Þurrðinni sem hefur plagað Kaliforníu undanfarin fjögur ár virðist ekki ætla að ljúka í nánustu framtíð. Vatnsskortinn má rekja til minni úrkomu, hærra hitastigs og styttra regntímabils. Í nýlegri skoðanakönnun sem gerð var í Kaliforníuríki svöruðu 94 prósent viðmælenda að þeir töldu ástandið alvaralegt og þriðjungur studdi vatnsskömmtun.
Þrátt fyrir að íbúar sammælist um alvaraleika málsins er meðalneysla vatns á mann í borgum Kaliforníu 674 lítrar á dag, sem er 40 prósent meira en á hvern íbúa í New York og rúmlega tvisvar sinnum meira en í Sydney. Þrátt fyrir mikla eftirspurn og dvínandi framboð kosta þessir 674 lítrar einungis um 80 sent eða rúmlega 100 íslenskar krónur miðað við núverandi gengi. Gamlar reglur og lög sem voru sett til að tryggja vatsndreifingu um ríkið ýta verðinu niður og kynda undir ofneyslu.
Hagfræðingar hafa bent á misræmið í því að halda vatsnverði svo lágu þrátt fyrir vatnsskortinn en lítill pólitískur vilji virðist vera til staðar til að hækka verðið. Þess í stað er leitað annarra leiða til að bregðast við þurrðinni. Veitingastaðir er hvattir til að afgreiða ekki vatn og borgarbúar hvattir til að vökva ekki garðana sína.
Jerry Brown, ríkisstjóri í Kaliforníu, setti lög í byrjun apríl sem neyðir vatnsveitur að minnka dreifingu á vatni um 25 prósent og sagði að „fólk verði að átta sig á því að við lifum á nýrri öld“. Gagnrýnisraddir benda á að nýju reglurnar gilda ekki um landbúnað sem notar 80 prósent af vatninu en skilar aðeins tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu í Kaliforníu.
Sérfræðingar hafa bent á að með því að minnka vatnsfreka ræktun (eins og möndlur, bómul, og refasmára) og notkun óhagkvæmra vökvunaraðferða væri hægt að minnka vatnsneyslu svo hún verði ásættanleg. Margir bændur virðast ekki taka það í mál og halda áfram að reyna að rækta þessar vatnsfreku plöntur á nýjum ekrum á meðan þær gömlu þorna upp.
Margir stjórnmála- og embættismenn hafa lýst yfir þeirri skoðun að nýsköpun muni reynast lausnin að þessu vandamáli. Kalifornía er þekkt fyrir öflugt frumkvöðlasamfélag og nýsköpun. Helsta vandamál fylkisins virðist hinsvegar vera stjórnmálalegt og efnahagslegt frekar en tæknilegt. Þó það sé óvíst hvort loftslagsbreytingar séu aðalorsök þurrðarinnar er samhljómur meðal loftslagsvísindamanna að jarðhlýnun muni auka áhrif hennar. Þetta er því ekki tímabundið vandamál heldur mun Kalifornía þurfa að aðlagast breyttum aðstæðum og þurrara loftslagi.