Mynd: RÚV/Skjáskot bogi nils bogason
Mynd: RÚV/Skjáskot

Laun forstjóra Icelandair hækkuðu um næstum helming milli ára þrátt fyrir yfir 13 milljarða tap

Þrátt fyrir að Icelandair Group hafi tapað 13,7 milljörðum króna í fyrra hækkuðu laun forstjóra félagsins um næstum helming á árinu. Icelandair Group hefur fengið milljarða úr opinberum sjóðum til að koma sér í gegnum faraldurinn og meiri fyrirgreiðslu frá stjórnvöldum en nokkurt annað fyrirtæki á Íslandi vegna þessa.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair Group, fékk 518 þús­und Banda­ríkja­dali í laun og hlunn­indi á síð­asta ára. Á árs­loka­gengi árs­ins 2021 eru það 67,5 millj­ónir króna eða 5,6 millj­ónir króna á mán­uði. Til við­bótar fékk Bogi Nils 119,6 þús­und Banda­ríkja­dali í líf­eyr­is­greiðsl­ur, eða 15,6 millj­ónir króna á ofan­greindu gengi. Það þýðir að laun, hlunn­indi og líf­eyr­is­greiðslur hans á síð­asta ári voru sam­tals 83,1 millj­ónir króna, eða rúm­lega 6,9 millj­ónir króna að með­al­tali á mán­uð­i. 

Þetta kemur fram í árs­reikn­ingi Icelandair Group sem birtur var í síð­ustu viku.

Laun Boga hækk­uðu umtals­vert milli ára. Hann var með 355 þús­und Banda­ríkja­dali í laun á árinu 2020 og fékk þá 76 þús­und Banda­ríkja­dali í líf­eyr­is­sjóðs­greiðslur frá félag­inu. Þegar þessar tölur eru umreikn­aðar í íslenskar krónur á árs­loka­gengi síð­asta árs þýða þær að laun og hlunn­indi Boga voru 46,3 millj­ónir króna á árinu 2020, eða tæp­lega 3,9 millj­ónir króna á mán­uði, og líf­eyr­is­sjóðs­greiðsl­urnar alls 9,9 millj­ónir króna. Sam­tals voru laun, hlunn­indi og líf­eyr­is­sjóðs­greiðslur Boga á árinu 2020 því 56,2 millj­ónir króna miðað við árs­loka­gengi 2021, eða 4,7 millj­ónir króna á mán­uð­i. 

Laun, hlunn­indi og líf­eyr­is­sjóðs­greiðslur Boga hækk­uðu því um 48 pró­sent, eða næstum helm­ing, í Banda­ríkja­dölum talið milli ára.

Kjarn­inn sendi fyr­ir­spurn til Icelandair Group vegna máls­ins og óskaði eftir útskýr­ingum á launa­hækkun for­stjóra. Í svari upp­lýs­inga­full­trúa félags­ins segir að breyt­ing­una megi „lang­mestu leyti rekja til þess að á árinu 2020 tók for­stjóri á sig 30 pró­sent launa­lækkun stærstan hluta árs­ins. Þess má geta í þessu sam­hengi að árs­reikn­ingur félags­ins er í USD en öll laun á Íslandi, þ.m.t. for­stjóra eru greidd í íslenskum krón­um. Með­al­gengi íslensku krón­unnar gagn­vart USD styrkt­ist á milli ára og ýkir það hækk­un­ina í árs­reikn­ingn­um.“

Gengi íslensku krón­unnar gagn­vart Banda­ríkja­dal veikt­ist um 2,5 pró­sent á síð­asta ári. 

Í skýrslu til­nefn­inga­nefndar Icelandair Group, sem var birt í Kaup­höll Íslands í gær, segir að það sé við­var­andi áhætta fyrir félagið að lyk­il­starfs­menn hætti þar sem þeir fá ekki nægi­lega vel greitt fyrir störf sín, en þrír úr fram­kvæmda­stjóri Icelandair Group hafa hætt störfum frá síð­asta aðal­fundi. Í við­tölum sem nefndin tók við stjórn­endur og stjórn­ar­menn í félag­inu kom fram að þeir teldu þörf á „sterk­ari varð­veislu­á­ætlun ásamt end­ur­skoð­uðu starfs­kjara­fyr­ir­komu­lagi æðstu stjórn­enda“.

Sagði launa­hækk­anir hér á landi „al­gjör­lega út úr kort­inu“

Bogi hefur tjáð sig um launa­mál með nokkuð afger­andi hætti á und­an­förnum árum. Í maí í fyrra var hann til að mynda gestur Dag­mála í sjón­varpi mbl.is þar sem kjara­mál voru rædd. Þar sagði Bogi meðal ann­ars: „Launa­hækk­­an­ir hér á Íslandi hafa ver­ið, leyfi ég mér að segja, al­­gjör­­lega út úr kort­inu miðað við sam­keppn­is­lönd­in. Síð­ustu tólf mán­uði hafa þetta verið ríf­­lega tíu pró­sent á árs­grund­velli meðan við erum að horfa upp á núll til tvö pró­­sent hjá sam­keppn­is­lönd­un­­um. Þannig að þetta verður alltaf mjög krefj­andi verk­efni fyr­ir ís­­lensk fyr­ir­tæki að standa í þess­­ari sam­keppni en við erum að vinna í þessu mód­eli, þessu ís­­lenska mód­eli þannig að tekju­mó­d­elið verður að end­­ur­­spegla það.“

Sum­arið 2020 stóðu yfir harðar kjara­deilur milli Icelandair Group og starfs­manna félags­ins, sér­stak­lega flug­freyja og -þjóna. Sam­stæðan fór fram á að starfs­menn að laun og rétt­indi þeirra myndu skerð­ast. Þegar að flug­freyjur og flug­þjónar höfn­uðu samn­ingi þess efnis hót­aði Icelandair að ráða starfs­fólk úr öðru stétt­ar­fé­lagi. Um samd­ist að lok­um.

Í jan­úar 2022 dæmd­i ­Fé­lags­dómur Flug­freyju­fé­lagi Íslands í vil í ágrein­ingi við Icelandair Group. Málið snérist um það hvort starfs­aldur ætti að ráða þegar Icelandair end­ur­réði flug­freyjur sem sagt var upp starfi sum­arið 2020. Icelandair sagði upp 95 pró­sent flug­freyja á meðal að á kjara­við­ræð­unum stóð og sam­kvæmt ­dómi Félags­dóms bar Icelandair að fara eftir starfs­aldri þegar félagið aft­ur­kall­aði upp­sagnir flug­freyja og flug­þjóna. Það gerði sam­stæðan ekki.

Tapað nærri 80 millj­örðum króna á fjórum árum

Icelandair Group tap­aði 13,7 millj­­örðum króna á árinu 2021 miðað við gengi krónu í lok þess árs en félagið gerir upp í Banda­­ríkja­döl­­um. Þar af tap­aði félagið 5,1 millj­­arði króna á síð­­­ustu þremur mán­uðum árs­ins. Elds­­neyt­is­verð á síð­­asta árs­fjórð­ungi árs­ins var að með­­al­tali tólf pró­­sent hærra en á þriðja árs­fjórð­ungi og 91 pró­­sent hærra en á fjórða árs­fjórð­ungi árið á undan og hafði þar af leið­andi umtals­verð áhrif á afkomu Icelandair Group. EBIT, afkoma félags­­ins fyrir fjár­­­magns­­gjöld og skatta á fjórða árs­fjórð­ungi batn­aði veru­­lega milli ára og var sú besta frá árinu 2016.

Rekstr­­ar­tap á síð­­asta ári var 17,7 millj­­arðar króna, en end­an­­legt tap dróst saman vegna þess að aðrar tekjur voru jákvæð­­ar. Þar á meðal voru sala eigna, í Iceland Tra­vel og Icelandair Hot­els, og tekju­­færsla vegna reikn­aðra vaxta á vaxta­­lausri frestun á greiðslu skatta.

Tap Icelandair Group á árinu 2020 var 51 millj­­­arður króna, árið 2019 tap­aði það 7,8 millj­­­arðar króna og á árinu 2018 var tapið um 6,8 millj­­­arðar króna. Því hefur sam­­­stæðan tapað yfir 79 millj­­­örðum króna á síð­­­­­ustu fjórum árum.

Hefur fengið millj­arða úr rík­is­sjóði til að takast á við far­ald­ur­inn

Ekk­ert eitt félag hefur fengið meiri fyr­ir­greiðslu úr hendi hins opin­bera frá því að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á en Icelandair Group. 

Engin sam­steypa nýtti til að mynda hluta­bóta­leið­ina af meiri krafti þegar henni var komið á í upp­hafi far­ald­urs. Alls setti Icelandair 92 pró­­­sent allra starfs­­­manna sinna í minnkað starfs­hlut­­­fall í mars 2020. Í mars og apríl það ár fengu launa­­menn hjá þeim félögum sem mynda Icelanda­ir-­­sam­­stæð­una alls um 1,1 millj­­arð króna í greiðslur frá Vinn­u­­mála­­stofnun vegna minn­k­aðs starfs­hlut­­falls. Icelandair nýtti leið­ina lengur en tölur um heild­ar­greiðslur til sam­stæð­unnar vegna þessa hafa ekki verið birt­ar.

Félagið var líka í sér­­­flokki þegar kom að því að þiggja svo­­kall­aða upp­­sagn­­ar­­styrki. Styrkirnir hjálpa fyr­ir­tækjum að segja upp fólki án mik­ils kostn­aðar fyrir þau vegna greiðslu upp­­sagn­­ar­frests. Icelandair Group, og tengd félög, hafa fengið alls 4,7 millj­­arða króna í slíka frá því í maí 2020. Alls hafa verið greiddir úr um 12,1 millj­­arðar króna í upp­sagn­ar­styrki. Það þýðir að 39 pró­­sent heild­­ar­­styrkj­anna hafa runnið til einnar fyr­ir­tækja­­sam­­stæðu, Icelandair Group.

Tekju­falls­styrkir, vaxta­laus lán og rík­is­á­byrgð

Í árs­reikn­ingi Icelandair Group vegna árs­ins 2021 segir að félagið hafi líka fengið 195,6 millj­ónir króna í tekju­falls­styrki auk þess sem sam­stæð­an 

hefur líka nýtt sér úrræði stjórn­­­valda um að fresta skatt­greiðslum og trygg­ing­­ar­gjaldi sem félagið hefur dregið af starfs­­fólki. Heild­­ar­­upp­­hæðin sem félagið hefur frestað greiðslu á er 9,3 millj­­ónir Banda­­ríkja­dala, eða 1,2 millj­­arðar króna. Þessi lán vera enga vexti en Icelandair Group reiknar þann vaxta­­kostnað sem félagið sparar sér til tekna upp á alls 365 millj­­ónir króna.

Vélar Icelandair fengu nýverið nýtt útlit.
Mynd: Icelandair/skjáskot

Til við­­bótar hefur Icelandair Group aðgengi að lána­línum upp á 22,4 millj­­arða króna. Uppi­staðan af þeirri upp­hæð var lána­lína hjá Íslands­­­banka, 65 pró­sent í eigu rík­is­ins, og Lands­­bank­­an­um, að öllu leyti í eigu rík­is­ins, sem íslenska ríkið ábyrgð­ist að 90 pró­­sent leyti. Aldrei hefur verið dregið á umræddar lána­línur og Icelandair Group til­kynnti í gær að það hefðisagt upp lána­lín­unni með rík­is­á­byrgð­inni

Sótti sér tvisvar nýtt hlutafé upp á meira en 30 millj­arða

Icelandair Group fór tví­­­vegis í hluta­fjár­­aukn­ingu eftir að kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­inn skall á. Félagið safn­aði alls 23 millj­­­örðum króna í útboði sem fór fram í sept­­­em­ber 2020, en við það þynnt­ust hlut­hafar niður um meira en 80 pró­sent. Stærstir í þeim hópi voru íslenskir líf­eyr­is­sjóð­ir. Almenn­ingur tók mik­inn þátt í þess­ari aukn­ingu og hlut­höfum í Icelandair Group fjölg­aði um sjö þús­und. Hlut­höfum hefur haldi áfram að fjölga síðan og um síð­ustu ára­mót voru þeir orðnir 15.287, sem er 1.779 fleiri en árið áður.

Allir sem tóku þátt í útboð­inu haustið 2020 þynnt­ust svo niður sum­arið 2021 þegar Icelandair Group gerði bind­andi sam­komu­lag við banda­ríska fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­sjóð­inn Bain Capi­tal um að hann keypti nýtt hlutafé í flug­­­­­fé­lag­inu. Sam­­­kvæmt sam­komu­lag­inu greiddi Bain Capi­tal 8,1 millj­­­arð króna og eign­að­ist fyrir vikið 16,6 pró­­­sent hlut í Icelandair Group. Bain Capi­tal átti 15,7 pró­­sent hlut í Icelandair Group um síð­­­ustu ára­­mót og var lang stærsti eig­andi félags­­ins.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar