Mynd: Samsett flokkar alþingi

Þrátefli á óvenjulegu Alþingi

Miðflokkurinn gengur hvorki í takt við stjórn né meirihluta stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnarflokkarnir telja að það sé á ábyrgð hinna stjórnarandstöðuflokka að ná samkomulagi við Miðflokkinn um þinglok en þeir telja sig enga ábyrgð bera á Miðflokknum. Flókin og ný staða er uppi á Alþingi sem gæti leitt að sér óvenjulegar lausnir.

Flókin staða er uppi á Alþingi sem stendur. Fundir þar sem reynt er að semja um þinglok hafa ekki skilað neinum árangri í ljósi þess að ríkisstjórnin er að semja við tvær ólíkar stjórnarandstöður, sem eru með ólíkar kröfur um hvað þær vilja til að hægt sé að slíta þingi og fara í sumarfrí.

Annars vegar eru fjórir flokkar: Samfylking, Viðreisn, Píratar og Flokkur fólksins sem eru nokkuð samstíga eins og er í áherslum sínum hvað varðar þinglok. Hins vegar er Miðflokkurinn, sem nú er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, sem hefur allt aðrar hugmyndir um hvað þurfi til að ljúka þingstörfum.

Líkt og vanalega hafa þingflokksformenn allra átta flokkanna á Alþingi verið að vinna að því að flokka þau fjölmörgu mál sem bíða afgreiðslu niður í flokka eftir því hversu áríðandi er að afgreiða þau. Oftast er notast við liti umferðarljósanna við þá vinnu. Græn mál eru þau sem breið samstaða er um, gul þau sem eru umsemjanleg með breytingum og rauð þau sem stál er í stál og lítill sem enginn möguleiki á að komist á dagskrá fyrir þinglok.

Nokkur mál sem ósætti er um

Viðmælendur Kjarnans hafa helst nefnt fjögur mál sem tekist sé á um. Það sem er líklegast til að springa upp eru lög um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits. Mikil áhersla er lögð á það ríkisstjórnarmegin að afgreiða þau lög fyrir þinglok, en verulegar efasemdir eru um málið hjá stórum hluta stjórnarandstöðunnar.

Ýmsir hafa gagnrýnt málið opinberlega undanfarin misseri. Þannig sagði Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, nýverið í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut að hún gæti ekki séð að sameining við Seðlabanka Íslands myndi auka sjálfstæði eftirlitsins frá pólitík. Unnur sagði að sjálf­stæði fjár­mála­eft­ir­lits þyrfti að vera bæði frá stjórn­málum og þeim eft­ir­lits­skyldu aðilum sem Fjár­mála­eft­ir­litið á að fylgj­ast með. Með sam­ein­ingu stofn­ana verði til þrjár stoðir innan hins nýja seðla­banka: stoð pen­inga­stefnu, fjár­mála­stöð­ug­leika og fjár­mála­eft­ir­lits.

Þá skrifaði Gylfi Zoega, pró­­fessor í hag­fræði, ítar­­legri grein í Vís­bend­ingu nýverið þar sem fjallaði meðal ann­­ars um fyr­ir­hug­aða sam­ein­ingu Seðla­­banka Íslands og Fjár­­­mála­eft­ir­lits­ins, með gagn­rýnum hætt­i.

Í grein Gylfa sagði að marg­vís­legar hættur geti steðjan að fjár­­­mála­eft­ir­liti og sjálf­­stæði þess á litlum mark­aði eins og þeim íslenska. T.d. geti stjórn­­­mála­­menn reynt að hafa áhrif á, bæði í gegnum per­­són­u­­leg tengsl við fjár­­­festa og með póli­­tískum skip­unum í stjórn­­­ir.

Unnur sagðist í áðurnefndum sjónvarpsþætti hafa lesið grein Gylfa og taldi hana glögga og góða grein­ingu á þeim áskor­unum sem fylgja sam­ein­ing­unni.

Þjóðarsjóður líklega út af borðinu

Þá liggur fyrir að frumvarp um svokallaðan Þjóðarsjóð mun mæta töluverðri andstöðu. Í frumvarpi var upphaflega lögð áhersla á að þverpólitísk sátt mndi ríkja um sjóðinn og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði á sínum tíma áherslu á að málið yrði afgreitt í sátt. Sú sátt er einfaldlega ekki til staðar.

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar, sem mælti með samþykkt frumvarpsins um miðjan maí með örlitlum breytingum, samanstóð einungis af þingmönnum stjórnarflokkanna. Stjórnarandstaðan hefur sett fram margháttaðar athugasemdir við málið. Á meðal þess sem Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, finnur að málinu í sínu minnihlutaáliti er að einungis fjármagn sem fellur til vegna orkuauðlindar eigi að rata í sjóðinn, en ekki vegna nýtingu annarra auðlinda. Þá kemur fram skýr andstaða gagnvart þeirri hugmynd fjármála- og efnahagsráðherra að láta einkaaðilum á fjármálamarkaði eftir það verkefni að ávaxta Þjóðarsjóðinn. Oddný telur að sjóðurinn eigi, verði hann settur á laggirnar, að heyra undir Seðlabanka Islands, líkt og háttar til að mynda með norska olíusjóðinn. Í áliti hennar segir að hún telji það „afar slæma hugmynd að útvista bæði rekstri og áhættustýringu á stórum sjóði í ríkiseigu til einkaaðila. Meðal þeirrar fyrirsjáanlegu hættu sem það skapar eru hagsmunaárekstrar, freistnivandi og markaðsbjögun.“

Þorsteinn Víglundsson, fulltrúi Viðreisnar í nefndinni, skilaði sér áliti þar sem hann sagðist ekki vilja fara út í miklar efnislegar athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins eða almennt fyrirkomulag á rekstri sjóðsins í ljósi þess að hann lýsi almennri andstöðu við stofnun slíks sjóðs og þar með við samþykkt frumvarpsins. „Rétt er þó að benda á tvö lykilatriði. Annars vegar almenn skilyrði fyrir úttekt úr sjóðnum og hins vegar ákvæði til bráðabirgða um að framlög skuli vera lægri tímabundið til að fjármagna útgjöld ríkissjóðs.“

Bjarni Benediktsson lagði fram frumvarp um Þjóðarsjóð sem er mjög umdeilt á þingi.
Mynd: Bára Huld Beck.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson situr í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir Miðflokkinn. Í hans minnihlutaáliti eru settar fram alls sjö tölusettar ástæður fyrir því að hann sé á móti framgangi frumvarpsins. Sigmundur Davíð telur meðal annars óljóst hvers vegna skynsamlegt sé að byrja að safna í Þjóðarsjóð á meðan ríkissjóður er skuldsettur og ríkið hefur á herðum ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar. Hann telur sterk rök fyrir því að fjármagnið myndi nýtast betur í önnur verkefni, til að mynda uppbyggingu innviða eða til að lækka skatta eða aðrar álögur. Sigmundur Davíð segir, líkt og Oddný, að álitamálum um rekstur sjóðsins sé ósvarað. Þá liggi ekki fyrir greining á ætluðum kostnaði við rekstur sjóðsins né reglur um hver hann megi að hámarki vera.

Viðmælendur Kjarnans á meðal þingmanna telja að nýlegar sviptingar í efnahagsmálum, þar sem nú er búist við samdrætti í efnahagslífinu vegna loðnubrests og gjaldþrots WOW air í stað áframhaldandi hagvaxtar, muni stöðva hugmyndir um uppsetningu Þjóðarsjóðsins, að minnsta kosti um stundarsakir. Við blasi að ríkissjóði vanti fjármagn til að láta fjármálaáætlanir sínar ganga upp og stjórnarliðar viti að ekki yrði vinsælt ef að það fjármagn yrði fundið með miklum niðurskurði. Þess vegna verði fjármagnið sem ætti að renna inn í Þjóðarsjóð, arðgreiðslur frá Landsvirkjun, frekar nýtt í önnur verkefni í nánustu framtíð.

Fiskeldi og leyfisbréf

Hin tvö stóru deilumálin snúast um frumvörp sem bíða þriðju umræðu og snúa að fiskeldismálum. Annað er vegna áhættumats erfðablöndunar, úthlutunar eldissvæða og stjórnvaldssekta. Hitt vegna töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóðs.

Mjög mismunandi hljóð er í viðmælendum Kjarnans vegna þessara mála. Stjórnarliðar eru bjartsýnir um að málin klárist en stjórnarandstæðingar eru sumir hverjir með miklar fyrirvara.

Fjórða málið sem ósætti er um er frumvarp sem stefnir að því að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennslu í stað þriggja, einu fyrir hvert skólastig. Ávinningur þess á að fela sér aukinn sveigjanleika og fjölbreytni. Sú grundvallarbreyting verður þá gerð á inntaki kennaranáms að tekin verða upp hæfnisviðmið. Afar skiptar skoðanir eru á meðal fagfélaga kennara um málið og sömu sögu er að segja um stöðuna meðal þingmanna.

Náist sátt um hvaða stjórnarmál hljóti brautargengi og hvaða málum stjórnarandstöðunnar verði hleypt á dagskrá er hægt að semja um hvenær og hvernig þingstörfum ljúki.

Breyttar víglínur

En íslensk stjórnmál eru ekki jafn borðleggjandi og þau voru áratugum saman. Víglínurnar á átta flokka Alþingi þar sem ríkisstjórn frá vinstri, yfir miðju og til hægri situr að völdum, eru annars konar en áður þekktist. Helstu átökin sem hafa endurspeglast í ýmsum stórum málum, t.d. þungunarrofsmálinu og umræðum um þriðja orkupakkann, eru milli frjálslyndis og íhaldssemi, ekki vinstri og hægri kvarðans.

Málþóf Miðflokksins vegna þriðja orkupakkans hefur svo teiknað upp algjörlega nýja stöðu. Allir hinir stjórnarandstöðuflokkarnir styðja að það mál verði afgreitt, meira að segja Flokkur fólksins sem mun þó ekki samþykkja málið. Það sé fullrætt. Miðflokksmenn eru því ósammála en virðast ekki með skýra leið um hvernig þeir ætla að enda þá vegferð. Þá hlýtur ný könnun Gallup, sem birt var í byrjun viku, að vera flokknum mikil vonbrigði. Þrátt fyrir að Miðflokkurinn hafi haft nánast allt dagskrárvald á Alþingi undanfarið þá hækkar fylgi flokksins lítið og breytingar á fylgi flestra flokka milli mánaða voru innan skekkjumarka.  


Í síðustu viku var samþykkt að fresta áframhaldandi umræðum um þriðja orkupakkann til að hleypa öðrum málum á dagskrá og leit Miðflokkurinn á það sem mikinn sigur. Sú frestun varð ekki til þess að það liðkaðist fyrir þinglokum og á fundi formanna stjórnmálaflokkanna á sunnudag var það mat viðmælenda Kjarnans að Miðflokkurinn væri ekki tilbúinn í að semja um þinglok á neinum þeim forsendum sem stjórnarflokkarnir eða hinir stjórnarandstöðuflokkarnir vildu. Því væri uppi pattstaða.

Tekist á um ábyrgð á Miðflokknum

Vegna þess að pattstaðan er óvenjuleg liggur ekki fyrir hvernig eigi að leysa hana. Stjórnarflokkarnir telja að stjórnarandstaðan verði að koma sér saman um hvernig eigi að semja um þinglok. Í stöðuuppfærslu Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, sem birt var í dag sagði meðal annars: „Staðan í þinginu er nú sú að Miðflokkurinn er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Því neyðast hinir fjórir stjórnarandstöðuflokkarnir að koma sér saman um ákveðin mál, við Miðflokkinn. Þau mál leggur sameinuð stjórnarandstaða síðan áherslu á við þinglokin gagnvart ríkisstjórninni. Það er ekki fræðilega mögulegt fyrir ríkisstjórnina að semja um þinglok við stjórnarandstöðu a og semja svo með örðum hætti við stjórnarandstöðu b. Menn verða bara að koma sér saman um hvernig þinglokin verða. Punktur!“

SAMVINNA - RÍKISSTJÓRN - STJÓRNARANDSTAÐA Núverandi stjórnarandstöðuflokkar eru ólíkir og eiga ef til vill fátt...

Posted by Silja Dögg Gunnarsdóttir on Tuesday, June 4, 2019

Meirihluti stjórnarandstöðunnar, þ.e. allir flokkar nema Miðflokkurinn, hafa aðra skoðun á málinu og líta svo á að Miðflokkurinn geti ekki bara verið vandamál andstöðunnar. Þegar þrír ólíkir flokkar ákveði að mynda fordæmalausa ríkisstjórn þvert á öll hefðbundin viðmið þá verði hún að búast við því að stjórnarandstaðan sem hún skilji eftir verði ekki jafn einsleit og sammála og hefur verið þegar skýr stjórn er mynduð til annað hvort hægri eða vinstri.

Þessi staða endurspeglast ágætlega í stöðuuppfærslu Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem birt var í gær. Þar sagði hún: „Það sem truflar mig við endurtekið ofbeldi Miðflokksþingfólks ( áður gegn konum, hinsegin fólki og fötluðum, nú gegn lýðræðinu) er hvernig ríkisstjórnin reynir að klína ábyrgðinni á hegðun þeirra á stjórnarandstöðuna eins og við höfum valið að starfa saman eða höfum yfirleitt dagskrárvaldið. Stjórnarflokkar hins vegar greiddu atkvæði með tillögum miðflokks og gegn okkar tillögum í formannsskiptum í umhverfis og samgöngunefnd og leggja núna ekkert til lausnar á miðflokksyfirtöku á Alþingi.“

Það sem truflar mig við endurtekið ofbeldi Miðflokksþingfólks ( áður gegn konum, hinsegin fólki og fötluðum, nú gegn...

Posted by Helga Vala Helgadóttir on Sunday, June 2, 2019

Bak við tjöldin hafa þó átt sér stað óformlegar viðræður milli stjórnar og meirihluta stjórnarandstöðu um hvernig eigi að leysa bæði málþóf Miðflokksins og hvernig eigi að stuðla að þinglokum.

Það er því ekki útilokað að sú staða gæti komið upp að samið verði um þinglok milli fjögurra flokka úr stjórnarandstöðu – allra nema Miðflokksins – og ríkisstjórnarflokkanna.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar