Píratar eru næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins. Alls myndu þeir fá 21,9 prósent atkvæða ef kosið yrði nú og þingmönnum flokksins fjölga úr þremur í fjórtán. Í blaðinu er haft eftir Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata, að hann gleðjist yfir niðurstöðunum en að hann taki tölunum með fyrirvara. „Í fyrsta lagi er ekki sjálfgefið að þetta komi upp úr kjörkössum og ekkert sjálfgefið að þetta haldist. Það er mikilvægt að við ofmetnumst ekkert af þessu.“
Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkur landsins og mælist með 28 prósent fylgi. Hinn stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkur, heldur hins vegar áfram að daga og mælist nú með 10,1 prósent fylgi. Hann fékk 24,4 prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum.
Lítill byr virðist vera í seglum annarra stjórnarandstöðuflokka en Pírata. Samfylkingin mælist með 16,1 prósent fylgi, Vinstri græn með 10,4 prósent fylgi og Björt framtíð er samkvæmt skoðanakönnuninni minnsti stjórnmálaflokkur landsins með fulltrúa á þingi með 9,2 prósent fylgi. Þeir sem myndu vilja kjósa annað eru 4,3 prósent.
Í könnuninni var hringt í 1.024 manns þar til 800 svör fengust, samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 10. og 11. mars. Svarhlutfalið var því 78,1 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? Alls tóku 60,8 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.