Mynd: Bára Huld Beck

Telja að stjórnsýslulög hafi verið þverbrotin með skipun Páls sem ráðuneytisstjóra

Það hefur vart farið framhjá mörgum að skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu kærði ráðningu á ráðuneytisstjóra í mennta- og menningamálaráðuneytinu til kærunefndar jafnréttismála, og vann. Flestir hafa auk þess orðið varir við að ráðherra málaflokksins fór í kjölfarið í mál við skrifstofustjórann, sem tapaðist fyrir héraðsdómi. Einhverjir vita að skrifstofustjórinn kvartaði líka yfir ráðningunni til umboðsmanns Alþingis. En fæstir vita innihald þeirrar kvörtunar. Það verður rakið hér að neðan.

Mál Hafdísar Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, skók stjórnmálin í fyrra þegar kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á henni með ráðningu Páls Magnússonar sem ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þann 1. nóvember 2019.

Viðbrögð Lilju D. Alfreðsdóttur, ráðherra málaflokksins, við niðurstöðu kærunefndarinnar vöktu ekki síður athygli. Hún ákvað að íslenska ríkið myndi stefna Hafdísi Helgu persónulega til að fá úrskurð kærunefndarinnar ógildan. Í mars í ár hafnaði héraðsdómur Reykjavíkur öllum málsástæðum Lilju og sagði í niðurstöðu sinni að ekki hafi verið fyrir hendi neinir „annmarkar á málsmeðferð kærunefndarinnar sem leitt geti til ógildingar á úrskurði hennar.“ 

Lilja ákvað að áfrýja dómnum rúmum fjórum klukkustundum eftir að hann hafði fallið. Viðbúið er að málarekstur fyrir Landsrétti standi fram á næsta ár, og þar af leiðandi fram yfir komandi þingkosningar, sem fara fram 25. september. 

Kærunefnd jafnréttismála var ekki eina fyrirbærið innan stjórnsýslunnar sem Hafdís Helga vísaði málinu til. Í júní 2020 var greint frá því í fjölmiðlum að hún hefði líka vísað málinu til umboðsmanns Alþingis. Lítið hefur spurst til þess máls síðan. 

Auglýsing

Kjarninn hefur nú undir höndunum fjölmörg gögn um meðferð umboðsmanns á kvörtun Hafdísar Helgu, sem lögð var fram í byrjun árs 2020. Hér á eftir verður efnislegt innihald þess máls rakið.

Skaddaður pakki

Hafdís Helga fór upprunalega fram á að fá gögn málsins afhent 12. nóvember 2019, ellefu dögum eftir að greint var frá því að Páll Magnússon, sem hefur áratugum saman gegnt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn, hefði verið ráðinn í stöðu ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Sú beiðni var svo endurtekin með bréfi sem hún sendi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins 2. desember 2019. Erindið var ítrekað þrívegis fyrir jól það ár, án árangurs.

Hafdís Helga kvartaði því til umboðsmanns Alþingis 28. janúar 2020. Eftir að sú kvörtun var send inn fékk hún tilkynningu um að sending biði hennar á pósthúsi. Um var að ræða gögnin frá ráðuneytinu.

Í bréfi sem lögmaður hennar sendi til umboðsmanns Alþingis í byrjun febrúar 2020 segir að með pakkanum hafi fylgt bréf sem væri dagsett 13. janúar. „Kann umbjóðandi minn ekki skýringar á því af hverju bréfið var svo lengi á leið til hennar, en þess má geta að það var mjög illa farið og umslagið rifið á mörgum stöðum og með því fylgdi tilkynning um að umslagið hefði komið skaddað á dreifingarstöð Póstsins.“

Tryggvi Gunnarsson var umboðsmaður Alþingis þegar kvörtunin var send til embættisins. Hann lét af störfum fyrr á þessu ári.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í gögnunum kom meðal annars fram að auglýsingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um stöðu ráðuneytisstjóra hafi verið breytt á síðustu stundu þannig að í stað þess að gera að skilyrði að umsækjendur hefðu „yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af verkefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins“ var gerð krafa um að umsækjendur hefðu „þekkingu á verkefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins“. Þá var kröfu um „yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu“ breytt í kröfur um „reynslu af opinberri stjórnsýslu“.

Taldi Lilju hafa brotið stjórnsýslulög

Eftir að Hafdís Helga kvartaði til umboðsmanns Alþingis fékk erindið málsmeðferðarnúmer. Í kvörtuninni kom fram að Hafdís Helga teldi að mennta- og menningarmálaráðherra hefði „brotið gegn ákvæðum laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115120 ll, reglum um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands, nr. 393/2012, ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar með því að skipa Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þann l. desember 2019, en kvartandi var einn af umsækjendum um embættið. Kvartandi telur að það hafi verið bæði formlegir og efnislegir annmarkar á ákvörðun ráðherra um skipun í embættið og hafi annmarkarnir verið verulegir. Telur hún að gengið hafi verið framhjá sér við skipun í embættið.“

Í nánari útlistun á kvörtuninni kom fram að Hafdís Helga teldi að hæfnisnefndin sem skipuð var til að fara yfir umsækjendur um starf ráðuneytisstjóra hafi ekki uppfyllt skilyrði reglna þar sem að innan hennar hafi ekki verið til staðar þekking á starfsemi Stjórnarráðsins, hlutverki ráðuneytisstjóra né málefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 

Hafdís Helga taldi auk þess að það hefði verið brotið gegn réttindum hennar til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum, að brotið hafi verið gegn rétti hennar til aðgangs að gögnum málsins, að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við meðferð málsins, að verulegur misbrestur hafi verið á skráningu helstu niðurstaðna viðtala við umsækjendur, að annmarki hafi verið á rökstuðningi vegna skipunar ráðuneytisstjóra, að brotið hafi verið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar með því að ákvarðanir um að skera hóp umsækjenda niður hafi ekki verið teknar af ráðherra heldur af hæfisnefnd og að farið hafi verið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum þegar tilkynnt var opinberlega um skipun í embættið áður en að umsækjendur höfðu fengið upplýsingar um málið.  

Talaði við aðstoðarmenn og þá sem unnu álit fyrir ráðuneytið

Áætlað er að kostnaður vegna málareksturs Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, verði um tíu milljónir króna.

Til viðbótar við ofangreindan kostnað vegna málarekstursins kostaði það ríkissjóð fimm milljónir króna að skipa í embættið, en uppistaðan í þeim kostnaði var vegna starfa hæfisnefndar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, um málið sem birt var á vef Alþingis í júní.

Í kjölfar þeirrar niðurstöðu héraðsdóms að hafna málatilbúnaði íslenska ríkisins gegn Hafdísi Helgu sagði Lilja að í þeim lögfræðiálitum sem hún hefði aflað sér áður en hún tók þá ákvörðun að fara með málið fyrir dóm í fyrrasumar hefði komið fram að kærunefnd jafnréttismála hefði ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig kæranda var mismunað á grundvelli kynferðis. Hún teldi að efnislega byggði dómur Héraðsdóms Reykjavíkur á úrskurði kærunefndar jafnréttismála og því hefði verið áfrýjað. Hún sagði við fjölmiðla í mars að ákvörðunin um að áfrýja niðurstöðunni hafi verið ígrunduð.

Í svarinu við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar, sem var birt tveimur mánuðum eftir þá yfirlýsingu ráðherra, kom fram að ákvörðun um að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar, hefði verið tekin á fundi Lilju með tveimur aðstoðarmönnum hennar og tveimur lögmönnum, sem unnið höfðu umdeilt lögfræðiálit um málið, strax eftir að niðurstaðan lá fyrir.

Rúmum fjórum tímum eftir dómsuppsögu hafði ráðherra tilkynnt að niðurstöðunni yrði áfrýjað. Á áðurnefndum fundi kom einnig fram „sú staðfasta skoðun þeirra sem komu að skipan í starf ráðuneytisstjóra að rétt hefði verið staðið að málum og jafnréttislög hefðu ekki verið brotin.“

Auglýsing

Síðan gerðist nánast ekki neitt mánuðum saman. 

Tafðist ... vegna COVID

Þann 14. apríl í fyrra sendi lögmaður Hafdísar Helgu tölvupóst til umboðsmanns Alþingis þar sem spurst var fyrir um stöðu kvörtunarinnar. Í svari sem barst daginn eftir kom fram að það hefði „hægt nokkuð á starfsemi á skrifstofu umboðsmanns síðustu vikur vegna sóttvarnarráðstafana og forfalla sem tengjast þeim. Ég vænti þess að framhald málsins skýrist núna í apríl og biðst velvirðingar á töfunum.“

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála gegn mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði brotið gegn jafnréttislögum með því að hafa vanmetið konuna Hafdísi Helgu í samanburði við karlinn Pál, féll svo 27. maí 2020. 

Þegar lögmaður Hafdísar Helgu kannaði stöðu máls hennar hjá umboðsmanni Alþingis tæpri viku síðar fékk hún þau svör að umboðsmanni hefði ekki verið kunnugt um að mál Hafdísar hefði verið til meðferðar hjá kærunefnd jafnréttismála samhliða því að það var til athugunar hjá umboðsmanni. „Af úrskurði nefndarinnar sem var kveðinn upp 27. maí sl. verður ekki annað ráðið en að þar sé að einhverju leyti fjallað um sömu atriði og kvörtun þín f.h. Hafdísar til umboðsmanns lýtur að, einkum mat á hæfni umsækjenda um starf ráðuneytisstjóra. Geturðu vinsamlegast veitt umboðsmanni upplýsingar um hvaða atriði í kvörtuninni standa eftir og er að þínu mati tilefni til að fjalla sérstaklega um af hálfu umboðsmanns?“

Lögmaður Hafdísar Helgu svaraði þessum tölvupósti samdægurs og benti á fjölmörg atriði og sagði ljóst að kvörtunin til umboðsmanns Alþingis og kæra til kærunefndar jafnréttismála hafi alls ekki snúið að öllu leyti að sömu atriðum og að fullt tilefni væri til að umboðsmaður myndi fjalla um kvörtunina. Var þar sérstaklega bent á skipan og störf hæfisnefndarinnar og meint brot gegn fjölmörgum ákvæðum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar því til stuðnings.

Taldi ekki rétt að taka kvörtunina til frekari athugunar

Fyrir rúmu ári, 24. júní 2020, tilkynnti Víðir Smári Petersen, settur ríkislögmaður í málinu, lögmanni Hafdísar Helgu um það með tölvupósti að mennta- og menningarmálaráðherra hefði ákveðið að höfða mál á hendur Hafdísi Helgu til að fá úrskurði kærunefndar jafnréttismála ógildan. Sú ákvörðun byggði á lögfræðiáliti sem Víðir Smári og annar lögmaður, Guðjón Ármannsson, unnu fyrir ráðherrann.  

Auglýsing

Sex dögum síðar sendi þáverandi umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, bréf til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem henni var greint frá því að hann hefði lokið athugun sinni á kvörtun Hafdísar Helgu. Það gerði hann vegna þess að ráðherrann hafði höfðað mál gegn Hafdísi. Umboðsmaður taldi „ekki útilokað að í dómsmálinu kunni að reyna að einhverju leyti á þau sömu atriði og fjallað er um í kvörtun Hafdísar Helgu til mín. Það er því niðurstaða mín að ekki sé rétt að ég taki kvörtun Hafdísar Helgu til frekari athugunar. Telji hún rétt að bera fram nýja kvörtun að gengnum endanlegum dómi í málinu mun ég hins vegar líta svo á að skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þ.e. um að kvörtun sé borin fram innan árs frá því stjórnsýslugerningur sá sem um ræðir var til lykta leiddur, standi því ekki í vegi að ég geti tekið kvörtunina til athugunar enda berist þá ný kvörtun í beinu framhaldi af endanlegum dómi.“

Hlutleysi umboðsmanns gæti verið dregið í efa

Í bréfi sem umboðsmaður sendi til lögmanns Hafdísar Helgu sama dag, 30. júní 2020, kom fram að hann væri með það til athugunar, að eigin frumkvæði, skipan og störf hæfisnefnda við ráðningar í störf hjá hinu opinbera og aðferðir og efni samanburðar milli umsækjenda og mat á þeim, til dæmis þegar viðhöfð er sérstök stigagjöf fyrir einstaka hæfnis- og matsþætti. 

Nokkrum dögum síðar, 8. júlí, sendi umboðsmaður bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem hann sagði að kærunefnd jafnréttismála hafi ekki brugðist við athugasemdum sem henni hefðu borist frá embættinu, þótt bent hafi verið á annmarka í störfum hennar og umboðsmaður gert athugasemdir við að hún færi út fyrir valdsvið sitt. Tilefnið var að frumvarp ráðherra til nýrra jafnréttislaga og stjórnsýslu jafnréttismála hafði verið sett í samráðsgátt stjórnvalda. 

Þótt ekkert væri minnst á mál Hafdísar Helgu og Lilju í bréfinu var það sett í samhengi við málið í öllum helstu fjölmiðlum sem fjölluðu um það

Páll Magnússon starfaði sem bæjarritari Kópavogs áður en hann var ráðinn sem ráðuneytisstjóri. Hann hefur lengi starfað innan Framsóknarflokksins og bauð sig meðal annars fram til formanns árið 2009.
Mynd: Kópavogur.is

Og í bréfi sem lögmaður Hafdísar Helgu sendi til umboðsmanns Alþingis 16. júlí í fyrra segir að „auðvelt sé að tengja framangreinda umfjöllun umboðsmanns við það dómsmál sem hann telur „liggja fyrir" að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni höfða gegn umbjóðanda mínum. Telur umbjóðandi minn mjög óheppilegt að umboðsmaður blandi sér með þessum hætti í umræðu um einstök mál og að slíkt geti leitt til þess að hlutleysi umboðsmanns verði dregið í efa ef mál umbjóðanda míns kæmi aftur til meðferðar hjá umboðsmanni.“

Nokkrum dögum síðar, 21. júlí 2020, var Hafdísi Helgu birt stefna íslenska ríkisins á hendur henni. 

Fordæmi hunsað

Kærunefnd jafnréttismála fundaði 7. ágúst 2020 til að ræða bréf umboðsmanns og bregðast við því. Í fundargerð hennar er sérstaklega vakin athygli á því að í bréfinu hafi þess ekki verið getið að reynt hefði á atriði sem umboðsmaður gerði athugasemdir við í dómi Hæstaréttar frá 15. janúar 2015 í máli sem sneri að ráðningu innan Landspítalans. 

Í málinu hafði Landspítalinn höfðað mál á hendur karlkyns starfsmanni og krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður kærunefndar jafnréttismála, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að spítalinn hefði brotið af sér við ráðningu í starf yfirlæknis þar sem starfsmaðurinn var talinn hæfari til að gegna starfinu en sú kona sem ráðin var. 

Auglýsing

Fordæmi Hæstaréttar í málinu leiðir, að mati sérfræðigreininga sem Kjarninn hefur aðgang að, til þess að mat dómstóla á úrskurði kærunefndar jafnréttismála ætti einungis að snúa að því hvort nefndin hafi beitt lögmætum aðferðum við úrlausn sína eða farið út fyrir valdsvið sitt eða verksvið. 

Innan við mánuði síðar, 1. september 2020, var stefna íslenska ríkisins gegn Hafdísi Helgu þingfest. Ríkið tapaði málinu fyrir héraðsdómi, áfrýjaði og það bíður nú þess að verða tekið fyrir í Landsrétti. 

Miðað við málastöðu þess dómstigs er ekki búist við því að málið verði tekið fyrir fyrr en á næsta ári, rúmum tveimur árum eftir að ráðherra mennta- og menningarmála átti að hafa brotið gegn jafnréttislögum. Og mörgum mánuðum eftir að Alþingiskosningar eru yfirstaðnar. 

Enginn veit hver verður mennta- og menningarmálaráðherra eftir kosningar og hvort sá hafi áhuga á að halda áfram málarekstrinum gegn Hafdísi Helgu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar