Mynd: 123rf.com

Hlutur olíufélaga í hverjum seldum bensínlítra aldrei verið hærri

Á einum mánuði hefur líklegt innkaupaverð olíufélaga á bensínlítra lækkað um meira en 60 prósent. Sú lækkun, sem er tilkomin vegna hruns á olíuverði á heimsmarkaði, hefur ekki skilað sér til íslenskra neytenda, enda bensínverð nánast það sama nú og það var um miðjan mars. Hlutur íslensku olíufélaganna í hverjum seldum lítra er hins vegar 78 prósent hærri en hún var í mars.

Á einum mánuði hefur líklegt innkaupaverð olíufélaga á bensínlítra lækkað um meira en 60 prósent. Sú lækkun, sem er tilkomin vegna hruns á olíuverði á heimsmarkaði, hefur ekki skilað sér til íslenskra neytenda, enda bensínverð nánast það sama nú og það var um miðjan mars. Hlutur íslensku olíufélaganna í hverjum seldum lítra er hins vegar 78 prósent hærri en hún var í mars.

Innkaupaverð á olíu er lægra en það hefur nokkru sinni verið og hlutur íslensku olíufélaga í hverjum seldum lítra hérlendis hefur aldrei verið hærri en hann er nú um stundir. Um miðjan síðasta mánuð kostaði einn lítri af bensíni á Íslandi 209,8 krónur og af honum fóru 18,52 prósent til olíufélaganna. Nú, eftir að heimsmarkaðsverð á olíu hefur hrunið um tugi prósenta á nokkrum vikum, hefur viðmiðunarverð á bensíni hérlendis nánast staðið í stað. Það er 208,9 krónur sem er einungis 0,4 prósent lægra verð en var um miðjan mars. Hlutur olíufélaganna í hverjum seldum lítra er hins vegar nú 32,96 prósent, eða 78 prósent hærri en hann var um miðjan mars. 

Þetta má sjá í nýjustu Bens­ín­vakt Kjarn­ans sem unnin er í sam­vinnu við Bensínverð.is og var birt í dag.

Auglýsing

Bens­ín­vakt Kjarn­ans reiknar út lík­­­­­legt inn­­­­­kaups­verð á bens­íni út frá verði á lítra til afhend­ingar í New York í upp­­­hafi hvers mán­aðar frá banda­rísku orku­­­stofn­un­inni EIA og miðgengi Bandaríkjadals gagn­vart íslenskri krónu í yfir­­­stand­andi mán­uði frá Seðla­­­banka Íslands.

Í þessum útreikn­ingum kann að skeika nokkru á hverjum tíma­­­punkti vegna lag­er­­­stöðu eða skamm­­­tíma­­­sveiflna á mark­aði. Nákvæmara væri að miða við verð á bens­íni til afhend­ingar í Rotterdam, en verð­­­upp­­­lýs­ingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagna­veit­­­um. Mis­­­munur á verði í New York og Rotterdam er þó yfir­­­­­leitt mjög lít­ill.

Hrun á heimsmarkaði

Samkvæmt nýjustu útreikningum hefur líklegt innkaupaverð á hvern lítra af bensíni lækkað um tæplega 61 prósent milli mars og apríl. Það er nú 19,92 krónur á lítra en var 50,65 krónur á lítra í marsmánuði. 

Ástæðan fyrir þessum miklu lækkum eru tvíþættar. Sú fyrri er miklu minni eftirspurn, meðal annars vegna þess að flugferðir hafa að mestu verið aflagðar. Raunar er um að ræða mesta samdrátt í eftirspurn á olíu sem átt hefur sér stað, nokkru sinni.

Viðmiðunarverð á bensíni hérlendis stendur nánast í stað milli mánaða þrátt fyrir að líklegt innkaupaverð hafi hríðfallið.
Mynd: Bensínvakt Kjarnans.

Hin ástæðan er ákvörðun Sádí-Arabíu, stærsta olíuframleiðanda í heimi, marsmánaðar að stórauka framleiðslu sína í stað þess að draga úr henni til að reyna að ná verðum aftur upp. Þetta gerður Sádar til að meðal annars vegna þess að ekki náðist samkomulag við Rússa um að þeir myndu takmarka olíuframleiðslu sína. 

Samkomulag náðist milli helstu olíuframleiðsluríkja heims um að draga úr framleiðslu um síðustu helgi en það virðist ekki hafa dugað til að hífa heimsmarkaðsverðið upp á ný, enda framleiðslan enn langt umfram eftirspurn.

Á móti hefur íslenska krónan veikst um 3,11 prósent gagnvart Bandaríkjadal síðastliðinn mánuð og alls um 17,65 prósent á árinu. Það gengi hefur umtals­verð áhrif á þróun elds­neyt­is­verðs hér­lendis þar sem að inn­kaup á elds­neyti fara fram í döl­u­m. 

Þrátt fyrir þessa miklu lækkun á heimsmarkaði þá hefur bensínverð hérlendis svo gott sem staðið í stað milli mánaða. Viðmiðunarverð á bensíni samkvæmt Bensínvakt Kjarnans fer úr 209,8 krónum á lítra í 208,9 krónur á lítra. Hlutdeild olíufélaganna í hverjum seldum lítra fer úr því að vera 18,52 prósent í mars í að vera 32,96 prósent í apríl. Hún hefur aldrei verið hærra en lægst fór hún í tæplega ellefu prósent í júní 2009. 

Hér má sjá hvernig hver seldur bensínlítri skiptist á milli ríkisins (gulu svæðin), innkaupaverðs (dökkbláa svæðið) og olíufélaganna (ljósbláa svæðið).
Mynd: Bensínvakt Kjarnans.

Viðmiðunarverðið er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.

Auglýsing

Hlutur olíufélags er reiknaður sem afgangsstærð þegar búið er að draga frá hlutdeild ríkisins í hverjum seldum bensínlítra og líklegt innkaupverð á honum frá reiknuðu viðmiðunarverði, enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar. 

Hlutur rík­­is­ins í hverjum lítra 57,5 pró­­sent

Íslenska ríkið tekur til sín stóran hluta af hverjum seldum lítra af bens­íni. Þannig fór 21,11 pró­­­sent af verði hans um miðjan apríl í sér­­­stakt bens­ín­gjald, 13,09 pró­­­sent í almennt bens­ín­­­gjald og 3,93 pró­­­sent í kolefn­is­­­gjald. Þá er ótalið að 19,35 pró­­­sent sölu­verðs er virð­is­auka­skatt­­­ur.

Sam­an­lagt fór því 120,12 krónur af hverjum seldum lítra til rík­­­is­ins, eða 57,5 pró­­­sent. Hæstur fór hlutur rík­­­is­ins í 60,26 pró­­­sent í júlí 2017.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar