Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þrjár af hverjum fjórum félagslegum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík

Alls eru 76 prósent félagslegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík. Nær öll fjölgun sem verður á þeim á svæðinu á sér stað þar. Í Garðabæ eru alls 29 félagslegar íbúðir og þeim fækkar milli ára samkvæmt talningu Varasjóðs húsnæðismála.

Félagslegum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 96 í fyrra. Þær eru nú 3.303. Þar af fjölgaði þeim um 68 í Reykjavík þar sem félagslegar íbúðir í eigu sveitarfélagsins sem voru til útleigu voru 2.513 í byrjun árs 2018. Það þýðir að 76 prósent allra félagslegra íbúða á svæðinu eru í Reykjavík þrátt fyrir að í borginni búi einungis 56,4 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins. Íbúar Reykjavíkur axla því langstærstan hluta þeirrar fjárhagslegu byrði sem fylgir því að sjá þeim sem þurfa á niðurgreiddu félagslegu húsnæði að halda með skattgreiðslum sínum.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Varasjóði húsnæðismála sem telur árlega það félagslega húsnæði sem er í boði á höfuðborgarsvæðinu.

Til félagslegs húsnæðis teljast félagslega leiguíbúðir, leiguíbúðir fyrir aldraða í eigu sveitarfélaga, leiguíbúðir fyrir fatlaða í eigu sveitarfélaga og aðrar íbúðir sem ætlaðar eru til nýtingar í félagslegum tilgangi.

Líkt og áður sagði eru þrjár af hverjum fjórum félagslegum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík. Þar eru tæplega 20 slíkar íbúðir á hverja þúsund íbúa. Í Kópavogi eru 470 félagslegar íbúðir og fjölgaði þeim um 44 í fyrra. Þar er magn slíkra á hverja þúsund íbúa tæplega 13.

Í Hafnarfirði fækkaði félagslegu húsnæði um eitt í fyrra. Þar eru nú 244 slík eða rúmlega átta íbúðir á hverja þúsund íbúa.

Garðabær sker sig úr

Þrjú sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taka mun minni þátt í því að sjá þurfandi fólki fyrir félagslegu húsnæði. Þar fer Garðabær, sveitarfélag með alls 16.190 íbúa, fremst í flokki. Í Garðabæ eru alls 29 félagslegar leiguíbúðir og fækkaði þeim um sex í fyrra. Það þýðir að það eru tæplega tvær félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa í sveitarfélaginu. Upplýsingafulltrúi Garðabæjar segir fækkunina vera vegna þess að almennum leiguíbúðum hafi fækkað milli ára þar sem Garðabær hafi keypt þrjú hús að Lækjarfiti þar sem sjö almennar leiguíbúðir voru. Þær íbúðir séu því ekki lengur meðtaldar. Þegar þær séu teknar út fyrir sviga þá fjölgaði félagslegum íbúðum í Garðabæ um eina, úr 28 í 29. Íbúðirnar sjö hafa þó verið taldar með í samantekt Varasjóðs húsnæðismála um magn félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum.  

Í Mosfellsbæ voru félagslegu íbúðirnar 31 í byrjun árs 2018 eða einni fleiri en árið áður. Samkvæmt þeim tölum eru félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa Mosfellsbæjar tæplega þrjár.

Seltjarnarnes er með alls 16 slíkar íbúðir sem er sami fjöldi og sveitarfélagið var með í byrjun árs 2017. Alls eru því 3,5 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa þess.

Fjöldi félagslegra íbúða í byrjun árs 2018:Heimild: Könnun Varasjóðs húsnæðismála
Reykjavík: 2.513
Kópavogur: 470
Hafnarfjörður: 244
Mosfellsbær: 31
Seltjarnarnes: 16
Garðabær: 29

Bæði Garðabær og Seltjarnarnes innheimta 13,7 prósent útsvar á meðan að Reykjavík innheimtir 14,52 prósent útsvar – sem er hámarksútsvar – og Kópavogur, Hafnarfjörður og Mosfellsbær innheimta 14,48 prósent. Íbúar Reykjavíkur borga því hærra skatta en íbúar allra hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars vegna þess að höfuðborgin stendur undir þorra þess kostnaðar sem fellur til vegna framboðs á félagslegu leiguhúsnæði.

Mjög margir á biðlista í brýnni þörf

Þegar staðan er skoðuð í sögulegu samhengi kemur í ljós að félagslegu leiguhúsnæði sem er í boði á höfuðborgarsvæðinu hefur einungis fjölgað úr 2.990 í 3.303, eða um 313 íbúðir, frá byrjun árs 2015 og fram að síðustu áramótum. Það er aukning um 10,5 prósent. Á sama tíma hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 7,2 prósent.

Slíkum íbúðum hefur fjölgað mest í Reykjavík á tímabilinu, eða um 271. Í Kópavogi fjölgaði þeim um 49, í Hafnarfirði og Msofellsbæ fækkaði þeim um þrjár, Á Seltjarnarnesi um tvær en í Garðabæ fjölgaði félagslegum leiguíbúðum um eina á þessum þremur árum. 

Þörfin fyrir félagslegt leiguhúsnæði er brýn. Þrátt fyrir að Reykjavík standi fyrir þorra þeirrar uppbyggingar sem eigi sér stað á slíku, og skilyrði að uppbygging á mörgum nýjum reitum við að ákveðið hlutfall íbúða sem þar verða byggðar séu félagslegar, þá voru samt sem áður 985 manns skráðir á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði í borginni um mitt þetta ár. Þar af voru 702, eða 71 prósent allra sem voru á biðlista, skilgreindir í brýnni þörf.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, var gestur sjónvarpsþáttarins 21 á Hringbraut í síðustu viku. Þar ræddi hann meðal annars ofangreinda stöðu. Í viðtalinu sagði Dagur að „við eigum að áskilja okkur rétt til þess að skylda sveit­ar­fé­lög til þess að hækka hlut­fall sitt af félags­legum íbúðum í eigu sveit­ar­fé­laga. Bara með lög­um. Það verður að gera það með lögum ef það ger­ist ekki öðru­vísi[...]„Reykja­vík býr um þriðj­ungur lands­manna. En borgin er að standa fyrir 80-90 pró­sent af þeirri félags­legu hús­næð­is­upp­bygg­ingu sem er í gangi. Við erum að taka langstærsta skerf af þessum nauð­syn­legu verk­efn­um, og það eru allir sam­mála um að þessar áherslur séu nauð­syn­leg­ar.“

Hann sagði Reykja­vík einnig vera í algjörri for­ystu þegar kemur að sam­starfi við óhagn­að­ar­drifin leigufélög og úthlutun lóða til slíkra. „Ég velti því fyrir mér, í tengslum við kjara­samn­inga, hvort það sé ekki hægt að ná ein­hverju stærra sam­komu­lagi um meiri aðkomu ann­arra, og aðkomu okk­ar, að því til fram­tíðar þannig að þau plön séu þá kláruð.“

Bein niðurgreiðsla

Í skýrslu Íbúðalánasjóðs og félags- og jafnréttismálaráðuneytisins sem kynnt var á Húsnæðisþingi í síðustu viku kom fram að niðurgreiðsla leiguverðs í félagslegum íbúðum væri mismikil milli sveitarfélaga, en að víða væri leiguverð hjá sveitarfélögum um þriðjungi lægra en á almennum leigumarkaði. „Í gegnum tíðina hefur komið til umræðu að beinni niðurgreiðslu á leiguverði félagslegra íbúða verði hætt og stuðningur við leigjendur verði alfarið í formi bótagreiðslna. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur kom þetta sjónarmið fram og árið 2008 ákvað Reykjavíkurborg að stíga þetta skref til fulls og hætta að niðurgreiða leiguverð hjá Félagsbústöðum með beinum hætti. Í nokkur ár þar á eftir var leiguverð hjá Félagsbústöðum svipað og leiguverð á markaði en á undanförnum fimm árum hefur leiga hjá félaginu hins vegar ekki hækkað í takt við verð á markaði og nú er svo komið að bein niðurgreiðsla leigu hjá Félagsbústöðum er um 30 prósent.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar