Mynd: Bára Huld Beck

Ríkið hafnar því að skipun í Landsrétt hafi verið gölluð eða spillt

Ríkislögmaður hefur skilað greinargerð inn til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna kæru sem tengist skipan dómara við Landsrétt. Í henni er tveimur spurningum dómstólsins svarað í löngu máli.

Íslenska ríkið hafnar því að ferlið við skipun dómara við Landsrétt í fyrra hafi verið gallað eða spillt. Það segir skipun Arnfríðar Einarsdóttur, eins þeirra sem dómnefnd um hæfi hafði ekki talið á meðal þeirra 15 hæfustu sem sóttu um embættið, hafi verið staðfest með lögmætu ferli. Ríkið telur einnig að dómar Hæstaréttar Íslands, frá því í desember 2017, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Sigríður Á. Andersen hafi brotið gegn stjórnsýslulögum við skipan dómara í Landsrétt leiði ekki til þess að Arnfríður hafi ekki verið löglega skipuð.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í greinargerð ríkislögmanns sem send hefur verið Mannréttindadómstól Evrópu vegna máls þar sem hæfi Arnfríðar til að gegna embætti dómara er dregið í efa. Kærandinn í málinu er maður sem ákærður hafði verið fyrir margvísleg brot og átti að koma fyrir Landsrétt. Vil­hjálmur H. Vil­hjálms­­son, verj­andi manns­ins, lagði hins vegar fram kröfu í Lands­rétti þann 2. febr­úar síð­ast­lið­inn um að Arn­­fríður, sem átti að dæma í málinu, væri vanhæf í ljósi þess að hún hefði ekki verið skipuð með réttum hætti í embætti. Landsréttur hafnaði kröfu Vilhjálms og sagði að skipun Arnfríðar yrði ekki haggað.

Vilhjálmur kærði þá niðurstöðu til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og Landsréttur. Þann 24. maí 2018 staðfesti Hæstiréttur svo dóm Landsréttar í málinu og skjólstæðingur Vilhjálms var dæmdur í 17 mánaða fangelsi.

Vilhjálmur kærði í kjölfarið þá niðurstöðu að seta Arnfríðar í Landsrétti væri í samræmi við lög til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann ákvað að taka málið fyrir í lok júní og veita því flýtimeðferð.

Spurningar í tveimur liðum

Arn­­fríður var einn fjög­­urra umsækjenda um embætti dómara vil Landsrétt sem dóms­­mála­ráð­herra lagði til að yrði skipuð í stað þeirra fjög­­urra sem sér­­­stök dómnefnd mat hæfasta. Hæstiréttur Íslands komst svo að þeirri niðurstöðu í desember 2017 að dómsmálaráðherra hefði brotið stjórnsýslulög með því að sinna ekki rannsóknarskyldu sinni með nægjanlegum hætti þegar hún ákvað að skipta út þeim umsækjendum sem metnir höfðu verið hæfastir af dómnefndinni.

Mannréttindadómstólinn ákvað, líkt og áður sagði, að taka kæruna til meðferðar í lok júní 2018 og fór fram á skýringar frá íslenska ríkinu. Spurn­ingar Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins til íslenska rík­is­ins voru í tveimur lið­um. Þar var annars vegar spurt hvernig það sam­rým­ist ákvæði mann­rétt­inda­sátt­mála að skipun dóm­ara hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi skuli greiða atkvæði um hvert og eitt dóm­ara­efni fyrir sig, í stað þess að greiða atkvæði um til­lögu ráð­herr­ans í heild eins og gert var. Hins vegar var spurt um nið­ur­stöðu Hæsta­réttar frá í maí í sam­hengi við fyrri dóm Hæsta­réttar um brot ráð­herr­ans á lögum við skip­un­ina. Með öðrum orðum vildi Mann­rétt­inda­dóm­stól­inn vita hvernig ólög­leg skipan dóm­ara geti hald­ist í hendur við þá nið­ur­stöðu að sömu dóm­arar sitji lög­lega í rétt­in­um.

Í greinargerð ríkislögmanns segir að um hafi verið að ræða 15 einstakar tillögur og að áður en að kosning hófst á Alþingi um dómaraskipanina hafi forseti Alþingis gefið þingmönnum kost á að kjósa um hverja tillögu fyrir sig. Enginn þingmaður hafi hins vegar farið fram á það. Þvert á móti hafi leiðtogar allra stjórnmálaflokka sem áttu fulltrúa á Alþingi á þessum tíma gert með sér samkomulag um framkvæmdina.

Síðan er meðferð Alþingis á málinu rakin í þaula, en henni lauk með því að skipun dómaranna 15 var samþykkt með atkvæðagreiðslu sem fram fór 1. júní 2017. Atkvæði féllu þannig að 31 þingmaður samþykkti tillögu Sigríðar Á. Andersen um þá 15 sem skipaðir yrðu dómarar við Landsrétt. Allir þáverandi stjórnarþingmenn, sem tilheyrðu Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð, samþykktu tillöguna utan eins. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var ekki viðstaddur og greiddi ekki atkvæði, þar sem eiginkona hans, Arnfríður Einarsdóttir, var á meðal þeirra sem skipuð voru í embætti við Landsrétt án þess að vera talin á meðal 15 hæfustu af dómnefnd.

Svandís Svavarsdóttir, Vinstri grænum, greiddi heldur ekki atkvæði vegna þess að fyrrverandi eiginmaður hennar, Ástráður Haraldsson, var á meðal þeirra umsækjenda sem dómnefndin hafði metið á meðal þeirra hæfustu, en Sigríður ákvað að skipa ekki. 22 þingmenn úr þáverandi stjórnarandstöðuflokkum greiddu atkvæði á móti en átta þingmenn Framsóknarflokks sátu hjá.

Hæstiréttur kemst að niðurstöðu

Ást­ráður Haraldsson stefndi íslenska rík­inu vegna skip­un­ar­inn­ar. Það gerði Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem var einnig fjarlægður af lista dómnefndarinnar, gerði það líka.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu 15. september 2017, sama dag og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sprakk, að Sigríður Andersen hafi brotið lög við skipun Land­rétt­ar­dóm­ara. Ríkið var sýknað af bóta­kröfum Ást­ráðs og Jóhannesar Rúnars. Þeim þætti málsins var áfrýjað til Hæsta­réttar.

19. desember 2017 var dómur Hæstaréttar birtur. Niðurstaðan var skýr: Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra braut gegn stjórnsýslulögum þegar hún vék frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt. Í dómnum segir: „Samkvæmt því hefði málsmeðferð hans verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og af því leiddi að það sama ætti við um meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þar sem ekki hefði verið bætt úr þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var haldin.“

Ástráður og Jóhannes Rúnar fengu dæmdar 700 þúsund krónur hvor í miskabætur. Skaðabótakröfu þeirra var hins vegar hafnað þar sem þeir lögðu ekki fram gögn við meðferð málsins sem sýndi fram á fjárhagslegt tjón, enda báðir starfandi lögmenn sem hafa haft mjög há laun á undanförnum árum. Laun sem eru mun hærri en þau sem þeir myndu hafa fengið sem Landsréttardómarar.

Segir dómanna ekki fjalla sérstaklega um Arnfríði

Ríkislögmaður segir í greinargerð sinni sem send var Mannréttindadómstól Evrópu að dómarnir í þessum tveimur málum fjalli ekki sérstaklega um skipan Arnfríðar og að niðurstaða Hæstaréttar verði að metast í því ljósi. Þ.e. að niðurstaða Hæstaréttar um að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn stjórnsýslulögum sé niðurstaða sé byggð á hagsmunum þeirra tveggja manna sem höfðuðu málin sem leiddu af sér þá niðurstöðu, en snerti ekki Arnfríði. Hæstiréttur hafi auk þess komist að þeirri niðurstöðu, í síðari dómi, að Arnfríður hefði verið löglega skipuð.

Síðan er hæfi Arnfríðar rakið sérstaklega.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður mannsins sem kærði málið til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Mynd: Bára Huld Beck

Vilhjálmur, lögmaður mannsins sem kærði hæfi Arnfríðar til Mannréttindadómstólsins, telur að dómsmálaráðherra hafi handvalið umsækjendur á þann lista sem hún lagði fyrir Alþingi til samþykktar. Það hafi hún gert á grundvelli vináttu og pólitískra tengsla. Í málatilbúnaði Vilhjálms er því haldið fram að Arnfríður hafi verið skipuð sem hluti af hrossakaupum innan Sjálfstæðisflokksins þar sem Brynjar Níelsson gaf í staðinn eftir oddvitasæti sitt í öðru Reykjavíkurkjördæminu í síðustu kosningum til Sigríðar Á. Andersen.

Auk þess hafi Sigríður hafnað öðrum umsækjendum, sem dómnefndin hafi mælt með að skipa, á grundvelli pólitískra skoðana þeirra. Ríkislögmaður telur að í þessum málatilbúnaði Vilhjálms felist sú fullyrðing að spilling hafi ráðið því hverjir hafi verið skipaðir dómarar við Landsrétt.

Ríkislögmaður telur málatilbúnað Vilhjálms hafa takmarkað lagalegt gildi. Tilgangur hans sé, að því er virðist, að skapa þá tálsýn að allt ferlið sem leiddi af sér skipan dómara við Landsrétt, og sérstaklega skipun Arnfríðar, hafi verið verulega gallað og spillt. Þessu hafni íslenska ríkið staðfastlega.

Þvert á móti hafi skipan dómara við Landsrétt átt sér stað eftir nákvæmt og ítarlegt ferli. Auk þess bendir hann á að ekkert hafi legið fyrir um að kosningar væru framundan þegar Arnfríður var skipuð – það gerðist ekki fyrr en í september 2017 – og því geti ákvörðun Brynjars um að láta eftir oddvitasæti sitt til Sigríðar ekki tengst skipun Arnfríðar, sem var samþykkt á Alþingi í byrjun júní sama ár.

Breytingarnar byggðar á dómarareynslu og kynjajafnrétti

Ríkislögmaður heldur því fram í greinargerð sinni að það sem mestu máli skipti sé það að skipanatillögur Sigríðar hafi byggt á ítarlegu mati á öllum umsækjendum og á hlutlægu mati. „Breytingarnar sem dómsmálaráðherra gerði á listanum yfir umsækjendur sem dómnefndin taldi hæfasta, voru byggðar á tveimur hlutlægum og löglegum markmiðum; að gefa dómarareynslu meira vægi og kynjajafnrétti. Það að setja A.E. [Arnfríði Einarsdóttur] á listann uppfyllti klárlega bæði þessi, að öllu leyti lögmætu, skilyrði.“

Það er rétt að Arnfríður var með meiri dómarareynslu en þeir sem fjarlægðir voru af lista dómnefndar. En bæði Eiríkur Jónsson og Jón Höskuldsson, sem voru í 7. og 11. sæti á lista nefndarinnar, voru báðir með meiri dómarareynslu en nokkrir þeirra umsækjenda sem lagt var til að skipaðir yrði dómarar við Landsrétt. Héraðsdómur minntist sérstaklega á þetta atriði í dómum sínum í síðustu viku, í skaðabótamálum sem Eiríkur og Jón höfðu höfðað vegna þess að ólögmætar athafnir dómsmálaráðherra gerðu það að verkum að þeir voru ekki skipaðir sem dómarar við réttinn.

Einkunnargjöfin vinnuskjal

Í greinargerð ríkislögmanns er því einnig hafnað að sú regla að hæfustu umsækjendur eigi að vera skipaðir hverju sinni hafi verið brotin með skipun Arnfríðar Einarsdóttur, þótt hún hafi ekki verið á meðal 15 hæfustu að mati dómnefndar.

Þvert á móti er því haldið fram að síðasta orðið um hverjir séu hæfustu umsækjendurnir sé ekki algjörlega hjá dómnefndinni, enda hafi dómsmálaráðherra heimild til að víkja frá því mati. Niðurstaða Hæstaréttar í desember var hins vegar sú að í þessu tilfelli hafi Sigríður Á. Andersen ekki uppfyllt rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga þegar hún lagði mat á hæfni umsækjenda þrátt fyrir að sérfræðingar í ráðuneyti hennar hafi ítrekað bent á að þannig væri.

Í greinargerðinni er svo í löngu málið rakið að skjal með lista dómnefndar um hæfi umsækjenda til að sitja í Landsrétti, sem inniheldur einkunnir fyrir hæfi þeirra í ýmsum flokkum, hafi verið vinnuskjal til að hjálpa nefndinni til að komast að niðurstöðu. Því hafi þær einkunnir sem gefnar eru umsækjendum í skjalinu ekki annað opinbert gildi en að leiða nefndina að þeim 15 sem hún taldi hæfust. Með þessu vill ríkislögmaður meina að einkunnargjöf þeirra sem settir voru á lista ráðherra, þrátt fyrir að hafa ekki verið á meðal 15 hæfustu að mati nefndarinnar, sé ekki þess eðlis að hægt sé að styðjast við hana þegar ákvörðun dómsmálaráðherra um að gefa dómarareynslu meira vægi er metin.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar