Mynd: Samsett flokksforingjar
Mynd: Samsett

Fylgið flakkar milli flokka sem tilheyra sömu hólfum stjórnmála

Eftir Klaustursmálið hækkaði fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um 7,7 prósent á sama tíma og fylgi Miðflokks og Flokks fólksins lækkaði um 7,6 prósent. Nú þegar fylgi Miðflokksins er að aukast lækkar fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Á meðan virðist fylgi miðju- og vinstriflokkanna í íslenskum stjórnmálum stöðugt síðustu mánuði.

Það eru níu flokkar á norska þing­inu, fjórir í stjórn en fimm í stjórn­ar­and­stöðu. Þar af tveir með sitt hvorn þing­mann­inn. Í Dan­mörku eru líka níu flokkar á þingi, auk þess sem fjórir þing­menn koma frá Fær­eyjum og Græn­landi.

Í Sví­þjóð eru átta flokkar með full­trúa á þingi auk þess sem einn þing­maður er skil­greindur utan flokka. Í nýaf­stöð­unum kosn­ingum í Finn­landi, sem fóru fram um liðna helgi, náðu tíu flokkar inn manni, þótt tveir þeirra hafi reyndar ein­ungis náð inn einum hvor.

Í öllum þessum nágranna­löndum okkar tíðkast því sam­starf margra stjórn­mála­flokka við myndum rík­is­stjórna, sem sumar hverjar eru minni­hluta­stjórn­ir.

Íslenskt stjórn­mála­lands­lag hefur á síð­ustu árum færst frá því að vera þannig að fjórir flokkar hafa iðu­lega haft um og yfir 90 pró­sent fylgi og að rík­is­stjórnir séu tveggja flokka stjórn­ir. Í síð­ustu kosn­ingum náðu átta flokkar inn manni á Alþingi og hafa þeir aldrei verið fleiri. Síð­ustu mán­uði, sam­hliða miklu umróti í íslenskum stjórn­mál­um, virð­ist vera að fær­ast umtals­vert festa í hólfa­skipt­ingu þessa nýja lands­lags. Þ.e. fylgi hvers hólfs fyrir sig: til hægri, á miðju og til vinstri, virð­ist hald­ast nokkuð stöðugt þótt að til­færsla verði fylgi milli þeirra flokka sem til­heyra hverju hólfi fyrir sig.

Það sést mjög vel með því að skoða breyt­ingar á fylgi fyrir og eftir hið svo­kall­aða Klaust­ur­mál.

Hið íhaldsama hægra hólf

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn eru þeir tveir flokkar sem oft­ast hafa ráðið á Íslandi, oft­ast saman en stundum líka í sitt­hvoru lagi. Þeir eru hönn­uðir flestra þeirra kerfa sem við búum við og mikil vigt er lögð á það í stjórn­málum beggja að við­halda þeim kerf­um. Að því leyt­inu til eru þeir klass­ískir íhalds­flokk­ar, sem vilja litlar eða engar stór­tækar breyt­ingar á stjórn­kerfum lands­ins eða stjórn­ar­skrá þess.

Mið­flokk­ur­inn er klofn­ings­flokkur úr Fram­sókn­ar­flokkn­um. Hann og Flokkur fólks­ins reka meðal ann­ars þjóð­ern­ispopúl­íska stefnu sem byggir á áherslum á stór og kostn­að­ar­söm kosn­inga­lof­orð, full­veldi þjóðar og mik­illi tor­tryggni gagn­vart alþjóða­væð­ingu og alþjóða­sam­starfi. Báðir flokkar leggja auk þess áherslu á að bæta hag aldr­aðra, öryrkja og lands­byggðar og stilla aðstæðum þeirra oft upp upp sem and­stæðum við aðra til­tekna hópa.

Þetta hægra hólf stjórn­mál­anna, hið íhalds­sama eða popúl­íska, var sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna haustið 2017. Þá fengu þessir fjórir flokkar sam­tals 53,7 pró­sent atkvæða, sem var algjör við­snún­ingur frá kosn­ing­unum árið áður þegar þeir fengu 44 pró­sent atkvæða. Nú mælist það með stuðn­ing 46 pró­sent kjós­enda og myndi tapa 7,7 pró­sentu­stigum frá kosn­ing­unum 2017 ef kosið yrði í dag, og nið­ur­staðan yrði í sam­ræmi við könnun MMR.  

Það virð­ist vera sem að nær öll til­færsla sem verður á fylgi Sjálf­stæð­is­flokks, Fram­sókn­ar­flokks, Mið­flokks og Flokks fólks­ins eigi sér stað á milli þeirra. Það sást ágæt­lega í kosn­ing­unum 2017, þeim fyrstu sem Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins náðu mönnum á þing í. Sam­eig­in­legt fylgi Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks lækk­aði mark­tækt milli kosn­ing­anna 2016 og 2017. Fram­sókn fékk sína verstu nið­ur­stöðu í rúm­lega hund­rað ára sögu sinni. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fékk sína næst verstu nið­ur­stöðu. Sú versta var 2009, í fyrstu kosn­ing­unum eftir banka­hrun­ið.

Það má líka sjá þessa til­færslu á fylgi milli flokka innan hólfs­ins í könn­unum MMR. Í lok nóv­em­ber 2018 mæld­ist sam­eig­in­legt fylgi þeirra 49,3 pró­sent en í könnun sama fyr­ir­tækis um miðjan febr­úar mæld­ist það 49,2 pró­sent, eða nán­ast nákvæm­lega jafn mik­ið. Í nóv­em­ber mæld­ist fylgi Mið­flokks og Flokks fólks­ins sam­an­lagt 20,7 pró­sent en í febr­úar 13 pró­sent. Á sama tíma mæld­ist sam­eig­in­legt fylgi Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sóknar 28,6 pró­sent í nóv­em­ber 2018 en 36,2 pró­sent í febr­úar 2019. Það sem gerð­ist í milli­tíð­inni var Klaust­urs­málið þar sem þing­menn Mið­flokks­ins og Flokks fólks­ins voru ger­end­ur. Á ofan­greindu tíma­bili lækk­aði sam­eig­in­legt fylgi Mið­flokks­ins og Flokks fólks­ins um 7,7 pró­sent en sam­eig­in­legt fylgi Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sóknar hækk­aði um 7,6 pró­sent.

Í síð­ustu könn­unum MMR, sem birtar voru í mars og apr­íl, hefur Mið­flokk­ur­inn náð vopnum sínum aft­ur. Hann mælist nú með 10,2 pró­sent fylgi, sem er nán­ast kjör­fylgi hans. Flokkur fólks­ins á enn nokkuð í land með að ná fyrri hæðum en mælist samt með 5,4 pró­sent fylgi, sem myndi tryggja honum inn á þing ef kosið yrði í dag. Sam­eig­in­lega taka þessir flokkar því til sín 15,6 pró­sent atkvæða. Afleið­ingin fyrir Sjálf­stæð­is­flokk og Fram­sókn­ar­flokk er sú að báðir myndu setja nýtt met í lágu fylgi ef kosið yrði í dag, Fram­sókn með 8,7 pró­sent atkvæða og Sjálf­stæð­is­flokkur með 21,7 pró­sent.

Vert er að taka fram að bæði Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn hafa ríka til­hneig­ingu til að ganga betur í kosn­ingum en kann­anir hafa bent til, enda búa flokk­arnir af reynslu­miklu flokk­skipu­lagi sem gerir þeir kleift að reka árang­urs­ríkar kosn­inga­bar­átt­ur. Þannig fengu þeir sam­an­lagt rúm­lega fjögur fleiri pró­sentu­stig í kosn­ing­unum 2017 en síð­asta könnun MMR fyrir þær hafði spáð þeim.

Hin sjálf­skil­greinda frjáls­lynda miðja

Sú blokk í hinu nýja lands­lagi íslenskra stjórn­mála sem er að auka fylgi sitt mest frá síð­ustu kosn­ingum sam­kvæmt könn­unum er það sem má kalla hina frjáls­lyndu miðju. Þar eru flokkar (Sam­fylk­ing, Við­reisn og Pírat­ar) sem teygja sig til vinstri eða hægri í ákveðnum mála­flokkum en leggja áherslu á hin svoköll­uðu fínni blæ­brigði stjórn­mála á borð við jafn­rétti, aukið alþjóða­sam­starf, mann­rétt­indi, frjáls­lyndi í inn­flytj­enda/hæl­is­leit­enda­málum og umfangs­miklar og jafn­vel rót­tækar kerf­is­breyt­ing­ar. Oft eru kjós­endur þess­arar blokkar kall­aðir „góða fólk­ið“ og ásak­aðir um elítu­isma.

Þessir flokkar njóta mest stuðn­ings á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og sér­stak­lega í Reykja­vík. For­svars­menn bæði Við­reisnar og Sam­fylk­ingar hafa rætt það opin­ber­lega að vilji sé til þess að mynda næstu rík­is­stjórn í kringum þessa þrjá flokka, með þeim við­bótum sem til þyrfti. Logi Ein­ars­son, for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði í við­tali við Mann­líf í febr­úar að hann vildi gera slíkt með Við­reisn, Pírötum og Vinstri græn­um.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, for­maður Við­reisn­ar, ræddi málið í sjón­varps­þætt­inum 21 á Hring­braut í nóv­em­ber í fyrra og sagði þar tvo ása vera til staðar í íslenskum stjórn­mál­um, frjáls­lynda og íhalds­sama ásinn. Ekki fór milli mála hvaða flokkum hún rað­aði á ásana.

 

Þessi blokk fékk 28 pró­sent fylgi í síð­ustu kosn­ing­um, haustið 2017. Það var algjör við­snún­ingur á fylgi flokka sem skil­greina sig helst sem frjáls­lynda miðju­flokka frá kosn­ing­unum 2016, þegar þegar þeir fengu 37,9 pró­sent atkvæða, en þá var Björt fram­tíð enn að mæl­ast með stuðn­ing kjós­enda.

Fylgi flokk­anna þriggja hefur verið mjög stöðugt und­an­farna mán­uði í könn­unum MMR, það var 36,2 pró­sent í nóv­em­ber en mæld­ist 37,9 pró­sent í síð­ustu könn­um, sem birt var 9. apr­íl. Ef það yrði nið­ur­staða kosn­inga myndu þessir flokkar bæta við sig 9,9 pró­sentu­stigum frá síð­ustu kosn­ing­um.

Það vekur athygli að það er nákvæm­lega sama hlut­fall stuðn­ings og frjáls­lyndu flokk­arnir fengu í atkvæðum í kosn­ing­unum 2016, sem þóttu miklar sig­ur­veg­ara­kosn­ingar fyrir þær stjórn­mála­legu áhersl­ur.

Vinstra hólfið

Síð­asta hólfið er vinstra­hólf­ið. Þar hafa Vinstri græn náð að að sitja nær ein und­an­farin miss­eri þótt að atkvæði flæði þaðan bæði yfir til Sam­fylk­ingar og Pírata, og að mikil sam­legð sé milli þeirra flokka í mörgum áherslu­mál­um. Þar má nefna mál sem snerta jöfn­uð, loft­lags­mál, jafn­rétt­is­mál og önnur jafn­rétt­is­mál. Það sem aðskilur þó er hin ríka íhalds­taug Vinstri grænna og and­staða við ýmsar kerf­is­breyt­ingar og and­staða við ýmis konar alþjóða­sam­starf, til að mynda við veru Íslands í NATO og mögu­lega aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu.

Þótt Vinstri græn leiði nú afar óvenju­lega rík­is­stjórn með flokkum sem þau hafa aldrei áður viljað vinna með þá eru Sam­fylk­ingin og Píratar mun nátt­úru­legri banda­menn þeirra en Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokk­ur. Við blasti hins vegar eftir síð­ustu kosn­ingar að ómögu­legt var að mynda rík­is­stjórn með þessum þremur flokkum ein­vörð­ungu og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var afhuga fimm flokka stjórn. Þá ríkir umtals­verð tor­tryggni gagn­vart Við­reisn innan Vinstri grænna, þar sem mörgu lyk­il­fólki finnst Við­reisn vera allt of langt til hægri í sinni póli­tík.

Vinstri græn hafa liðið fyrir veru sína í rík­is­stjórn á þessum kjör­tíma­bili, sam­kvæmt könn­unum MMR. Flokk­ur­inn fékk 16,9 pró­sent atkvæða í kosn­ing­unum 2017 en hefur verið að mæl­ast með 12,9 til 10,3 pró­sent fylgi síð­asta tæpa hálfa árið.

Þar skiptir líka máli að mun rót­tæk­ari vinstri flokk­ur, með náið sam­band við nýja verka­lýðs­for­ystu, er komin fram á sjón­ar­svið­ið. Þ.e. Sós­í­alista­flokkur Íslands sem náði inn manni í síð­ustu borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um, sem fóru fram í fyrra­vor, og fékk 6,4 pró­sent atkvæða, á sama tíma og Vinstri græn guldu afhroð og fengu ein­ungis 4,3 pró­sent atkvæða í kjör­dæmi Katrínar Jak­obs­dóttur for­sæt­is­ráð­herra.

Sam­kvæmt könn­unum þá fer hluti þess fylgis sem Vinstri græn fengu í síð­ustu kosn­ing­unum nokkuð aug­ljós­lega yfir á flokka sem eru vinstra megin á miðj­unni en Sós­í­alista­flokk­ur­inn er sífellt að gera sig breið­ari á vinstri vængn­um. Hann mælist nú með 4,5 pró­sent fylgi í könn­unum MMR og hefur verið að mæl­ast með mann inni í ýmsum öðrum könn­un­um. Það vekur líka athygli að frá því að MMR fór að mæla fylgi Sós­í­alista­flokks­ins í febr­úar síð­ast­liðnum þá hefur fylgi vinstri flokk­anna tekið lít­inn kipp upp á við. Það mælist nú 14,9 pró­sent en mæld­ist t.d. 10,3 pró­sent í nóv­em­ber.

Vert er þó að taka fram að þeir sem ætl­uðu sér að kjósa „ann­að“ en til­greinda flokka í könn­un­inni í nóv­em­ber voru fjögur pró­sent. Afar lík­legt er að fylgi við Sós­í­alista­flokk­inn hafi verið uppi­staðan þess fylgis og ef tekið er til­lit til þess þá er breyt­ingin á fylgi vinstri flokk­anna síð­ustu mán­uði lítil sem eng­in. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar