Mynd: EPA Ever Given þversum í skurðinum. Mynd tekin um borð í flutningaskipi Maersk, sem bíður þess að komast leiðar sinnar. Mynd: EPA

Stífla í Súes

Eitt stærsta flutningaskip í heimi virðist hafa lotið í lægra haldi fyrir vindhviðu á för sinni um Súes-skipaskurðinn í Egyptalandi á þriðjudagsmorgun. Þrátt fyrir tilraunir hefur fleyið, sem er lengra en Eiffel-turninn í París, ekki náðst á flot.

Flutningaskipið Ever Given, í eigu Evergreen, skipafélags í Taívan sem er það fjórða stærsta í heimi, strandaði sunnarlega í Súes-skipaskurðinum í Egyptalandi snemma á þriðjudagsmorgun, um kl. 5:40 að íslenskum tíma.

Síðan sat skipið þar pikkfast, þversum í skurðinum, umkringt dráttarbátum sem gerðu sitt besta til að losa það. Vinnuvélar hafa mokað sandi frá stefni skipsins, en ekki hefur enn náðst að koma risanum á flot þegar þetta er skrifað.

Samkvæmt frétt BBC var byrjað teikna upp áætlanir um að færa gáma frá borði til þess að létta skipið ef ekki næðist að koma því á rétt ról á háflóði í dag. Flutningaskipið, sem er eitt það stærsta sem siglir um heimshöfin, var á leið til Rotterdam í Hollandi frá kínversku hafnarborginni Yantian, drekkhlaðið varningi, er óhappið átti sér stað. Það tekur um 20 þúsund gáma.

Auglýsing

Samkvæmt yfirlýsingu skipafélagsins Evergreen er grunur um að skipstjórnarmenn þessa 400 metra langa og tæplega 60 metra breiða flutningaskips hafi misst skipið af réttri leið vegna sterkrar vindkviðu. Skipið rakst í botninn og fór síðan þversum í skurðinum og lokar allri umferð.

Súes-skurðurinn tengir saman Rauðahafið og Miðjarðarhafið og hefur verið ein mikilvægasta siglingaleið heimsins frá því hann var opnaður árið 1869, eftir áratuga mokstur. Um 18 þúsund flutningaskip sigla þessa leið 190 kílómetra löngu leið árlega, eða um 50 skip á dag.

Ever Given þversum í skurðinum. Mynd tekin um borð í flutningaskipi Maersk, sem bíður þess að komast leiðar sinnar. Mynd: EPA
Mynd: Instagram
Fjölmargir dráttarbátar hafa reynt að toga skipið til. Til þessa hafa þeir mátt sín lítils.
Skjáskot af vefnum Vessel Finder

Að fara um Súes-skurðinn á milli Asíu og Evrópu sparar um eina viku á siglingu miðað við að fara suður fyrir horn Afríku. Samkvæmt frétt Reuters eru skipafélögin byrjuð að hugsa sig um hvort snúa skuli skipum við og fara þá leið til Evrópu.

Talið er að um 12 prósent af öllum flutningum á hafi fari um Súes-skurðinn og um 9 prósent af allri olíu sem framleidd er í heiminum sömuleiðis. Það væri því töluvert rask fyrir flutningakerfið á heimsvísu ef skipið myndi liggja fast í skurðinum um lengri tíma.

Samkvæmt því sem bandaríska blaðið Washington Post hefur eftir Flavio Macau, sérfræðingi í virðiskeðjustjórnun, eru það aðallega olíuskip sem bíða þess að komast í gegnum skipaskurðinn og hafa sum þurft að sætta sig við að för þeirra tefjist um hátt í tvo sólarhringa nú þegar.

Olíubirgðir eru hins vegar miklar um heim allan, að sögn Macau og því ætti þetta ekki að koma að sök til skemmri tíma. „Þetta er ekki sá tími árs þar sem mest er að gera í skurðinum. Ef það væri haust eða sumar á norðurhveli jarðar værum við í meiri vandræðum,“ segir Macau.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur þó farið hækkandi í dag.

Hökt í kerfinu vegna áhrifa faraldursins

Að undanförnu hefur þó flutningakerfið á heimsvísu verið hálfhöktandi, vegna áhrifa heimsfaraldursins. Og þetta nýjasta óhapp í Súes-skurðinum er ekki til þess fallið að bæta stöðuna.

Í umfjöllun New York Times um vandræðin sem skipaflutningarnir á heimsvísu hafa verið í að undanförnu er haft eftir stjórnanda á Maersk-skipafélaginu að hann hafi aldrei upplifað annað eins ástand.

Stóraukin spurn bandarískra neytenda eftir ýmsum vörum sem framleiddar eru í Asíu, til dæmis æfingahjólum og skrifstofustólum til að hafa við heimaskrifboðið, hafa orðið til þess að jafnvæginu í flutningakerfinu er raskað.

Ever Given virðist pikkfast í skipaskurðinum mikla um Egyptaland sem hefur verið lífæð skipaflutninga á milli Asíu og Evrópu í rúm 130 ár.
EPA

Tómir gámar hafa safnast upp í höfnum í Bandaríkjunum og víðar á meðan flutningagáma skortir í Asíu sem lengir leið varnings á markað. Í ofanálag hefur reynst erfitt að koma vörum frá Bandaríkjunum til Asíu, þar sem flutningaskipin hafa verið að flytja tóma gáma beint til baka. Enda gríðarleg þörf fyrir gáma á hinum endanum.

Flutningaskip bíða þess að fá afgreiðslu við höfnina í Oakland í Kaliforníu, í upphafi marsmánaðar.
EPA

Faraldurinn og meðfylgjandi sóttvarnaráðstafanir hafa einnig gert það að verkum að erfitt hefur verið að fá nægilega marga hafnarstarfsmenn og bílstjóra til starfa, sem hefur leitt til keðjuverkandi tafa í höfnum heimsins.

Í frétt Reuters er haft eftir sérfræðingi að birgðakeðjan á milli Asíu og Evrópu sé þegar við þolmörk og stíflan í Súes-skurðinum komi á einkar slæmum tíma.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiErlent