Meirihluti landsmanna er andvígur því að umsókn Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, sem RÚV greindi frá í kvöldfréttum sínum.
51% aðspurðra sögðust andvíg því að umsóknin sé dregin til baka, 39% sögðust hins vegar hlynnt því. Tíu prósnet sögðust hvorki hlynnt né andvíg.
Þegar spurt var um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald málsins sögðust 65% vera fylgjandi slíkri atkvæðagreiðslu. 24% sögðust andvíg þjóðaratkvæðagreiðslu en 12% hvorki fylgjandi né andvíg. Nærri þrír af hverjum fjórum telja að ríkisstjórnin hefði átt að ræða við Alþingi áður en Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sendi frá sér bréf um að ríkisstjórnin liti svo á að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki.
Mikill munur er á svörum fólks eftir því hvaða flokk það segist myndu kjósa. 88% kjósenda Framsóknarflokksins segjast hlynnt því að umsóknin sé dregin til baka og 76% kjósenda Sjálfstæðisflokksins. 6% kjósenda Samfylkingar eru hlynnt afturköllun, 19% kjósenda VG, 14% kjósenda Bjartrar framtíðar og 17% kjósenda Pírata.