Mynd: Bára Huld Beck

Ríkið hafnar því að skipun í Landsrétt hafi verið gölluð eða spillt

Ríkislögmaður hefur skilað greinargerð inn til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna kæru sem tengist skipan dómara við Landsrétt. Í henni er tveimur spurningum dómstólsins svarað í löngu máli.

Íslenska ríkið hafnar því að ferlið við skipun dóm­ara við Lands­rétt í fyrra hafi verið gallað eða spillt. Það segir skipun Arn­fríðar Ein­ars­dótt­ur, eins þeirra sem dóm­nefnd um hæfi hafði ekki talið á meðal þeirra 15 hæf­ustu sem sóttu um emb­ætt­ið, hafi verið stað­fest með lög­mætu ferli. Ríkið telur einnig að dómar Hæsta­réttar Íslands, frá því í des­em­ber 2017, þar sem kom­ist er að þeirri nið­ur­stöðu að Sig­ríður Á. And­er­sen hafi brotið gegn stjórn­sýslu­lögum við skipan dóm­ara í Lands­rétt leiði ekki til þess að Arn­fríður hafi ekki verið lög­lega skip­uð.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein­ar­gerð rík­is­lög­manns sem send hefur verið Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu vegna máls þar sem hæfi Arn­fríðar til að gegna emb­ætti dóm­ara er dregið í efa. Kær­and­inn í mál­inu er maður sem ákærður hafði verið fyrir marg­vís­leg brot og átti að koma fyrir Lands­rétt. Vil­hjálmur H. Vil­hjálms­­­son, verj­andi manns­ins, lagði hins vegar fram kröfu í Lands­rétti þann 2. febr­­úar síð­­ast­lið­inn um að Arn­­­fríð­ur, sem átti að dæma í mál­inu, væri van­hæf í ljósi þess að hún hefði ekki verið skipuð með réttum hætti í emb­ætti. Lands­réttur hafn­aði kröfu Vil­hjálms og sagði að skipun Arn­fríðar yrði ekki hagg­að.

Vil­hjálmur kærði þá nið­ur­stöðu til Hæsta­réttar sem komst að sömu nið­ur­stöðu og Lands­rétt­ur. Þann 24. maí 2018 stað­festi Hæsti­réttur svo dóm Lands­réttar í mál­inu og skjól­stæð­ingur Vil­hjálms var dæmdur í 17 mán­aða fang­elsi.

Vil­hjálmur kærði í kjöl­farið þá nið­ur­stöðu að seta Arn­fríðar í Lands­rétti væri í sam­ræmi við lög til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu. Hann ákvað að taka málið fyrir í lok júní og veita því flýti­með­ferð.

Spurn­ingar í tveimur liðum

Arn­­­fríður var einn fjög­­­urra umsækj­enda um emb­ætti dóm­ara vil Lands­rétt sem dóms­­­mála­ráð­herra lagði til að yrði skipuð í stað þeirra fjög­­­urra sem sér­­­­­stök dóm­nefnd mat hæf­asta. Hæsti­réttur Íslands komst svo að þeirri nið­ur­stöðu í des­em­ber 2017 að dóms­mála­ráð­herra hefði brotið stjórn­sýslu­lög með því að sinna ekki rann­sókn­ar­skyldu sinni með nægj­an­legum hætti þegar hún ákvað að skipta út þeim umsækj­endum sem metnir höfðu verið hæf­astir af dóm­nefnd­inni.

Mann­rétt­inda­dóm­stól­inn ákvað, líkt og áður sagði, að taka kæruna til með­ferðar í lok júní 2018 og fór fram á skýr­ingar frá íslenska rík­inu. Spurn­ingar Mann­rétt­inda­­dóm­stóls­ins til íslenska rík­­is­ins voru í tveimur lið­­um. Þar var ann­ars vegar spurt hvernig það sam­­rým­ist ákvæði mann­rétt­inda­sátt­­mála að skipun dóm­­ara hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi skuli greiða atkvæði um hvert og eitt dóm­­ara­efni fyrir sig, í stað þess að greiða atkvæði um til­­lögu ráð­herr­ans í heild eins og gert var. Hins vegar var spurt um nið­­ur­­stöðu Hæsta­réttar frá í maí í sam­hengi við fyrri dóm Hæsta­réttar um brot ráð­herr­ans á lögum við skip­un­ina. Með öðrum orðum vildi Mann­rétt­inda­­dóm­stól­inn vita hvernig ólög­­leg skipan dóm­­ara geti hald­ist í hendur við þá nið­­ur­­stöðu að sömu dóm­­arar sitji lög­­­lega í rétt­in­­um.

Í grein­ar­gerð rík­is­lög­manns segir að um hafi verið að ræða 15 ein­stakar til­lögur og að áður en að kosn­ing hófst á Alþingi um dóm­ara­skip­an­ina hafi for­seti Alþingis gefið þing­mönnum kost á að kjósa um hverja til­lögu fyrir sig. Eng­inn þing­maður hafi hins vegar farið fram á það. Þvert á móti hafi leið­togar allra stjórn­mála­flokka sem áttu full­trúa á Alþingi á þessum tíma gert með sér sam­komu­lag um fram­kvæmd­ina.

Síðan er með­ferð Alþingis á mál­inu rakin í þaula, en henni lauk með því að skipun dóm­ar­anna 15 var sam­þykkt með atkvæða­greiðslu sem fram fór 1. júní 2017. Atkvæði féllu þannig að 31 þing­maður sam­þykkti til­lögu Sig­ríðar Á. And­er­sen um þá 15 sem skip­aðir yrðu dóm­arar við Lands­rétt. Allir þáver­andi stjórn­ar­þing­menn, sem til­heyrðu Sjálf­stæð­is­flokki, Við­reisn og Bjartri fram­tíð, sam­þykktu til­lög­una utan eins. Brynjar Níels­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks, var ekki við­staddur og greiddi ekki atkvæði, þar sem eig­in­kona hans, Arn­fríður Ein­ars­dótt­ir, var á meðal þeirra sem skipuð voru í emb­ætti við Lands­rétt án þess að vera talin á meðal 15 hæf­ustu af dóm­nefnd.

Svan­dís Svav­ars­dótt­ir, Vinstri græn­um, greiddi heldur ekki atkvæði vegna þess að fyrr­ver­andi eig­in­maður henn­ar, Ást­ráður Har­alds­son, var á meðal þeirra umsækj­enda sem dóm­nefndin hafði metið á meðal þeirra hæfustu, en Sig­ríður ákvað að skipa ekki. 22 þing­menn úr þáver­andi stjórn­ar­and­stöðu­flokkum greiddu atkvæði á móti en átta þing­menn Fram­sókn­ar­flokks sátu hjá.

Hæsti­réttur kemst að nið­ur­stöðu

Ást­ráður Har­alds­son stefndi íslenska rík­­inu vegna skip­un­­ar­inn­­ar. Það gerði Jóhannes Rúnar Jóhanns­son, sem var einnig fjar­lægður af lista dóm­nefnd­ar­inn­ar, gerði það líka.

Hér­aðs­dómur komst að þeirri nið­ur­stöðu 15. sept­em­ber 2017, sama dag og rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar sprakk, að Sig­ríður And­er­sen hafi brotið lög við skipun Land­rétt­­ar­­dóm­­ara. Ríkið var sýknað af bóta­­kröfum Ást­ráðs og Jóhann­esar Rún­ars. Þeim þætti máls­ins var áfrýjað til Hæsta­rétt­ar.

19. des­em­ber 2017 var dómur Hæsta­réttar birt­ur. Nið­ur­staðan var skýr: Sig­ríður Á. And­er­sen dóms­mála­ráð­herra braut gegn stjórn­sýslu­lögum þegar hún vék frá hæfn­is­mati dóm­nefndar um skipun 15 dóm­ara í Lands­rétt. Í dómnum seg­ir: „Sam­kvæmt því hefði máls­með­ferð hans verið and­stæð 10. gr. stjórn­sýslu­laga og af því leiddi að það sama ætti við um með­ferð Alþingis á til­lögu ráð­herra þar sem ekki hefði verið bætt úr þeim ann­mörkum sem máls­með­ferð ráð­herra var hald­in.“

Ást­ráður og Jóhannes Rúnar fengu dæmdar 700 þús­und krónur hvor í miska­bæt­ur. Skaða­bóta­kröfu þeirra var hins vegar hafnað þar sem þeir lögðu ekki fram gögn við með­ferð máls­ins sem sýndi fram á fjár­hags­legt tjón, enda báðir starf­andi lög­menn sem hafa haft mjög há laun á und­an­förnum árum. Laun sem eru mun hærri en þau sem þeir myndu hafa fengið sem Lands­rétt­ar­dóm­ar­ar.

Segir dómanna ekki fjalla sér­stak­lega um Arn­fríði

Rík­is­lög­maður segir í grein­ar­gerð sinni sem send var Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu að dóm­arnir í þessum tveimur málum fjalli ekki sér­stak­lega um skipan Arn­fríðar og að nið­ur­staða Hæsta­réttar verði að met­ast í því ljósi. Þ.e. að nið­ur­staða Hæsta­réttar um að dóms­mála­ráð­herra hafi brotið gegn stjórn­sýslu­lögum sé nið­ur­staða sé byggð á hags­munum þeirra tveggja manna sem höfð­uðu málin sem leiddu af sér þá nið­ur­stöðu, en snerti ekki Arn­fríði. Hæsti­réttur hafi auk þess kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu, í síð­ari dómi, að Arn­fríður hefði verið lög­lega skip­uð.

Síðan er hæfi Arn­fríðar rakið sér­stak­lega.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður mannsins sem kærði málið til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Mynd: Bára Huld Beck

Vil­hjálm­ur, lög­maður manns­ins sem kærði hæfi Arn­fríðar til Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins, telur að dóms­mála­ráð­herra hafi hand­valið umsækj­endur á þann lista sem hún lagði fyrir Alþingi til sam­þykkt­ar. Það hafi hún gert á grund­velli vin­áttu og póli­tískra tengsla. Í mála­til­bún­aði Vil­hjálms er því haldið fram að Arn­fríður hafi verið skipuð sem hluti af hrossa­kaupum innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins þar sem Brynjar Níels­son gaf í stað­inn eftir odd­vita­sæti sitt í öðru Reykja­vík­ur­kjör­dæm­inu í síð­ustu kosn­ingum til Sig­ríðar Á. And­er­sen.

Auk þess hafi Sig­ríður hafnað öðrum umsækj­end­um, sem dóm­nefndin hafi mælt með að skipa, á grund­velli póli­tískra skoð­ana þeirra. Rík­is­lög­maður telur að í þessum mála­til­bún­aði Vil­hjálms felist sú full­yrð­ing að spill­ing hafi ráðið því hverjir hafi verið skip­aðir dóm­arar við Lands­rétt.

Rík­is­lög­maður telur mála­til­búnað Vil­hjálms hafa tak­markað laga­legt gildi. Til­gangur hans sé, að því er virð­ist, að skapa þá tál­sýn að allt ferlið sem leiddi af sér skipan dóm­ara við Lands­rétt, og sér­stak­lega skipun Arn­fríð­ar, hafi verið veru­lega gallað og spillt. Þessu hafni íslenska ríkið stað­fast­lega.

Þvert á móti hafi skipan dóm­ara við Lands­rétt átt sér stað eftir nákvæmt og ítar­legt ferli. Auk þess bendir hann á að ekk­ert hafi legið fyrir um að kosn­ingar væru framundan þegar Arn­fríður var skipuð – það gerð­ist ekki fyrr en í sept­em­ber 2017 – og því geti ákvörðun Brynjars um að láta eftir odd­vita­sæti sitt til Sig­ríðar ekki tengst skipun Arn­fríð­ar, sem var sam­þykkt á Alþingi í byrjun júní sama ár.

Breyt­ing­arnar byggðar á dóm­ara­reynslu og kynja­jafn­rétti

Rík­is­lög­maður heldur því fram í grein­ar­gerð sinni að það sem mestu máli skipti sé það að skip­ana­til­lögur Sig­ríðar hafi byggt á ítar­legu mati á öllum umsækj­endum og á hlut­lægu mati. „Breyt­ing­arnar sem dóms­mála­ráð­herra gerði á list­anum yfir umsækj­endur sem dóm­nefndin taldi hæf­asta, voru byggðar á tveimur hlut­lægum og lög­legum mark­mið­um; að gefa dóm­ara­reynslu meira vægi og kynja­jafn­rétti. Það að setja A.E. [Arn­fríði Ein­ars­dótt­ur] á list­ann upp­fyllti klár­lega bæði þessi, að öllu leyti lög­mætu, skil­yrð­i.“

Það er rétt að Arn­fríður var með meiri dóm­ara­reynslu en þeir sem fjar­lægðir voru af lista dóm­nefnd­ar. En bæði Eiríkur Jóns­son og Jón Hösk­ulds­son, sem voru í 7. og 11. sæti á lista nefnd­ar­inn­ar, voru báðir með meiri dóm­ara­reynslu en nokkrir þeirra umsækj­enda sem lagt var til að skip­aðir yrði dóm­arar við Lands­rétt. Hér­aðs­dómur minnt­ist sér­stak­lega á þetta atriði í dómum sínum í síð­ustu viku, í skaða­bóta­málum sem Eiríkur og Jón höfðu höfðað vegna þess að ólög­mætar athafnir dóms­mála­ráð­herra gerðu það að verkum að þeir voru ekki skip­aðir sem dóm­arar við rétt­inn.

Ein­kunn­ar­gjöfin vinnu­skjal

Í grein­ar­gerð rík­is­lög­manns er því einnig hafnað að sú regla að hæf­ustu umsækj­endur eigi að vera skip­aðir hverju sinni hafi verið brotin með skipun Arn­fríðar Ein­ars­dótt­ur, þótt hún hafi ekki verið á meðal 15 hæf­ustu að mati dóm­nefnd­ar.

Þvert á móti er því haldið fram að síð­asta orðið um hverjir séu hæf­ustu umsækj­end­urnir sé ekki algjör­lega hjá dóm­nefnd­inni, enda hafi dóms­mála­ráð­herra heim­ild til að víkja frá því mati. Nið­ur­staða Hæsta­réttar í des­em­ber var hins vegar sú að í þessu til­felli hafi Sig­ríður Á. And­er­sen ekki upp­fyllt rann­sókn­ar­skyldu stjórn­sýslu­laga þegar hún lagði mat á hæfni umsækj­enda þrátt fyrir að sér­fræð­ingar í ráðu­neyti hennar hafi ítrekað bent á að þannig væri.

Í grein­ar­gerð­inni er svo í löngu málið rakið að skjal með lista dóm­nefndar um hæfi umsækj­enda til að sitja í Lands­rétti, sem inni­heldur ein­kunnir fyrir hæfi þeirra í ýmsum flokk­um, hafi verið vinnu­skjal til að hjálpa nefnd­inni til að kom­ast að nið­ur­stöðu. Því hafi þær ein­kunnir sem gefnar eru umsækj­endum í skjal­inu ekki annað opin­bert gildi en að leiða nefnd­ina að þeim 15 sem hún taldi hæfust. Með þessu vill rík­is­lög­maður meina að ein­kunn­ar­gjöf þeirra sem settir voru á lista ráð­herra, þrátt fyrir að hafa ekki verið á meðal 15 hæf­ustu að mati nefnd­ar­inn­ar, sé ekki þess eðlis að hægt sé að styðj­ast við hana þegar ákvörðun dóms­mála­ráð­herra um að gefa dóm­ara­reynslu meira vægi er met­in.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar