Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna '78, vill að stjórnvöld sýni stuðning sinn við samtökin í verki og styrki þau fjárhagslega. Þetta kom fram í ræðu formannsins á aðalfundi samtakanna, sem fram fór í gær.
Í ræðu sinni sagði Hilmar: „Starfsfólk og sjálfboðaliðar hreyfingarinnar vinna í dag ómetanlegt og frábært starf við mjög krappann kost. Við finnum að almenningur og stjórnvöld gera mikla kröfu til okkar um þjónustu við og baráttu fyrir mannréttindum hinsegin fólks. Þetta er mjög eðlileg krafa enda félagið eina stofnunin á Íslandi sem býr yfir víðtækri sérfræðiþekkingu í málaflokknum, og heldur um leið úti jafn öflugri þjónustu, hvort sem varðar ráðgjöf, fræðslu, ungliðastarf, réttargæslu gagnvart löggjafa og framkvæmdavaldi og baráttu fyrir sýnileika, virðingu og viðurkenningu hinsegin fólks.
Hins vegar þarf hér að taka fram að félagið mun aldrei rísa undir þessu án þess að til komi fjármagn og það er bæði óraunhæft og ósanngjarnt að ætlast til þess að jafn mikilvægt starf sé nær eingöngu sett á herðar sjálfboðaliða. Það er kominn tími til að stjórnvöld geri sér grein fyrir þessu og þar á ég bæði við um ríki og sveitarfélög. Stefna er einskis virði án fjármagns til framkvæmda. Svo einfalt er það. Fylgi fjármagn ekki með eru fögru loforðin lítið annað en orðin tóm. Við sjáum bæði ríki og sveitarfélög styðja ýmsa hópa og málefni um miklu stærri upphæðir en þau setja í mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Framlög til okkar eru í raun hreinn brandari í samanburðinum. Þetta snýst einfaldlega um það hvort stjórnvöldum sé raunverulega alvara með fögrum orðum um stuðning við mannréttindi hinsegin fólks og lífshamingju þess. Ég neita að trúa því að svo sé ekki - því þetta varðar okkur öll. En nú reynir á stóru orðin.“