Mynd: Mannlíf

Tekjuhæstu Íslendingarnir borga ekki endilega hæstu skattana

Árum saman hafa yfirvöld birt lista yfir þá landsmenn sem greiða hæstu skattana. Það eru þó ekki endilega sömu einstaklingar og höfðu mestu tekjurnar það árið. Nú er – í fyrsta sinn – hægt að nálgast stafrænar upplýsingar úr skattskrá sem sýna hverjir tekjuhæstu Íslendingarnir eru.

Alls voru 137 Íslend­ingar með fjár­magnstekjur yfir 100 millj­ónum króna á árinu 2016, 54 voru með yfir 200 millj­ónir króna í slíkar tekjur og 33 þén­uðu yfir 300 millj­ónir króna á þann hátt. Alls voru fjár­magnstekjur 22 ein­stak­linga yfir 400 millj­ónir króna á árinu 2016 og 16 voru með yfir hálfan millj­arð króna í slíkar tekj­ur.

Sex Íslend­ingar þén­uðu meira en millj­arð króna í fjár­magnstekjur á árinu 2016, þrír yfir tvo millj­arða króna og tveir voru með yfir þrjá millj­arða króna í fjár­magnstekj­ur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í gagn­runni sem unnin er upp úr skatt­skrám lands­manna og er aðgengi­legur á vefnum Tekj­ur.is. Vef­ur­inn fer í loftið í dag, föstu­dag, og hægt er að kom­ast inn á hann á heima­síðu Kjarn­ans.

Þar birt­ast upp­lýs­ingar um alla Íslend­inga sem eru 18 ára og eldri, og yngri en 100 ára, með sama hætti og þær birt­ast í skatt­skránni.

Þorri þeirra sem voru með hæstar fjár­magnstekjur á árinu 2016 seldu hluti í fyr­ir­tækjum sem þau áttu í á því ári.

List­inn sem ríkið birtir gefur ekki rétta mynd af tekjum

Einu sinni á ári birtir emb­ætti rík­is­skatt­stjóra lista yfir þá 40 ein­stak­linga sem greiða hæsta skatta hér­lendis sam­kvæmt álagn­inga­skrá. Á sama tíma eru þær skrár gerðar tíma­bundið aðgengi­legar og nokkrir íslenskir fjöl­miðlar ná í þær, búa til lista yfir tekjur ein­stak­linga eftir atvinnu­greinum og selja for­vitnum almenn­ingi sem byggja á skrán­um.

Þær skatt­greiðslur sem til­teknar eru í álagn­ing­ar­skrá gefa þó ekki alltaf raunsanna mynd af tekjum Íslend­inga. Sumir sem greiða him­in­háa skatta hafa getað beðið þangað til eftir að álagn­ing­ar­skráin er birt og talið svo fram. Þannig hafa þeir sloppið við að lenda á útsendum lista rík­is­skatt­stjóra, og að nöfn þeirra birt­ist í flestum fjöl­miðlum lands­ins. Og í álagn­inga­skránum kemur bara fram hverjar heild­ar­greiðslur við­kom­andi vegna opin­berra gjalda voru. Þar er ekki hægt að sjá t.d. hversu mikið hver ein­stak­lingar þén­aði í launa­tekjur og hversu háar fjár­magnstekjur þeirra voru. Það skiptir umtals­verðu máli í ljósi þess að stað­greiðsla skatta af launa­tekjum er á bil­inu 36,94 til 46,24 pró­sent að útsvari með­töldu en fjár­magnstekju­skattur var 20 pró­sent þangað til um síð­ustu ára­mót þegar hann var hækk­aður upp í 22 pró­sent.

Ef ein­stak­lingur er með þorra tekna sinna í formi fjár­magnstekna þá borgar hann mun minna hlut­fall af tekjum sínum til rík­is­sjóðs en ef hann er með þær í formi launa­tekna.

Tekj­ur.is

Upp­lýs­ingar um það hvernig tekjur fólks skiptast, og tæm­andi upp­lýs­ingar um hverjir borga hvað í skatta, er hins vegar hægt að finna í svo­kall­aðri skatt­skrá. Í vor var skatt­skráin fyrir árið 2017 gerð opin­ber. Í henni er að finna nið­ur­brot á öllum skatt­greiðslum ein­stak­linga – tekju­skatt, útsvar og fjár­magnstekju­skatt – vegna árs­ins 2016. Því er um eldri upp­lýs­ingar að ræða en t.d. þær sem hægt var að lesa um í síð­asta Tekju­blaðið Frjálsrar versl­un­ar, en ítar­legri þar sem þær sýna hvernig tekjur við­kom­andi hafði.

Tíu ára barn með 6,5 milljónir króna í fjármagnstekjur

Það barn sem þénaði mest á árinu 2016 samkvæmt skattskránni var með 6,5 milljonir króna í fjármagnstekjur á því ári. Það þýðir að barnið þénaði að meðaltali 542 þúsund krónur á mánuði í slíkar tekjur á því ári. Það er mjög nálægt miðgildi heildarlauna fullvinnandi launamanna á Íslandi á árinu 2016, en það var 583 þúsund krónur.

Í skattskránni kemur líka fram að þriggja ára barn þénaði 2,8 milljónir króna í fjármagnstekjur og systkini, 16 og 18 ára, öfluðu fjármagnstekna upp á 4,1 og 4,2 milljónir króna á árinu 2016.

Vert er að taka fram að Tekjur.is birta ekki upplýsingar um tekjur barna, þótt hægt sé að lesa þær út úr skattskránni. Samkvæmt lögum greiða börn yngri en 16 ára sex prósent skatt af tekjum yfir 180 þúsundum. Þau greiða hins vegar 20 prósent fjármagnstekjuskatt líkt og fullorðnir.

Þessum upp­lýs­ingum hefur vef­ur­inn Tekj­ur.is safnað saman og gert aðgengi­legar á staf­rænu formi. Vef­ur­inn fer í loftið í dag og hægt er að kom­ast inn á hann á heima­síðu Kjarn­ans.

Þar birt­ast upp­lýs­ingar um alla Íslend­inga sem eru 18 ára og eldri, og yngri en 100 ára, með sama hætti og þær birt­ast í skatt­skránni.

Salan á Ögur­vík hafði mikil áhrif

Á vefnum má sjá að tveir ein­stak­lingar voru með yfir þrjá millj­arða króna í fjár­magnstekjur á árinu 2016. Þau eru Sig­urður Þ K Þor­steins­son og María Bjarna­dótt­ir. Fjár­magnstekjur þeirra beggja á árinu 2016 voru tæp­lega 3,2 millj­arðar króna. Hvor­ugt þeirra var á list­anum yfir hæstu greið­endur opin­berra gjalda sem rík­is­skatt­stjóri sendi á fjöl­miðla í lok júní 2017.

Makar Sig­urðar og Maríu eru systk­inin Mar­grét og Hjörtur Gísla­börn. Þau voru, ásamt bróður sínum Her­manni, stærstu eig­endur útgerð­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Ögur­víkur um margra ára skeið. Hvert þeirra átti 31,25 pró­sent hlut.

Á árinu 2016 seldu systk­inin Ögur­vík til Brims en kaup­verðið var trún­að­ar­mál. Fjár­magnstekj­urnar eru til­komnar vegna þeirrar sölu, en athygli vekur að það eru makar systk­in­anna sem telja þær fram, ekki selj­end­urnir sjálf­ir. Ástæða þess er sú að fjár­magnstekjur eru taldar hjá því hjóna sem hærri launa­tekjur hef­ur.

Her­mann er þó ekki á meðal tekju­hæstu lands­manna á árinu 2016, sam­kvæmt gagna­grunn­in­um. Þar er hins vegar Brynjólfur Gunnar Hall­dórs­son, sem átti þau 6,24 pró­sent í Ögur­vík sem systk­inin áttu ekki. Fjár­magnstekjur hans vegna árs­ins 2016 voru um 624 millj­ónir króna sem skil­uðu honum í ell­efta sæti yfir þá sem voru með mestar tekjur á Íslandi á því ári. Þrír af þeim sem sátu í ell­efu efstu sæt­unum eru því þar vegna söl­unnar á útgerð­ar­fyr­ir­tæk­inu Ögur­vík.

