Mynd: Bára Huld Beck

Miklu meiri fjárlagahalli en í nágrannalöndum

Ísland hyggst ganga mun lengra í hallarekstri í yfirstandandi kreppu en önnur Norðurlönd sem hafa kynnt fjárlagafrumvarp sitt til næsta árs. Þökk sé nýlegum breytingum á fjármálastefnunni hefur ríkisstjórnin nægt svigrúm til að reka ríkissjóð með halla.

Væntur halli á rekstri ríkissjóðs á næsta ári samkvæmt nýbirtu fjárlagafrumvarpi nemur tæpum níu prósentum af landsframleiðslu síðasta árs. Þetta yrði langmesti hallinn á rekstri ríkissjóðs meðal þeirra Norðurlanda sem birt hafa fjárlagafrumvarp, en Svíþjóð, Danmörk og Finnland gera öll ráð fyrir mun minni hallarekstri á næsta ári. 

Kjarninn greindi frá kynningu fjárlagafrumvarps til 2021 í gær, en þar er gert ráð fyrir því að 264 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs, þar sem ríkisstjórnin hyggst bregðast við yfirstandandi kreppu með auknum fjárútgjöldum, samhliða því sem tekjur hins opinbera minnka á milli ára. Þetta jafngildir tæpum níu prósentum af vergri landsframleiðslu í fyrra.

Auglýsing

Örvunarpakki í Finnlandi

Í fjármálafrumvarpi finnsku ríkisstjórnarinnar, sem lagt var fram fyrir tveimur vikum síðan, var einnig lögð áhersla á auknum fjárútlátum til þess að sporna gegn efnahagsáhrifum kreppunnar. Sanna Marin forsætisráðherra Finna sagði raunar að hugsa mætti um frumvarpið í heild sinni sem sérstakan örvunarpakka gegn kreppunni við kynningu þess.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissjóður landsins verði rekinn með 10,7 milljarða evra halla á næsta ári, sem samsvarar tæpum 4,5 prósentum af heildarframleiðslu landsins í fyrra, eða um helmingi minna en á Íslandi. 

Meira en tífaldur hallarekstur miðað við Danmörku

Danska ríkisstjórnin kynnti einnig fjárlagafrumvarp sitt um síðustu mánaðarmót, sem innihélt stóran neyðarsjóð sem átti að fara í efnahagslegar björgunaraðgerðir gegn kreppunni.

Hér er fjárlagahalli þeirra Norðurlanda borinn saman sem hlutfall af landsframleiðslu þeirra árið 2019.

Samkvæmt frumvarpinu mun neyðarsjóðurinn, sem kallaður er  „stríðskistan,“ innihalda rúma 9 milljarða danskra króna, sem jafngildir um 140 milljörðum íslenskra króna. Í frumvarpinu er þó einungis gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs muni nema um hálfu prósenti af landsframleiðslu Danmerkur á næsta ári, en það er minna en einn tíundi af hallarekstrinum hér á landi. 

Peningar engin hindrun

Fyrir rúmri viku síðan lagði svo sænska ríkisstjórnin fram fjárlagafrumvarp til næsta árs, en þar er gert ráð fyrir innspýtingu að andvirði 105 milljarða sænskra króna, eða um 1.600 milljarða íslenskra króna. Við kynningu frumvarpsins sagði Magdalena Andersson fjármálaráðherra landsins að peningar yrðu engin hindrun við að fá hjól sænska hagkerfisins aftur af stað.

Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, og Per Bolund, viðskipta- og húsnæðismálaráðherra, á kynningu frumvarpsins í september.
Mynd: EPA

Væntur hallarekstur yrði þó einnig miklu minni í Svíþjóð en á Íslandi, ef tekið er tillit til landsframleiðslu. Í fjárlögunum er gert ráð fyrir að sænski ríkissjóðurinn verði rekinn með halla upp á 67 milljarða sænskra króna á næsta ári, en það samsvarar 1,3 prósentum af landsframleiðslu síðasta árs. 

Góð staða ríkissjóðs veitir viðspyrnu

í kynningu sinni á fjárlagafrumvarpinu sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að góð staða ríkissjóðs við upphaf farsóttarinnar hafi gefið stjórnvöldum tækifæri til að bregðast kröftuglega við afleiðingum hennar með stuðningi við fólk og fyrirtæki í vanda. 

Þessi góða staða endurspeglast í lágu skuldahlutfalli, en opinberar skuldir námu 28 prósentum af landsframleiðslu í fyrra og höfðu ekki verið lægri í 13 ár. 

Ísland lítur líka vel út í norrænum samanburði. Samkvæmt tölum frá Eurostat námu ríkisskuldir 35 prósent af landsframleiðslu Svíþjóðar í fyrra, á meðan skuldahlutfall danska ríkissjóðsins nam 33 prósentum. Samsvarandi hlutfall í Finnlandi er nokkuð hærra, en þar voru skuldir ríkissjóðs tæp 60 prósent af landsframleiðslu í fyrra. 

Fjármálastefnunni breytt

Önnur ástæða meiri hallareksturs Íslendinga er sú að fjármálastefnan hér á landi leyfir meira svigrúm til útgjalda án fjármögnunar. Með breytingum sem Bjarni Benediktsson lagði til á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar í síðasta mánuði má halli á rekstri hins opinbera ná að hámarki 7 til 16 prósent af landsframleiðslu, en heimildin fer efti því hvernig efnahagsástandið þróast. Til samanburðar er hámarkshalli á rekstri hins opinbera í Danmörku einungis hálft prósent af landsframleiðslu. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar