Björn Ingi Hrafnsson, einn af eigendum Pressunnar ehf., vill hvorki upplýsa um kaupverðið sem félagið greiddi fyrir meirihluta hlutafjár í útgáfufélagi DV, né hvernig kaupin voru fjármögnuð. „Kaupverðið er trúnaðarmál. Og sömuleiðis hvernig þau eru fjármögnuð, en þetta er samvinnuverkefni með þeim sem áttu blaðið,“ segir Björn Ingi í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans.
Í dag var tilkynnt að Pressan ehf., móðurfélag Vefpressunnar og vefmiðlanna Pressunnar, Eyjunnar og Bleikt, hefði keypt ráðandi hlut í útgáfufélaginu DV. Með kaupunum er Pressan orðin eigandi að ríflega tveggja þriðju hlutafjár í DV ehf., en kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Í tilkynningu sem Björn Ingi sendi fjölmiðlum í dag vegna kaupanna kemur fram að þau hafi verið gerð í góðu samstarfi við eigendur DV og Þorsteinn Guðnason, núverandi stjórnarformaður, verði áfram í stjórn félagsins. Þá mun Hallgrímur Thorsteinsson, nýráðinn ritstjóri DV, gegna stöðunni áfram.
Í svari Björns Inga við fyrirspurn Kjarnans segir ennfremur: „Eignarhaldið er óbreytt á þessum tímapunkti, en breytingar á því verða kynntar opinberlega um leið og Samkeppniseftirlitið hefur blessað viðskiptin. [...] Það eru fleiri aðilar að ganga til liðs við okkur í þessum viðskiptum og munum við skýra frá því um leið og við tökum við blaðinu.“