Flestir landsmenn bera traust til Landhelgisgæslunnar, að því er fram kemur í nýrri könnun Gallup á trausti almennings til stofnana. Traust til stofnunarinnar minnkar hins vegar um átta prósentustig á milli ára.
Samkvæmt niðurstöðunum bera 81 prósent aðspurðra traust til Landhelgisgæslunnar, en næst á eftir kemur lögreglan með 77 prósent og Háskóli Íslands situr í þriðja sæti listans með traust 72 prósenta aðspurða. Þrjú efstu sætin tóku engum breytingum á milli kannanna.
Embætti sérstaks saksóknara nýtur trausts 61 prósents landsmanna, og á sæti í fjórða sæti listans, þar á eftir kemur heilbrigðiskerfið með 60 prósent, og umboðsmaður Alþingis nýtur trausts 60 prósenta aðspurða, en traust til embættisins hækkar um sjö prósentustig á milli ára.
Traust almennings til Alþingis mælist átján prósent og minnkar um sex prósentustig á milli ára og þá minnkar traust þjóðarinnar til lögreglu um sex prósent á sama tíma.
Þjóðin ber litlu meira traust til Fjármálaeftirlitsins en Alþingis, en 21 prósent aðspurða báru traust til stofnunarinnar. Íslenska bankakerfið nýtur afgerandi minnsta trausts almennings, en samkvæmt könnun Gallup treysta 12 prósent þjóðarinnar bankakerfinu, miðað við 14 prósent í fyrra.