Bára Huld Beck

Risapakki til að bjarga íslensku atvinnulífi kynntur í vikunni

Íslensk stjórnvöld munu á allra næstu dögum kynna nýjar aðgerðir, af áður óþekktri stærðargráðu, sem eiga að aðstoða íslensk fyrirtæki sem verða fyrir lausafjárskorti við að komast í gegnum fyrirsjáanlegar efnahagslegar aðstæður. Um verður að ræða aðgerð upp á tugi milljarða króna hið minnsta.

Íslensk stjórnvöld eru að undirbúa stórar efnahagslegar aðgerðir til að koma íslenskum fyrirtækjum, sem fyrirsjáanlegt er að mörg hver lendi í miklum vandræðum strax um komandi mánaðamót vegna skorts á lausu fé, til aðstoðar. 

Aðgerðirnar verða án fordæma og allt annars eðlis en það sem var til að mynda gert í bankahruninu 2008, þegar hægt var að setja neyðarlög og höft til að tryggja útflæði fjármuna svo að mögulegt væri að viðhalda venjuleikanum upp að því marki sem kostur var. Svo var hægt að nýta það svigrúm sem skapaðist til að endurskipuleggja atvinnulífið og fjármálakerfið. Það er ekki hægt nú. Vandinn sem íslensku fyrirtækin standa mörg hver frammi fyrir í dag er annars eðlis. Krónur eru einfaldlega ekki að skila sér í kassann. Það hefur ruðningsáhrif út um allt atvinnulífið. 

Heimildir Kjarnans herma að aðgerðirnar verði kynntar þegar líður á vikuna, en líklega ekki fyrr á miðvikudag hið fyrsta. Þær munu fela í sér sambærilegar leiðir til að aðstoða fyrirtæki og mörg önnur lönd hafa þegar tilkynnt um. Þ.e. sérstakar aðgerðir til að hjálpa stórum, og kerfislega mikilvægum fyrirtækjum, mögulega með því að kaupa skuldabréf þeirra, en mögulega eftir öðrum leiðum, og svo aðrar aðferðir til að aðstoða lífvænleg lítil og meðalstór fyrirtæki í gegnum bankakerfið, mögulega með því að ríkið gangist í ábyrgð fyrir lánum til þeirra.

Ljóst er að kostnaður við aðgerðirnar verður gríðarlegur og að ganga verður á gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar, sem stendur nú í 856 milljörðum króna, til að halda lífinu í fjölmörgum fyrirtækjum. Viðbúið er að aðgerðirnar muni kosta tugi milljarða króna hið minnsta. Seðlabankinn mun einnig koma að aðgerðunum með þeim vopnum sem hann býr yfir.

Samkvæmt heimildum Kjarnans verða aðgerðirnar kynntar með skipulögðum hætti á kynningarfundi sem er í undirbúningi og verður haldin á næstu dögum. Þar verður lögð áhersla á að staða Íslands til að takast á við það efnahagslega áfall sem sé þegar byrjað að raungerast sé góð, skuldir séu lágar og stór varasjóður sé til staðar sem skýr vilji sé til að nota. 

Allt breytt á viku

Á þriðjudag í síðustu viku héldu Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra, ­Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra og Sig­urður Ingi Jóhanns­son samgöngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra blaðamannafund til að kynna aðgerðir rík­is­stjórn­ar­innar til að mæta efna­hags­legum áhrifum kór­ónu­veirunn­ar.

Þá voru helstu markaðir Íslands enn opnir, og skipti þar sérstaklega máli aðgengi að Bandaríkjamarkaði en 29,2 prósent alls útflutnings Íslands á þjónustu var inn á þann markað í fyrra. Þar var að langstærstu leyti um ferðamenn að ræða. Alls var um að ræða 202 milljarða króna í þjónustutekjum sem koma frá þessu eina landi. 

Á nefndarfundum sem haldnir voru á þingi í byrjun síðustu viku komu gestir sem töluðu um að ferðamenn sem myndu heimsækja Ísland heim á árinu gætu orðið, miðað við svörtustu sviðsmyndina, 1,6 milljónir. Það myndi þýða fækkun um 400 þúsund frá því í fyrra og 700 þúsund frá árinu 2018. 

Við þessari stöðu var ríkisstjórnin að bregðast á þriðjudaginn í síðustu viku þegar hún sagði frá sjö aðgerðum sem áttu að mæta þeirri efnahagslegu stöðu sem upp var komin.  

Í þeim pakka voru meðal annars aðgerðir sem þegar höfðu verið kynntar, eins og tilfærsla á innstæðum Íbúðalánasjóðs úr Seðlabanka Íslands og yfir til viðskiptabanka til að auka laust fé innan þeirra.

Þá hafði áður verið greint frá því að aukin kraftur yrði settur í fjárfestingar hins opinbera og engar nýjar slíkar tilgreindar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. Þar var hins vegar greint frá því að fyrirtækjum sem lenda í tíma­bundnum rekstr­ar­örð­ug­leik­um ­vegna tekju­falls verði veitt svig­rúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opin­berum gjöld­um og að gistináttaskattur verði felldur niður. Hann hefur skilað rúmlega einum milljarði króna í tekjum á undanförnum árum en fyrir liggur að gistináttaskatturinn, sem er 300 krónur á hverja selda gistinótt, mun hvort eð er skila mun minna í tekjur fyrir ríkissjóð ef ferðamenn eru ekki að koma til landsins. 

Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson tóku báðir til máls á blaðamannafundinum fyrir tæpri viku síðan. Þær aðgerðir sem þar voru boðaðar duga ekki lengur til.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá greindi ríkisstjórnin frá því að hún ætlaði í mark­aðsátak erlendis „þeg­ar að­stæður skap­ast til þess að kynna Ísland sem áfanga­stað, auk átaks til að hvetja til ferða­laga Íslend­inga inn­an­lands.“ Bjarni sagði á blaðamannafundinum að í átakinu fælist að markaðssetja Ísland sem áfangastað „þegar að ský dregur frá sólu og aðstæður eru að nýju orðn­ar hag­felldar til að kalla ferða­menn til lands­ins. Þá verðum við til­bú­in.“

Stjórnvöld ætluðu svo að eiga virkt samtal um það hvernig bankar gætu tekið á stöðu fyrirtækja sem geta ekki staðið við greiðslur af lánum né almennar rekstrargreiðslur, eins og launagreiðslur, hefur verið í gangi en engin niðurstaða kynnt um hvernig þeim málum verði háttað að öðru leyti en að til standi að reyna að fleyta „lífvænlegum fyrirtækjum“ í gegnum þann kúf sem framundan væri með því að veita þeim sem lentu í tímabundnum lausafjárskorti súrefni. 

Engar leiðir voru hins vegar útfærðar í þessum efnum og engar tölur um kostnað nefndar. 

Seðlabanki Íslands fylgdi svo í kjölfarið á miðvikudag og lækkaði vexti um 0,5 prósentustig niður í 2,25 prósent, lægstu vexti sem hann hefur nokkru sinni boðið upp á. Sömuleiðis afnam hann meðaltals bindiskyldu banka sem losar um nokkra tugi milljarða króna fyrir íslenska banka til að lána út.

Bætt við en ekki nóg

Íslensk stjórnvöld bættu aðeins í sínar aðgerðir í lok síðustu viku, meðal annars með því að veita fyrirtækjum mánaðarfrest á að greiða helming þeirra opinberu gjalda sem eru á eindaga í dag, 16. mars. Þetta þýðir að 22 milljarðar króna sem ættu að skila sér í dag koma að óbreyttu frekar inn eftir mánuð. Flestir viðmælendur Kjarnans eru sammála um að þarna hafi fyrst og síðast verið á ferðinni aðgerð til að kaupa tíma fyrir Icelandair, sem horfir fram á hrun í rekstri sínum, svo að hægt sé að endurskipuleggja reksturinn miðað við algjörlega nýjar forsendur.  

Þá samþykkti ríkisstjórnin að auka atvinnuleysisbótarétt til 1. júlí og heimila fyrirtækjum að setja hluta starfsmanna í hlutastarf án þess að það skerði rétt þeirra til að fá atvinnuleysisbætur. Vinnuveitandi mun þá geta lækkað starfshlutfall starfsmanns um 20 til 50 prósent en heildargreiðslur til launafólks munu  munu ekki geta numið hærri fjár­hæð en 80 pró­sent af með­al­tali heild­ar­launa laun­þega á síð­ustu þremur mán­uðum fyrir minnkað starfs­hlut­fall, og eigi meira en 650 þús­und krónum í heild­ina. 

Þetta frumvarp hefur þó ekki verið samþykkt á Alþingi og möguleiki á að það muni taka breytingum í ljós breyttra aðstæðna. 

Stefnir í hrun í lykilatvinnugrein með tilheyrandi ruðningsáhrifum

Efnahagslegar afleiðingar vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum fyrir Íslendinga hafa stökkbreyst á einni viku. Mörg okkar helstu viðskiptalönd hafa lokað landamærum sínum alveg á þeim tíma til að takast á við aukna útbreiðslu veirunnar. 

Bandaríkjamenn tilkynntu um sínar aðgerðir aðfaranótt fimmtudags og landamæri þeirra lokuðust fyrir Íslendingum á miðnætti á föstudagskvöld. Norðmenn, Danir, Spánverjar, Frakkar og nú síðast Þjóðverjar hafa gripið til lokunar eða umtalsverða tamkarkana á för fólks yfir landamæri sín. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um lokun landamæra Bandaríkjanna fyrir íbúum Evrópu í síðustu viku. Bandaríkjamenn eru fjölmennasti hópur ferðamanna sem sækir Ísland heim.
Mynd EPA

Öll Evrópa hefur gripið til fordæmalausra aðgerða á friðartímum þar sem takmanir eru settar á atvinnustarfsemi, skólastarf og samkomur fólks. 

Þessar aðgerðir, sem eru til að hemja farsótt sem vonir standa til að geisi í nokkrar mánuði, mun hafa líka hafa margháttaðar afleiðingar til lengri tíma, sérstaklega efnahagslegar. Hversu langan tíma það mun taka íbúa heimsins að geta, og jafnvel vilja, ferðast aftur veit enginn almennilega á þessari stundu. 

Fyrir land eins og Íslands, þar sem ferðaþjónustan skilað um þriðjungi allra útflutningstekna Íslendinga árið 2018 og var um 11 prósent af vergri landsframleiðslu, verður þetta gríðarlegt högg, og mun stærra en mörg önnur lönd sem treysta á ferðaþjónustu. Í fyrra komu flestir ferðamenn sem heimsóttu Ísland frá eftirfarandi tíu löndum: Bandaríkjunum, Bretlandi, Kína, Þýskalandi, Frakklandi, Pólandi, Kanada, Spáni, Danmörku og Ítalíu. Þessir ferðamenn voru 71,3 prósent þeirra sem komu hingað til lands á tímabilinu. Eina landið af þessum tíu sem er enn með opin landamæri er Kanada.  

Við blasir hrun í íslenskri ferðaþjónustu með mörg hundruð milljarða króna tekjutapi á ársgrundvelli. Keðjuverkandi áhrif þess á íslenskt samfélag, og flesta anga atvinnulífsins, verða gríðarleg.

Byrjað að rúlla út stóru björgunarpökkunum

Ýmis ríki kynntu á síðustu dögum aðgerðir til að styðja við efnahagslífið. Bandaríski seðlabankinn lækkaði vexti þannig að þeir eru nú í eða við núllið auk þess sem hann sagðist ætla að beita öllu vopnabúrinu sínu til að sjá bandarísku atvinnulífi fyrir lausu fé. 

Þjóðverjar kynntu 500 milljarða evra pakka sem verður komið til fyrirtækjanna í landinu í gegnum ríkisbanka. Danska ríkið ætlar að greiða allt að 75 prósent af launum starfsfólks fyrirtækja til að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir. 

Erna Solberg for­­sæt­is­ráð­herra Nor­egs og Jan Tore Sanner, fjár­­­mála­ráð­herra lands­ins, kynntu svo í gær­kvöldi björg­un­ar­pakka upp á að minnsta kosti 100 millj­­arða norskra króna, sem eru um 1.340 millj­­arðar íslenskra króna, sem not­aður verður til að styðja við norsk fyr­ir­tæki vegna áhrifa sem þau verða fyrir vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúk­­dómn­­um. 

Annars vegar verða skuldabréf keypt af stórum fyrirtækjum fyrir 50 milljarða norskra króna og hins vegar verða veittar ábyrgðir fyrir lánum uppá að minnsta kosti 50 milljarða norskra króna í bönkum fyrir lítil og milli­­­stór fyr­ir­tæki svo þau geti fengið fyr­ir­greiðslu til að kom­­ast í gegnum það ástand sem nú er uppi. Með þessu ættu fyr­ir­tækin að geta tryggt sér laust fé til að lifa af. 

Þessi leið nær til þeirra fyr­ir­tækja sem bankar meta sem svo að séu arð­­bær til lengri tíma lít­ið, en að gætu jafn­­vel lent i gjald­­þroti að óbreyttu vegna þeirra áhrifa sem útbreiðsla kór­ón­u­veirunnar og aðgerðir ríkja heims vegna hennar eru að hafa á allt efna­hags­­kerf­ið.  

Í vikunni verður svo komið að Íslendingum að kynna sinn pakka. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar