Íslendingar eyddu á bilinu 10,5 til 12 milljörðum króna í fjárhættuspil á síðasta ári. Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði frá Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ) til starfshóps dómsmálaráðuneytisins um happdrætti og fjárhættuspil sem Kjarninn hefur undir höndum.
Upphæðin miðast við upplýsingar frá Landsbankanum en ekki er tekið fram hve stór hluti upphæðarinnar kom frá íslenskum fyrirtækjum. Hins vegar liggur fyrir að hreinar happdrættistekjur erlendra netsíðna af peningaspili hér á landi á síðasta ári voru um 5,7 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum frá talnagagnafyrirtækinu H2 Gambling. Áætlað er að upphæðin muni hækka á næstu árum og verði um 6,5 milljarðar í ár og rúmlega átta milljarðar árið 2025.
Vilja reka spilavíti sem „spilahöll“ á Íslandi
Breski miðillinn Times Higher Education, sem fjallar sérstaklega um málefni háskóla, greindi frá innihaldi minnisblaðsins í síðustu viku, þar sem kemur meðal annars fram að HHÍ leggur fram tillögu um að núverandi sérleyfishöfum skjávéla og söfnunarkassa verði heimilt að opna spilavíti. Í minnisblaðinu er þó notast við annað orðalag en spilavíti og lagt til að leyfi verði veitt til að opna „spilahöll (Casínó)“.

Um tillögu er að ræða og rétt er að taka fram að formleg beiðni um leyfi til að opna spilavíti hefur ekki borist dómsmálaráðuneytinu.
Ekki er fjallað nánar um útfærslu spilavítisins í minnisblaðinu en lagt er til að stjórnvöld fái erlendan sérfræðing á sviði happdrættismála, Philippe Vlaeminnck, til að „ráðleggja hvernig málum verði best háttað með það að markmiði að íslensk happdrættislög standist samanburð við slíka löggjöf annars staðar í Evrópu“. Miðar það að því að skilyrði EES-samningsins verði uppfyllt og að staða íslenskra happdrætta verði styrkt „svo þau geti sinnt því óumdeilanlega meginhlutverki sínu til að afla fjár til styrktar íslenskum þjóðþrifamálum“.
HHÍ hefur „barist ötullega“ fyrir fjárhættuspili á netinu
HHÍ leggur einnig til að þeir sem starfa á grundvelli sérstakrar lagaheimildar á íslenskum happdrættis- og getraunamarkaði verði heimilað að bjóða út vörur sínar og þjónustu, það er fjárhættuspil, á netinu. Lagt er til að öðrum íslenskum happdrættisfyrirtækjum verði veitt heimild til að taka þátt í að standa að því að bjóða upp á netleiki sem ekki rúmast innan leyfa núverandi sérleyfishafa skjávéla og söfnunarkassa, til dæmi Bingó.
Í rökstuðningi tillögunnar segir að Íslendingar hafi í dag greiðan aðgang að erlendu og jafnframt ólöglegu peningaspili á netinu. „Það skýtur því skökku við að innlendir sérleyfishafar hafi ekki mátt bjóða upp á peningaspil á Netinu og þarf að leiðrétta það misræmi,“ segir í tillögu HHÍ.
Í tillögunni segir jafnframt að þróun á leikjamörkuðum innan ríkja Evrópusambandsins hafi leitt í ljós að breytingar og reglusetning eru nauðsynlegar til að bregðast við aukinni eftirspurn neytenda eftir netleikjum. „Reglusetning er leið til að skapa heilbrigt leikjaumhverfi sem allir njóta góðs af,“ segir í tillögu HHÍ.
HHÍ hefur lengi barist fyrir því að fá að halda úti fjárhættuspili á netinu. Á heimasíðu HHÍ er sérstaklega tekið fram að ötullega hafi verið barist fyrir því síðustu ár að bjóða upp á íslenskt peningaspil á netinu, með leikjum sambærilegum þeim sem eru í Gullnámunni og skafmiðunum í Happaþrennunni „en ekki haft erindi sem erfiði hjá stjórnvöldum. Niðurstöður eru ekki í sjónmáli og því alls óvíst hvort og hvenær af því verður,“ segir á heimasíðu HHÍ.
Með tillögunni til starfshópsins er vonast til þess að HHÍ fái loks leyfi til að bjóða upp á fjárhættuspil á netinu.
Hagnaður HHÍ yfir milljarður þrátt fyrir áhrif heimsfaraldurs
Happdrætti Háskóla Íslands aflar tekna með þrenns konar hætti. HHÍ var stofnað árið 1933 og hefur aflað fjár með happdrættum allt frá árinu 1934. Árið 1987 hóf HHÍ að selja skafmiða, hinar svokölluðu happaþrennur, og árið 1993 voru fyrstu spilakassar HHÍ teknir í notkun undir merkjum Gullnámunnar. Fram kemur á heimasíðu HHÍ að frá stofnun hafi happdrættið fjármagnað nær allar byggingar Háskóla Íslands en allur hagnaður af rekstri HHÍ fer til uppbyggingar Háskóla Íslands.

Nýjasti aðgengilegi ársreikningur happdrættisins er frá árinu 2020. Þar kemur fram að kórónuveirufaraldurinn hafi haft veruleg áhrif á rekstrarafkomu ársins, sérstaklega á rekstur Gullnámunnar sem heldur úti spilakössum. Allir staðir í Gullnámunni og sjálfsalar í Happaþrennunni voru lokaðir frá 24. mars til 24. maí 2020.
Hagnaður árið 2020 var 1.026 milljónir króna og minnkaði um 37 prósent milli ára, eða 593 milljónir króna. Veltan jókst í Flokkahappdrættinu en minnkaði í Gullnámunni og Happaþrennunni.
Framlag HHÍ til Háskóla Íslands nam 950 milljónum króna, sem er töluvert hærra en árið á undan þegar framlagið var 580 milljónir króna. Vert er að taka fram að hagnaður HHÍ kemur ekki alfarið frá rekstri spilakassa, heldur eru tekjustoðirnar þrjá; happdrættið, happaþrennurnar og spilakassarnir.
Spurningamerki ítrekað sett við tekjuöflun HHÍ
Umræða um fjárhættuspil sem tekjuöflunarleið HHÍ og þar með Háskóla Íslands koma reglulega upp í samfélagsumræðunni.
Í byrjun febrúar 2021 stóðu Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS), sem stofnuð voru árið 2019, fyrir herferðinni Lokum spilakössum. Í ársreikningi HHÍ fyrir árið 2020 segir að herferðinni hafi markvisst verið beint gegn rekstri Gullnámunnar og Íslandsspilum og bendir HHÍ að happdrættið hafi „lagt ríka áherslu á ábyrga spilun og hefur meðal annars innleitt staðal samtaka evrópsku happdrættisfyrirtækja um ábyrga spilun.“ HHÍ og Íslandsspil reka saman vefinn abyrgspilun.is, sem hét áður spilafikn.is.
Í sama mánuði, mars 2021, skipaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, starfshóp til að kanna mögulegar réttarbætur á sviði happdrættismála. Hópnum er ætlað að gera tillögur til ráðherra um breytingar á lögum og reglugerðum um happdrætti, teljist þær nauðsynlegar, og eftir atvikum að greina fjárþörf til þess að tryggja að mögulegar breytingar geti átt sér stað.
Formaður hópsins er Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður en þar eiga einnig sæti fulltrúar þeirra happdrættisfyrirtækja sem starfa á íslenskum happdrættismarkaði, auk fulltrúa Samtaka áhugafólks um spilafíkn. Hópnum var gert að skila tillögum í júní 2021 en það gekk ekki eftir og var hópnum veittur ótilgreindur frestur.
Háskólinn leggi áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir
Starfshópur Háskóla Íslands skilaði hins vegar sínum tillögum í júní í fyrra. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands verði að taka tillit til nýjustu rannsókna um áhrif spilakassa á tiltekna hópa samfélagsins. Hvorki samkeppnissjónarmið né mögulegt tekjutap séu nægjanlegar ástæður til fresta því að grípa til aðgerða sem tryggja ábyrga spilun. Hópurinn telur HHÍ bera að leggja sérstaka áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir.
Á síðasta þingi lagði Flokkur fólksins fram frumvarp um bann við spilakössum. Í umsögn Háskóla Íslands um frumvarpið er kallað eftir því að málin „séu skoðuð heildstætt og ekki hrapað að niðurstöðu,“ enda sé árlegt framlag HHÍ skólanum mikilvægt. Frumvarpið náði ekki fram að ganga en var endurflutt í haust en hefur ekki verið tekið til umræðu á þingi.