Mynd: WOW air

Dauðastríðið hjá WOW air á lokametrunum

Það ætti að skýrast í dag eða í síðasta lagi á allra næstu dögum hvort að flugfélagið WOW air verði áfram til. Forsvarsmenn þess eru nú í kappi við tímann að ná fram nýrri lausn eftir að bæði Indigo Partners og Icelandair ákváðu að fjárfesta ekki í félaginu, og áður en að vélar þess verða kyrrsettar út um allan heim af kröfuhöfum WOW air.

Framtíð WOW air er að ráðast. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur Samgöngustofa, sem veitir félaginu flugrekstrarleyfi, gefið WOW air mjög skamman tíma til að leysa úr stöðu sinni, annars mun hún afturkalla flugrekstrarleyfið.

Ljóst er að forsvarsmenn WOW air eiga í miklu tímakapphlaupi og þeir þurfa að komast yfir margar hindranir á örfáum klukkutímum. Þótt það líti út fyrir að þeir sem komu að skuldabréfaútboði félagsins í september séu tilbúnir að breyta að minnsta kosti stórum hluta af kröfum sínum í hlutafé gegn því að viðbótarfjárfesting komi inn í WOW air þá á enn eftir að nást samkomulag við aðra kröfuhafa líka, eins og Isavia, og finna þá viðbótarfjárfestingu upp á fimm milljarða króna. Í millitíðinni þarf að halda öllum vélum WOW air, sem eru leiguvélar og leigugreiðslur vegna að minnsta kosti hluta þeirra eru í vanskilum, gangandi. Það virðist strax ætla að ganga erfiðlega því mbl.is greindi frá því í morgun að þegar sé búið að kyrrsetja eina vél félagsins í dag á flugvellinum í Montreal í Kanada að beiðni leigusala hennar.

Dauðastríð WOW air er í fullum gangi og líklega komið að ögurstundu þess. Hvort sjúklingurinn lifi af eða ekki ætti að liggja fyrir í lok dags, eða í allra síðasta lagi á næstu tveimur til þremur dögum.

Orðrómurinn um Indigo

Í byrjun síðustu viku voru flestir viðmælendur Kjarnans sem starfa á fjármálamarkaði sammála um að viðræðum Indigo Partners um að kaupa WOW air væri í raun lokið, þótt ekki væri búið að tilkynna um það opinberlega. Sú kenning fékk sífellt fleiri fylgismenn að Bill Franke, hinn aldni eigandi Indigo Partners, hefði aldrei ætlað sér að kaupa WOW air heldur hafi hann nýtt tímann undanfarna mánuði til að tryggja sér lendingarleyfi félagsins á Gatwick flugvelli í London og að læra inn á starfsemina með það fyrir augum að fara í samkeppni við hana með önnur flugfélög sem hann átti þegar.  

Wizz Air, félag að stórum hluta í eigu Indigo, var annað þeirra sem keypti áðurnefnd lendingarleyfi á Gatwick í desember. Snemma á fimmtudag í síðustu viku tilkynnti Wizz Air að félagið myndi bæta við flugleið til Keflavíkurflugvallar í sumar. Með því verður Wizz Air fyrst erlenda flugfélagið sem er með áætlunarflug frá tíu eða fleiri áfangastöðum til og frá Íslandi.

Þetta vakti athygli, enda áhugavert að fjölga ferðum Wizz Air til Íslands á sama tíma og aðaleigandi þess félags var í viðræðum um að kaupa það flugfélag sem var með næst mesta hlutdeild í flugi til og frá landinu.

Icelandair aftur kemur inn

Um kvöldið þennan sama dag, fimmtudaginn 21. mars, var síðan loks tilkynnt um að slitnað hefði upp úr viðræðum milli Indigo Partners og WOW air eftir tæplega fjögurra mánaða dans. Nánast samtímis og tilkynning þess efnis birtist á fjárfestasíðu WOW air birtist tilkynning í Kauphöll Íslands um að Icelandair Group hefði samþykkt að hefja viðræður við WOW air um aðkomu að rekstri félagsins. Í tilkynningunni sagði: „„Ef af verður mun aðkoman byggja á sjón­ar­miði sam­keppn­is­réttar um fyr­ir­tæki á fallandi fæti. Við­ræð­urnar fara fram í sam­ráði við stjórn­völd.“

Þriðja tilkynningin birtist einnig á þessum tíma, í þetta sinn frá ríkisstjórn Íslands. Þar sagði að hún myndi áfram fylgjast grannt með framvindunni og að vonir væru bundnar við að viðræður Icelandair og WOW air myndu skila farsælli niðurstöðu.

Þær gerðu það ekki.

Icelandair glímir við eigin vanda

Viðmælendur Kjarnans sem þekkja vel til í flugheiminum voru nær allir sammála um að erfitt yrði fyrir Icelandair að réttlæta aðkomu að WOW air. Félagið væri sjálft búið að eiga í umtalsverðum rekstrarvanda í lengri tíma og ætti fullt í fangi með að rétta úr kútnum í eigin rekstri. Sterk lausafjárstaða gerði Icelandair kleift að gera slíkt.

Léleg rekstrarniðurstaða Icelandair í fyrra gerði það að verkum að skilmálar skuldabréfa félagsins voru brotnir. Mánuðum saman stóðu yfir viðræður við skuldabréfaeigendurna um að endursemja um flokkanna vegna þessa. Þær viðræður skiluðu ekki árangri og 11. mars síðastliðinn var greint frá því að Icelandair hefði fengið lánað 80 milljónir dala, um tíu milljarða króna, hjá innlendri lánastofnun gegn veði í tíu Boeing 757 flugvélum félagsins. Lánsfjárhæðin var nýtt sem hlutagreiðsla inn á útgefin skuldabréf félagsins.

Ríkisstjórnin hefur fylgst vel með þróun mála hjá WOW air um langt skeið.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Lánveitandinn reyndist vera ríkisbankinn Landsbankinn. Verið var að flytja hluta af fjármögnun Icelandair frá skuldabréfaeigendum og yfir á banka í eigu íslenska ríkisins vegna þess að ekki tókst að semja við þá. Hinn ríkisbankinn, Íslandsbanki, hefur líka lánað Icelandair fé, en bein ríkisábyrgð er á starfsemi beggja bankanna í gegnum eign á hlutafé.

Staðan verri en reiknað var með

Kjarninn greindi frá því klukkan 17:19 í gær, sunnudag, að búið væri að slíta viðræðum Icelandair við WOW air og að til stæði að forsvarsmenn félaganna myndu í kjölfarið funda með stjórnvöldum. Tilkynning þess efnis birtist síðan í Kauphöll Íslands um 20 mínútum síðar. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði við fjölmiðla í gær að rekstur og fjárhagsstaða WOW air væri með þeim hætti að Icelandair hefði ekki treyst sér til að halda áfram með viðræður um yfirtöku.

Bogi sagði líka að aðrar og ódýrari leiðir væru til staðar fyrir Icelandair til að verða sér úti um nýjar vélar til leigu ef kyrrsetning á Boeing 737 MAX vélum félagsins dregst áfram, en slíkar vélar hafa verið kyrrsettar alls staðar í heiminum eftir að tvær vélar af gerðinni 737 MAX 8 hröpuðu með nokkurra mánaða millibili.

Samkvæmt heimildum Kjarnans fóru forsvarsmenn Icelandair á fund stjórnvalda í gær þar sem þeir sýndu fram á að það væri vel hægt að lina það högg sem yrði af gjaldþroti WOW air með ýmsu móti og að Icelandair gæti vel fyllt það skarð að miklu leyti. Með þeim aðgerðum væri hægt að tryggja að fjöldi ferðamanna sem myndi heimsækja Ísland yrði í kringum 2,2 milljónir í ár, sem er svipað og hann var árið 2017. Samdráttur milli ára yrði því einungis um fjögur prósent. Þetta væri meðal annars hægt að gera með því að auka áherslu á ferðir með ferðamenn til Íslands, á kostnað tengifluga með millilendingu hér.

Viðmælendur Kjarnans segja að fjárhagsstaða WOW air, sem hafi verið slæm þegar Icelandair fór í viðræður um kaup á félaginu í fyrrahaust, sé nú orðin skelfileg. Í Morgunblaðinu í morgun er sagt að tap WOW air í fyrra hafi verið 22 milljarðar króna, að lausafjárstaðan sé neikvæð um 1,4 milljarða króna og að eigið féð sé neikvætt um 13 milljarða króna. Auk þess greindi blaðið frá því að bókunarstaða WOW air væri um helmingur af því sem hún var á sama tíma í fyrra. Þetta leiði til þess að um tíu milljarða króna þurfi inn í WOW air til að hægt sé að halda rekstrinum við út árið.

Skúli ánægður með stöðuna

Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, var þó ekkert á því að leggjast niður og gefast upp þótt staðan væri kolsvört. Um kvöldmatarleytið í gær birtist stutt tilkynning á fjárfestasíðu WOW air þar sem kom fram að félagið hefði hafið viðræður við skuldabréfaeigendur sína, þá hina sömu og höfðu keypt umrædd skuldabréf í september í fyrra fyrir alls tæplega átta milljarða króna, um að breyta kröfum í hlutafé. Viðmælendur Kjarnans segja að Skúli hafi aðrar hugmyndir um hver fjárþörf WOW air sé en forsvarsmenn Icelandair höfðu.

Í Fréttablaðinu í morgun er greint frá því að Arctica Finance vinni að því að safna um fimm milljörðum króna og að að heildarskuldir WOW air nemi um 24 milljörðum króna. Þær eru meðal annars við áðurnefnda skuldabréfaeigendur, Arion banka sem hefur lánað félaginu að minnsta kosti vel á annan milljarð króna og við Isavia vegna vangoldinna lendingargjalda upp á um tvo milljarða króna. Þá hefur verið greint frá því á undanförnum vikum að WOW air hafi ekki getað staðið skil á greiðslu allra lífeyrisskuldbindinga starfsmanna.

Skúli Mogensen var samt sem áður, og að venju, brattur þegar hann yfirgaf höfuðstöðvar WOW air um miðnætti í gær. Þar sagði hann við fréttamann Vísis: „Ég er mjög ánægður með stöðuna.“

Hugmyndirnar sem verið er að ræða um nú eru meðal annars þær að breyta hluta af skuldum í 49 prósent hlutafjár og að selja svo 51 prósent í félaginu til nýrra eigenda.

Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hafa forsvarsmenn WOW air ekki gefið upp alla von á því að Bill Franke, hinn 81 árs gamli aðaleigandi Indigo Partners, verði tilbúinn að hlusta á boð um að fjárfesta í WOW air, ef það næst samkomulag um að afskrifa skuldir félagsins og endurskipuleggja eignarhaldið. Þá gæti hann orðið eigandi tæplega helmingshlutar.

Stjórnvöld fylgjast vel með

Íslensk stjórnvöld hafa fylgst vel með þróuninni um langt skeið. Fjögurra manna ráðherrahópur er þar í lykilhlutverki. Þeir sem tilheyra hópnum eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Þessi hópur hittist í stjórnarráðinu í gær. Forsætisráðherra var ekki viðstödd fundinn en lykilmenn úr ráðuneytum ráðherranna voru það ásamt hinum þremur ráðherrunum. Á fund hópsins í gær var einnig mættur, Michael Ridley, ráðgjafi sem starfaði áður hjá fjárfestingabankanum J.P. Morgan. Ridley var einn þriggja sérfræðinga bankans sem var flogið til Íslands með einkaþotu frá London um kvöld­mat­ar­leytið 5. októ­ber 2008 til að veita ráðgjöf um stöðu bankakerfisins sem hrundi daginn eftir. Eftir fund Ridley og félaga hans með þáverandi ríkisstjórn var tekin ákvörðun um að setja neyðarlög í landinu og leyfa bönkunum að falla.

Það er ekki að ástæðulausu að íslensk stjórnvöld hafa áhyggjur. Ríkisstjórnin kynnti fimm ára fjármálaáætlun sína á laugardag. Ljóst er að endurskoða þarf hana strax ef allt fer á versta veg hjá WOW air. Versta sviðsmyndin er að samdráttur á þjóðartekjum í ár verði tvö til þrjú prósent. Um þúsund störf myndu tapast beint hjá WOW air, um 500 afleidd vegna ýmissar þjónustu sem WOW air kaupir og svo fullt í viðbót vegna óbeinna áhrifa.

Skammtímaáhrifin yrðu alltaf mjög mikil og erfið þótt að Icelandair og hin 24 flugfélögin sem fljúga til Íslands telji sig geta fyllt upp í tómið sem WOW air myndi skilja eftir sig þegar fram líða stundir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar