Tíu staðreyndir um íslenskan vinnumarkað

Hræringar á vinnumarkaði undanfarin misseri hafa vart farið framhjá neinum. Íslenskur vinnumarkaður er smár í alþjóðlegu samhengi en hér er hátt hlutfall starfandi og sterk verkalýðssamstaða. Kjarninn tók saman tíu staðreyndir um íslenskan vinnumarkað.

Kröfuganga 1. maí 2018
Auglýsing

1. Tæp­lega 200 þús­und starf­andi

Alls voru 192.656 starf­andi á íslenskum vinnu­mark­aði í lok síð­asta árs, á aldr­inum 15 til 74 ára, af báðum kynjum og með lög­heim­ili á Íslandi. Á sama tíma var heild­ar­mann­fjöldi á Íslandi 348.580.

2. Um 18 þús­und launa­greið­endur

Tæp­lega 18 þús­und launa­greið­endur eru á Íslandi sam­kvæmt tölum Hag­stof­unnar frá því í mars. Alls voru þeir að jafn­aði 17.804 á 12 mán­aða tíma­bili frá apríl 2017 til mars 2018 og hafði þeim fjölgað um 640 eða 3,7 pró­sent frá síð­ustu 12 mán­uðum þar á und­an. Á sama tíma­bili greiddu launa­greið­endur að meðal tali 190.400 ein­stak­lingum laun sem er aukn­ing um 8.300 eða 4,5 pró­sent sam­an­borið við 12 mán­aða tíma­bil ári fyrr.

3. Flestir í fræða­störfum eða opin­berri stjórn­sýslu

Flestir laun­þegar störf­uðu í mars 2018 við það sem Hag­stofan flokkar sem fræði­starf­semi og opin­ber stjórn­sýsla, eða 41.500. Þar á eftir starfa 25.300 í ferða­þjón­ustu og 16.300 í heil­brigð­is- og umönn­un­ar­þjón­ustu. 16.700 starfa í fram­leiðslu, 15.200 í smá­sölu­verslun og 8.700 í heild­versl­un. Alls eru um 12.900 laun­þegar í tækni- og hug­verka­iðn­aði, 12.800 í bygg­ing­ar­starf­semi og mann­virkja­gerð og 8.700 í skap­andi grein­um.

Auglýsing

4. Tveir þriðju launa­manna í ASÍ

Alþýðu­sam­band Íslands er stærsta fjölda­hreyf­ing launa­fólks á land­inu. Um tveir þriðju hlutar launa­manna í skipu­lögðum sam­tökum á Íslandi eru í ASÍ. Hlut­verk ASÍ er að berj­ast fyrir bættum kjörum félags­manna sinna og standa vörð um rétt­indi þeirra. Félags­menn í ASÍ eru um 123 þús­und í 5 lands­sam­böndum og 48 aðild­ar­fé­lögum um land allt. Þar af eru ríf­lega 110 þús­und virkir á vinnu­mark­aði. Félags­menn í aðild­ar­fé­lögum ASÍ eru starf­andi á flestum sviðum sam­fé­lags­ins, á almennum vinnu­mark­aði og hjá ríki og sveit­ar­fé­lög­um. For­seti ASÍ er Gylfi Arn­björns­son sem gegnt hefur því emb­ætti frá árinu 2008.

5. Aðild­ar­fé­lögin gera kjara­samn­inga og sinna hags­muna­gæslu

Aðild­ar­fé­lög ASÍ sinna margs konar þjón­ustu fyrir félags­menn sína. Þau gera kjara­samn­inga þar sem kveðið er á um laun og önnur starfs­kjör félags­manna. Þau leið­beina um túlkun kjara­samn­inga og aðstoða launa­fólk við að sækja rétt sinn gagn­vart atvinnu­rek­end­um, s.s. við inn­heimtu launa, við­ur­kenn­ingu á áunnum rétt­indum og varð­andi örygg­is- og aðbún­að­ar­mál. Þau leið­beina og aðstoða félags­menn sína í sam­skiptum við opin­berar stofn­anir á sviði vinnu­mark­aðs­mála, s.s. Atvinnu­leys­is­trygg­inga­sjóð, Fæð­ing­ar­or­lofs­sjóð og Ábyrgða­sjóð launa. Á vegum stétt­ar­fé­lag­anna eru reknir sjúkra­sjóðir sem veita marg­háttuð rétt­indi, m.a. með greiðslu dag­pen­inga þegar félags­menn veikj­ast eða lenda í slys­um.

6. And­staða við for­yst­una

Fjögur aðild­ar­fé­lög ASÍ hafa lýst yfir and­stöðu við for­ystu ASÍ. Það eru VR, Efl­ing, Verka­lýðs­fé­lag Akra­ness og Fram­sýn Verka­lýðs­fé­lag. Þessi félög hafa meiri­hluta félags­manna innan ASÍ að baki sér, rúm­lega 52 pró­sent. Þau gagn­rýna harð­lega bar­áttu­að­ferðir for­yst­unnar og hefur Ragnar Þór Ing­ólfs­son for­maður VR meðal ann­ars lýst yfir van­trausti á hendur Gylfa Arn­björns­syni.

7. Meira en 2 þús­und fyr­ir­tæki hjá SA

Sam­tök atvinnu­lífs­ins, SA, eru heild­ar­sam­tök íslensks atvinnu­lífs, það er að segja atvinnu­rek­enda. Undir SA eru sex aðild­ar­sam­tök sem byggja á ólíkum atvinnu­grein­um,  Sam­orka, Sam­tök ferða­þjón­ust­unn­ar, Sam­tök fjár­mála­fyr­ir­tækja, Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, Sam­tök iðn­að­ar­ins og Sam­tök versl­unar og þjón­ustu. Yfir 2.000 fyr­ir­tæki eiga aðild að SA og hjá þeim fyr­ir­tækjum starfa um 70 pró­sent launa­fólks á almennum vinnu­mark­aði. Með aðild­inni fela aðild­ar­fé­lögin og ein­stakir með­limir SA umboð til að gera alla kjara­samn­inga fyrir sína hönd.

8. Ríkið stærsti vinnu­veit­and­inn

Ríkið er stærsti vinnu­veit­andi lands­ins. Starfs­menn rík­is­ins eru sam­kvæmt upp­lýs­ingum á vef Stjórn­ar­ráðs­ins að jafn­aði um 21 þús­und tals­ins en stöðu­gildi eru tölu­vert færri þar sem margir eru í hluta­störf­um. Fjár­mála­ráð­herra fer með fyr­ir­svar rík­is­sjóðs við gerð kjara­samn­inga við starfs­menn rík­is­ins. Hann skipar samn­inga­nefnd til að ann­ast samn­inga­gerð fyrir sína hönd. Þá eru starfs­kjör hluta starfs­manna rík­is­ins ákvörðuð af Kjara­ráði. Kjara­ráð er sjálf­stætt ráð sem er falið það verk­efni að ákveða laun og starfs­kjör æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins. Í þeim hópi eru alþing­is­menn, ráð­herr­ar, dóm­ar­ar, sak­sókn­ar­ar, sendi­herr­ar, ráðu­neyt­is­stjór­ar, skrif­stofu­stjórar sem fara með fyr­ir­svar fyrir hönd fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra við gerð kjara­samn­inga, for­seta­rit­ari, seðla­banka­stjóri, aðstoð­ar­seðla­banka­stjóri, rík­is­sátta­semj­ari og nefnd­ar­menn úrskurð­ar­nefnda í fullu starfi. Fyr­ir­komu­lag um launa­á­kvarðanir Kjara­ráðs er í end­ur­skoðun hjá rík­is­stjórn­inni.

9. SALEK frá 2013 - óvíst með fram­haldið

Heild­ar­sam­tök aðila á vinnu­mark­aði, það er að segja ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, Sam­band sveit­ar­fé­laga, Reykja­vík­ur­borg, fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið og SA, hafa haft með sér form­legt sam­starf um launa­upp­lýs­ingar og efna­hags­for­sendur kjara­samn­inga, sem kall­ast SALEK, frá árinu 2013. Í októ­ber 2015 und­ir­rit­uðu þessi heild­ar­sam­tök, að und­an­skildum BHM og KÍ, ramma­sam­komu­lag um bætt vinnu­brögð við kjara­samn­inga­gerð­ina. Nokkur aðild­ar­fé­lög ASÍ hafa lýst mik­illi and­stöðu við SALEK og er óvíst hvernig fer með sam­komu­lagið þegar kjara­samn­ingar ASÍ og SA renna út nú um ára­mót­in.

10. Rík­is­stjórnin með yfir­lýs­ingar um sátt á vinnu­mark­aði

Í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­innar segir að rík­is­stjórnin hygg­ist beita sér fyrir sam­stilltu átaki með aðilum vinnu­mark­að­ar­ins til að tryggja að kjara­samn­ingar skili launa­fólki og sam­fé­lag­inu raun­veru­legum ávinn­ingi. Sátt á vinnu­mark­aði er nauð­syn­leg for­senda þess að stuðla að stöð­ugu verð­lagi og jafn­vægi og skapa þannig efna­hags­leg skil­yrði til lægra vaxta­stigs og bættra lífs­kjara.

Meira eftir höfundinnFanney Birna Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiInnlent