Fjöldi brottkastsmála margfaldaðist eftir að Fiskistofa fór að nota dróna
Veiðieftirlitsmenn hjá Fiskistofu hafa á undanförnum áratug oftast skráð um eða innan við tíu mál sem varða brottkast afla á ári hverju. Í upphafi þessa árs var byrjað að notast við dróna í eftirliti og vonaðist Fiskistofa eftir því að sjá úr lofti góða umgengni við sjávarauðlindina. Þann 25. nóvember voru málin þar sem ætlað var að afla bæði stórra og smárra skipa hefði verið kastað í sjóinn þó orðin að minnsta kosti 120 talsins. Alls fjögur mál varða brottkast af skipum af stærstu gerð, sem veiða með botnvörpu.
Það sem af er ári hefur Fiskistofa tekið til meðferðar að minnsta kosti 120 mál sem varða ætlað brottkast afla frá fiskiskipum, stórum og smáum. Langflest mál hafa verið til lykta leidd með leiðbeiningabréfi frá stofnuninni, um að ekki skuli kasta afla í sjóinn, en einu máli hefur lokið með tímabundinni sviptingu veiðileyfis og þremur með formlegum áminningum.
Þetta kemur fram í svari Fiskistofu við fyrirspurn Kjarnans um brottkastsmál, en um gríðarlega fjölgun mála er að ræða frá fyrri árum. Drónaeftirlit var tekið upp hjá veiðieftirlitsmönnum Fiskistofu í upphafi árs og er það búið að „gjörbreyta leiknum“, ef svo má segja.
Í svari sem Elín Björg Ragnarsdóttir sviðsstjóri veiðieftirlits hjá Fiskistofu veitti Kjarnanum um þessi mál segir að þetta séu ekki alveg nákvæmar tölur og að enn gætu einhver mál sem eru á rannsóknarstigi átt eftir að bætast við bókhaldið, auk þess sem nokkur mál hafi verið send til lögreglu. Árið í heild verður tekið saman og lokatölur um málafjöldann gefnar út í febrúar á næsta ári, í ársskýrslu stofnunarinnar.
Oftast innan við tíu mál síðasta áratug
Fiskistofa birtir alltaf í ársskýrslum sínum tölur um fjölda skráðra brottkastsmála og í þeim má lesa að mál þar sem fiskiskip eru staðin að brottkasti afla voru afar fágæt þar til Fiskistofa byrjaði að beita drónum við eftirlit sitt.
Frá árinu 2012 hefur málafjöldi þannig verið frá tveimur og upp í 26 mál, en oftast hafa málin verið um eða undir tíu talsins. Áhrif drónanna á málafjöldann eru umtalsverð, eins og sjá má myndinni hér að ofan.
Eina sviptingarmálið í lok apríl
Sem áður segir hefur einungis eitt mál á árinu leitt til þess að bátur þurfti að sæta tímabundinni sviptingu veiðileyfis. Það mál varðaði bátinn Bergvík GK 22 og komst upp í eftirliti með dróna þann 28. apríl. Bergvíkinni var óheimilt að halda til veiða 2. júlí - 15. júlí, samkvæmt ákvörðun Fiskistofu.
Elín Björg hjá Fiskistofu sagði við Vísi vegna þessa máls í júlí að á fjörutíu mínútna upptöku sem hefði legið til grundvallar veiðileyfissviptingunni hefði að minnsta kosti 72 bolfiskum, aðallega þorski, verið kastað fyrir borð.
„Það teljum við vera talsvert brottkast. Þetta eru um tveir fiskar á mínútu af þorski,“ sagði Elín Björg.
Stór skip sem smá
Fiskistofa gat ekki látið Kjarnann hafa upplýsingar um hvaða skip brottkastsmálin 120 varðaði, en gat þó sundurliðað málin eftir því hvers konar veiðarfæri eru á bátunum og skipunum sem staðin hafa verið að ætluðu brottkasti.
Alls eru fleyin 104 talsins, stór og smá, en fjögur mál varða skip af stærstu gerð sem eru útbúin botnvörpum og nítján mál varða skip sem eru útbúin dragnót. Þá varða fjórtán mál skip sem eru með þorskfisknet.
Drónaeftirlitið fer að mestu leyti fram frá landi, sem leiðir til þess að stærstur hluti brottkastsmálanna sem Fiskistofa skráir er vegna veiða sem fram fara nærri landi. Þó var einnig byrjað að fljúga drónunum frá skipum á hafi úti á vormánuðum, en drónana er hægt að nota til þess að hafa eftirlit með veiðum í um 10-15 kílómetra fjarlægð frá veiðieftirlitsmanninum, samkvæmt því sem kom fram í viðtali við Elínu Björgu á mbl.is í upphafi árs.
Þar sem eftirlitið fer fram nærri landi að mestu þarf þó ekki að koma á óvart að flest málanna varða minni báta. Flest málanna varða skip sem eru með grásleppunet, eða alls 30 talsins og 29 mál varða skip útbúin til handfæraveiða og 24 mál varða línubáta, sem þó rétt er að taka fram að geta verið allt frá því að vera litlir og upp í það að teljast talsvert stórir.
Aukið eftirlit í kjölfar ábendinga Ríkisendurskoðunar
Í upphafi árs 2019 skilaði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt um eftirlitshlutverk Fiskistofu. Þar fékk stofnunin töluvert bága umsögn fyrir framkvæmd þess eftirlits sem henni er ætlað að hafa með höndum. Eftirlit með brottkasti var til dæmis sagt afar takmarkað, veikburða og ómarkvisst.
Í upphafi þessa árs var svo byrjað að beita drónunum við eftirlit og er þeim samkvæmt umfjöllun á vef Fiskistofu ætla að vera „framlenging á augum eftirlitsmanna við aðstæður þar sem erfitt er að komast að til eftirlits“ og sagðist Fiskistofa telja að notkun þeirra hefði ákveðinn „fælingarmátt og varnaðaráhrif“.
Tekið var fram í umfjöllun Fiskistofu um þessa nýjung í eftirliti að tækjunum væri alltaf stjórnað af veiðieftirlitsmanni sem væri viðstaddur og sæi myndefnið úr myndavél drónans í beinu streymi. Ekki væri kveikt á upptöku nema eftirlitsmaður hafi talið sig sjá brot – og allt væri þetta eftirlit í samræmi við gildandi reglur og fyrirmæli Persónuverndar.
Lestu meira
-
16. maí 2022Segir ofsagróða stórútgerða hafa ruðningsáhrif – „Þjóðin fær ekki réttlátan hlut í arðinum“
-
27. apríl 2022Brottkast hefur sést hjá um 40 prósentum báta sem flogið hefur verið yfir á dróna
-
24. mars 2022Stjórnenda og eigenda Hvals hf. að meta hvort fyrirtækið nýti sér leyfi til hvalveiða
-
24. mars 2022Hvað er átt við þegar menn tala um ofurhagnað? spyr fjármálaráðherra
-
23. mars 2022Spyr utanríkisráðherra um tengsl „ólígarkans okkar“ og Lukashenko
-
19. mars 2022„Mikilvægt að ná samstöðu um réttlátari skiptingu á hagnaði af sjávarauðlindinni“
-
18. mars 2022Ræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi slapp undan þvingunum – Ísland sagt hafa beitt sér
-
17. mars 2022Nauðsynlegt að sektarheimildir séu í samhengi við efnahagslegan styrkleika
-
7. mars 2022Verbúðin, kvótakerfið og lögin frá 1990
-
26. febrúar 2022Sópa nýir vendir best?