Unsplash/Rinson Chory

Ólögleg viðskipti grafa undan loftslagsávinningi

F-gös eru manngerðar gróðurhúsalofttegundir sem hafa mikinn hnatthlýnunarmátt. Evrópusambandið hefur um árabil unnið að útfösun á þessum efnum sem einna helst eru notuð sem kælimiðlar. Í kjölfarið hefur verð á F-gösum hækkað sem ásamt ónógu eftirliti hefur leitt til svartamarkaðsviðskipta með F-gös. Loftslagsáhrif þessara viðskipta eru talin jafngilda útblæstri 6,5 milljón bíla á hverju ári.

F-gös, eða flú­or­aðar gróð­ur­húsa­loft­teg­und­ir, eru mann­gerðar gas­teg­undir sem fram­leiddar hafa verið und­an­farna ára­tugi til notk­unar í marg­vís­legum iðn­aði og vör­um. Langstærsti hluti F-gasa sem er í umferð á Íslandi er not­aður sem kæli­mið­ill, svo sem kæli­kerfi í skip­um, stór­versl­un­um, veit­inga­stöðum og til kæl­ingar tækni­rýma. Einnig finn­ast þessi efni í loft­ræs­ing­um, varma­dæl­um, frauð­plasti og úða­brús­um. Þessar gas­teg­undir eru gríð­ar­lega öfl­ugar gróð­ur­húsa­loft­teg­undir en þrátt fyrir það hefur lítið farið fyrir áhrifum þess­ara efna í lofts­lags­um­ræð­unni.

F-gös voru tekin í notkun á sínum tíma til að bregð­ast við aðkallandi vanda­máli - eyð­ingu óson­lags­ins. Árið 1987 sam­þykktu þjóðir heims Montr­eal-­bók­un­ina sem sner­ist um að vernda óson­lagið með því að hætta notkun óso­neyð­andi efna t.d. fre­ons. Með því að banna freon og önnur óso­neyð­andi efni tókst heims­byggð­inni að stöðva eyð­ingu óson­lags­ins og er þetta tal­inn árang­urs­rík­asti alþjóða­samn­ing­ur­inn sem gerður hefur verið á sviði umhverf­is­mála. Þessum góða árangri má þakka F-gös­unum sem komu í stað óso­neyð­andi efn­ana. F-gösin eru þó ekki galla­laus og stuðla að öðru ekki síður flókn­ara máli, þ.e. lofts­lag­breyt­ing­um.

Öfl­ug­ari gróð­ur­húsa­loft­teg­undir en CO₂

F-gös eru, eins og áður seg­ir, mörg hver öfl­ugar gróð­ur­húsa­loft­teg­undir og hafa stór­kost­legan hnatt­hlýn­un­ar­mátt. Um er að ræða fjöl­breyttan gasa­hóp og eru efnin mis­skað­leg en skað­leg­ustu F-gösin geta verið allt að 23 þús­und sinnum öfl­ugri gróð­ur­húsa­loft­teg­undir en koltví­sýr­ing­ur.

Árið 2014 sam­þykkti Evr­ópu­sam­bandið til­skipun um að draga úr losun á F-gösum um 60% fyrir árið 2030, meðal ann­ars með því að banna notkun F-gasa í ákveð­inn búnað og vörur og skerða heild­ar­magn F-gasa sem sett eru á mark­að. Árið 2016 var síðan Kigali-við­bótin við Montr­eal-­bók­un­ina sam­þykkt en með henni er gert ráð fyrir því að fram­leiðsla og notkun F-gasa drag­ist saman um 80% til árs­ins 2050. Ef ríki heims fram­fylgja Kigali-við­bót­inni er talið að hægt sé að koma í veg fyrir allt að hálfrar gráðu hlýnun á þess­ari öld og spilar útfösun F-gasa því stórt hlut­verk í því að halda hlýnun jarðar undir 1,5 gráðu.

Umhverf­is­rann­sókna­stofn­unin EIA (e. Environ­mental Investigation Agency) gaf út skýrslu síð­ast­liðið sumar sem bendir til þess að svarta­mark­aðsvið­skipti á kæli­m­iðlum í Evr­ópu grafi nú undan slíkum lofts­lags­á­vinn­ingi.

F-gös eru meðal annars notuð í kælikerfum í stórverslunum.
Unsplash/eduardo Soares

Stærsti umhverf­is­glæpur Evr­ópu

Eftir að Evr­ópu­sam­bandið hóf útfös­un­ar­tíma­bilið á F-gösum hefur verðið á vetn­is­flú­or­kolefnum (HFC), ákveð­inni teg­und F-gasa sem er að mestu leyti notuð sem kæli­m­iðl­ar, stór­auk­ist. Með hækk­andi verði, minna fram­boði og veiku eft­ir­liti hafa glæpa­sam­tök séð sér leik á borði og hafa svarta­mark­aðsvið­skipti á kæli­m­iðlum blómstrað innan Evr­ópu und­an­farin ár.

EIA telur umfang þess­ara ólög­legu við­skipta vera umtals­verða. Veru­legt mis­ræmi er á milli til­kynn­inga um útflutn­ing HFC-efna frá Kína og til­kynn­inga um inn­flutn­ing á HFC-efnum til Evr­ópu. Það gefur til kynna að mun meira af þessum efnum séu að koma inn í álf­una en heim­ild er fyr­ir. Sam­kvæmt EIA leiða við­skiptin sem eiga sér stað á svarta­mark­aðnum til þess að þriðj­ungi meira af HFC-efnum er í umferð en heim­ild er fyrir innan Evr­ópu­sam­bands­ins.

Ferða­lag kæli­m­iðl­ana

HFC-efnin eru að mestu leyti fram­leidd í Kína og kom­ast inn á evr­ópskan markað í gegnum m.a. Rúss­land, Tyrk­land og Úkra­ínu. Rúm­enía virð­ist síðan vera vin­sæll áfanga­staður fyrir efnin sökum þess hve auð­velt er að koma þeim í gegnum landa­mær­in.

Starfs­menn EIA fóru til Rúm­eníu til að rann­saka þessi ólög­legu við­skipti og áttu ekki í vand­ræðum með að finna ein­stak­linga sem til­búnir voru að brjóta lög til að útvega þeim HFC-efni. Efn­unum hafði verið smyglað til Rúm­en­íu, oft í einnota ílátum sem eru ólög­leg í Evr­ópu­sam­band­inu. Frá Rúm­eníu er kæli­m­iðl­unum síðan smyglað um alla Evr­ópu, m.a. til Belg­íu, Ítal­íu, Spánar og Eng­lands.

Clare Perry, leið­togi lofts­lags­her­ferða hjá EIA, segir tím­ann til að takast á við lofts­lags­breyt­ingar á þrotum og því megi mann­kynið ekki við mis­tökum sem þess­um. „Stærð­argráða ólög­legra við­skipta á vetn­is­flú­or­kolefnum innan Evr­ópu­sam­bands­ins ætti að hringja við­vör­un­ar­bjöllum - þetta er stærsti umhverf­is­glæp­ur­in­ins sem eng­inn hefur heyrt um.“

Perry segir einnig að ólög­leg við­skipti á HFC-efnum hafi hingað til ekki verið for­gangs­at­riði hjá yfir­völdum og séu við­ur­lögin við slíkum glæpum smá­vægi­leg sam­an­borið við hagn­að­inn af því að fremja glæp­inn.

Til að meta umfang vand­ans sendi EIA spurn­inga­lista til breiðs hóps af fólki sem starfar m.a. með kæli­m­iðla og loft­ræst­ing­ar. Af þeim sem tóku þátt í könn­un­inni sögð­ust 83% vita um eða gruna ólög­lega HFC notkun og 78% sögð­ust hafa séð eða verið boðið kæli­m­iðla í einnota ílát­um. Á sama tíma sögð­ust fáir vita til þess að rík­is­stjórnin í þeirra landi væri að gera eitt­hvað til að taka á ólög­legum við­skiptum á HFC-efn­um.

Engin mál um smygl komið upp á Íslandi

Ísak Sigurjón Bragason Mynd: Aðsend

Áætlað er að um 7% af losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórn­valda komi frá F-gös­um, en það er sam­bæri­legt allri losun frá úrgangi á Íslandi. Í dag eru til umhverf­is­vænni stað­göngu­kostir sem ættu í flestum til­fellum að geta komið í stað kerfa sem krefj­ast notk­unar F-gasa.

Ísak Sig­ur­jón Braga­son, sér­fræð­ingur hjá Umhverf­is­stofn­un, segir að hingað til hafi engin mál um smygl á F-gösum hafi komið upp á Íslandi svo stað­fest sé. Það sé þó ekki hægt að full­yrða með vissu að smygl eigi sér ekki stað. Hann segir að hið umfangs­mikla smygl inn í Evr­ópu þrí­fist að hluta til á for­sendum þess að ekki er athugað við hvern flutn­ing milli landa hvort við­kom­andi send­ing eigi sér sam­svörun í evr­ópsku kvót­un­um. Hér á landi hafi verið reynt að koma í veg fyrir smygl með því að gera kröfu um að inn­flutn­ings­heim­ildir séu stað­reyndar áður en send­ingar eru afgreiddar úr tolli.

„Í því njótum við þess ef til vill líka að vera eyja. Það er hins vegar til að mynda hægt að gera sér í hug­ar­lund að smygl gæti átt sér stað milli skipa úti á rúm­sjó fjarri eft­ir­lits­yf­ir­völd­um. Við höfum hins vegar ekki séð nein sönn­un­ar­gögn þess að slíkt eigi sér stað,“ segir Ísak.

Smyglarar beita ýmsum brögðum til að smygla HFC-efnum milli landa.
Unsplash/Cameron Venti

Ísak bendir á að Ísland sé ekki hluti af evr­ópska kvóta­kerf­inu heldur hafi verið sett á fót kvóta­kerfi hér á landi sem byggir á ákvæðum Montr­eal-­bók­un­ar­inn­ar. Hér á landi fer eft­ir­litið með F-gösum fram þannig að inn­flutn­ingur er vaktaður af Umhverf­is­stofnun með full­tingi Toll­stjóra. Fyrir hverja send­ingu þurfa inn­flytj­endur að fá stað­fest­ingu Umhverf­is­stofn­unar á að það magn vetn­is­flú­or­kolefna sem þeir hyggj­ast flytja inn rúmist innan þeirra inn­flutn­ings­heim­ilda sem þeim hefur verið úthlutað fyrir árið, áður en hún fæst afgreidd úr tolli.

Að sögn Ísaks er eft­ir­litið á Íslandi ólíkt því sem ger­ist í mörgum öðrum löndum Evr­ópu þar sem ekki er kannað hvort heim­ildir liggi fyrir inn­flutn­ingi áður en send­ingum er hleypt í gegn. Hann bætir við að stundum séu gerðar handa­hófs­kenndar skoð­anir á send­ingum hér á landi til að sann­reyna að inni­haldið sé í sam­ræmi við gögnin sem þeim fylgja.

Ísak bendir á að ef ein­hver hefur upp­lýs­ingar um eitt­hvað mis­jafnt varð­andi við­skipti með kæli­m­iðla á Íslandi er hægt að senda Umhverf­is­stofnun ábend­ingu í gegnum vef­inn. Einnig sé hægt að senda nafn­lausa ábend­ingu ef fólk kýs það held­ur.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnRakel Guðmundsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar