Samsett mynd Stjórnarandstaðan 2020

Mammon alltaf nálægur, harkaleg umræða í pólitík – og sama hjakkið

Árið 2020 verður lengi í minnum haft sem fordæmalaust. Þess var vænst að mörg hundruð milljarða króna tap yrði á rekstri ríkissjóðs þetta árið, tugir þúsunda sáu fram á að verða án atvinnu og gríðar mörg fyrirtæki stóðu frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau kæmu til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti á vormánuðum og í byrjun sumars fimm fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna og fékk sýn þeirra á stöðu mála á þessu einkennilega ári, sem og framtíðarsýn þeirra fyrir Ísland.

Íslenska ríkið er búið setja gríðarlega fjármuni í að takast á við þá stöðu sem nú er uppi í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldurs. Deilt er um hvort nógu mikið, eða jafnvel of mikið, sé að gert til að mæta stöðu íbúa og fyrirtækja. Á meðan halda reikningarnir sem berast ríkissjóði áfram að hrannast upp.

Kjarninn hitti talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna fimm sem sitja á Alþingi og ræddi við þá um stöðuna og hver framtíðarsýn þeirra væri varðandi íslenskt samfélag.

Sjávarútvegsmálin eitt af stóru kosningamálunum

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í samtali við Kjarnann þegar hún var spurð út í pólitískar áherslur næsta árs að hún teldi að sjávarútvegsmálin yrðu eitt af stóru kosningamálunum á næsta ári „og þessi spilling og það sem við þurfum að horfa upp á daginn út og inn, þessi lítilsvirðing við borgarana og þessi sjálftaka elítunnar. Við erum búin að fá nóg af þessu og ég trúi því að við eigum eftir að láta í okkur heyra.“

Þannig hefði svokallað Samherjamál og „síðasta sumargjöfin“ – en þar vísaði Inga í yfirfærslu eignarhalds á Samherja hf. eigenda til barna sinna – ekki verið að gera sig og taldi hún að Íslendingar myndu í framhaldinu taka á sínum málum. Næsta kosningabarátta myndi í rauninni draga þessi atriði fram. „Ég vona að hún dragi sjálftökuvæðinguna beinustu leið fram í dagsljósið,“ sagði hún.

Auglýsing

Misjafnar skoðanir voru á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í COVID-19 faraldri eins og gengur og sagði Inga það vera lágmarkskröfu að stjórnvöld tækju utan um fjölskyldurnar og fátækt fólk í landinu á tímum sem þessum – á sama hátt og þau björguðu fyrirtækjunum. 


„Að ætla að halda því fram að fyrirtæki sem hafa verið að greiða sér milljarða í arð hafi þurft á því að halda að stinga fötunni strax undir ríkiskranann og eiga ekki krónu í eigið fé til þess að takast á við holskefluna og þessa brekku. Auðvitað hefðu þau átt að klifra sína brekku og nota sitt eigið fé og sýna að minnsta kosti smá reisn og virðingu við þjóðina sína. Við erum að henda björgunarhringum og við vonuðumst til fyrirtæki tækju við þeim sem þyrftu á að halda. En að hinir færu ekki að misnota þessa björgun.“


Ingu fannst aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar þó algjörlega lífsnauðsynlegar fyrir samfélagið, fyrirtækin og vinnandi fólk í landinu. „Það kom þó að því að sem mér fannst aðgerðirnar gjörsamlega hafa misst mark en það var þegar ríkisstjórnin ákvað að greiða fyrirtækjum fyrir að segja upp starfsmönnum sínum.“

Inga Sæland
Bára Huld Beck

Mammon er alltaf nálægur

Inga sagði að hún hefði viljað sjá gripið til aðgerða aðeins fyrr í sambandi við að hamla komu ferðamanna til landsins. „Ég vil meina að þá hefðum við sparað okkur marga tugi milljarða vegna þess að það botnfraus í ferðaþjónustunni – og það hefði alltaf gerst, sem og í afleiddum störfum. En við hefðum getað losnað við lokunarstyrki og ýmislegt annað. Við hefðum losnað við það að banna heimsóknir til ömmu og afa á hjúkrunarheimili og að mega ekki fara í ræktina og sund og verið í alls konar nálgunartakmörkunum og í samkomubanni ef við hefðum viðurkennt ástandið aðeins fyrr.“

Inga sagði að mammon væri alltaf nálægur og að sumir forðuðust að viðurkenna vandann sem þjóðir heimsins þyrftu að takast á við. Íslendingar hefðu átt að taka mark á þessum vanda fyrr.

Hún sagði aftur á móti að eftir að Íslendingar hefðu farið að taka til hendinni og vinna í þessum þáttum þá hefði þeim tekist dásamlega vel til. „Það er alveg æðislegt hvað þjóðin okkar er samstíga og hvað við gerðum þetta öll saman. Hvað allir hlýddu Víði vel, hvernig við tilbáðum þríeykið og við gerðum allt sem þau sögðu okkur að gera. Það er þess vegna sem við náum þessum frábæra árangri.“

Ekki hægt að una við fátækt

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að hann teldi að á Íslandi væri einfaldlega of lítið samfélag til þess að hægt væri að una við fátækt í sama mæli og kannski stórþjóðir gætu þar sem hægt væri að loka augunum fyrir svoleiðis. „Við þekkjum öll fólk sem er í vanda – þetta er svo nálægt okkur og ég held að við séum það ríkt land, bæði af mannauði en líka af náttúruauðlindum, að ef við skiptum þessu á milli okkar þá gætum við hreinlega verið fyrsta landið til þess að útrýma því sem að heitir fátækt á Íslandi.“

Hann benti á að 8.000 börn byggju við fátækt á Íslandi og að það snerti alla – því allir þekktu fjölskyldur sem glímdi við þessar aðstæður. Það væri hins vegar algjör óþarfi, að hans mati.

Auglýsing

Þegar Logi var spurður út í það hvers vegna þverpólitískt samstarf væri mikilvægt sagði hann að Íslendingar sigldu nú ekki inn í kreppu sem ætti sér stað vegna þess að ríkisstjórnin hefði gert mistök í sjálfu sér. „Auðvitað var efnahagslífið farið að kólna og það var margt sem þessi ríkisstjórn, og ekki síst þessar síðustu, gerðu rangt í aðdraganda – því það lá fyrir að það myndi halla undan fæti. En þau sannarlega bera ekki ábyrgð á kórónuveirunni.

Í því ljósi þegar verið er að aftengja alla venjulega hagstjórn – þegar hagfræðingar hafa engin svör hvað gerist þegar framboð og eftirspurn fellur á sama tíma – þá þarf frumlegar og djarfar lausnir og það þarf ekki síst samstöðu hjá þjóðinni um þær aðgerðir – eins og til dæmis var um aðgerðir heilbrigðisteymisins. Og þess vegna held ég að það hefði verið heppilegra fyrir þjóðarsálina og fyrir ríkisstjórnina líka, því við munum líka eðlilega, ef við erum ekki höfð með í ráðum, benda á þau mistök sem þau gera á leiðinni.“

Pólitísk umræða gæti orðið býsna harkaleg

Logi gerði ráð fyrir því þegar líða færi á haustið að við mörgum blasti harður vetur. Þegar atvinnuleysi og ójöfnuður hefði aukist, þá gæti pólitísk umræða orðið býsna harkaleg. „Og ég held að hún verði að vera það. Þrátt fyrir allt þá er þetta réttur tími til að ræða grundvallargildi og spyrja: Hvers konar samfélag viljum við hafa?

Ég held að við getum verið sammála um það allir þingmenn að við erum ekki að reka sjoppu, við erum að reka samfélag þar sem leikreglurnar verða að vera skýrar – eðlilega. Og gagnsæjar og lýðræðislegar. Og í raun þarf framtíðarsýnin að miða að því að við skilum næstu kynslóð meiri gæðum heldur en við bjuggum við – eða að minnsta kosti ekki verri.“

Logi Einarsson
Bára Huld Beck

Um þær leiðir er síður en svo sátt á milli stjórnmálaflokkanna, að sögn Loga. Það er það sem gerði núverandi stjórnarsamstarf áhugavert. „Af því að um leið og við þurfum að takast á við þessar grundvallarspurningar og að við vitum að við erum á krossgötum, þá er ekki gott að hafa ríkisstjórn sem deilir ekki sýn á framtíðina. Sem deilir ekki einu sinni sýn á grundvallarhluti eins og tilgang og eðli skattkerfisins. Þau virðast hafa getað sameinast um að viðhalda einhverjum meingölluðum kerfum í sjávarútvegi til dæmis. En annað ekki,“ sagði hann.

Vill sjá meiri skynsemi ríkjandi hér á landi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að hann myndi vilja sjá meiri skynsemi ríkjandi hér á Íslandi – en þar væri lykilatriðið að meira lýðræði yrði ríkjandi. „Það sem ég á við með því er að ég hef lengi haft áhyggjur af því og oft talað um að það sem ég kalla kerfisræði sé alltaf að aukast.“

Hann sagði að ákveðin tækifæri lægju í stórum krísum á borð við þá sem heimurinn gengur nú í gegnum og að hann hefði viljað að Íslendingar myndu endurmeta hlutina – og vonandi nýta þessi stóru tækifæri til þess að gera ákveðnar breytingar.

„En í ljósi reynslunnar þá held ég að hlutirnir breytist ekki eins mikið og eins hratt og við myndum vilja. Því að mannfólk er vanafast í eðli sínu og á það til að fara tiltölulega fljótt aftur í sama farið,“ sagði hann.

Í sambandi við lýðræðispælingar Sigmundar Davíðs sagði hann að stjórnmálamenn væru sífellt að gefa frá sér vald til ókjörinna fulltrúa sem ættu það ekki til að byrja með.

„Stjórnmálamenn fá að fara með valdið fyrir almenning og kjósendur og hafa til þess fjögur ár áður en þeir eru dæmdir aftur af kjósendum. Þannig að þegar stjórnmálamenn færa ákvörðunarvaldið hvernig samfélagið er rekið eitthvert annað, hvort sem það sé til embættismanna, sérfræðinga, nefnda eða stofnana – eða hvaða nöfnum sem það nefndist – þá eru þeir að mínu mati að veikja lýðræðið.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Bára Huld Beck

Stjórnmálamennirnir þurfa að taka aftur til sín valdið

Sigmundur Davíð sagði að það væri sama hvað fólk kýs – alltaf kæmi út sama niðurstaðan. Alltaf skipti minna og minna máli hver þessi niðurstaða yrði því að kerfið stjórnaði áfram og stjórnmálamennirnir væru á meðan uppteknir við persónulegar leiðir til þess að vinna að sínum málum.

„Ég er samt í smá bjartsýniskasti í öllum þessum hremmingum núna og er að vonast til að þetta gæti orðið punktur til þess að breyta þessu og við færum aftur að trúa á lýðræðið að því marki að almenningur fengi meira að segja um gang mála.“

Það þyrfti að gerast með ýmsum hætti. „Það þarf að gerast með því að stjórnmálamennirnir taki sér aftur vald – og auðvitað hljómar þetta illa – en það þarf að gera þetta að pólitísku valdi. Pólitískt vald hljómar illa en faglegar ákvarðanir hljóma vel. En pólitískar ákvarðanir eru engu að síður lýðræðislegar ákvarðanir, þannig að ég hefði viljað sjá stjórnmálamennina vera frakkari í því að taka ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim.

Svo þurfum við líka að sjá beinni aðkomu fólks að gangi máli en það er eitt af því sem hefur verið rætt í sambandi við stjórnarskrárvinnuna.“

Auglýsing

Stjórnvöld „skila bara auðu“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að Íslendingar væru að fara ofan í ákveðna holu; það er að segja að efnahagserfiðleikarnir væru núna. Vonin væri náttúrulega að þeim lyki þegar hömlunum verður aflétt og allt fer í gang aftur. „Við sjáum það þó flest og gerum okkur grein fyrir því að það verður ekki þannig.“

Hann sagði að vonin til að byrja með þegar faraldurinn var á byrjunarstigi hefði verið sú að þessir erfiðleikar væru „stutt pása“ og svo tæki allt við sér að nýju. „En á þeim tíma þegar fyrstu aðgerðirnar voru boðaðar hjá stjórnvöldum þá voru mun fleiri og þær raddir urðu háværari að erfiðleikarnir myndu standa lengur yfir en í tvo mánuði.“

Hann benti á að stjórnvöld hefðu verið sama sinnis; að forsvarsmenn hennar væru búnir að greina frá því að ástandið á næstunni yrði ekki aftur eins og á síðasta ári. „En á sama tíma hafa aðgerðir stjórnvalda nokkurn veginn einungis verið til þess að moka ofan í þessa holu sem við erum í núna.“ Þá vísaði Björn Leví í neyðaraðgerðir stjórnvalda til þess að reyna að komast yfir þau augljósu vandamál sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir núna vegna COVID-19 faraldursins – en þó án nokkurrar áætlunar hvað tæki við eftir hann.

„Það er það sem við höfum verið að kalla eftir; hver er áætlunin í kjölfarið en svarið er einfaldlega ekki neitt. Stjórnvöld skila bara auðu þar. Þau vísa jú eitthvað í nýsköpun – það má gefa þeim hrós fyrir það – en að mínu mati fer það rétt upp í það nýsköpunarstig sem ætti að vera allajafna.“

Björn Leví Gunnarsson
Bára Huld Beck

Höfum hjakkað í sama farinu

Varðandi nýsköpunaraðgerðir stjórnvalda þá sagði Björn Leví að þær næðu ekki yfir þann gríðarlega fjölda fólks sem hefur orðið atvinnulaust og leitar nú að vinnu. „Þess vegna þarf nú enn aukið átak í nýsköpun, til þess að nýta tækifærið sem þetta svigrúm gefur. Á undanförnum árum höfum við verið að hjakka í sama farinu. Við höfum verið að nýta okkur þennan enn eina hvalreka sem ferðaþjónustan hefur verið – eins og til að mynda síldarævintýrið, álið og .com-bólan var fyrir okkur. Alltaf grípum við þessi tækifæri sem gefast, við rennum út þá öldu einhvern veginn en spyrjum ekki hvað gerist þegar sú alda klárast. Við lendum alltaf í dýfu eftir það, í staðinn fyrir að aldan fjari út á föstu landi þar sem við getum gengið án þess að falla í öldudalinn.“

Björn Leví sagði að vissulega væru óhefðbundnar ástæður fyrir því að ástandið væri erfitt núna en hann taldi að það hefði þó þrátt fyrir það verið fyrirsjáanlegt. „Það var í fyrra endurskoðuð fjármálastefna og allir umsagnaraðilar sögðu: Það er að koma dýfa. Þá var alltaf sagt að við værum að fara í mjúka lendingu en það var ekkert sem sýndi fram á það. Það var einungis ágiskun.“

Hann sagði þess vegna að ástandið væri erfitt efnahagslega á Íslandi núna hvort sem COVID-19 sjúkdómurinn hefði riðið yfir heiminn eður ei. „En að sjálfsögðu ekki af sömu stærðargráðu – alls ekki – en skorturinn á framtíðarsýn stjórnvalda er algjörlega sá sami. Það hefði komið lægð, eins og allir voru að benda á og búist var við og fjármálastefnan endurspeglaði þá lægð, en það var enginn sýn um það hvernig við ætluðum annað hvort að koma í veg fyrir lægðina eða hvernig við ætluðum að stíga upp úr henni. Öll spámódel gerðu ráð fyrir því að við yrðum komin í eðlilegan hagvöxt eftir tvö ár. En það segja öll spámódel alltaf og þá erum við bara að vonast til þess að allt gerist sjálfkrafa.“

Þannig byggust stjórnvöld við því að lægðin klárist eftir eitt til tvö ár. Hann sagði þó að þetta væri rétt ályktun að vissu leyti vegna þess að Ísland væri ríkt land – og taldi hann að í raun væri einkennilegt að allir Íslendingar væru ekki ríkir vegna þessa ríkidæmis. „Við erum nú að taka lán frá framtíðarkynslóðum og við munum hafa efni á því láni. Það er enginn efi um það en þegar við tökum lán frá framtíðinni þá eigum við að nota það til þess að byggja upp arðsemi til að greiða það lán til baka þannig að næstu kynslóðir þurfi ekki að greiða okkar skuldir. Við þurfum að gefa þeim tækifæri til þess að fá arð af þeirri fjárfestingu sem við fengum að láni frá þeim til þess að endurgreiða lánið. Þannig er hægt að halda sömu réttindum og þjónustu þrátt fyrir að borga lánið sem við þurftum að nota til þess að brúa þetta bil.“

Það sem vantaði í aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að mati Björns Leví, er þessi arðsemisfjárfesting.

Auglýsing

Þarf meira réttlæti inn í kerfin okkar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að kallið frá samfélaginu fælist í því að breyta raunverulega vinnubrögðunum sem viðhöfð eru á Alþingi. „Það er sama hvaðan gott kemur. Ég bind vonir við einmitt þetta; að við skorumst ekki lengur undan því að fylgja því sem þarf að breyta inni á þingi og í þessum stóru mikilvægu kerfum okkur sem hafa áhrif á þjóðarsálina. Því fólkið hefur skoðun á því að það þurfi meira réttlæti, sanngirni og gagnsæi í öll þessi kerfi okkar; landbúnaðinn, sjávarútveginn og menntakerfið.“

Hún sagðist skynja þetta ákall frá samfélaginu – sem væri hvatning fyrir fólk í stjórnmálum að sýna meira hugrekki gagnvart sérhagsmunum og fleira – að það yrði eitthvað til þess að breytast og að það yrði breyting á næstunni.

Þorgerður Katrín sagði að meginþungi næsta kjörtímabils yrði að takast á við efnahagsmálin, samhliða þeim verkefnum sem fylgja COVID-19. Hún sagði að margt þyrfti að laga þegar þessu kórónuveirutímabili verður lokið. „Við megum ekki skorast undan stórum áskorunum,“ segir hún og benti á að núna væri meginverkefnið að komast í gegnum veiruna en eftir það yrði hægt að ræða almenna hugmyndafræði um uppbyggingu efnahagskerfisins.

Spennandi að vera í pólitík núna

Þorgerður Katrín sagði þetta jafnframt vera ótrúlega áhugaverða tíma sem við lifum nú. „Það er spennandi að vera í pólitík núna – og ég spái því ekki síst í haust að þá muni hugmyndafræðilegar pólitískar línur skerpast.

Ég held að þegar fram líður á árið þá munum við sem elskum stjórnmál og höfum áhuga á þeim sjá hversu áhugaverðir tímar séu framundan. Og það er mjög stutt í ákveðna kontrasta í samfélaginu sem við megum ekki hunsa eða líta fram hjá. Því þeir munu líka vera vegvísar inn í framtíðina – það er hvernig framtíð við ætlum að skapa og móta eftir veiruna.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Bára Huld Beck

Þessa kontrasta mátti meðal annars sjá í sjávarútvegsmálum, að sögn Þorgerðar Katrínar. Hún benti á að ekki fyrir svo mörgum árum hefðu langflestir verið sammála um svokallaða samningsleið en hún bygg­ir á því að ríkið geri samn­inga við nú­ver­andi hand­hafa fisk­veiðiheim­ilda um veiðiheim­ild­ir gegn gjaldi.


„Samningsleiðin er lykilatriði til þess að rétta af þetta óréttlæti sem við höfum nú – það er að við gerum tímabundna samninga.“ Þorgerður Katrín telur að auðlindaatkvæðið sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að setja í stjórnarskrá sé handónýtt vegna þess að ríkisstjórnin sé tvisvar búin að fella á þessu kjörtímabili tilllögur um tímabundna samninga. 

„Þar er enginn vilji fyrir tímabundna samninga og þess vegna þarf að skrifa þetta beint inn í stjórnarskrána. Sáttin sem forsætisráðherra vill ná um þetta auðlindaákvæði er sátt við Sjálfstæðisflokkinn, er sátt við Framsóknarflokkinn og er sátt við Miðflokkinn – en það er ekki sátt við þjóðina eða þingið.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar