Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, LSE, segir það misráðið að fjölga seðlabankastjórum úr einum í þrjá. Aðeins eigi að vera með einn seðlabankastjóra og undirmenn hans hafi síðan ákveðið verksvið.
Þetta kom fram í viðtali við Jón í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.
Nefnd sem fjármálaráðherra skipaði í fyrra til að endurskoða lögin um Seðlabanka Íslands hefur lagt til að seðlabankastjórum verði fjölgað í þrjá. Nefndin skilaði nýlega áfangaskýrslu og drögum að frumvarpi þar sem þetta kemur meðal annars fram.
Í Sprengisandi sagði Jón að áfangaskýrslan væri alls ekki nógu vönduð. Hann benti meðal annars á að alls staðar í stjórnkerfinu og atvinnulífinu væri gert ráð fyrir einum forystumanni. Sagði hann að það væri fáranglegt ef Alþingi setti lög um að nauðsynlegt væri að hafa þrjá skipstjóra. „Það væri sambærilegt þessu. Það eru held ég allir sammála um að það væri fáranlegt að setja þrjá skipstjóra í stað eins,“ sagði Jón í viðtalinu.