Í rannsóknarskýrslu Alþingis er fjallað nokkuð ítarlega um samskipti Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og ýmissa útrásarfyrirtækja. Eitt fyrirtæki er fyrirferðarmeira þar en önnur, þáverandi stærsti banki landsins, Kaupþing.
Skýrsluhöfundar rýna meðal annars í bréfaskriftir forsetans við fyrirmenni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Katar þar sem hann talar máli Kaupþingsmanna og kallar Sigurð Einarsson, fyrrum stjórnarformann Kaupþings, vin sinn. Í skýrslunni er einnig tilvitnun úr bókinni Saga af forseta eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing sem kom út árið 2008, en hún fjallar um störf Ólafs Ragnars sem forseta Íslands, sérstaklega á útrásartímabilinu. Í tilvitnuninni segir: „Frá árinu 2000 hefur Ólafur Ragnar unnið með Sigurði Einarssyni að mörgum málum, bæði í þágu bankans og annarra málefna. Má telja Sigurð meðal helstu samstarfsmanna forsetans á síðari árum“. Forsetinn sæmdi Sigurð auk þess riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag 2007 fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi.
Sigurður Einarsson (fjórði frá hægri) hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag 2007.
Þessi afskipti forsetans hafa verið rifjuð upp að undanförnu í kjölfar þess að Sigurður var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Al Thani málinu svokallaða í Hæstarétti síðastliðinn fimmtudag. Í málinu var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi og þeir Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti um tíu prósent hlut í bankanum, dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Í dómi Hæstaréttar segir m.a.: „Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum köflum ákæru fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns. Brotin samkvæmt III. og IV. kafla ákæru beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.“
Kjarninn sendi fyrirspurn á forsetaembættið með ósk um að Ólafur Ragnar tjái sig um samband sitt við Sigurð Einarsson í ljósi sakfellingar hans í Al Thani málinu. Þeirri fyrirspurn hefur ekki verið svarað.
Hér að neðan eru nokkur brot úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um samskipti forseta Íslands við Kaupþing og sérstaklega Sigurð Einarsson.
Sigurður á meðal helstu samstarfsmanna forsetans
„Eins og áður segir hófst samstarf forsetans við bankamennina um síðustu aldamót, einkum þó Sigurð Einarsson stjórnarformann í Kaupþingi: „Frá árinu 2000 hefur Ólafur Ragnar unnið með Sigurði Einarssyni að mörgum málum, bæði í þágu bankans og annarra málefna. Má telja Sigurð meðal helstu samstarfsmanna forsetans á síðari árum““.
Hélt fundi á Bessastöðum til að sannfæra menn um ágæti Kaupþings
„Árið 2004 fóru bankarnir mikinn í kaupum á bönkum víða um heim. Mikið lá við og bað Sigurður Einarsson forsetann um aðstoð. Forsetinn brást vel við og bauð tveimur stjórnendum Singer & Friedlander sem voru að kanna trúverðugleika Kaupþings í hádegisverð á Bessastöðum til að sannfæra þá um ágæti bankans“.
Sigurður ver forsetann
„Árið 2005 var samningur Eimskips við aðila í Kína undirritaður á Bessastöðum og vakti það nokkrar umræður. Ögmundur Jónasson alþingismaður gagnrýndi þetta og sagði athöfnina ekki við hæfi embættisins og að sem betur fer væri forsetaembættið ekki orðið ehf. Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings brást til varnar fyrir forsetann“.
Allra augu á Persaflóa
„Undir lok útrásarskeiðsins fóru fjármálamenn að beina sjónum til olíuríkjanna við Persaflóann, bæði til að opna útibú og til að leita að fjárfestum, raunverulegum eða óraunverulegum. Forsetinn lét ekki sitt eftir liggja til að greiða þeim för. Hann skrifaði kurteisisbréf til emírsins af Katar 4. febrúar 2008“.
Sigurður Einarsson "vinur minn"
23. apríl 2008 skrifaði forsetinn bréf til krónprinsins í Sameinuðu arab- ísku furstadæmunum, Sheiks Mohammed Bin Zayed Al Nahyan.
Þar segir: „In this respect I was very pleased to learn from my friend Mr. Sigurdur Einarsson, the Chairman of Kaupthing Bank, the largest Icelandic bank, that it had been selected by Masdar and Mubadala as one of the candidate banks for the role of Strategic Financial Advisor to the Masdar City development.[...] I have closely followed the development of Kaupthing Bank during the last ten years ever since I opened one of their earliest European operations in the second year of my Presidency. Both I and the people of Iceland are very proud of the bank‘s achievements. Kaupthing has become the flagship company of the Icelandic national economy. I give the Kaupthing Bank my strongest personal recommendation. The professionalism of its leadership and their staff has made Kaupthing into one of the most successful European banks with strong expertise both in clean energy and real estate.“
Bréf til emírsins Al Thani
„Enn skrifaði forsetinn í þágu Sigurðar Einarssonar, sem hann vísaði til sem vinar síns í síðastnefndu bréfi, nú til manns sem síðar kom við sögu Kaupþings. 22. maí 2008 skrifaði forsetinn til emírsins Hamads Bin Khalifa Al Thani í Katar og sagði: „As I emphasized in our discussion on Tuesday, there are now three main pillars in the evolution of our growing cooperation: 1. Banking and finance where the negotiations with Kaupthing Bank have a priority role.“ Forseti Íslands átti samkvæmt bréfinu fund eða samtal við Al Thani sem keypti hlutabréf í Kaupþingi með peningum frá Kaupþingi en það er önnur saga.“
Ólafur Ragnar Grímsson og Amir Sheikh Hamad Bin Khalifa Al Thani, emírinn af Katar, þegar forsetinn og fylgdarlið heimsótti ríkið í maí 2008.
Vinnusiðferði og orðstír einstaklinga mikilvægt í útrásinni
„Listi forsetans yfir þá þætti sem gerðu útrásina og Íslendinga svo magnaða. Fyrst nefndi hann vinnusiðferði, þá árangurssækni, áhættusækni, litla skriffinnsku, persónulegt traust, litla hópa þátttakenda sem ynnu þétt og hratt saman og tækju skjótar ákvarðanir, frumkvöðlaanda, arf landkönnunar og uppgötvana, orðstír einstaklinga, þjálfun sem menn fengju á íslenskum markaði, Íslendingar hefðu engin dulin markmið, náin tengsl milli fólks á Íslandi og loks var það sköpunarkrafturinn“.
Forsetinn um virðingu og sanngirni
„Svarið er líka fólgið í því að vel sé hugað að undirstöðum, að hin metnaðarfulla útrásarsveit haldi ávallt áttum, glati ekki jarðsambandi þótt vel gangi, meti áfram að verðleikum samfélagið sem þau hefur fóstrað og komi fram af virðingu og sanngirni ekki aðeins við íslenska þjóð heldur einnig við íbúa annarra landa, gleymi ekki að útrásin byggir í grunninn á sögu, menningu og siðviti Íslendinga“.
Niðurstaða nefndarinnar
„Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli“.