Það sem KSÍ gerði vitlaust og sýndi „merki þöggunar- og nauðgunarmenningar“
KSÍ fékk upplýsingar um meinta hópnauðgun tveggja landsliðsmanna fyrir ellefu árum síðan í byrjun júní síðastliðinn. Eftir tilkynningu þar um frá starfsmanni sambandsins, tengdamóður þolandans, var meðal annars rætt við annan gerandann. Samt ákvað KSÍ að hlíta ráðleggingu almannatengslafyrirtækis og svara fyrirspurnum fjölmiðla um málið með villandi hætti. Niðurstaðan er sú að formaður KSÍ missti starfið, stjórn KSÍ sagði af sér, tengdamóðir þolandans hætti eftir 25 ára starf og framkvæmdastjóri KSÍ fékk fjölmargar hótanir.
Sunnudaginn 9. maí síðastliðinn birt kona frásögn á samfélagsmiðlinum Instagram um að tveir ónafngreindir, en þekktir, menn hefðu beitt hana kynferðisofbeldi árið 2010. Síðar var staðfest að atburðurinn hafi átt sér stað eftir landsleik Íslands og Danmerkur þann 7. september 2010 í Kaupmannahöfn. Um meinta nauðgun er að ræða og hún var kærð til lögreglu á sínum tíma. Sú kæra var dregin til baka en lögreglan tók rannsókn málsins upp að nýja í haust.
Tveir þáverandi landsliðsmenn, Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins um margra ára skeið, og Eggert Gunnþór Jónsson, hafa staðfest með opinberum yfirlýsingum að þeir séu mennirnir tveir sem grunaðir eru um verknaðinn. Þeir neita báðir staðfastlega sök.
Í frásögninni á Instagram sagði konan meðal annars: „Til að gera langa og ömurlega sögu stutta að þá ældi ég yfir annan þeirra í leigubílnum á leið á hótelið þeirra, svo aftur í rúmið á hótelinu en þeir létu það ekki stoppa sig og skiptust á að nauðga mér þar sem ég lá í rúminu ber að neðan með ælu í hárinu, andlitinu og fötunum.“
Einhverjir vissu eitthvað
Úttektarnefnd sem Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) skipaði fyrr á árinu að beiðni Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands, skilaði af sér skýrslu í dag. Þar er meðferð þessa máls innan KSÍ rakin með ítarlegri hætti en nokkru sinni áður.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að úttektarnefndin hafi rætt við einstaklinga sem tengdust karlalandsliðinu á þeim tíma sem hið meinta brot átti sér stað. Í þeim viðtölum hafi komið fram að einhverjir hefðu „fengið vitneskju um „að eitthvað hefði gerst í ferðinni sem átti ekki að gerast“, eins og einn þeirra orðaði það, og að það hefði lotið að því að tveir landsliðsmenn hefðu verið með stelpu uppi á herbergi hjá sér. Þeir einstaklingar sem nefndin ræddi við báru þó ekki að þeir hefðu heyrt frásagnir um að kynferðisbrot hefði átt sér stað en lögð hafi verið áhersla á að leyna atvikinu með vísan til þess að annar leikmaðurinn hefði átt kærustu sem ekki hefði mátt komast að því hvað hefði gerst.“
Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ, greindi nefndinni frá því í viðtali að hann hafi ekki heyrt af þessu máli fyrr en í ágúst 2021, löngu eftir að hann hætti störfum hjá KSÍ.
Síðan lá málið í lamasessi í næstum ellefu ár.
Tengdamóðir þolanda greinir frá
Þann 3. júní 2021 barst nafnlaust bréf til Guðna Bergssonar, þáverandi formanns KSÍ, Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, og Arnars Þórs Viðarssonar, landsliðsþjálfara karlalandsliðsins.
Bréfið var eftirfarandi:
„Varðandi val ykkar á landsliðshópnum fyrir næsta verkefni langaði mig að athuga hvort þið hjá KSÍ hefðuð hugmynd um hverja þið væruð í raun og veru að velja í lið Íslands. Ég efast um að gjörðir og hegðun ákveðinna aðila í hópnum hafi farið framhjá öllum þeim sem vinna fyrir ykkar hönd þar sem þessir ákveðnu aðilar eru sagðir vera kynferðisafbrota- og ofbeldismenn. Ég velti því fyrir mér hver afstaða ykkar í málum sem þessum er? Viljið þið virkilega að fyrirmyndir allra barna sem hafa áhuga á fótbolta séu kynferðisafbrota- og ofbeldismenn? Þar á meðal barnanna ykkar? Viljið þið vera meðsek í að gefa þessum einstaklingum góða stöðu í samfélaginu til þess að auðvelda þeim að komast upp með að misnota aðra? Þið hafið öll völdin til að velja í liðið og því miður sér maður þessa aðila valda fyrir hönd Íslands aftur og aftur. Kveðja, Aðili sem krefst góðra fyrirmynda fyrir börnin okkar.“

Starfsmaður KSÍ, kona sem starfað hafði hjá sambandinu í á þriðja áratug, tók á móti bréfinu, skannaði það og sendi áfram á þá sem það var stílað á.
Eftir að Klara opnaði póstinn og las bréfið spurði hún konuna hvort hún vissi eitthvað. Sagði konan henni þá „að tengdadóttir hennar hefði greint sér frá því tveimur árum áður að tveir leikmenn A-landsliðsins [...] hafi í sameiningu nauðgað sér í kjölfar landsleiks Danmerkur og Íslands á þjóðarleikvangi Dana í knattspyrnu árið 2010.“ Klara greindi formanni KSÍ, sem hafði þegar heyrt af málinu en vissi ekki af tengslunum við starfsmann sambandsins, frá stöðu mála í kjölfarið.
Frá þeim degi, 3. júní 2021, var því formleg vitneskja um málið hjá æðstu stjórnendum KSÍ.
Guðni ræddi málið við Aron Einar í júlí
Í skýrslu úttektarnefndarinnar segir að í viðtali Guðna Bergssonar við hana hafi Guðni greint frá símtali sem hann hafi átt við Aron Einar í júlímánuði, eftir að að fréttir bárust af rannsókn á meintum kynferðisbrotum Gylfa Þórs Sigurðssonar, annars landsliðsmanns, gegn barni sem eru til rannsóknar í Bretlandi. Í því símtali minntist Aron Einar að fyrra bragði á frásögn konunnar sem ásakað hafði hann um nauðgun.
Í skýrslunni er Aron Einar auðkenndur með bókstafnum C og konan með bókstafnum Z. Þar segir: „Að sögn Guðna sagði C að hann hefði átt kynferðislegt samneyti við Z ásamt öðrum leikmanni en hafnaði því alfarið að þeir hefðu brotið á henni. Mun C hafa látið svo um mælt við Guðna að lýsingin væri ekki í samræmi við hans upplifun og að hann ætlaði ekki að játa á sig eitthvað sem hann hefði ekki gert.“
Guðni sagði síðar hafa komið til tals að málsaðilar hittust mögulega þegar konan léði máls á því samkvæmt upplýsingum frá tengdamóður hennar en Guðni kvaðst „ekki hafa talið rétt að KSÍ hefði óumbeðið milligöngu um það né sáttaferli í máli sem þessu.“
Varaformaður verður fyrir áfalli
Arnar Þór Viðarsson sagði í viðtali við úttektarnefndina að hann hefði „fyrst rætt málið við C í ágúst. C hefði þá greint honum frá sinni hlið málsins sem hafi verið önnur en þolanda. Arnar Þór kveðst á þessum tíma hafa haft í hyggju að velja C í liðið enda hafi hann þá ekki vitað annað en að um væri að ræða óstaðfesta frásögn á internetinu.“
Starfsmaður KSÍ, tengdamóðir þolanda, sem er auðkennd með bókstafnum Y í skýrslunni sagði við nefndina að hún hafi fengið „á tilfinninguna á þessum tíma að Guðni, Klara og Arnar Þór hafi verið búin að ákveða að þau gætu ekki gert neitt í málinu. Greindi Y þá tilteknum samstarfsmönnum innan KSÍ frá þeirri tilfinningu sinni.“
Stjórn KSÍ var ekki gerð grein fyrir málinu á þessum tíma og framvinda þess var engin fram að verslunarmannahelgi. Þá heyrði Borghildur Sigurðardóttir, einn varaformanna KSÍ, af því í gegnum dóttur sína. Og varð fyrir áfalli.
Í viðtali við nefndina sagði Borghildur frá því að hennar fyrsta hugsun væri sú að tengdamóðir stúlkunnar sem greindi frá því að hún hefði verið beitt ofbeldi væri starfsmaður sambandsins. Borghildur sagðist hafa áhyggjur af því hversu mikið álag það hlyti að hafa verið fyrir konuna að hafa vitað af málinu og vera að vinna fyrir landsliðið á sama tíma.
Hanna Björg opinberar málið
Ellefu dögum síðar, 13. ágúst, sprakk málið svo upp á opinberum vettvangi. Þá birtist grein á Vísi eftir Hönnu Björg Vilhjálmsdóttur sem fjallaði um mál ungu konunnar. Þar sagði meðal annars: „Lýsingin á ofbeldinu er hroðaleg og glæpurinn varðar við margra ára fangelsi. Það hafði þó ekki meiri áhrif á gerendurna (landsliðsmennina) en svo að þeir gerðu grín að nauðguninni daginn eftir. Forherðingin algjör. Í frásögninni kemur fram hvaða afleiðingar þessi unga kona hefur þurft að burðast með. Lýsingin er þyngri en tárum taki. Þolandanum var eindregið ráðlagt að kæra ekki, við ofurefli væri að etja.
Fleiri frásagnir eru um landsliðsmenn sem eru sagðir beita konur ofbeldi – bæði kynferðislegu og heimilisofbeldi. Þetta virðist ekki hafa haft nein áhrif á velgengni þessara manna. Þeim er hampað og njóta mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Þöggunin er alger, og KSÍ ber vitaskuld ábyrgð á henni.“
Úttektarnefndin tók viðtal við Hönnu Björgu. Þar sagðist hún hafa þekkt konuna sem lýst hefði ofbeldinu í færslunni á Instagram. Hún hafi haft samband við hana og sagt henni frá áformum sínum um að skrifa grein. Að sögn Hönnu Bjargar hafi hvert skref sem hún hefur stigið í málinu verið tekið með vitund og í samráði við konuna, og hún hafi boðið henni að lesa allt sem hún skrifaði.
KSÍ hringir í KOM
Stjórn KSÍ varð mjög áhyggjufull eftir að pistillinn birtist og skeytasendingar í gegnum tölvupóst gengu manna á milli.
Guðni Bergsson gerði stjórninni grein fyrir að von væri á viðbrögðum. Í tölvupósti sem hann sendi sagði: „Við erum að undirbúa svar í tilkynningu sem við sendum á ykkur á eftir áður en hún birtist. Við myndum síðan funda í kjölfarið og ræða þessi mál. Það sem ég get þó sagt er að þessi pistill er ósannur og ómaklegur. Engin mál okkar keppnisfólks hafa borist okkur formlega eða verið á okkar borði síðan ég tók við sem formaður.“
Í viðtölum stjórnar og starfsfólks KSÍ við úttektarnefndina kom fram að Guðni hefði reiðst yfir greininni og farið í að undirbúa svar við henni ásamt almannatengslafyrirtækinu KOM. Þaðan hafi þeir Gísli Freyr Valdórsson og Friðjón R. Friðjónsson, núverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, komið að ritun yfirlýsingarinnar fyrir hönd KOM ásamt Guðna. Aðrir innan KSÍ fengu drög að henni til yfirlestrar og gagnrýni á yfirlýsinguna var sett fram.

Yfirlýsingin var birt 17. ágúst á heimasíðu KSÍ. Enginn var skrifaður fyrir henni. Þar sagði meðal annars: „Rétt er þó að ítreka að KSÍ gerir engar tilraunir til að þagga niður ofbeldismál eða hylma yfir með gerendum. Dylgjum um slíkt er alfarið vísað á bug.“
Grennslast fyrir um sáttarmeðferð
Í viðtali við nefndina lýsti tengdamóðir þolandans, starfsmaður KSÍ, því að henni hefði þótt gott að mál tengdadóttur sinnar væri komið upp á yfirborðið. Hún lýsti því jafnframt í viðtali við nefndina að Guðni hefði haft samband við sig að fyrra bragði um miðjan ágúst til að spyrja hana hvað þolandinn í málinu vildi gera en honum hafi skilist að hún hefði ekki hug á því að nafngreina Aron Einar. „Að sögn Y mun Guðni einnig hafa grennslast fyrir um það í samtalinu hvort einhvers konar sáttameðferð milli leikmannsins og þolandans kæmi til greina. Samkvæmt Y mun hugmyndin að sáttum hafa komið frá Guðna.“
Konan sagði í viðtali við nefndina að tengdadóttir sín hefði síðar verið tilbúin að hitta Aron Einar og ræða málið en þó aðeins augliti til auglits til að ræða reynslu sína og sársauka við hann og alls ekki í gegnum síma.
Ósátt með hvernig Guðni hélt á málinu
Guðni lýsti samtalinu þannig hann hefði talið að frumkvæðið að þessu þyrfti að koma frá aðilum málsins og hann ekki verið viss um að svona mál væri hægt að sætta.
Í viðtali við nefndina greindi tengdamóðirin frá því að hún hefði spurt Guðna að því í samtalinu hvort hann væri búinn að ræða við einhverja aðra en Aron Einar sem hefðu verið innan KSÍ á þessum tíma og gætu hafa vitað eitthvað um málið. „Guðni hefði sagt henni að hann hefði rætt við einstakling sem hefði verið úti með landsliðinu á þeim tíma sem frásögn Z snerti. Y taldi hins vegar ljóst af samtalinu að Guðni hefði á þessum tíma hvorki rætt við Geir Þorsteinsson, sem var formaður KSÍ á þeim tíma sem leikurinn fór fram í Kaupmannahöfn, né Ólaf Inga Skúlason, sem lék með landsliðinu í leiknum en væri nú starfsmaður KSÍ. Y kvaðst síðan hafa spurt Guðna aftur síðar hvort hann hefði rætt við fólk og aflað sér frekari upplýsinga um málið en skilist að svo væri ekki.“
Í viðtali við nefndina greindi konan frá því að hún hefði verið ósátt við hvernig Guðni hélt á málinu.
Ófullnægjandi svör
Nú gerðust hlutirnir hratt og fyrirspurnum frá fjölmiðlum fór að rigna inn. Ein slíkt var frá Kjarnanum.
Frá 18. ágúst var ítrekað spurt hvort sambandið hefði einhvern tímann haft vitneskju um ásakanir um kynferðisbrot eða ofbeldi á hendur landsliðsmanna í fótbolta, hvort KSÍ hafi einhvern tímann haft afskipti af málum sem tengjast slíkum ásökunum gegn landsliðsmanni og hvort KSÍ hafi hvatt til aðkomu lögregluyfirvalda eða leitað aðstoðar hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála ef og þegar grunur hafi verið um lögbrot?
Þá var spurt sérstaklega hvort KSÍ hefði vitneskju um meint atvik eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn í september 2010 þar sem tveir landsliðsmenn voru ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn ungri konu og ef svo væri, í hvaða verkferla það mál hefði farið?
Fyrstu svör sambandsins við fyrirspurnunum voru ófullnægjandi og í raun svör við öðrum spurningum en spurt var. Þar sagði meðal annars að „kvartanir um meint brot leikmanna hafa ekki borist inn á borð KSÍ.“
KOM látið svara Kjarnanum
Í skýrslu úttektarnefndarinnar kemur fram að KOM hafi aftur verið kallað til. Þar segir að af gögnum og upplýsingum sem úttektarnefndin aflaði „verður ráðið að uppleggið að svarinu hafi komið frá almannatengslafyrirtækinu KOM sem sinnti ráðgjöf um málið að beiðni Guðna Bergssonar. Ómar [Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ] mun aftur á móti hafa lagt til að KSÍ segði frá málinu nákvæmlega eins og það væri, m.a. um að forsvarsmenn KSÍ hefðu frétt af umræddri frásögn af meintu ofbeldi landsliðsmanns snemmsumars á þessu ári en ekki borist formlegt erindi um málið. Á þá tillögu var hins vegar ekki fallist.“
Ómar svaraði fyrirspurn Kjarnans á endanum sjálfur rúmum mánuði eftir að hún var upphaflega lögð fram, eða 23. september. Fyrirspurnin hafði þá verið margítrekuð. Í því svari staðfesti Ómar að ábending um meint atvik eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn í september 2010 þar sem tveir landsliðsmenn voru ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi hefði borist 2. eða 3. júní síðastliðinn.
Staðfest fyrir stjórn að meintir gerendur væru landsliðsmenn
Sama dag og svarið sem lagt var upp af KOM var sent til Kjarnans, þann 20. ágúst, var haldinn óformlegur fundur hjá stjórn KSÍ. Í viðtali við úttektarnefndina greindi stjórnarmaðurinn Ingi Sigurðsson frá því að á þessum fundi hefði í fyrsta sinn verið staðfest að í frásögn konunnar á Instagram væri verið að vísa til Arons Einars og Eggerts. „Guðni hafi hins vegar gert lítið úr málinu og sagt að þetta væri bara á samfélagsmiðlum. Stjórnarfólk hafi hins vegar bent á hvernig tekið væri á svona hlutum á vinnustöðum þar sem ekki væri óalgengt að kalla til utanaðkomandi ráðgjafa til að aðstoða við málin.“
Tengdamóðir þolandans hafði sagt samstarfsfólki sínu á þessum tíma að hún myndi hætta hjá KSÍ ef Aron Einar yrði valinn í næsta landsliðshóp, sem átti að tilkynna 25. ágúst.
Konan og Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari ræddu í kjölfarið saman. Hún sagði í viðtali við nefndina að fyrstu viðbrögð Arnars Þórs hefðu verið að það væru tvær hliðar á hverju máli og hann gæti illa dæmt um hvað gerðist. Hún hefði upplifað hlutina innan KSÍ eins og ekki væri vilji til að taka þetta alvarlega.
Í viðtali Arnars Þórs við nefndina lýsti hann því að hann hefði í samtali sínu við konuna gert sér grein fyrir hversu alvarlegt málið væri fyrir fjölskyldu hennar og hversu þungt það lægi á henni. Á þeim tíma hafi verið umræða um að Aron Einar myndi tala við þolanda, hugsanlega í gegnum milligöngu annarra. Aron Einar hafi hins vegar greinst með COVID-19 í aðdraganda landsleikjanna og var af þeim sökum ekki valinn í landsliðshópinn.
Sögðu að ekki væri hægt að treysta RÚV til að gæta hlutlægni
Þrýstingurinn á KSÍ óx og óx þessa daga. Þann 26. ágúst fór Guðni í viðtal við Kastljós þar sem hann sagði að engin tilkynning hefði borist sambandinu um kynferðisbrot að hálfu leikmanns í landsliði karla í knattspyrnu.
KOM veitti Guðna enn og aftur ráðgjöf, í þetta sinn þau ráð að hann ætti ekki að fara í viðtalið. Þá ráðgjöf hunsaði Guðni. „Í tölvupósti til úttektarnefndarinnar sagði Guðni að KOM hafi ráðið honum frá því að mæta í viðtalið hjá RÚV þar sem ekki hafi ríkt traust um að RÚV myndi gæta hlutlægni og hlutleysis í sínum fréttaflutningi. Lýsti Guðni jafnframt þeirri afstöðu að miðað við efnistökin mætti segja að það hefði komið í ljós, bæði í vöntun RÚV á að afla sér upplýsinga um málið og hunsun þeirra upplýsinga sem hann lét í té sem skiptu verulegu máli að hans viti.“

Samkvæmt upplýsingum sem úttektarnefndin fékk við athugun sína á málinu mun Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, hafa dregið sig út úr allri ráðgjöf um málið í kjölfar þeirrar ákvörðunar Guðna að fara í viðtalið.
Tilkynning barst árið 2018
Sú fullyrðing Guðna að engin tilkynning hefði borist sambandinu um kynferðisbrot leikmanns reyndist ekki sannleikanum samkvæm.
Það opinberaðist daginn eftir Kastljósviðtalið þegar Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram og greindi frá sinni sögu. Þar kom fram að frá 19. mars 2018 hið minnsta hefur legið fyrir að full vitneskja var um ofbeldishegðun landsliðsmannsins Kolbeins Sigþórssonar innan KSÍ. Þá sendi faðir Þórhildar Gyðu tölvupóst á KSÍ, formann sambandsins og fjölmarga lykilstarfsmenn þar sem hann greindi frá því að dóttir hans hefði kært Kolbein til lögreglu fyrir líkamsárás og grófa kynferðislega áreitni. Yfirskrift tölvupóstsins var: „Ofbeldi og Landsliðið í fótbolta á enga samleið“.
Kolbeinn samdi síðar við Þórhildi Gyðu og aðra konu um málalok og greiddi þeim og Stígamótum sex milljónir króna gegn því að þær myndu draga kæruna til baka. Kolbeinn bað þær einnig afsökunar.
Guðni sagði það hafi verið mistök að segja að engin tilkynning hafi borist sambandinu um kynferðisbrot af hálfu leikmanns í landsliði karla í knattspyrnu. „Mig minnti að þetta brot hefði verið ofbeldisbrot og ekki af kynferðislegum toga.“
Tengdamóðirin sendir formlega tilkynningu
Sama dag, föstudaginn 27. ágúst, hafði tengdamóðir þolandans í málinu sem snerti Aron Einar og Eggert sent tölvupóst á stjórn KSÍ um frásögn sína sem starfsmaður KSÍ undir yfirskriftinni „Að gefnu tilefni – ÁBENDING!“.
póstinum sagði: „Þar sem frásögn mín sem starfsmanns KSÍ til að verða 25 ára og tengdamóður þolandans, flokkast ekki sem ábending í eyrum og augum formanns KSÍ samkvæmt viðtali í Kastljósi sem og fleiri fjölmiðlum, sendi ég hér með formlega ábendingu um meint kynferðisofbeldi tveggja landsliðsmanna eftir landsleik Danmerkur og Íslands á Parken 7. september 2010. Meðfylgjandi er frásögn tengdadóttur minnar sem ég er marg búin að ræða um við Guðna og einnig fylgja með skilaboð sem tengdadóttir mín fékk nýverið frá fyrrum vinkonu þessara leikmanna.“
„Mér finnst ógeðslegt að hugsa til þess hvernig ég tók afstöðu með þeim gegn þér“
Í skjali sem fylgdi tölvupóstinum var að finna frásögn tengdadóttur starfsmannsins sem sett hafði verið á Instagram í maí og annað viðhengi sem var skjáskot af Instagram-skilaboðum til hennar frá ótilgreindum aðila.
Þau voru svohljóðandi: „Sæl [Z], Ég er búinn að skrifa þessi skilaboð cirka 100 sinnum og stroka út því ég veit í rauninni ekkert hvað ég get sagt. Ég trúi samt á það að viðurkenna mistök sín og taka ábyrgð og ætla þess vegna að henda þessu til þín.
Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar ég fékk símtal frá vini mínum út af þessu atviki sem þú lentir í 2010.
Þetta voru vinir mínir sem gerðu þér þetta. Það hafði spurst út að þú ætlaðir að kæra þá og vinahópurinn átti að fara á fullt að reyna að koma í veg fyrir það til þess að skemma ekki þeirra mannorð.
Alger bilun ég veit.
Þessir strákar höfðu allt valdið í höndum sér. Frægð og frama, peninga, vinsældir og voru ekkert eðlilega sannfærandi þegar þeir sögðu að þú hefðir viljað þetta allan tímann og að þetta væri kjaftæði. Þeir gátu ekki einu sinni staðið saman heldur bentu á hvorn annan og sögðu að hinn hefði gert þetta. Ég var algerlega heilaþvegin og tók með þeim stöðu. Þú dróst þetta svo til baka og þeir héldu bara áfram með lífið einsog ekkert hefði gert, dauðfegnir að þurfa ekki að taka neina ábyrgð.
Ég hef svo oft hugsað um þetta atvik, og nú mörgum árum seinna þegar ég er búin að slíta öllum mínum samskiptum við þá fyrir löngu út af svo mörgum furðulegum atvikum þar sem ég var neydd til að ljúga fyrir þá og taka með þeim stöðu þá sé ég [...]
Mér finnst ógeðslegt að hugsa til þess hvernig ég tók afstöðu með þeim gegn þér.
Mig langaði bara að biðja þig afsökunar þó að þú hafir fullan rétt á að kasta því út á hafsauga. Ég er stolt af þér að koma með þetta fram, ég trúi þér og ég stend með þér ef þú ætlar með þetta mál lengra.“
Guðni svaraði póstinum sagðist telja að um misskilning væri að ræða. „Það var aldrei ætlun mín [Y] að neita fyrir tilvist þessa máls. Þessi svör sneru að því hvernig það komst til okkar vitundar og að við værum ekki að hylma yfir einum né neinum í svona málum. Mér þykir það leitt að þér hafi sárnað yfir þessu svari.“
Átti að sópa málinu undir teppið
Í skýrslunni er haft eftir Þorsteini Gunnarssyni, stjórnarmanni í KSÍ, að þessi tölvupóstur hefði verið algjör sprengja. „Hann liti svo á að Y hafi tilkynnt þetta og ekkert annað. Stjórnin hefði aldrei verið látin vita af þessu heldur hafi bara átt að sópa málinu undir teppið.“
Á stjórnarfundi sem haldinn var 28. ágúst var tölvupósturinn til umræðu.
Í skýrslunni segir: „Á fundinum lýsti stjórnarfólk miklum áhyggjum af því hvort yfirlýsingar og upplýsingar sem birtar höfðu verið opinberlega fyrir hönd KSÍ hefðu verið réttar. Þannig mun stjórnarmaðurinn Ingi Sigurðsson hafa spurt Guðna sérstaklega hvenær þeim Klöru hefðu fyrst borist upplýsingar um mál Z, tengdadóttur Y. Greindi Guðni stjórn þá frá nafnlausa bréfinu frá 3. júní og að í kjölfarið hafi verið rætt við Y.“
Í viðtali við úttektarnefndina lýsti stjórnarmaðurinn Valgeir Sigurðsson því að stjórnarfólk KSÍ sem sat fundinn þennan dag hefði orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum. „Fólki hafi liðið eins og það hefði orðið fyrir lest og það hefði spurt sig hvar það væri eiginlega statt. Trúverðugleiki KSÍ út á við væri fokinn út um gluggann og hið sama gilti um traustið til formanns frá stjórn.“
Stjórnarmaðurinn Orri Hlöðversson tók í sama streng í viðtali sínu við nefndina. „Þessa helgi hafi um 80–90% stjórnar upplifað það að þeim væri haldið fullkomlega í myrkrinu af hálfu formanns og framkvæmdastjóra. Orri taldi að í málsmeðferðinni hefðu augljóslega átt sér stað stjórnunarleg mistök sem fólust í því að stjórn var ekki höfð með í ráðum fyrr í ferlinu.“
Daginn eftir var haldinn annar stjórnarfundur. Þar þurfti Guðni að segja af sér sem formaður KSÍ vegna þess að stjórn sambandsins treysti honum ekki lengur.
Sama dag var send út ný yfirlýsing sem hófst á orðunum: „Kæru þolendur, við í stjórn Knattspyrnusambands Íslands trúum ykkur og biðjum ykkur innilega afsökunar.“
Þar var einnig fjallað um yfirlýsinguna frá 17. ágúst, sem KOM hafði lagt upp, og allir þeir sem „stóðu í framlínu þess að benda á ofbeldið innan KSÍ afsökunar á yfirlýsingunni sem gerði lítið úr þeirra ásökunum og var laus við alla ábyrgð og einlægni.“
Klara ræddi við forsetann
Guðni ræddi aldrei við þolandann síðastliðið sumar þrátt fyrir að tengdamóðir hennar hafi komið því á framfæri við Guðna að tengdadóttir hennar væri reiðubúin að tala við hann.
Í kjölfar afsagnar Guðna ætlaði Klara Bjartmarz að gera það. Hún hefði hins vegar orðið fyrir miklu áreiti og fengið fjölmargar hótanir í kjölfar afsagnar stjórnar og fjölmiðlaumfjöllunar og meðal annars verið ráðlagt að sækja ekki barn sitt á leikskóla. Í skýrslunni segir: „Þriðjudaginn 31. ágúst 2021 mun Klara hafa yfirgefið höfuðstöðvar KSÍ og tilkynnt stjórn að hún væri farin og vissi ekki hvort hún kæmi aftur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin fékk mun það hafa gerst í beinu framhaldi af samtali Klöru við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands. Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari U-17 ára landsliðs drengja, mun hafa hlaupið á eftir Klöru og séð til þess að hún yrði sótt í vinnuna.“

Borghildur Sigurðardóttir, annar varaformanna KSÍ mun síðan, að beiðni starfsfólks KSÍ, hafa hringt í þolandann í málinu og varð þannig fyrsti stjórnandi eða stjórnarmaður sambandsins til að ræða við hana beint.
Tengdamóðirin sagði upp störfum hjá KSÍ
Í niðurstöðum úttektarnefndarinnar um meðferð KSÍ á máli ungu konunnar sem birti frásögnina á Instagram, um kynferðisofbeldi af hálfu tveggja landsliðsmanna árið 2010, segir að hún telji sýnt að Guðni og Klara hafi, ásamt Arnari Þór Viðarssyni, þjálfara A-landsliðsins, 3. júní 2021 fengið upplýsingar í gegnum tengdamóðurina að mennirnir í frásögninni væru leikmenn landsliðs karla í knattspyrnu.
Úttektarnefndin telur jafnframt liggja fyrir að Guðni og tengdamóðir þolandans hafi rætt málið ítrekað og að Guðni hafi einnig rætt málið við Aron Einar, annan leikmannanna.
Af viðtölum nefndarinnar við tengdamóðurina og annað starfsfólk KSÍ telur hún fyrirliggjandi að Guðni og Klara hafi verið ráðvillt um hvernig taka ætti á málinu.
Nefndin taldi óheppilegt að tengdamóðir þolandans hafi sem almennur starfsmaður KSÍ verið sett í þá stöðu að hafa milligöngu um boð til og frá tengdadóttur sinni sem greint hafði frá ofbeldi af hálfu leikmanna landsliðsins til KSÍ og formanns. Það hafi verið til þess fallið að vekja hjá henni ótta um starfsöryggi sitt. Slíkt gat enn fremur skapað þrýsting á bæði hana og tengdadóttur hennar um að halda málinu í þagnargildi og fara ekki með það lengra.
Tengdamóðir þolandans sagði upp störfum hjá KSÍ eftir að vinna úttektarnefndarinnar hófst eftir að hafa starfað í meira en tvo áratugi hjá sambandinu.
Villandi yfirlýsingar
Nefndin telur að ekki verði hjá því komist að „benda á það að Guðni Bergsson lét sem formaður sambandsins ítrekað frá sér yfirlýsingar um að KSÍ hefði ekki fengið neinar tilkynningar eða ábendingar af þessum toga inn á sitt borð síðan hann tók við formennsku [...] Ljóst er að þessar yfirlýsingar sem formaður gaf í nafni KSÍ til fjölmiðla og almennings voru villandi, enda var formaður KSÍ á sama tíma með á borði sínu tilkynningu Y um ofbeldi gagnvart tengdadóttur sinni, auk þess sem formaðurinn var á sama tíma í samskiptum við leikmann landsliðsins vegna málsins.“ Þá hafði KSÍ fengið upplýsingar um mál Kolbeins sem hafði þær afleiðingar að hann var sendur heim úr æfingaferð landsliðsins.
Auk þess telur nefndin að fullyrðing, sem birtist í tilkynningu frá KSÍ 17. ágúst 2021, um að tryggt væri þegar mál sem tengdust ofbeldi færu í viðeigandi ferli ef þau kæmu inn á borð sambandsins og að ávallt væri hvatt til aðkomu lögregluyfirvalda þegar grunur væri um lögbrot „hafi ekki heldur gefið rétta mynd af meðferð þessara mála innan KSÍ [...] Úttektarnefndin telur að framangreindar yfirlýsingar sem fram komu fyrir hönd sambandsins í máli formanns og í opinberum tilkynningum hafi verið til þess fallnar að gera lítið úr málum þeirra kvenna sem greint höfðu frá ofbeldi í sinn garð. [...] Að mati nefndarinnar má til sanns vegar færa að yfirlýsingarnar hafi borið með sér ákveðin merki þöggunar- og nauðgunarmenningar, þar sem því var í reynd hafnað í yfirlýsingunum að mál kvennanna hefðu komið til vitundar KSÍ.“
Guðni Bergsson segir í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag að hann hafi borið ábyrgð á viðbrögðum sambandsins, vegna þeirra ofbeldismála sem komu upp í formannstíð hans. Sömu sögu sé að segja um miðlun upplýsinga til fjölmiðla og almennings. „Þar hefði ég getað gert betur.“
Lestu meira:
-
11. júní 2022Ný mótaröð fjármögnuð af Sádi-Aröbum veldur titringi í heimi golfsins
-
7. júní 2022Hvers vegna Katar og hvað kosta herlegheitin?
-
26. maí 2022Í austurvegi – Æfingaferð, Íslandsmeistaratitillinn og borðtennis í Kína
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
6. maí 2022Þjóðarhöll á að rísa í Laugardal og framkvæmdum við hana á að vera lokið 2025
-
6. maí 2022Katrín, Ásmundur Einar og Dagur undirrita viljayfirlýsingu um þjóðarhöll í Laugardal
-
4. maí 2022Niðurstaða um þjóðarhöll kynnt á föstudag
-
6. apríl 2022Í austurvegi – Vetrarólympíuleikarnir í Peking 2022
-
31. mars 2022Ríkið hefur mánuð til að leggja fram fé í þjóðarhöll, annars byggir borgin íþróttahús á bílastæði
-
30. mars 2022„Er ekkert að marka það sem sagt er fyrir utan þennan sal og inni í þessum sal?“