Viðskiptavinir með mestu umsvifin hjá Arion banka fengu afslátt á hlutum í Simanum

Þegar bankinn valdi þann hóp sem fékk að kaupa á lægra verði í aðdraganda útboðs var horft á umsvif og vilja til að kaupa óskráð bréf.

arion banki
Auglýsing

 

Þegar Arion banki valdi þann hóp sem fékk að kaupa fimm prósent hlut í Símanum í lok september á 2,8 krónur á hlut var horft til umsvifa viðskipta þeirra. Allir kaupendurnir eru viðskiptavinir í einkabankaþjónustu og markaðsviðskiptum bankans. Auk þess var horft til þeirra sem höfðu lýst yfir áhuga á að kaupa í óskráðum félögum. Því fengu þeir viðskiptavinir sem voru með mesta fjármagnið í stýringu forgang á að kaupa hlutinn. Þetta kemur fram í svari Arion banka við fyrirspurn Kjarnans um málið.

Sala Arion banka á hlutum í Símanum í aðdraganda útboðs félagsins, sem fram fór fyrr í októbermánuði, hefur verið harðlega gagnrýnd að undanförnu. Ofangreindir vildarviðskiptavinir bankans fengu að kaupa fimm prósent hlut á genginu 2,8 krónur nokkrum dögum áður en almennt útboð á hlutum í Símanum hófst. Fimmföld umframeftirspurn var í útboðinu og þeir sem fengu að kaupa í tilboðsbók B þurftu að greiða 3,4 krónur á hlut fyrir bréf sín. Gengi Símans í dag, rúmri viku eftir að viðskipti með bréf í Símanum hófust, er 3,64 krónur á hlut. Hlutir vildarviðskiptavinanna, þeirra sem eru með mest umsvif í einkabankaþjónustu og markaðsviðskiptum hjá Arion banka, hefur því hækkað um 30 prósent. Virði hlutar þeirra hefur aukist um 447 milljónir króna á einum mánuði. Þessi hópur má selja bréf sín í janúar næstkomandi, eftir rúma tvo mánuði.

Auglýsing

Aðrir viðskiptavinir gagnrýna bankann 

Gagnrýnin hefur komið úr mörgum áttum. Þannig hafa aðrir viðskiptavinir í einkabankaþjónustu og markaðsviðskiptum Arion banka, sem var ekki boðið að kaupa hluti í Símanum á þessu verði, haft samband við Kjarnann og lýst yfir megnri óánægju með verklag bankans. Þeir telja að bankinn sé að mismuna sínum eigin viðskiptavinum með því að handvelja hóp sem fái að kaupa bréf á afsláttarverði. Aðrir leikendur á fjármálamarkaði, sér í lagi smærri fjármálafyrirtæki, hafa einnig gagnrýnt söluna. Það skekki samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja sem reki einkabankaþjónustu eða sinni markaðsviðskiptum ef stór banki sé að verðlauna sína viðskiptavini umfram aðra. Þar sem stóru bönkunum hafi verið falin endurskipulagning flestra þeirra fyrirtækja sem rati á markað, og sjái nánast alltaf sjálfir um skráningar á „sínum“ fyrirtækjum, sé alltaf minni og minni hvati til þess að vera í þjónustu hjá öðrum aðilum.

Í grunninn snýr gagnrýnin að því sem kalla má aðstöðumun. Valdir hópar sitja að betri tækifærum til að hagnast en allir aðrir. Þessi gagnrýni hefur ratað út í þjóðfélagið þar sem mikil reiði er á meðal almennings með háttarlag Arion banka í málinu. Sú reiði hefur skilað sér inn á stjórnmálasviðið þar sem hún náði fullum skriðþunga þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði söluna klúður, aðferðarfræðin væri ólíðandi og að engin þolinmæði væri fyrir slíku í samfélaginu.

Lánaði fyrir hluta af kaupunum

Arion banki sagði frá því í gær að bankinn hefði fjármagnað kaup þessarra viðskiptavina að hluta. Það þýðir að umsvifamiklu viðskiptavinirnir lögðu einungis fram hluta þess fjár sem ódýru bréfin voru keypt fyrir. Bankinn þeirra lánaði þeim fyrir restinni.

Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um hversu stórt hlutfall af viðskiptunum hefði verið fjármagnað með þessum hætti. Arion banki vildi ekki svara því nánar en að segja að lítill hluti kaupanna hefði verið fjármagnaður af bankanum.

Arion banki viðurkenndi í gær að ofangreind sala til vildarviðskiptavina bankans skömmu fyrir útboð hefði ekki verið í lagi. Gagnrýni á söluna hafi verið réttmæt og verklagi varðandi sölu á stærri eignarhlutum verði í kjölfarið breytt.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, setti saman fjárfestahópinn sem handsalaði kaup í Símanum í maí.

Bankinn varði hins vegar sölu á fimm prósent hlut til hóps stjórnenda Símans og meðfjárfesta þeirra, sem var handsöluð í maí en tilkynnt um í ágúst. Sá hópur fékk að kaupa á 2,5 krónur á hlut og virði hlutar þeirra hefur því vaxið um hálfan milljarð króna. Söluhömlur eru á hlutnum til janúar 2017. Arion banki telur að verðið hafi verið í takt við það verð sem mátti ætlast til við að fá fyrir Símann í maí 2015, þegar verðið var ákveðið.

Hann viðurkennir hins vegar að „óheppilegt“ hafi verið að segja ekki frá samkomulaginu fyrr en 21. ágúst, þremur mánuðum eftir að það var gert.  

Nú er einnig komið í ljós að stjórnendur Símans keyptu 0,5 prósent hlut til viðbótar við þau fimm prósent sem áður hafði verið greint frá, á sama verði. Samtals var keypti hópurinn því 5,5 prósent hlut. Miðað við gengi Símans í dag hefur virði hlutar þeirra hækkað um 46 prósent.  Það gera um 670 milljónir króna.

Söluhömlur eru á fyrstu fimm prósentunum til 1. janúar 2017. Stjórnendur Símans mega hins vegar selja 0,5 prósent hlut sinn strax í mars á næsta ári, eftir rúma fjóra mánuði.

Ekki sagt frá Árna og Hallbirni

Þótt Arion banki standi með þessari sölu, og segi hana hafa samrýmst markmiðum bankans um að styrkja félagið, þá hefur hún einnig verið harðlega gagnrýnd. Fyrir utan verðið, sem langflestir viðmælendur Kjarnans í viðskiptalífinu segja að alltaf hafi blasað við að hafi verið mjög lágt, hefur samsetning fjárfestingahópsins verið gagnrýnd. Sú leynd sem haldið var yfir hluta hans framan af hefur aukið á þá gagnrýni.

Þegar tilkynnt var um söluna, þann 21. ágúst síðastliðinn, var lögð mikil áhersla á að í hópnum væru erlendir fjárfestar með mikla reynslu af fjarskiptamálum. Þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um hvernig samsetning hópsins væri gaf Síminn upp nokkur nöfn, þeirra á meðal nöfn erlendu fjárfestanna.

Bjarni Benediktsson hefur gagnrýnt söluna á hlut í Símanum til vildarviðskiptavina Arion banka opinberlega. Hann sagði söluna klúður.

Í því svari var hins vegar ekki sagt hvernig fimm prósent hluturinn skiptist á milli stjórnenda Símans, alþjóðlegra fjárfesta og annarra sem tilheyrðu hópnum. Þar var enn fremur tilgreint að þrír einkafjárfestar væru í honum: þeir Sigurbjörn Þorkelsson, sem starfaði lengi sem yfirmaður hjá Lehman Brothers, var einn eigandi Haga og stofnaði fyrr á þessu ári verðbréfamiðlunina Fossa markaði með nokkrum fyrrum lykilstarfsmönnum úr Straumi, Stefán Ákason, fyrrum forstöðumaður skuldabréfamiðlunar Kaupþings, og Ómar Svavarsson, fyrrum forstjóri Vodafone á Íslandi.

Íslendingarnir stærstir í hópnum

Síðar kom í ljós Sigurbjörn var ekki einn á ferðinni. Fjárfesting hans var í gegnum félagið Æðanes ehf., sem er í eigu hans og tveggja meðfjárfesta hans: Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar. Í tilkynningu Arion banka segir að aðkoma Sigurbjarnar hafi legið fyrir þegar ákvörðun um söluna til fjárfestahópsins var tekin „en aðkoma Árna og Hallbjörns lá fyrir við frágang viðskiptanna“. Samt var ekki tilkynnt um aðkomu þeirra þegar salan var gerð opinber 21. ágúst.

Arion banki segir að með viðskiptunum hafi bankinn viljað „styrkja félagið fyrir útboð og gera það söluvænlegra með því að fá í hlutahafahópinn hluta af stjórnendateymi Símans ásamt alþjóðlegum fagfjárfestum með mikla reynslu af fjárfestingum og fjarskiptum í fjölda landa. Stjórnendur Símans settu fjárfestahópinn saman en Arion banki gerði kröfu um að hann byggi yfir alþjóðlegri reynslu og tengslum“.

Nú er komið í ljós að Æðanes sé stærsti eigandinn innan fjárfestahópsins. Að félagið hafi keypt stærstan hluta af þeim fimm prósent hlut í Símanum sem seldur var á genginu 2,5 krónur á hlut. Arion banki vildi hins vegar ekki upplýsa um hversu stór hlutur Æðarnes er þegar Kjarninn leitaði eftir því. Það hafa Síminn og fjárfestarnir sjálfir heldur ekki viljað gera.

Sigurbjörn, Árni og Hallbjörn eru allir umsvifamiklir fjárfestar á íslenskum markaði sem hafa náð miklum árangri í fjárfestingum sínum eftir hrun, sérstaklega með kaupum á hlut í Högum í aðdraganda útboðs smásölurisans árið 2011. Sá hlutur margfaldaðist í verði. Og það er hægt að rökstyðja að Sigurbjörn sé alþjóðlegur fjárfestir og að Árni hafi reynslu af fjarskiptamarkaði, en hann sat í stjórn Vodafone á árum áður. Gagnrýnisraddir benda þó á að fjöldi annarra íslenskra fjárfesta geti flokkast sem alþjóðlegir fjárfestar og búi yfir einhverri reynslu af fjarskiptum eða hafi tengst félögum sem stundi slíka þjónustu. Það hefur einnig aukið á tortryggni vegna aðkomu þeirra að Síminn upplýsti ekki um Árna og Hallbjörn þegar tilkynnt var um söluna og að í það var látið skína að erlendir fjárfestar væru leiðandi í fjárfestahópnum.

Arion banki segir að hann hafi ekki veitt neina fjármögnun til þessa fjárfestahóps.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja og sonur hans, Baldvin Þorsteinsson, er yfir Evrópuútgerð Samherja.
Norskur ráðherra segist ekki sjá ástæðu til að hjálpa Samherja að safna meiri kvóta
Norsk stjórnvöld hafa gripið formlega til aðgerða vegna tilraunar Samherja til að komast yfir aukin fiskveiðikvóta þar í landi. Reglur verða hertar og fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi þar í landi verða bundnar sérstakri heimild.
Kjarninn 9. maí 2021
Women Empowerment – bók eftir Eddu Falak
„Kynþokki er allavega og við ættum ekki að vera hræddar við að sýna hann“
Edda Falak safnar nú fyrir bók sem ber nafnið „Women Empowerment“ á Karolina Fund.
Kjarninn 9. maí 2021
Mótmælandi steytir hnefa í borginni Cali en þar hafa átök milli mótmælenda og lögreglu orðið hve hörðust í mótmælunum sem staðið hafa yfir frá því 28. apríl í Kólumbíu.
Mótmæla harðræði lögreglu í Kólumbíu
Mótmæli hafa staðið yfir í Kólumbíu í á aðra viku. Upphaflega voru það breytingar á sköttum sem fólk mótmælti en síðar varð það harðræði lögreglu sem dró fólk af stað. Félagasamtök segja að hátt á fjórða tug mótmælanda hafi látist vegna aðgerða lögreglu.
Kjarninn 9. maí 2021
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None