Mynd: Skjáskot Einkaleyfisstofa

ÁTVR borgaði Rolf Johansen bætur fyrir að hætta að kaupa neftóbakið Lunda

Fyrir tæpum áratug ætluðu nokkrir aðilar að fara í samkeppni við ÁTVR í sölu á löglegu neftóbaki, sem þó var aðallega notað sem munntóbak. ÁTVR brást við með því að hætta innkaupum á vörum samkeppnisaðila. Sú ákvörðun var ólögmæt og í desember 2020 greiddi ríkisfyrirtækið einum þeirra 13,6 milljónir króna í bætur fyrir þann skaða sem ákvörðunin olli.

Árið 2012 var gerð tilraun til að komast inn á íslenskan neftóbaksmarkað. ÁTVR hafði þá setið að markaðnum eitt í nokkurt tíma, en ríkisfyrirtækið framleiðir sitt eigið neftóbak, sem gengur oftast undir nafninu „Ruddi“. 

Á þessum tíma hafði hefðbundið munntóbak og fínkorna neftóbak verið bannað hérlendis í 16 ár og þeir sem vildu setja tóbak í vörina á sér sneru sér að „Ruddanum“ í staðinn og notuðu hann sem munntóbak. Þessi grófa vara, sem hafði þótt fremur hallærisleg og hafði aðallega verið notuð af eldri mönnum, hafði verið talin á útleið. Viðtekið viðhorf var að eftirspurn eftir henni myndi einfaldlega deyja út með síðasta neftóbakskallinum í sveitinni. 

Þetta breyttist þegar nýr markhópur, að uppistöðu yngri karlmenn, hóf að setja „Ruddann“ í vörina. Frá 2002 og til 2011 þrefaldaðist salan á vörunni. Það leiddi til þess að íslenska heildsalan Rolf Johansen & Company (RJC) ákvað að reyna fyrir sér á markaði fyrir gróft munntóbak og kynnti til leiks reyklausa tóbakið Lunda haustið 2011. Fyrirtækið hefur frá árinu 1999 einbeitt sér að innflutningi og dreifingu á tóbaksvörum, áfengisvörum og tengdum varningi og var því í umfangsmiklum viðskiptum við ÁTVR á fleiri sviðum en einungis þessu.

Munurinn á Lunda og „Rudda“ var aðallega sá að Lundinn var blautari, og líktist þar með meira sænsku munntóbaki í áferð. Ljóst var að eftirspurn var til staðar, enda seldust 600 kíló af Lunda á fyrstu þremur dögunum eftir að hann kom á markað. 

Hvenær er neftóbak munntóbak?

Sala á Lunda þurfti að fara fram í gegnum ÁTVR, enda hefur fyrirtækið einkaleyfi á heildsölu tóbaks á Íslandi samkvæmt lögum. Nýir framleiðendur á grófu tóbaki sem hægt var að taka í nef eða setja í vör þurftu því að selja ÁTVR, samkeppnisaðila sínum á smásölumarkaði fyrir reyklaust tóbak, vöruna sem síðan dreifði henni áfram í verslanir. 

Nokkrum mánuðum síðar, í janúar 2012, birtist tilkynning á vef ÁTVR. Fyrirtækið hafði ákveðið að hætta innkaupum á Lunda og öðrum tegundum af reyklausu tóbaki „á meðan úr því verði skorið hvort þessar vörur séu í raun munntóbak frekar en neftóbak.“

Auglýsing

Þessi ákvörðun var rökstudd með því að margar vísbendingar væru uppi um að reyklaust tóbak væri frekar notað í munn en nef, ólíkt því sem var á árum áður. „ÁTVR lítur svo á að svara þurfi hvort og hvenær neftóbak verður munntóbak,“ og vísaði þar til þess að bannað væri að selja allt munntóbak hérlendis. 

Þrátt fyrir að þetta ætti augljóslega líka við um „Ruddann“ þá var hann ekki tekinn úr sölu á meðan að komist var til botns í skilgreiningu á því hvort gróft reyklaust tóbak væri nef- eða munntóbak. „ÁTVR bendir meðal annars á að skilgreiningar varðandi nef- og munntóbak séu óljósar. Í núverandi lögum nær skilgreiningin nær eingöngu til kornastærðar en ekki til rakastigs. Rakastig getur hins vegar skorið úr um það hvort yfirhöfuð sé hægt að taka tóbakið í nef.“

Velferðarráðuneytinu var kynnt málið og óskað var eftir afstöðu ráðuneytisins til þess þar sem tóbaksvarnir voru  á forræði ráðuneytisins. Í tilkynningu ÁTVR sagði að ekki væri hægt að segja neitt um hverjar lyktir málsins yrðu á þessu stigi en að reiknað væri með því að þrír til fimm mánuðir gætu liðið þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir. Innkaupabannið var síðar framlengt út árið 2012 og framleiðsla á Lunda lognaðist einfaldlega út af. 

Engar lagabreytingar voru nokkurn tímann gerðar sem skilgreindu muninn á nef- og munntóbaki eitthvað frekar. 

Tekjur upp á rúmlega sjö milljarða

ÁTVR sat eitt að löglega markaðnum fyrir reyklaust tóbak næstu árin, og keppti þar aðallega við smyglað sænskt munntóbak sem selt var á svörtum markaði. Árið 2019, þegar sala á „Rudda“ náði hámarki, seldu ÁTVR 46,1 tonn af honum. Salan hafði næstum fimmfaldast frá árinu 2002. Tekjur ÁTVR af sölunni ruku því upp á þessu tímabili. 

Sala á „Rudda“ dróst saman um hálfan milljarð í fyrra

ÁTVR hefur framleitt neftóbak árum saman. Framlegð af þeirri framleiðslu er mikil enda hafa einungis sjö starfsmenn verið í því að framleiða vöruna, sem er unnin úr hrátóbaki frá tóbaksframleiðandanum Swedish Match. Árið 1996 var innflutningur og sala á munntóbaki og fínkornuðu neftóbaki bannað með lögum á Íslandi. Markmiðið var að bæta heilsufar þjóðarinnar.

ÁÞað þýðir að grófa neftóbakið sem ÁTVR framleiðir hefur verið í nánast einokunarstöðu á markaðnum síðan lögin voru sett. Þeir sem nota munntóbak keyptu annaðhvort smyglvarning á svörtum markaði eða notuðu neftóbakið sem ÁTVR framleiðir, „Ruddann“, sem munntóbak. Þessi aukna neysla skilaði auknum tekjum í vasa hins opinbera svo um munaði, bæði vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og stóraukinnar eftirspurnar.

Árið 2002 seldi ÁTVR 10,9 tonn af neftóbakinu sem fyrirtækið framleiðir. níu árum síðar seldi fyrirtækið næstum þrefalt það magn af þessari vöru. Árið 2019, þegar sala á „Rudda“ náði hámarki, seldu ÁTVR 46,1 tonn af honum.

Í fyrra hrundi hins vegar þessi sala niður í 25,4 tonn. Hún nánast helmingaðist og hefur ekki verið minni síðan árið 2009. Fimmtíu grömm af tóbaki eru í hverri íslenskri neftóbaksdollu. Þessi samdráttur nemur því um 414 þúsund dollum. Samkvæmt tölum sem Kjarninn hefur fengið hjá ÁTVR skilaði salan á „Rudda“ 1.512 milljónum króna í kassann hjá fyrirtækinu árið 2019, án virðisaukaskatts. Í fyrra var söluverðmæti tóbaksins einn milljarður króna, og samdrátturinn milli ára því rúmlega hálfur milljarður króna. Tekjurnar skruppu því saman um þriðjung.

Ástæðan er einföld: svokallaðir níkótínpúðar, tóbakslausir púðar frá erlendum framleiðendum sem eru til notkunar undir efri vör, hófu innreið sína á markaðinn og tóku stóran hluta hans til sín hratt. Slíkir púðar eru meðal annars seldir í öllum helstu smásöluverslunum en einnig sérvöruverslunum. Þar eru verslanir undir merkjum Sven mest áberandi. Í könnun sem embætti landlæknis gerði síðasta sumar kom fram að tæplega fimmti hver karlmaðaur á Íslandi á aldrinum 18 til 34 ára notaði nikótínpúða. Þessi hraða aukning á neyslu hefur gert það að verkum að lagt var fram stjórnarfrumvarp í apríl síðastliðnum til að fella þessa nýju vöru undir lög um nikótínvörur, sem áður náðu einungis yfir rafrettur og áfyllingar fyrir þær.

Árið 2012, þegar ákveðið var að hætta að kaupa inn Lunda, námu sölutekjur ÁTVR að undanskildum virðisaukaskatti 381 milljónum króna. Árið 2019 voru þær 1.512 milljónir króna. Tekjurnar fjörfölduðust. Samanlagt skilaði sala á „Rudda“ ÁTVR tekjum upp á 7,3 milljörðum króna frá byrjun árs 2012 og til loka árs 2019. Markaðurinn sem RJC, framleiðandi Lunda, og aðrir sem höfðu uppi áform um að setja reyklaust tóbak á markað á árinu 2012 misstu af, var stór. 

Árið 2019 dró svo aftur til tíðinda. Viðskiptablaðið birti umfjöllun þar sem fram kom að ÁTVR hefði aflað lögfræðiálits sem er dagsett í febrúar 2013 þar sem fram kom að þær nýju tegundir sem til stóð að setja á markað 2011 og 2012 væru sambærilegar „Ruddanum“ að flestu leyti.

Í maí 2019 sendi ÁTVR svo bréf til heilbrigðisráðuneytisins þar sem sagði meðal annars: „ÁTVR telur sig ekki hafa lagaheimild til þess að banna [neftóbak] alfarið miðað við óbreytt lagaumhverfi. Þar sem ekki er lengur stætt á því út frá samkeppnissjónarmiðum að halda núverandi sölustöðvun mun ÁTVR frá og með 1. júní nk., að óbreyttu, heimila sölu á reyklausu tóbaki frá öðrum birgjum.“ 

Sölubannið, sem sett hafði verið á í janúar 2012 og tryggði einokun „Rudda“ á markaði fyrir reyklaust tóbak, hafði verið afnumið. 

Samið um bætur vegna tjóns

Þetta þýddi að ákvörðun ÁTVR frá árinu 2012 var án lagastoðar. Í ljósi þess að hún hélt öðrum framleiðendum frá afar arðbærum markaði, þar sem sala nam um sjö milljörðum króna þangað til að sölubannið var afnumið, þá var ljóst að þeir framleiðendur máttu ætla að þeir hefðu orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. 

Auglýsing

Þar fór fremst í flokki RJC, framleiðandi Lunda. Í lok árs 2020, rúmu ári eftir að sölubannið var afnumið var unnið minnisblað, dagsett 9. desember, sem sýndi með ótvíræðum hætti að ákvörðun ÁTVR um að hætta innkaupum á Lunda hafi verið ólögmæt. Degi síðar, 10. desember, var undirritað samkomulag milli RJC og ÁTVR um að síðarnefnda fyrirtækið myndi greiða hinu fyrrnefnda bætur. Í samkomulaginu, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir að þetta sé gert „vegna alls þess tjóns sem RJC varð fyrir eða telur sig hafa orðið fyrir egna stöðvunar  reyklausa tóbaksins Lunda í ársbyrjun 2012.“

13,6 milljónir króna vegna sölubanns í átta ár

Bæturnar sem ÁTVR greiddi eru 13,6 milljónir króna. Í samkomulaginu segir að um fullnaðargreiðslu sé að ræða vegna alls tjóns, beins og óbeins, sem RJC telur sig hafa orðið fyrir frá upphafi sölubannsins 2012 og til enda ársins 2019. 

Í samkomulaginu er sérstaklega tekið fram að það sé trúnaðarmál og að ekki verði gerður reikningur vegna greiðslu ÁTVR á áðurnefndum 13,6 milljónum króna. 

Kjarninn sendi fyrirspurn um samkomulagið til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 25. maí síðastliðinn í ljósi þess að yfir ÁTVR er ekki stjórn og fyrirtækið heyrir beint undir ráðuneytið. Óskað var eftir því að fá minnisblaðið frá 9. desember 2020 og samkomulagið við RJC frá 10. desember 2020 afhent. 

Auglýsing

Ráðuneytið svaraði sex dögum síðar og sagði að umbeðin gögn hefðu ekki fundist í ráðuneytinu. „Ráðuneytið hefur ekki aðkomu að einstökum ákvörðunum og/eða samningum sem gerðir eru af hálfu ÁTVR. Það er þáttur í starfsemi margra fyrirtækja í ríkiseigu að gera samninga sem bundnir eru trúnaði. Beina verður erindi þínu um aðgang að umræddum upplýsingum gagnvart ÁTVR. Ef slíkum aðgangi er synjað verður ÁTVR að svara fyrir forsendur þess.“ 

Samdægurs var sömu fyrirspurn beint til ÁTVR. Í svari Sigrúnar Óskar Sigðurardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, sem bárust 8. júní staðfesti hún að RJC hefðu verið greiddar samkomulagsbætur vegna tjóns sem talið var að fyrirtækið hefði orði ðfyrir þegar Lundi var tekin úr sölu hjá ÁTVR árið 2012. „Ástæða sölustöðvunarinnar var grunur um að tóbakið væri í raun munntóbak í skilningi tóbaksvarnarlaga, sem bannað er að framleiða, flytja inn og selja og var sölubannið sett á í samráði við heilbrigðisyfirvöld. Síðan var banninu framhaldið að tilmælum velferðarráðuneytisins. Lundi var eina reyklausa tóbakið sem ÁTVR hafði þá tekið til sölu til viðbótar við Íslenska neftóbakið, sem selt hefur verið á grundvelli áratuga langrar hefðar. Því eru engir aðrir birgjar í sömu stöðu og RJC og bótagrundvöllur ekki fyrir hendi.“

Sigrún Ósk segir að samkomulagið hafi verið bundið trúnaði að beiðni RJC, enda varði það viðskiptalega hagsmuni þess fyrirtækis. Því geti ÁTVR ekki orðið við því að afhenda minnisblaðið sem samkomulagið byggði á né samkomulagið sjálft nema að RJC kjósi að aflétta trúnaði. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar