Ólöf Nordal innanríkisráðherra ætlar ekki að tjá sig um úrskurð Persónuverndar, í máli Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðis er tengist lekamálinu svokallaða, fyrr en eftir helgi. Þetta staðfesti Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins við Kjarnann nú rétt í þessu. Hann sagði ráðherrann og starfsfólk ráðuneytisins vera að kynna sér efni hins nýbirta úrskurðar, og að ráðherrann myndi ekki tjá sig um efni hans fyrr en búið væri að gaumgæfa hann ítarlega.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum og núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, braut lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur greinargerð um hælisleitandann Tony Omos og fleiri. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar og Kjarninn hefur undir höndum, og hefur nú birt í heild sinni.
Ólöf tók við sem innanríkisráðherra eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra, eftir að Umboðsmaður Alþingis tók saman og birti upplýsingar sem staðfestu að hún hefði sem ráðherra haft afskipti af lögreglurannsókn lekamálsins.
Þá studdist beiðni Gísla Freys ekki við viðhlítandi lagaheimildir um miðlun persónuupplýsinga, samkvæmt úrskurði Persónuverndar. Þá er Útlendingastofnun gagnrýnd fyrir að hafa ekki gætt viðunandi öryggist við miðlun frumburðarskýrslu Tony Omos til innanríkisráðuneytisins.