Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fylgi annarra flokka en eru á þingi hefur fjórfaldast

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur virðast föst í sessi sem hryggjarstykkið í sitthvorri fylkingunni í borginni. Saman eru þessir tveir höfuðandstæðingar að fara að fá 65 prósent borgarfulltrúa miðað við nýjustu kosningaspánna. Fylgi annarra flokka en þeirra sem eru á þingi vex hratt, þótt það skili ekki inn mönnum.

Sam­fylk­ingin myndi fá 28,3 pró­sent atkvæða ef kosið yrði í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum í dag og átta borg­ar­full­trúa kjörna. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, sem mælist næst stærsti flokk­ur­inn að venju, er skammt undan með 27,5 pró­sent og sjö borg­ar­full­trúa. Sitj­andi meiri­hluti mælist nú með tólf borg­ar­full­trúa og bætir örlitlu sam­eig­in­legu fylgi við sig. Nú myndu 48 pró­sent kjós­enda kjósa Sam­fylk­ingu, Vinstri græn eða Pírata. Meiri­hlut­inn myndi því halda þrátt fyrir að vera ekki með meiri­hluta atkvæða á bak við sig.

Þetta er nið­ur­staða nýj­ustu kosn­inga­spár Kjarn­ans og Dr. Bald­urs Héð­ins­son­ar. Þar kemur einnig fram að fjöldi þeirra sem ætla að kjósa önnur fram­boð en þá átta flokka sem eiga nú sæti á Alþingi vex hratt milli kann­ana. Um helg­ina var stað­fest að fram­boðin verði alls 16 tals­ins og nú segj­ast 5,9 pró­sent kjós­enda að þeir ætli að kjósa eitt­hvað annað en Sam­fylk­ingu, Sjálf­stæð­is­flokk, Pírata, Vinstri græn, Við­reisn, Mið­flokk, Fram­sókn­ar­flokk eða Flokk fólks­ins.Niðurstöður kosningaspárinnar 6. mai 2018

Aðrir flokkar í fram­boði eru Alþýðu­fylk­ing­in, Sós­í­alista­flokk­ur­inn, Höf­uð­borg­ar­list­inn, Karla­list­inn, Kvenna­hreyf­ing­in, Frels­is­flokk­ur­inn, Íslenska þjóð­fylk­ingin og Borgin okk­ar. Allir mæl­ast þessir flokkar með undir 2,5 pró­sent fylgi og því eru þeir flokk­aðir sem „aðr­ir“ í spánni.

Í byrjun apríl var hlut­fall þeirra sem ætl­uðu að kjósa aðra flokka en þá sem sitja á þingi 1,5 pró­sent. Hlut­fall þeirra sem ætla að kjósa önnur fram­boð hefur því fjór­fald­ast á einum mán­uði.

Litlar breyt­ingar á sæta­skipan

Nokkur stöð­ug­leiki hefur verið í því hvernig sæta­skipan verð­ur. Sæta­spáin er fram­kvæmd þannig að keyrðar eru 100 þús­und sýnd­ar­kosn­ingar miðað við fylgi flokka í kosn­inga­spánni sem birt var 6. maí síð­ast­lið­inn. Í hverri þeirra er úthlutað 23 borg­ar­full­trúum og þar sem sýnd­ar­kosn­ing­arnar eru allar með inn­byggða óvissu þá getur fylgið í hverri ein­stakri sýnd­ar­kosn­ingu stundum hærra og stundum lægra, þótt með­al­tal kosn­ing­anna allra sé það sama og kom fram í kosn­inga­spánni.

Líkt og staðan er nú myndi Sam­fylk­ingin fá átta borg­ar­full­trúa. Lítið þarf þó að breyt­ast til þess að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn nái sínum átt­unda manni mögu­lega á kostnað Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Við það myndi staðan í borg­ar­stjórn breyt­ast umtals­vert, enda fyr­ir­liggj­andi að þessi tveir flokkar eru sitt hvort hryggja­stykkið í hópum sem hafa afar ólíka sýn á það hvernig borgin eigi að þró­ast á næstu árum, sér­stak­lega í sam­göngu- og skipu­lags­mál­um.

Píratar eru orðnir þriðja stærsta aflið í borg­inni sam­kvæmt spánni og myndu ná nokkuð örugg­lega með tvo menn inn. Eng­inn flokkur bætir við sig meira fylgi á milli spáa en þeir og annar maður á lista Pírata er í engri hættu á að detta út. Vinstri græn dala áfram líkt og fylgi flokks­ins hefur gert í öllum kosn­inga­spám frá því í lok mars, en hann næði þó samt tveimur inn í borg­ar­stjórn.

Mið­flokk­ur­inn undir for­ystu Vig­dísar Hauks­dóttur er aðeins að missa flugið eftir að hafa vaxið í öllum spám sem gerðar hafa verið hingað til. Nú segj­ast 6,2 pró­sent kjós­enda að þeir muni kjósa flokk­inn, sem dugar bara til að ná Vig­dísi inn. Við­reisn er á svip­uðum slóðum með 6,5 pró­sent fylgi og einn mann inni.

Þá standa eftir tveir borg­ar­full­trú­ar, og eins og staðan er nú myndu þeir lík­leg­ast fara til ann­ars vegar Fram­sókn­ar­flokks og hins vegar Flokks fólks­ins. Báðir flokkar eru þó lík­ast til ein­ungis örfáum atkvæðum frá því að tapa þeim mönnum og fylgi Fram­sóknar er nú komið niður fyrir þrjú pró­sent. Það mælist 2,8 pró­sent og hefur ekki mælst lægra í kosn­inga­spám árs­ins.

Við­reisn­ar­kjós­endur horfa til Dags

Ólafur Þ. Harð­ar­son, pró­fessor í stjórn­mála­fræði, hefur reiknað það út að það muni að minnsta kosti þurfa 2,6 pró­sent atkvæða til að ná inn manni í borg­ar­stjórn og lík­lega þurfi að ná yfir þrjú pró­sent þeirra til að ná þeim árangri. Miðað við þann stöð­ug­leika sem verið hefur í fylgi flestra stærri flokk­anna þá virð­ist það ætla að verða brekka fyrir hin átta fram­boðin að ná inn.

Nauð­syn­legt er þó að benda á að frestur til að skila inn fram­boðum rann út um helg­ina og hin eig­in­lega kosn­inga­bar­átta mögu­lega ekki hafin af alvöru. Það getur því margt gerst.

En ef rýnt er ein­ungis í þær kosn­inga­spár sem fram­kvæmdar hafa ver­ið, og stöð­una eins og hún er í dag, þá virð­ast yfir­gnæf­andi líkur á því að sitj­andi meiri­hluti muni geta setið áfram, mögu­lega með því að taka einn annan flokk með sér í stað Bjartrar fram­tíð­ar, sem er ekki í fram­boði. Þar ætti Við­reisn að blasa við sem val­kostur í ljósi þess að áherslur flokks­ins ríma mun betur við áherslur meiri­hlut­ans en ann­arra flokka sem eru í fram­boði, sér­stak­lega hvað varðar afstöðu til skipu­lags- og sam­göngu­mála.

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2018.
B C D F M P S V Aðrir

Þá sýndi nýleg könnun Félags­vís­inda­stofn­unar fyrir Morg­un­blaðið að 53,9 pró­sent kjós­enda Við­reisnar vildu sjá Dag B. Egg­erts­son sem næsta borg­ar­stjóra. Ein­ungis 4,9 pró­sent þeirra vildu fá Eyþór Arn­alds í emb­ætt­ið.

Þær kann­anir sem liggja til grund­vallar nýj­ustu kosn­inga­spánni (6. maí) eru eft­ir­far­andi:

  • Skoð­ana­könnun Frétta­blaðs­ins og fretta­bla­did.is 9. apríl (vægi 12,7 pró­sent)

  • Skoð­ana­könnun Frétta­blaðs­ins og fretta­bla­did.is 25. apríl (vægi 18,9 pró­sent)

  • Þjóð­mála­könnun Félags­vís­inda­stofn­unar HÍ fyrir Morg­un­blaðið 23 - 25. apr­íl. (vægi 38,0 pró­sent)

  • Þjóð­ar­púls Gallup 4. apríl - 3. maí (vægi 30,4 pró­sent)

Hvað er kosn­­inga­­spá­in?

Fyrir hverjar kosn­ingar um allan heim birta fjöl­miðlar gríð­ar­legt magn af upp­lýs­ing­um. Þessar upp­lýs­ingar eru oftar en ekki töl­fræði­leg­ar, byggðar á skoð­ana­könn­unum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upp­lifir stjórn­málin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórn­mála­fræð­ingar og fjöl­miðlar kepp­ast svo við að túlka nið­ur­stöð­urnar og veita almenn­ingi enn meiri upp­lýs­ingar um stöð­una í heimi stjórn­mál­anna.

Allar þessar kann­anir og allar mögu­legar túlk­anir á nið­ur­stöðum þeirra kunna að vera rugl­andi fyrir hinn almenna neyt­anda. Einn kannar skoð­anir fólks yfir ákveðið tíma­bil og annar kannar sömu skoð­anir á öðrum tíma og með öðrum aðferð­um. Hvor könn­unin er nákvæm­ari? Hverri skal treysta bet­ur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vand­inn er að hinn almenni kjós­andi hefur ekki for­sendur til að meta áreið­an­leika hverrar könn­un­ar.

Þar kemur kosn­inga­spáin til sög­unn­ar.

Kosn­­­inga­­­spálíkan Bald­­­urs Héð­ins­­­sonar miðar að því að setja upp­­­lýs­ing­­­arnar sem skoð­ana­kann­­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­inga. Nið­ur­stöður spálík­ans­ins eru svo birtar hér á Kjarn­anum reglu­lega í aðdrag­anda kosn­inga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar