Meirihluti landsmanna vill ekki að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka, samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland, og sagt er frá á Vísi. 35,7 prósent vilja að umsóknin verði dregin til baka en 11,1 prósent sögðust hvorki vera fylgjandi né andvígir.
53 prósent svarenda í könnuninni sögðust andvíg því að aðildarumsóknin verði dregin til baka. Meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er hins vegar fylgjandi því að umsóknin verði dregin til baka, eða 70 prósent þeirra sem segjast kjósa Framsókn og 59 prósent þeirra sem segjast kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Meirihluti kjósenda annarra flokka er andvígur því að aðildarumsóknin verði dregin til baka. 88 prósent kjósenda Samfylkingarinnar er á móti því að tillagan verði dregin til baka, 77 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar og 68 prósent Pírata. 64 prósent kjósenda Vinstri grænna eru á móti því að umsóknin verði dregin til baka.
Samkvæmt könnun Capacent Gallup hafa heldur aldrei fleiri verið hlynntir því að Ísland verði aðili að sambandinu en nú, eða 46,2 prósent. Tæp 54 prósent svarenda voru andvígir aðild.
1.450 manns voru spurðir en svarhlutfall var 60 prósent, eða um 870 manns.