Pexels

Parísarsáttmálinn – tímamótasamningur en tíminn á þrotum

Parísarsáttmálinn markar tímamót í alþjóðasamvinnu á sviði loftslagsmála. Sáttmálinn hefur þó ekki skilað tilætluðum árangri og eru ríki heims nú langt frá því að ná settu markmiði um að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C eða 2°C. Miðað við núverandi landsframlög mun meðalhitastig jarðar að öllum líkindum hækka um 2.7-3.1 gráður. Kjarninn fer yfir Parísarsáttmálann, kosti hans og galla, hvernig staðan er í dag og hvernig staðan gæti orðið ef ekki er gripið til róttækra aðgerða.

Loftslagsbreytingar eru óumdeilanlega flóknasta og alvarlegasta umhverfismál sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Þetta hefur verið vitað í áratugi en árið 1992 var ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun haldin í Rio de Janeiro, einnig þekkt sem Ríófundurinn. Þar var Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) samþykktur af 155 ríkjum og Evrópusambandinu. Í kjölfarið var fyrsta aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (Conference of Parties, eða COP) haldið árið 1995. Síðan þá hafa árlegar ráðstefnur verið haldnar þar sem hátt í 200 ríki eiga í viðræðum og taka ákvarðanir varðandi aðgerðir í loftslagsmálum. 

Þrátt fyrir áratugi af samningaviðræðum hafa þessar ráðstefnur skilað takmörkuðum árangri. Ríki sem taka þátt í ráðstefnunum eru ólík af stærð, stjórnarfari og eru misnæm fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Þegar ákvarðanir eru teknar þarf að vera samstaða á milli þessara ólíku ríkja. Því miður vill niðurstaðan oft verða sú að lægsti samnefnarinn ræður för. 

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. IPCC hefur bent á að nauðsynlegt sé að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C annars muni það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir jarðarbúa, lífríki og vistkerfi á jörðinni. 

Auglýsing

Í París árið 2015 komu ríki heims sér loksins saman um nauðsynleg loftslagsmarkmið og skrifuðu undir hinn umtalaða Parísarsáttmála. Þá komust ríki heims að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að til að stemma stigu við loftslagsbreytingar þyrftu allir að leggjast á eitt til að halda hnattrænni hlýnun andrúmsloftsins vel undir 2°C að meðaltali miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar og reyna með fremsta megni að halda hlýnunni undir 1,5°C fyrir árið 2100.

Hvernig virkar Parísarsáttmálinn? 

Meginmarkmið sáttmálans er að halda hlýnun jarðar vel undir 2°C, en auk þess er lögð áhersla á að styrkja stöðu þróunarríkja til að aðlagast loftslagsbreytingum og ná hápunkti í losun gróðurhúsalofttegunda eins fljótt og hægt er. Markmiðið er að alþjóðlegu kolefnishlutleysi verði náð um miðja þessa öld, þ.e. að draga úr losun eins mikið og hægt er og bæta upp fyrir eftirstandandi losun með kolefnisbindingu.

Í stuttu máli virkar Parísarsáttmálinn svona: Til að ná settum markmiðum sáttmálans setja aðildarríki sér sjálfstæð markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofftegunda, svonefnd landsákvörðuð framlög eða landsmarkmið (Nationally Determined Contributions eða NDCs). Þá leggur hvert ríki fram drög að því hversu mikið þau ætla að draga úr losun til ársins 2030. Á fimm ára fresti þurfa ríki síðan að skila inn nýjum og metnaðarfyllri markmiðum. Til dæmis skilaði Evrópusambandið inn markmiði árið 2015 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. Í árslok 2020 skilaði Evrópusambandið síðan inn nýju, metnaðarfyllra markmiði um 55% samdrátt í losun. 

EPA

Parísarsáttmálinn tekur þannig tillit til einstakrar stöðu hvers ríkis hvað varðar t.d. efnahag, endurnýjanlega orku, umhverfisþætti o.s.frv. Þannig geta aðildarríki aðlagað landsframlögin að sinni stöðu og hvernig þau telja að þau geti lagt sitt að mörkum. 

Þrátt fyrir skýr markmið Parísarsáttmálans eru ýmis flækjustig sem honum fylgja. Mikill munur er á framlögum ríkja, framlögin eru frjáls og einnig er aðildarríkjum frjálst að nálgast lausnina eins og þeim hentar. Flest landsframlög taka fram ákveðið losunarmarkmið og tímasetningu til að ná settu markmiði. Þannig er í raun ekkert sameiginlegt viðmiðunarár sem ríki nota til að ná losunarmarkmiðunum. Til dæmis hefur Evrópusambandið sett sér markmið um að draga úr losun um 55% fyrir árið 2030 miðað við árið 1990, Japan ætlar að draga úr losun um 26% fyrir 2030 miðað við 2013 og Kína ætlar að ná hápunkti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030. 

Þar að auki felur sáttmálinn ekki í sér lagalega skuldbindingu. Það eru því í raun engar afleiðingar eða refsiákvæði fyrir lönd sem ná ekki að standast landsmarkmiðin sín. Í sáttmálanum er hins vegar að finna ákvæði um skyldu ríkja til að halda losunarbókhald og veita upplýsingar um stefnu, aðgerðir og árangur.

Auglýsing

Loftslagsréttlæti í París

Í loftslagsviðræðum snýst einn helsti ágreiningurinn um hvernig á að „deila byrðinni“ (e. burden sharing). Loftslagsbreytingar eiga sér að stærstum hluta stað vegna mengandi lífsstíls hnattræna Norðursins (e. global North), þ.e. ríkari, „þróaðri“ landa. Þessi ríki bera ábyrgð á lunganum af sögulegri losun gróðurhúsalofttegunda, sem og 92% af umframlosun gróðurhúsloftegunda, eða losun umfram það sem talið er örugg mörk (e. safe boundaries). Því telja ríki í hinu hnattræna Suðri (e. global South), þ.e. fátækari „þróunarríki“, að ríkari lönd í Norðri beri ábyrgð á því að draga hlutfallslega meira úr losun. Ríki í Norðri hafa hins vegar bent á að iðnvæðing og fólksfjölgun í Suðri bendi til þess að bráðum verði þessi ríki megin losunaraðilarnir og því þurfa þau einnig að axla ábyrgð. 

Þegar kom að því að setja hlýnunarmarkmið í París voru Evrópusambandið og önnur vestræn ríki sammála um tveggja gráðu markmiðið. Við gerð Parísarsamningsins var hins vegar meirihluti ríkja, eða 106 ríki, sem kröfðust þess að markið yrði sett á 1,5°C. Eyríki og Afríkulönd hafa krafist þess í áratugi að halda þurfi hlýnun undir 1,5°C til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga - sem ógna tilvist þeirra meira en annara ríkja. Þetta leiddi á endanum til þess að markmiðið var sett á 2°C og að „reyna með fremsta megni að halda hlýnun undir 1,5°C“.  

Landsframlög ekki í samræmi við markmið Parísarsáttmálans

Eins og áður sagði er meginmarkmið Parísararsamkomulagsins að halda hlýnun jarðar undir að minnsta kosti 2°C, það er því lykilatriði að landsframlög ríkja séu í samræmi við það. Þetta er hins vegar ekki raunin. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ef öll ríki myndu ná að standast markmiðin sín þá mun hlýnun jarðar samt ekki haldast undir 2°C heldur að öllum líkindum leiða til 2.7-3.1 gráðu hlýnunar. Með öðrum orðum, landsframlög ríkja eru langt frá því að vera nógu metnaðarfull til að standast markmið um að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C eða 2°C.

Til dæmis hefur The Climate Action Tracker sagt að 55% losunarmarkmið Evrópusambandsins, Noregs og Íslands sé ekki nógu metnaðarfullt til að vera samræmanlegt við markmið Parísarsáttmálans. Ofan á það bætist að flest ríki heims virðast vera fjarri því að ná markmiðum sem þau hafa sjálf sett sér. Miðað við núverandi losun munu líkurnar á því að halda hitastigi andrúmsloftsins undir 1,5°C gráðu renna okkur úr greipum eftir rúmlega fimm ár.  

Bára Huld Beck

Vert er að minna á að mikilvægt er að halda jörðinni undir 1,5°C til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga. Árið 2020 var meðalhitastig jarðar 1,2°C hærra en fyrir iðnbyltingu og samkvæmt nýútgefinni skýrslu IPCC mun hlýnun upp á hvern tíunda úr gráðu til viðbótar skipti máli. Afleiðingar hlýnunar eru nú þegar sjáanlegar með hitabylgjum, skriðuföllum, gríðarlegum skógareldum sem geisað hafa m.a. í Norður-Ameríku, Evrópu, Ástralíu og Brasilíu á undanförnum árum, útrýmingu dýrategunda, hopi jökla, hækkunar sjávarmáls, þurrkum, útrýmingu kóralrifs, loftslagsflóttafólki, þiðnun sífreris o.s.frv. Þessar afleiðingar mannlegra athafna, eða í raun athafna ákveðins hluta mannkyns, munu einungis versna með hækkandi hitastigi. 

Hvað gerist við þriggja gráðu hlýnun?

Eins og áður kom fram stefnir heimurinn nú í allt að þriggja gráðu hlýnun á innan við 80 árum. En hvernig myndi jörðin líta út við tveggja til þriggja gráðu hlýnun? Mikilvægt er að hafa í huga að um að ræða meðalhlýnun. Einhvers staðar í heiminum mun hlýna um meira en þrjár gráður og annar staðar minna. Til dæmis er Norðurheimskautið að hlýna rúmlega tvisvar sinnum hraðar heldur en aðrir staðir á jörðinni og þéttbýlar borgir munu hitna hlutfallslega meira heldur en dreifbýli.

Auglýsing

Líklegt er að þriggja gráðu hlýnun muni leiða til fordæmalausar hitabylgja og ríki í suður Evrópu líkt og Ítalía, Spánn og Grikkland verða skilgreind sem eyðimerkur. Talið er að allt að 150.000 Evrópubúar geti dáið ár hvert sökum hita. Norðurheimskautið mun verða algjörlega íslaust yfir sumarmánuðina fyrir árið 2050 og talið er að bráðnun jökla Grænlands sé nú þegar komið að svo kölluðum vendipunkti, þ.e. óafturkræfra breytinga.

Líkt og með önnur loftslagstengd vandamál leiðir bráðnun jökla af sér snjóboltaáhrif. Það er að segja, því meira sem jörðin hitnar, því meira bráðna jöklarnir og því minni er endurspeglun sólargeisla frá jöklunum og því meiri hitnar jörðin. Bráðnun jökla leiðir einnig til hækkandi sjávarmáls en miðað við 3 gráðu hlýnun er gert ráð fyrir því að sjávarmál mun hækka um einn til tvo metra. Það þýðir að borgir á við Amsterdam, New York og Jakarta eiga í hættu á óviðráðanlegum flóðum. Stór hluti regnskóga verður horfinn, uppskerubrestur og áhrifin sem loftslagsbreytingar munu hafa á landbúnað mun leiða til enn meiri hungursneyðar, farsótta og veirum líkt og kórónuveirunni mun fjölga. Með öðrum orðum, ef hitastigið á jörðinni hækkar um þrjár gráður mun stór hluti jarðarinnar einfaldlega vera ólífvænlegur. 

Það er óyggjandi staðreynd að hitastig jarðar mun hækka svo um munar og að loftslagstengdar hamfarir verða tíðari og alvarlegri. Þetta þýðir hins vegar ekki að öll von sé úti. Samkvæmt nýjustu skýrslu IPCC er möguleiki á að snúa þessari þróun við. Takist að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda mun hnattræn hlýnun tímabundið fara yfir 1,5°C á þessari öld en byrja síðan að lækka aftur. Með róttækum aðgerðum til að draga úr losun er þannig hægt að stöðva hækkun hitastigs á jörðinni og koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.

Helstu heimildir:

https://climateactiontracker.org/

https://himinnoghaf.is/

https://wedocs.unep.org/bitstream/handle/20.500.11822/34438/EGR20ESE.pdf

https://unfccc.int/resource/docs/2015/cop21/eng/10a01.pdf

https://www.ipcc.ch/report/ar6/wg1/downloads/report/IPCC_AR6_WGI_SPM.pdf

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnRakel Guðmundsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar