfylkingin mælist nú með 29 prósent fylgi og yrði áfram stærsti flokkurinn í höfuðborginni ef kosið yrði í dag. Fylgi hennar hefur verið nokkuð stöðugt undanfarnar vikur samkvæmt spánni, mældist lægst 28,5 prósent en hæst 31,1 prósent. Vinstri græn mælast með 9,5 prósent fylgi og Píratar með níu prósent. Báðir flokkar eru að mælast með minnsta fylgi sem þeir hafa mælst með í kosningaspánni frá því í byrjun mars. Samanlagt myndu þessir þrír flokkar fá tólf borgarfulltrúa. Allir þrír hafa þegar útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og sumir þeirra við Miðflokkinn. Leiðtogar sumra þeirra hafa auk þess lýst yfir áhuga á að viðhalda meirihlutasamstarfinu, mögulega með aðkomu fleiri flokka, verði það mögulegt eftir kosningarnar.

Viðreisn í oddastöðu

Viðreisn mælist með 6,7 prósent fylgi. Það myndi líklegast skila flokknum einum borgarfulltrúa þótt að hann sé mjög nálægt því að ná einum til inn.

Viðreisn, sem kynnti áherslur sínar í kosningabaráttunni í síðustu viku, virðist vera mun nær sitjandi meirihluta en núverandi minnihluta og öðrum flokkum sem deila áherslum með honum. Það má t.d. sjá á því að í nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið kom fram að 53,9 prósent kjósenda Viðreisnar vildu sjá Dag B. Eggertsson sem næsta borgarstjóra. Einungis 4,9 prósent þeirra vildu fá Eyþór Arnalds í embættið. 

Sjálfstæðisflokkurinn nálægt því að ná áttunda manni inn

Sjálfstæðisflokkurinn er yrði næst stærsti flokkur borgarinnar ef kosið yrði í dag. Fylgi hans mælist nú 28 prósent sem er við lægri mörk þess sem það hefur mælst í kosningaspánni undanfarnar vikur. Það myndi tryggja honum sjö borgarfulltrúa en afar lítið vantar upp á að sá áttundi myndi detta í hús. Það gæti breytt pólitíska landslaginu í Reykjavík umtalsvert.

Miðflokkurinn virðist ætla að taka við hlutverki Framsóknarflokksins í borginni og fylgi hans er stöðugt á uppleið. Í byrjun mars var það 4,2 prósent, 10. apríl var það 5,1 prósent en er nú 6,6 prósent. Það skilar Vigdísi Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins, nokkuð örugglega í borgarstjórn og hún er nálægt því að taka einn samherja með sér þangað.

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2018.
B C D F M P S V Aðrir

Á sama tíma mælist fylgi Framsóknarflokks 3,2 prósent og virðist nokkuð fast þar, sem líklegast myndi ekki skila inn manni. Í ljósi þess hversu baráttan er mikil um þau tvö sæti sem raðast ekki á flokka í sætaspánni þá er Framsókn líklegastur til að ná öðru þeirra. Þá myndi Ingvar Mar Jónsson ná inn. Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, er í nánast sömu stöðu. Fylgi þess flokks mælist þrjú prósent og Kolbrún er líklegust til að taka hitt óraðaða sætið ef kosið yrði í dag.

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni (27. apríl) eru eftirfarandi:

  • Þjóðarpúls Gallup 4. apríl (vægi 14,8 prósent)
  • Skoðanakönnun Fréttablaðsins og frettabladid.is 9. apríl (vægi 15,5 prósent)
  • Skoðanakönnun Fréttablaðsins og frettabladid.is 25. apríl (vægi 23,3 prósent)
  • Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 23 - 25. apríl. (vægi 46,5,4 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar