Bára Huld Beck

Risapakki til að bjarga íslensku atvinnulífi kynntur í vikunni

Íslensk stjórnvöld munu á allra næstu dögum kynna nýjar aðgerðir, af áður óþekktri stærðargráðu, sem eiga að aðstoða íslensk fyrirtæki sem verða fyrir lausafjárskorti við að komast í gegnum fyrirsjáanlegar efnahagslegar aðstæður. Um verður að ræða aðgerð upp á tugi milljarða króna hið minnsta.

Íslensk stjórn­völd eru að und­ir­búa stórar efna­hags­legar aðgerðir til að koma íslenskum fyr­ir­tækj­um, sem fyr­ir­sjá­an­legt er að mörg hver lendi í miklum vand­ræðum strax um kom­andi mán­aða­mót vegna skorts á lausu fé, til aðstoð­ar. 

Aðgerð­irnar verða án for­dæma og allt ann­ars eðlis en það sem var til að mynda gert í banka­hrun­inu 2008, þegar hægt var að setja neyð­ar­lög og höft til að tryggja útflæði fjár­muna svo að mögu­legt væri að við­halda venju­leik­anum upp að því marki sem kostur var. Svo var hægt að nýta það svig­rúm sem skap­að­ist til að end­ur­skipu­leggja atvinnu­lífið og fjár­mála­kerf­ið. Það er ekki hægt nú. Vand­inn sem íslensku fyr­ir­tækin standa mörg hver frammi fyrir í dag er ann­ars eðl­is. Krónur eru ein­fald­lega ekki að skila sér í kass­ann. Það hefur ruðn­ings­á­hrif út um allt atvinnu­líf­ið. 

Heim­ildir Kjarn­ans herma að aðgerð­irnar verði kynntar þegar líður á vik­una, en lík­lega ekki fyrr á mið­viku­dag hið fyrsta. Þær munu fela í sér sam­bæri­legar leiðir til að aðstoða fyr­ir­tæki og mörg önnur lönd hafa þegar til­kynnt um. Þ.e. sér­stakar aðgerðir til að hjálpa stórum, og kerf­is­lega mik­il­vægum fyr­ir­tækj­um, mögu­lega með því að kaupa skulda­bréf þeirra, en mögu­lega eftir öðrum leið­um, og svo aðrar aðferðir til að aðstoða líf­væn­leg lítil og með­al­stór fyr­ir­tæki í gegnum banka­kerf­ið, mögu­lega með því að ríkið gang­ist í ábyrgð fyrir lánum til þeirra.

Ljóst er að kostn­aður við aðgerð­irnar verður gríð­ar­legur og að ganga verður á gjald­eyr­is­vara­forða þjóð­ar­inn­ar, sem stendur nú í 856 millj­örðum króna, til að halda líf­inu í fjöl­mörgum fyr­ir­tækj­um. Við­búið er að aðgerð­irnar muni kosta tugi millj­arða króna hið minnsta. Seðla­bank­inn mun einnig koma að aðgerð­unum með þeim vopnum sem hann býr yfir.

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans verða aðgerð­irnar kynntar með skipu­lögðum hætti á kynn­ing­ar­fundi sem er í und­ir­bún­ingi og verður haldin á næstu dög­um. Þar verður lögð áhersla á að staða Íslands til að takast á við það efna­hags­lega áfall sem sé þegar byrjað að raun­ger­ast sé góð, skuldir séu lágar og stór vara­sjóður sé til staðar sem skýr vilji sé til að nota. 

Allt breytt á viku

Á þriðju­dag í síð­ustu viku héldu Katrín Jak­obs­dóttir for­­sæt­is­ráð­herra, ­Bjarni Bene­dikts­­son fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra og Sig­­urður Ingi Jóhanns­­son sam­göngu- og sveit­­ar­­stjórn­­­ar­ráð­herra blaða­manna­fund til að kynna aðgerðir rík­­is­­stjórn­­­ar­innar til að mæta efna­hags­­legum áhrifum kór­ón­u­veirunn­­ar.

Þá voru helstu mark­aðir Íslands enn opn­ir, og skipti þar sér­stak­lega máli aðgengi að Banda­ríkja­mark­aði en 29,2 pró­sent alls útflutn­ings Íslands á þjón­ustu var inn á þann markað í fyrra. Þar var að langstærstu leyti um ferða­menn að ræða. Alls var um að ræða 202 millj­arða króna í þjón­ustu­tekjum sem koma frá þessu eina land­i. 

Á nefnd­ar­fundum sem haldnir voru á þingi í byrjun síð­ustu viku komu gestir sem töl­uðu um að ferða­menn sem myndu heim­sækja Ísland heim á árinu gætu orð­ið, miðað við svört­ustu sviðs­mynd­ina, 1,6 millj­ón­ir. Það myndi þýða fækkun um 400 þús­und frá því í fyrra og 700 þús­und frá árinu 2018. 

Við þess­ari stöðu var rík­is­stjórnin að bregð­ast á þriðju­dag­inn í síð­ustu viku þegar hún sagði frá sjö aðgerðum sem áttu að mæta þeirri efna­hags­legu stöðu sem upp var kom­in.  

Í þeim pakka voru meðal ann­ars aðgerðir sem þegar höfðu verið kynnt­ar, eins og til­færsla á inn­stæðum Íbúða­lána­sjóðs úr Seðla­banka Íslands og yfir til við­skipta­banka til að auka laust fé innan þeirra.

Þá hafði áður verið greint frá því að aukin kraftur yrði settur í fjár­fest­ingar hins opin­bera og engar nýjar slíkar til­greindar á blaða­manna­fundi rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Þar var hins vegar greint frá því að fyr­ir­tækjum sem lenda í tíma­bundnum rekstr­­ar­örð­ug­­leik­um ­vegna tekju­­falls verði veitt svig­­rúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opin­berum gjöld­um og að gistin­átta­skattur verði felldur nið­ur. Hann hefur skilað rúm­lega einum millj­arði króna í tekjum á und­an­förnum árum en fyrir liggur að gistin­átta­skatt­ur­inn, sem er 300 krónur á hverja selda gistinótt, mun hvort eð er skila mun minna í tekjur fyrir rík­is­sjóð ef ferða­menn eru ekki að koma til lands­ins. 

Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson tóku báðir til máls á blaðamannafundinum fyrir tæpri viku síðan. Þær aðgerðir sem þar voru boðaðar duga ekki lengur til.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá greindi rík­is­stjórnin frá því að hún ætl­aði í mark­aðsá­tak erlendis „þeg­ar að­­stæður skap­­ast til þess að kynna Ísland sem áfanga­­stað, auk átaks til að hvetja til ferða­laga Íslend­inga inn­­an­lands.“ Bjarni sagði á blaða­manna­fund­inum að í átak­inu fælist að mark­aðs­setja Ísland sem áfanga­stað „þegar að ský dregur frá sólu og aðstæður eru að nýju orðn­­ar hag­­felldar til að kalla ferða­­menn til lands­ins. Þá verðum við til­­­bú­in.“

Stjórn­völd ætl­uðu svo að eiga virkt sam­tal um það hvernig bankar gætu tekið á stöðu fyr­ir­tækja sem geta ekki staðið við greiðslur af lánum né almennar rekstr­ar­greiðsl­ur, eins og launa­greiðsl­ur, hefur verið í gangi en engin nið­ur­staða kynnt um hvernig þeim málum verði háttað að öðru leyti en að til standi að reyna að fleyta „líf­væn­legum fyr­ir­tækj­um“ í gegnum þann kúf sem framundan væri með því að veita þeim sem lentu í tíma­bundnum lausa­fjár­skorti súr­efn­i. 

Engar leiðir voru hins vegar útfærðar í þessum efnum og engar tölur um kostnað nefnd­ar. 

Seðla­banki Íslands fylgdi svo í kjöl­farið á mið­viku­dag og lækk­aði vexti um 0,5 pró­sentu­stig niður í 2,25 pró­sent, lægstu vexti sem hann hefur nokkru sinni boðið upp á. Sömu­leiðis afnam hann með­al­tals bindi­skyldu banka sem losar um nokkra tugi millj­arða króna fyrir íslenska banka til að lána út.

Bætt við en ekki nóg

Íslensk stjórn­völd bættu aðeins í sínar aðgerðir í lok síð­ustu viku, meðal ann­ars með því að veita fyr­ir­tækjum mán­að­ar­frest á að greiða helm­ing þeirra opin­beru gjalda sem eru á eindaga í dag, 16. mars. Þetta þýðir að 22 millj­arðar króna sem ættu að skila sér í dag koma að óbreyttu frekar inn eftir mán­uð. Flestir við­mæl­endur Kjarn­ans eru sam­mála um að þarna hafi fyrst og síð­ast verið á ferð­inni aðgerð til að kaupa tíma fyrir Icelanda­ir, sem horfir fram á hrun í rekstri sín­um, svo að hægt sé að end­ur­skipu­leggja rekst­ur­inn miðað við algjör­lega nýjar for­send­ur.  

Þá sam­þykkti rík­is­stjórnin að auka atvinnu­leys­is­bóta­rétt til 1. júlí og heim­ila fyr­ir­tækjum að setja hluta starfs­manna í hluta­starf án þess að það skerði rétt þeirra til að fá atvinnu­leys­is­bæt­ur. Vinnu­veit­andi mun þá geta lækkað starfs­hlut­fall starfs­manns um 20 til 50 pró­sent en heild­ar­greiðslur til launa­fólks munu  munu ekki geta numið hærri fjár­­hæð en 80 pró­­sent af með­­al­tali heild­­ar­­launa laun­þega á síð­­­ustu þremur mán­uðum fyrir minnkað starfs­hlut­­fall, og eigi meira en 650 þús­und krónum í heild­ina. 

Þetta frum­varp hefur þó ekki verið sam­þykkt á Alþingi og mögu­leiki á að það muni taka breyt­ingum í ljós breyttra aðstæðn­a. 

Stefnir í hrun í lyk­ilat­vinnu­grein með til­heyr­andi ruðn­ings­á­hrifum

Efna­hags­legar afleið­ingar vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúk­dómnum fyrir Íslend­inga hafa stökk­breyst á einni viku. Mörg okkar helstu við­skipta­lönd hafa lokað landa­mærum sínum alveg á þeim tíma til að takast á við aukna útbreiðslu veirunn­ar. 

Banda­ríkja­menn til­kynntu um sínar aðgerðir aðfara­nótt fimmtu­dags og landa­mæri þeirra lok­uð­ust fyrir Íslend­ingum á mið­nætti á föstu­dags­kvöld. Norð­menn, Dan­ir, Spán­verjar, Frakkar og nú síð­ast Þjóð­verjar hafa gripið til lok­unar eða umtals­verða tam­kark­ana á för fólks yfir landa­mæri sín. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um lokun landamæra Bandaríkjanna fyrir íbúum Evrópu í síðustu viku. Bandaríkjamenn eru fjölmennasti hópur ferðamanna sem sækir Ísland heim.
Mynd EPA

Öll Evr­ópa hefur gripið til for­dæma­lausra aðgerða á frið­ar­tímum þar sem tak­manir eru settar á atvinnu­starf­semi, skóla­starf og sam­komur fólks. 

Þessar aðgerð­ir, sem eru til að hemja far­sótt sem vonir standa til að geisi í nokkrar mán­uði, mun hafa líka hafa marg­hátt­aðar afleið­ingar til lengri tíma, sér­stak­lega efna­hags­leg­ar. Hversu langan tíma það mun taka íbúa heims­ins að geta, og jafn­vel vilja, ferð­ast aftur veit eng­inn almenni­lega á þess­ari stund­u. 

Fyrir land eins og Íslands, þar sem ferða­þjón­ustan skilað um þriðj­ungi allra útflutn­ings­tekna Íslend­inga árið 2018 og var um 11 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu, verður þetta gríð­ar­legt högg, og mun stærra en mörg önnur lönd sem treysta á ferða­þjón­ustu. Í fyrra komu flestir ferða­menn sem heim­sóttu Ísland frá eft­ir­far­andi tíu lönd­um: Banda­ríkj­un­um, Bret­landi, Kína, Þýska­landi, Frakk­landi, Pólandi, Kana­da, Spáni, Dan­mörku og Ítal­íu. Þessir ferða­menn voru 71,3 pró­sent þeirra sem komu hingað til lands á tíma­bil­inu. Eina landið af þessum tíu sem er enn með opin landa­mæri er Kanada.  

Við blasir hrun í íslenskri ferða­þjón­ustu með mörg hund­ruð millj­arða króna tekju­tapi á árs­grund­velli. Keðju­verk­andi áhrif þess á íslenskt sam­fé­lag, og flesta anga atvinnu­lífs­ins, verða gríð­ar­leg.

Byrjað að rúlla út stóru björg­un­ar­pökk­unum

Ýmis ríki kynntu á síð­ustu dögum aðgerðir til að styðja við efna­hags­líf­ið. Banda­ríski seðla­bank­inn lækk­aði vexti þannig að þeir eru nú í eða við núllið auk þess sem hann sagð­ist ætla að beita öllu vopna­búr­inu sínu til að sjá banda­rísku atvinnu­lífi fyrir lausu fé. 

Þjóð­verjar kynntu 500 millj­arða evra pakka sem verður komið til fyr­ir­tækj­anna í land­inu í gegnum rík­is­banka. Danska ríkið ætlar að greiða allt að 75 pró­sent af launum starfs­fólks fyr­ir­tækja til að koma í veg fyrir fjölda­upp­sagn­ir. 

Erna Sol­berg for­­­sæt­is­ráð­herra Nor­egs og Jan Tore Sann­er, fjár­­­­­mála­ráð­herra lands­ins, kynntu svo í gær­­kvöldi björg­un­­ar­­pakka upp á að minnsta kosti 100 millj­­­arða norskra króna, sem eru um 1.340 millj­­­arðar íslenskra króna, sem not­aður verður til að styðja við norsk fyr­ir­tæki vegna áhrifa sem þau verða fyrir vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúk­­­dómn­­­um. 

Ann­ars vegar verða skulda­bréf keypt af stórum fyr­ir­tækjum fyrir 50 millj­arða norskra króna og hins vegar verða veittar ábyrgðir fyrir lánum uppá að minnsta kosti 50 millj­arða norskra króna í bönkum fyrir lítil og milli­­­­­stór fyr­ir­tæki svo þau geti fengið fyr­ir­greiðslu til að kom­­­ast í gegnum það ástand sem nú er uppi. Með þessu ættu fyr­ir­tækin að geta tryggt sér laust fé til að lifa af. 

Þessi leið nær til þeirra fyr­ir­tækja sem bankar meta sem svo að séu arð­­­bær til lengri tíma lít­ið, en að gætu jafn­­­vel lent i gjald­­­þroti að óbreyttu vegna þeirra áhrifa sem útbreiðsla kór­ón­u­veirunnar og aðgerðir ríkja heims vegna hennar eru að hafa á allt efna­hags­­­kerf­ið.  

Í vik­unni verður svo komið að Íslend­ingum að kynna sinn pakka. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar