Mynd: EPA

Innviðir á leiðinni út

Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.

Nýlega hefur mikill áhugi myndast meðal stærstu íslensku fjarskiptafélaganna á selja eigin innviði. Forsvarsmenn félaganna benda á að fjárfestar séu tilbúnir að borga hátt verð fyrir innviðina og að fjarskiptafélög víða um heim hafi verið að aðgreina þá frá þjónustustarfsemi sinni til að geta fjármagnað sig betur.

Slíkur aðskilnaður var hins vegar ekki talinn hagkvæmur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan, þar sem aðskilnaður milli þjónustu og innviða gæti dregið úr þjónustustigi félagsins. Hvers vegna vilja þá fjarskiptafélögin losa sig við innviðina núna?

Söluferlið hafið hjá Sýn og Nova

Hugmyndin um aðskilnað þjónustu og innviða hérlendis hefur verið á teikniborði fjarskiptafyrirtækjanna í nokkurn tíma. Í ágúst í fyrra tilkynnti Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar að verið væri að færa meiri rekstur og fjárfestingar í Sendafélagið, innviðahluta félagsins sem er rekið með Nova. Einnig sagði hann að til stæði að bjóða hluta farsímakerfisins til sölu, þar sem alþjóðlegir aðilar hefðu mikinn áhuga á fjárfestingum í innviðum símfyrirtækja.

Auglýsing

Fréttablaðið greindi svo frá því í nóvember að Nova væri í einkaviðræðum við sömu erlendu fjárfesta og Sýn um mögulega sölu og endurleigu á innviðum félagsins. Viðræðurnar væru aðskildar að að baki þeim lægju sömu forsendur.

Fyrr í vikunni tilkynnti svo Sýn að svokallaðir óvirkir farsímainnviðir félagsins, sem eru meðal annars sendaturnar í farsímakerfi þess, hefðu verið seldir til erlendra fjárfesta á yfir sjö milljarða króna. Fjárfestarnir voru ekki nefndir, en Viðskiptablaðið hafði áður greint frá því að um væri að ræða sjóð í stýringu bandaríska framtakssjóðsins Digital Colony.

Í viðtali við Fréttablaðið í síðustu viku sagði Heiðar að Sýn gæti selt enn fleiri innviði fyrir milljarða á þessu ári, og nefndi þar sérstaklega IPTV-kerfið í kringum myndlyklana og landsdekkandi burðarnet. „Við viljum gjarnan selja og það eru kaupendur sem vilja kaupa,“ bætti hann við.

Kemur til greina að selja Mílu

Um svipað leyti og Sýn greindi frá aðskilnaði innviða og þjónustu tilkynnti Síminn flutning eigins farsímadreifikerfis og IP-nets til Mílu, innviðahluta félagsins. Þessi flutningur myndi skerpa á hlutverki Símans sem þjónustufyrirtækis og Mílu sem innviðafyrirtækis, samkvæmt fjárfestakynningu. Félagið bætti einnig við að verið væri að skoða hvort aðskilja ætti fjármögnun Mílu frá fjármögnun Símans.

Svokallaðir óvirkir innviðir fjarskiptafyrirtækjanna eru til að mynda símamöstur þeirra
Mynd: Míla

Kjarninn greindi svo frá því í fyrrahaust að fjárfestar höfðu lagt fram óformlegar fyrirspurnir til Símans um möguleg kaup á Mílu. Hins vegar sagði fyrirtækið að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um söluna.

Á síðasta ársfjórðungsuppgjöri Símans sagði Orri Hauksson, forstjóri félagsins, svo að fjárfestingabankinn Lazard ásamt Íslandsbanka hafi verið ráðnir til að ráðleggja um stefnumarkmið og framtíðarmöguleika Mílu. Orri bætti einnig við að til greina kæmi að skoða breytingar á eignarhaldi Mílu.

Sveigjanlegri rekstur og peningur til hluthafa

Tilgangur innviðasölunnar hjá báðum félögum virðist vera tvíþættur.

Annars vegar gæti hún einfaldað rekstur þeirra, líkt og Heiðar Guðjónsson minnist á í viðtali við Fréttablaðið, en samkvæmt honum gæti Sýn orðið sveigjanlegra félag ef það losnar við kostnaðinn við uppihald og þjónustu innviðanna, sem sé að mestu leyti fastur kostnaður.

Einnig gæti salan skilað háum fjárhæðum til hluthafa. Samkvæmt Heiðari hefðu ýmsir fjárfestar mikinn áhuga á að kaupa innviði Sýnar, þar sem þeir geta tryggt öruggt sjóðflæði til langs tíma, en Heiðar sagði það vera „eignir sem haga sér í raun eins og skuldabréf.“

Áætlað er að hluthafar Símans fái töluverðar fjárhæðir vegna sölu félagsins á dótturfyrirtækinu sínu, Sensa
Mynd: Aðsend

Sala á dótturfélögum gefur skráðum hlutafélögum tækifæri til að greiða arð og kaupa upp eigin bréf, en líkt og Kjarninn hefur áður greint frá stendur til að greiða hluthöfum Símans 8,5 milljarða króna með þessum tveimur leiðum vegna sölu dótturfélags síns Sensa.

Fordæmi frá öðrum löndum

Vilji fjarskiptafyrirtækja til að aðskilja þjónustustarfsemi sína frá innviðastarfsemi er ekki einsdæmi á Íslandi. Árið 2014 skapaði tékkneski hluti fyrirtækisins O2 sérstakt félag fyrir innviðastarfsemi sína, en samkvæmt umfjöllun ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um málið græddu hluthafar mjög á þessum aðskilnaði.

Árið 2019 lauk svo aðskilnaði innviða- og þjónustuhluta danska fjarskiptafyrirtækisins TDC, að frumkvæði nýrra fagfjárfesta sem komu inn í félagið.

Náttúruleg einokun

Rekstur innviðakerfa fjarskiptafyrirtækjanna hefur einnig verið umdeilt mál víðs vegar um Evrópu. Innviðirnir eru í mörgum tilvikum dæmi um svokallaða náttúrulega einokun, þar sem gríðarlegur kostnaður við að setja upp kerfin getur komið í veg fyrir samkeppni frá öðrum félögum.

Ítalska fjarskiptafélagið Telecom Italia (TIM) hefur hafið aðskilnað á milli eigin innviða og fjarskiptaþjónustu
Mynd: EPA

Sökum þess hafa stjórnvöld víða krafist þess að fjarskiptafyrirtækin aðgreini innviði sína frá reglulegri starfsemi til að tryggja opið aðgengi að þeim. Breska samkeppniseftirlitið krafðist þess að rekstur þjónustu og innviða félagsins BT yrði aðskilinn árið 2005 og þrýstingur frá sænsku yfirvöldum leiddu til þess að fjarskiptafélagið Telia gerði slíkt hið sama árið 2007.

Í ágúst í fyrra hóf svo ítalska fjarskiptafyrirtækið Telecom Italia (TIM) sams konar aðskilnað, en samkvæmt frétt Bloomberg um málið er hann liður í áformum stjórnvalda þar í landi um að skapa eitt innviðafyrirtæki í fjarskiptum fyrir alla Ítalíu.

Ekki nægileg uppbygging með sérstöku félagi

Fyrir 20 árum síðan birti ríkisstjórnin hér á landi skýrslu vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar Landssímans, forvera Símans. Í henni var mælt gegn því að skilja grunnkerfi Landssímans frá fyrirtækinu og halda því eftir í sjálfstæðri ríkisstofnun eða félagi í ríkiseigu.

Slíkur aðskilnaður var ekki nauðsynlegur á þeim tíma, að mati skýrsluhöfunda. Samkvæmt þeim hefði ríkisstofnun eða félag í eigu ríkisins sem sæi um rekstur grunnkerfisins „ekki nægjanlegan hvata til tæknilegrar uppbyggingar og þróunar þjónustu til að geta sinnt hlutverki sínu og gæti orðið baggi á ríkissjóði.“

Höfundarnir bættu við að best væri að halda uppi þáverandi þjónustustigi með sambærilegum hættum eftir einkavæðinguna ef félaginu yrði ekki skipt í tvennt. Þó bættu þeir við að samkeppnisaðilar Landssímans ættu að eiga greiðan og öruggan aðgang að grunnkerfinu.

Hagur hluthafa og almennings í fyrirrúmi

Samkvæmt Orra Haukssyni verða valkostir sem varða framtíðareignarhald á Mílu kannaðir með það að augnamiði að hámarka verðmæti eigna félagsins fyrir hluthafa. Einnig bætir hann við að framtíðarþróun innviða samstæðunnar eigi að verða hagfelld fyrir íslenskan almenning. „Ekki liggur fyrir til hvaða niðurstöðu þetta verkefni mun leiða, en nánar verður upplýst um framvindu þess um leið og ástæða er til,“ segir hann.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar