Ég sat á lókal kaffihúsinu mínu um daginn með 12 ára dóttur minni og vinkonum hennar. Ég lyfti upp hægri rasskinninni og prumpaði upphátt. ,,Mamma!” Hún skammast sín fyrir mig hugsaði ég og leit við. Á næsta borði sat hópur af fólki sem horfði á mig með vandræðalegt bros á vör. Já, dóttir mín skammaðist sín fyrir mig. ,,Ég nenni ekki að vera stillt” sagði ég við stelpurnar. ,,Ég geri bara það sem mér sýnist”. Upp úr þessu spunnust mjög skemmtilegar umræður um það hvað er viðeigandi fyrir konur og stelpur að gera á almannafæri.
Á öðrum degi var ég á sama kaffihúsi með vinkonu minni og mér (viljandi í þágufalli) klæjaði í píkuna. Ég klóraði mér almennilega og hugsaði ,,ég haga mér eins og karl”. Ég hef svo oft séð karlmenn klóra sér í pungnum eða laga tippið á sér. Þá ljóstraðist upp fyrir mér að ég hef aldrei séð konu klóra sér í píkunni. Kona má ekki klóra sér í klofinu á almannafæri. Hún má ekki prumpa upphátt, hún má ekki bora í nefið, hún má ekki hrækja, hún má ekki segja ,,fokk”, hún má ekki vera frek, hún má ekki hlæja hrossahlátri, hún má ekki naga neglurnar, hún má ekki vera fúl, hún má ekki vera löt, hún má ekki hafa allt í drasli heima hjá sér. Það fer konum svo illa að vera ódannaðar. Við erum ljótar þegar við nögum neglurnar og ennþá ljótari þegar við blótum.
Kona að skrifa handrit að mynd í fullri lengd
Á enn öðrum degi sat ég í kaffibolla hjá eldri dóttur minni, Kolfinnu (aka Kylfan). Við vorum að tala um verkin sem við erum að skrifa. Hún er að skrifa leikrit, ég er að skrifa kvikmyndahandrit – og haldið ykkur fast Friðrik Þór Friðriksson og Hilmar Sigurðsson – ég er að skrifa handrit að mynd í fullri lengd! Allavega. Þegar við mægðurnar vorum að skeggræða – bíddu... skeggræða? Jú, það er hægt að nota það orð um okkur Kolfinnu því við erum með sterk Puerto Rico gen í æðum og þar af leiðandi með smá skegg. Skeggræða er annars eitt af orðunum sem kristalla áhrif feðraveldisins á íslenska tungu.
Þegar við mægðurnar vorum að skeggræða – bíddu... skeggræða? Jú, það er hægt að nota það orð um okkur Kolfinnu því við erum með sterk Puerto Rico gen í æðum og þar af leiðandi með smá skegg. Skeggræða er annars eitt af orðunum sem kristalla áhrif feðraveldisins á íslenska tungu.
Konur ræða ekki málin. Bara karlar. Konur slúðra. En við mæðgurnar vorum semsagt að ræða handritin okkar og mikilvægi þess að skrifa kvenpersónur sem eru gerendur. Ekki að þær séu endilega í aðalhlutverkum, heldur að þær séu gerendur í stað þess að vera fórnarlömb eða passívar á hliðarlínunni. Að þær séu subjekt en ekki objekt. Frumlag en ekki andlag. Kvenpersónur í bíó og leikhúsi eru nánast aldrei gerendur. Stilltar skulu þær vera, heimskar og veiklunda eða fórnarlömb aðstæðna, fallegar og fínar, jafnt á hvíta tjaldinu, á sviðinu sem og í raunveruleikanum.
Konur sem gerendur
Konur eru gerendur í kvikmyndahandritinu sem ég er að skrifa. Þær tala, þær hafa skoðanir, fá hugmyndir og framkvæma þær. Þær hafa margslunginn persónuleika, eru frekar, óþekkar, nastý, fyndnar, hræddar, hugrakkar, vænar, reiðar, útsmognar, kærleiksríkar og bara alls konar. Þær hafa önnur markmið en að verða ástfangnar og gifta sig. Er það kannski það sem karlarnir í bransanum eru svona hræddir við? Að konur séu sýndar sem gerendur? Gæti það kannski komið upp ranghugmyndum hjá stúlkum um það hvernig þær eiga að haga sér? Að þær megi aksjúally vera gerendur? Að þær megi prumpa, naga neglurnar, klóra sér í píkunni, segja fokkjú og... hið hræðilega... skrifa kvikmyndahandrit og leikstýra því sjálfar? Einu sinni máttu vestrænar konur ekki vera í buxum. Einu sinni máttu þær ekki skrifa bækur. Einu sinni máttu þær ekki reykja. Ekki kjósa. Í dag þykir okkur það fáránlegt. Get my point?
Þorsteinn Guðmundsson leikari sagði einu sinni í útvarpinu að kvikmyndabransinn væri eins og partý þar sem karlar sitja við hlaðborð og segja sögur og konur bera í þá kaffi og bakkelsi. Þetta er svo satt að það er vandræðalegt.
Þorsteinn Guðmundsson leikari sagði einu sinni í útvarpinu að kvikmyndabransinn væri eins og partý þar sem karlar sitja við hlaðborð og segja sögur og konur bera í þá kaffi og bakkelsi. Þetta er svo satt að það er vandræðalegt. Konur framleiða fyrir kalla, þær stýra sjóðnum sem styrkir kalla til að gera bíómyndir um kalla - þær skipuleggja og þeir skapa. Svo koma kallarnir upp á svið, taka við verðlaunum og þakka mæðrum sínum og eiginkonum. Úff.
Meinaður aðgangur að hlaðborðinu
Ég er alls ekki að lasta konur sem vinna sem framleiðendur eða stýra sjóðum. Alls ekki. Ég er að gagnrýna fyrirkomulagið sem við höfum komið okkur upp þar sem konum er meinaður aðgangur að hlaðborðinu. Ég vil að 12 ára dóttir mín og vinkonur hennar og vinir geti farið í bíó og séð eitthvað annað en myndir eftir karla, um karla, leikstýrðar af körlum. En veruleikinn sem blasir við okkur hér á landi er mjög svipaður þeim bandaríska, þar sem yfir 90% af kvikmyndum eru eftir karla, leikstýrðar af körlum með karlkyns gerendur í aðalhlutverki.
Ég vil að dóttir mín læri það að hún megi vera gerandi. Að hún megi vera óþekk, gera það sem hana langar og haga sér eins og henni sýnist. Ég vil sterkar kvenfyrirmyndir fyrir þessa kynslóð. Þess vegna vil ég... nei þess vegna heimta ég kynjakvóta á styrkveitingar til kvikmynda. Kynjakvóti myndi leiða til þess að helmingur styrkja til kvikmyndagerðar færu til karla og helmingur til kvenna. Ég bara get ekki séð hvernig það getur verið slæmt.
Já og fokk feðraveldið.