Uppi­staðan hjá þeim efstu sölu­hagn­aður

Sá sem krýndur var skatta­kóngur 2016 af rík­is­skatt­stjóra var Gísli J. Frið­jóns­son, fyrr­ver­andi eig­andi og for­stjóri Hóp­bíla. Hann hafði selt fram­taks­sjóðnum Horni III, stýrt af Lands­bréf­um, sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tæki Lands­bank­ans, fyr­ir­tækið sitt á því ári. Sam­kvæmt gagna­grunn­inum námu árs­tekjur Gísla 2016 rúm­lega 2,8 millj­örðum króna. Þær voru nán­ast allar til­komnar vegna fjár­magnstekna þar sem mán­að­ar­laun hans voru um 876 þús­und krónur á mán­uði.

Einar Frið­rik Sig­urðs­son og Ármann Ein­ars­son voru báðir á meðal eig­enda útgerð­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Auð­bjarg­ar, sem selt var til Skinn­eyjar Þinga­ness á árinu 2016. Einar Frið­rik var með rúm­lega 1,9 millj­arða króna í fjár­magnstekjur vegna þeirrar sölu og Ármann fékk um 794 millj­ónir króna í sinn hlut vegna henn­ar. Þetta gerði þá að fjórða og sjö­unda tekju­hæsta Íslend­ingnum á árinu 2016.

Það vekur raunar athygli að þorri tekju­hæsta fólks lands­ins gefur upp mjög lágar launa­tekjur í flestu eðli­legu sam­hengi. Sá sem situr til dæmis í níunda sæti yfir tekju­hæstu lands­menn árs­ins 2016, Grímur Garð­ars­son, var með 52.789 krónur á mán­uði í laun en 744 millj­ónir króna í fjár­magnstekj­ur. 

40 tekjuhæstu Íslendingarnir árið 2016.
Mynd: Mannlíf

Eini ein­stak­ling­ur­inn á topp tíu yfir tekju­hæstu lands­menn­ina sem gefur upp laun sem eru yfir einni milljón króna er Guð­mundur Krist­jáns­son, oft­ast kenndur við Brim en í dag for­stjóri og aðal­eig­andi HB Granda. Hann var með launa­tekjur upp á 2.830 þús­und krónur á mán­uði á árinu 2016 en þén­aði fjár­magnstekjur upp á tæp­lega 1,1 millj­arð króna á því ári. Fyr­ir­tæki Guð­mund­ar, sem þá hét Brim en heitir nú Útgerð­ar­fé­lag Reykja­vík­ur, var auð­vitað kaup­and­inn að Ögur­vík, við­skiptum sem skil­aði þeim sem sitja í efstu sætum tekju­list­ans. Áhrif Guð­mundar á tekjur Íslend­inga eru því veru­leg.

Borga mun lægra hlut­fall í skatt en launa­fólk

Athygl­is­vert er að skoða hversu stóran hluta af tekjum sínum þeir sem hafa mestar tekjur á Íslandi greiða í skatt. Gagna­grunn­ur­inn sýnir að 33 efstu borg­uðu á bil­inu 20-21 pró­sent í skatt, enda meg­in­uppi­staðan í tekjum þeirra fjár­magnstekjur sem greiddur er lægri skattur af.

435 fengu barnabætur yfir 900 þúsund

Alls fengu 435 einstaklingar greiddar barnabætur sem voru samanlagt hærri en 900 þúsund krónur á árinu 2016, samkvæmt skattskránni. Þar af voru þrír karlar en 432 konur. Hæstu barnabæturnar sem einn einstaklingur fékk voru 999.920 krónur, sem þýða að viðkomandi fékk 83.327 krónur á mánuði að meðaltali í barnabætur.

Barna­bætur á Norð­ur­löndum eru föst upp­hæð á barn á meðan stuðn­ingur er á Íslandi er háður fjölda og ald­urs barna, tekjum for­eldra og hjú­skap­ar­stöðu. Barnabætur með fyrsta barni hjóna voru 199.839 krónur og með hverju barni umfram eitt 237.949 krónur á árinu 2016. Með fyrsta barni einstæðs foreldris voru þær 332.950 krónur og með hverju barni umfram eitt 341.541 krónur. Skerðingarmörk vegna tekna voru 4,8 milljónir króna hjá hjónum á árinu 2016 og 2,4 milljónir króna hjá einstæðu foreldri.

Fjöl­skyldum sem fá barna­bætur hér á landi fækk­aði um tæp­lega tólf þús­und milli áranna 2013 og 2016, sam­kvæmt samantekt Alþýðusambands Íslands. Samhliða voru mun minni fjármunir settir í málaflokkinn og barnabætur lækkuðu að raungildi. Þetta var gert með því að tekjuskerðingarmörkum var haldið óbreyttum árum saman á sama tíma og launavísitalan hækkaði hratt.

Sá sem er með hæstar launa­tekjur á Íslandi er Valur Ragn­ars­son, for­stjóri Med­is. Skatt­skráin sýnir að hann var með um 24,5 millj­ónir króna á mán­uði á árinu 2016, eða 295 millj­ónir króna í laun á árs­grund­velli. Valur var hins vegar með litlar fjár­magnstekjur miðað við umfang tekna hans, eða 5,8 millj­ónir króna á öllu árinu 2016. Hann greiddi 45 pró­sent allra tekna sinna í skatt.

Það gerði Ársæll Haf­steins­son, einn helsti stjórn­andi gamla Lands­bank­ans, líka en hann var með 23,1 milljón króna á mán­uði í laun á árinu 2016 og engar fjár­magnstekj­ur. Alls greiddi Ársæll 46 pró­sent  tekna sinna í skatt.

Róbert Wess­man, for­stjóri Alvogen, var í 18. sæti yfir hæstu greið­endur opin­berra gjalda á Íslandi sam­kvæmt álagn­ing­ar­skránni sem rík­is­skatt­stjóri birti í fyrra­sum­ar. Sam­kvæmt skatt­skránni er hann hins vegar í 50 .sæti yfir tekju­hæsta fólk lands­ins, enda meg­in­þorri tekna hans, sem voru 19,3 millj­ónir króna á mán­uði, launa­tekj­ur. Róbert greiddi því 45 pró­sent af öllu sem hann afl­aði í opin­ber gjöld á árinu 2016.

Er birting upplýsinga úr skattskrá lögleg? Stangast hún á við lög um persónuvernd?

Þar sem Alþingi hefur sérstaklega veitt heimild til þess að upplýsingar úr skattskrá séu birtar opinberlega er hún hverjum sem er heimil. Samkvæmt dómi Evrópudómstólsins um túlkun persónuverndarákvæða af þeim toga sem nú eru í lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, er stjórnvöldum heimilt að samþykkja að upplýsingum um tekjur sé miðlað til annarra til að stuðla að efnhagslegri velsæld ríkisins. Tekið skal fram að starfsemi síðunnar tekjur.is takmarkast við að birta upplýsingar úr skattskrá í því skyni að stuðla að samfélagslegri umræðu um þær og veita aðhald með því að skattar séu greiddir. Þar er ekki unnið með upplýsingar með öðrum hætti, t.d. í markaðslegum tilgangi eða í tengslum við önnur fjárhagsmálefni.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga ganga sérákvæði annarra laga um vinnslu persónuupplýsinga sem sett eru innan ramma reglugerðarinnar framar ákvæðum persónuverndarlaganna. Í 1. mgr. 6. gr. persónuverndarlaga segir síðan: Að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar má víkja frá ákvæðum laga þessara og reglugerðarinnar í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Með vísan til þessara atriða má segja að það sé traust bakland að baki birtingu upplýsinga, enda er birtingin gerð í þeim tilgangi að stuðla að samfélagslegri umræðu um skattamál og tekjuskiptingu í samfélaginu sem á erindi við allan almenning.

Auk þess má benda á persónuverndarlöggjöfinn byggir á reglum EES-réttar sem eru þeir sömu fyrir Ísland og Noreg. Nýja persónuverndarreglurgerðin er um margt mjög lík fyrri tilskipun, en hún var ekki talin standa því í vegi að upplýsingar um tekjur fólks í Noregi væru opinberar, eins og raunin er.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar