Mynd: EPA

Innviðir á leiðinni út

Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.

Nýlega hefur mik­ill áhugi mynd­ast meðal stærstu íslensku fjar­skipta­fé­lag­anna á selja eigin inn­viði. For­svars­menn félag­anna benda á að fjár­festar séu til­búnir að borga hátt verð fyrir inn­við­ina og að fjar­skipta­fé­lög víða um heim hafi verið að aðgreina þá frá þjón­ustu­starf­semi sinni til að geta fjár­magnað sig bet­ur.

Slíkur aðskiln­aður var hins vegar ekki tal­inn hag­kvæmur þegar einka­væða átti Lands­sím­ann fyrir 20 árum síð­an, þar sem aðskiln­aður milli þjón­ustu og inn­viða gæti dregið úr þjón­ustu­stigi félags­ins. Hvers vegna vilja þá fjar­skipta­fé­lögin losa sig við inn­við­ina núna?

Sölu­ferlið hafið hjá Sýn og Nova

Hug­myndin um aðskilnað þjón­ustu og inn­viða hér­lendis hefur verið á teikni­borði fjar­skipta­fyr­ir­tækj­anna í nokkurn tíma. Í ágúst í fyrra til­kynnti Heiðar Guð­jóns­son for­stjóri Sýnar að verið væri að færa meiri rekstur og fjár­fest­ingar í Senda­fé­lag­ið, inn­viða­hluta félags­ins sem er rekið með Nova. Einnig sagði hann að til stæði að bjóða hluta far­síma­kerf­is­ins til sölu, þar sem alþjóð­legir aðilar hefðu mik­inn áhuga á fjár­fest­ingum í innviðum sím­fyr­ir­tækja.

Auglýsing

Frétta­blaðið greindi svo frá því í nóv­em­ber að Nova væri í einka­við­ræðum við sömu erlendu fjár­festa og Sýn um mögu­lega sölu og end­ur­leigu á innviðum félags­ins. Við­ræð­urnar væru aðskildar að að baki þeim lægju sömu for­send­ur.

Fyrr í vik­unni til­kynnti svo Sýn að svo­kall­aðir óvirkir far­síma­inn­viðir félags­ins, sem eru meðal ann­ars senda­turnar í far­síma­kerfi þess, hefðu verið seldir til erlendra fjár­festa á yfir sjö millj­arða króna. Fjár­fest­arnir voru ekki nefnd­ir, en Við­skipta­blaðið hafði áður greint frá því að um væri að ræða sjóð í stýr­ingu banda­ríska fram­taks­sjóðs­ins Digi­tal Colony.

Í við­tali við Frétta­blaðið í síð­ustu viku sagði Heiðar að Sýn gæti selt enn fleiri inn­viði fyrir millj­arða á þessu ári, og nefndi þar sér­stak­lega IPTV-­kerfið í kringum mynd­lyklana og lands­dekk­andi burð­ar­net. „Við viljum gjarnan selja og það eru kaup­endur sem vilja kaupa,“ bætti hann við.

Kemur til greina að selja Mílu

Um svipað leyti og Sýn greindi frá aðskiln­aði inn­viða og þjón­ustu til­kynnti Sím­inn flutn­ing eig­ins far­síma­dreifi­kerfis og IP-­nets til Mílu, inn­viða­hluta félags­ins. Þessi flutn­ingur myndi skerpa á hlut­verki Sím­ans sem þjón­ustu­fyr­ir­tækis og Mílu sem inn­viða­fyr­ir­tæk­is, sam­kvæmt fjár­festa­kynn­ingu. Félagið bætti einnig við að verið væri að skoða hvort aðskilja ætti fjár­mögnun Mílu frá fjár­mögnun Sím­ans.

Svokallaðir óvirkir innviðir fjarskiptafyrirtækjanna eru til að mynda símamöstur þeirra
Mynd: Míla

Kjarn­inn greindi svo frá því í fyrra­haust að fjár­festar höfðu lagt fram óform­legar fyr­ir­spurnir til Sím­ans um mögu­leg kaup á Mílu. Hins vegar sagði fyr­ir­tækið að engar ákvarð­anir hefðu verið teknar um söl­una.

Á síð­asta árs­fjórð­ungs­upp­gjöri Sím­ans sagði Orri Hauks­son, for­stjóri félags­ins, svo að fjár­fest­inga­bank­inn Laz­ard ásamt Íslands­banka hafi verið ráðnir til að ráð­leggja um stefnu­mark­mið og fram­tíð­ar­mögu­leika Mílu. Orri bætti einnig við að til greina kæmi að skoða breyt­ingar á eign­ar­haldi Mílu.

Sveigj­an­legri rekstur og pen­ingur til hlut­hafa

Til­gangur inn­viða­söl­unnar hjá báðum félögum virð­ist vera tví­þætt­ur.

Ann­ars vegar gæti hún ein­faldað rekstur þeirra, líkt og Heiðar Guð­jóns­son minn­ist á í við­tali við Frétta­blað­ið, en sam­kvæmt honum gæti Sýn orðið sveigj­an­legra félag ef það losnar við kostn­að­inn við uppi­hald og þjón­ustu inn­við­anna, sem sé að mestu leyti fastur kostn­að­ur.

Einnig gæti salan skilað háum fjár­hæðum til hlut­hafa. Sam­kvæmt Heið­ari hefðu ýmsir fjár­festar mik­inn áhuga á að kaupa inn­viði Sýn­ar, þar sem þeir geta tryggt öruggt sjóð­flæði til langs tíma, en Heiðar sagði það vera „eignir sem haga sér í raun eins og skulda­bréf.“

Áætlað er að hluthafar Símans fái töluverðar fjárhæðir vegna sölu félagsins á dótturfyrirtækinu sínu, Sensa
Mynd: Aðsend

Sala á dótt­ur­fé­lögum gefur skráðum hluta­fé­lögum tæki­færi til að greiða arð og kaupa upp eigin bréf, en líkt og Kjarn­inn hefur áður greint frá stendur til að greiða hlut­höfum Sím­ans 8,5 millj­arða króna með þessum tveimur leiðum vegna sölu dótt­ur­fé­lags síns Sensa.

For­dæmi frá öðrum löndum

Vilji fjar­skipta­fyr­ir­tækja til að aðskilja þjón­ustu­starf­semi sína frá inn­viða­starf­semi er ekki eins­dæmi á Íslandi. Árið 2014 skap­aði tékk­neski hluti fyr­ir­tæk­is­ins O2 sér­stakt félag fyrir inn­viða­starf­semi sína, en sam­kvæmt umfjöllun ráð­gjafa­fyr­ir­tæk­is­ins McK­insey um málið græddu hlut­hafar mjög á þessum aðskiln­aði.

Árið 2019 lauk svo aðskiln­aði inn­viða- og þjón­ustu­hluta danska fjar­skipta­fyr­ir­tæk­is­ins TDC, að frum­kvæði nýrra fag­fjár­festa sem komu inn í félag­ið.

Nátt­úru­leg ein­okun

Rekstur inn­viða­kerfa fjar­skipta­fyr­ir­tækj­anna hefur einnig verið umdeilt mál víðs vegar um Evr­ópu. Inn­við­irnir eru í mörgum til­vikum dæmi um svo­kall­aða nátt­úru­lega ein­ok­un, þar sem gríð­ar­legur kostn­aður við að setja upp kerfin getur komið í veg fyrir sam­keppni frá öðrum félög­um.

Ítalska fjarskiptafélagið Telecom Italia (TIM) hefur hafið aðskilnað á milli eigin innviða og fjarskiptaþjónustu
Mynd: EPA

Sökum þess hafa stjórn­völd víða kraf­ist þess að fjar­skipta­fyr­ir­tækin aðgreini inn­viði sína frá reglu­legri starf­semi til að tryggja opið aðgengi að þeim. Breska sam­keppn­is­eft­ir­litið krafð­ist þess að rekstur þjón­ustu og inn­viða félags­ins BT yrði aðskil­inn árið 2005 og þrýst­ingur frá sænsku yfir­völdum leiddu til þess að fjar­skipta­fé­lagið Telia gerði slíkt hið sama árið 2007.

Í ágúst í fyrra hóf svo ítalska fjar­skipta­fyr­ir­tækið Tel­ecom Italia (TIM) sams konar aðskiln­að, en sam­kvæmt frétt Bloomberg um málið er hann liður í áformum stjórn­valda þar í landi um að skapa eitt inn­viða­fyr­ir­tæki í fjar­skiptum fyrir alla Ítal­íu.

Ekki nægi­leg upp­bygg­ing með sér­stöku félagi

Fyrir 20 árum síðan birti rík­is­stjórnin hér á landi skýrslu vegna fyr­ir­hug­aðrar einka­væð­ingar Lands­sím­ans, for­vera Sím­ans. Í henni var mælt gegn því að skilja grunn­kerfi Lands­sím­ans frá fyr­ir­tæk­inu og halda því eftir í sjálf­stæðri rík­is­stofnun eða félagi í rík­i­s­eigu.

Slíkur aðskiln­aður var ekki nauð­syn­legur á þeim tíma, að mati skýrslu­höf­unda. Sam­kvæmt þeim hefði rík­is­stofnun eða félag í eigu rík­is­ins sem sæi um rekstur grunn­kerf­is­ins „ekki nægj­an­legan hvata til tækni­legrar upp­bygg­ingar og þró­unar þjón­ustu til að geta sinnt hlut­verki sínu og gæti orðið baggi á rík­is­sjóð­i.“

Höf­und­arnir bættu við að best væri að halda uppi þáver­andi þjón­ustu­stigi með sam­bæri­legum hættum eftir einka­væð­ing­una ef félag­inu yrði ekki skipt í tvennt. Þó bættu þeir við að sam­keppn­is­að­ilar Lands­sím­ans ættu að eiga greiðan og öruggan aðgang að grunn­kerf­inu.

Hagur hlut­hafa og almenn­ings í fyr­ir­rúmi

Sam­kvæmt Orra Hauks­syni verða val­kostir sem varða fram­tíð­ar­eign­ar­hald á Mílu kann­aðir með það að augna­miði að hámarka verð­mæti eigna félags­ins fyrir hlut­hafa. Einnig bætir hann við að fram­tíð­ar­þróun inn­viða sam­stæð­unnar eigi að verða hag­felld fyrir íslenskan almenn­ing. „Ekki liggur fyrir til hvaða nið­ur­stöðu þetta verk­efni mun leiða, en nánar verður upp­lýst um fram­vindu þess um leið og ástæða er til,“ segir hann.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar