Rikislögreglustjóri leggur til að 313 ný skotvopn verði keypt á þessu ári og því næsta, 163 skammbyssur og 150 hríðskotabyssur, til að efla viðbúnaðargetu lögreglu með hraði. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í níu blaðsíðna greinargerð um eflingu viðbúnaðar lögreglunnar og send hefur verið Ólöfu Nordal innanríkisráðherra.
Undir greinargerðina skrifa þrír stjórnendur hjá embætti ríkislögreglustjóra, Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn, Guðmundur Ó. Þráinsson, aðstoðaryfrlögregluþjónn hjá sérsveitinni, og Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra.
Í greinargerðinni er vitnað til skýrslu innanríkisráðherra um stöðu lögreglunnar frá árinu 2012, þar sem kemur meðal annars fram að búnaður lögreglu til þess að takast á við sérstakar lögregluaðgerðir vegna vopnamála, hryðjuverka og annarra stórfelldra ofbeldisglæpa sé mjög takmarkaður. Búnaðurinn sem til sé þarfnist að mestu endurnýjunar og viðbúnaðargeta lögreglu, hvað varðar fyrstu viðbrögð og vegna öryggis ríkisins, sé óviðunandi.
Tvær hríðskotabyssur á hverja lögreglustöð
Greinargerðarhöfundar fagna því að auknu fjármagni hafi verið varið til þjálfunar lögreglumanna og til að efla búnað á síðasta ári, en betur þurfi ef duga skal. „Til staðar þurfa að vera að lágmarki á hverri lögreglustöð tvær skammbyssur, tveir MP5 (hríðskotariflar), tvö aðgerðarskotvesti, tveir skotskýlingarhjálmar og skotskýlingarskjöldur til þess að bregðast við vopnamálum. Almenna lögreglan sinnir fyrstu viðbrögðum og óforsvaranlegt er að senda óvopnaða lögreglumenn í slík verkefni. Lögreglustöðvar eru 35 þannig að þörfin er að lágmarki 70 sett.“
Samkvæmt greinargerðinni er heildarkostnaður við að fullbúa lögreglumann um 1,2 milljónir króna, að meðtöldum vopnum. „Keyptur hefur verið hlífðarbúnaður fyrir 72 lögreglumenn sem er forsenda þess að hægt sé að vopna almennu lögregluna til þess að sinna hlutverki sínu við fyrstu viðbrögð vegna vopnamála, hryðjuverka, stórfelldra ofbeldisglæpa og annarra atvika sem ógna öryggi landsins.“
Samkvæmt greinargerðinni mun lögregla í lok árs 2016 hafa aflagt 196 skammbyssur frá árinu 2006, og 28 hríðskotabyssur á sama tímabili, þar sem skotvopnin eru útrunninn. Þá mun lögregla í lok næsta árs sömuleiðis hafa aflagt 67 sjálfvirka og hálf sjálfvirka riffla og haglabyssur frá árinu 2006. Til að bregðast við þessu er lagt til í greinargerðinni að 313 ný skotvopn verði keypt á þessu ári og því næsta, auk þess sem hlífðarbúnaður lögreglu verði endurýjaður. Þá sé margvíslegur búnaður sérsveitar ríkislögreglustjóra úr sér genginn, sé jafnvel áratuga gamall, og þarfnist endurnýjunar og kaupa þurfi nýjan búnað eins og nætursjónauka, öflugan skotskýlingarbúnað og fleira.
„Sú skipan sem tekin hefur verið upp varðandi árlega aðgerðaþjálfun almennra lögreglumanna er mikið framfaraspor og tryggðar hafa verið fjárveitingar til þess að sinna því verkefni með nokkuð ásættanlegum hætti. Hins vegar er staðan varðandi sérbúnað lögreglu ófullnægjandi til þess að tryggja öryggi lögreglumanna og um leið viðbúnaðargetu lögreglunnar til þess að fást við vopnuð lögreglustörf. Því er lagt til að hraðað verði viðbúnaðaruppbyggingu lögreglunnar. Veittar verði auknar fjárveitingar til þess að endurnýja og bæta sérbúnað hennar.“