„Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Hilmar Hildarson Magnúsarson frá Samtökunum ´78 og Björg Valgeirsdóttir héraðsdómslögmaður munu flytja yfirlýsingu við Lögreglustöðina við Hlemm í Reykjavík í dag klukkan 8:30 vegna þessa. Yfirlýsinguna í heild sinn má lesa hér að neðan.
Yfirlýsing Samtakana ‘78 í tilefni orðræðu í garð hinsegin fólks sem ekki samræmist íslenskum lögum
Við í forystu Samtakanna ‘78 höfum þróað með okkur ansi þykkan skráp í gegnum tíðina og getum staðið af okkur ýmislegt. Það er hins vegar fjöldi fólks í okkar röðum, hinsegin fólk um allt land, börn þess, fjölskyldur og vinir, sem tekur þessari umræðu þungt. Ófögur og andstyggileg orð sem beint hefur verið gegn hinsegin fólki veldur því hugarangri og vanlíðan og í mörgum tilfellum sári sem illa grær - eða alls ekki. Við skulum nefnilega ekki gleyma því að hatursáróður gegn hinsegin fólki er engin nýlunda sem er að spretta upp síðustu daga. Þetta hefur verið, og er viðvarandi vandamál, og það er hreinlega lífsspursmál að fólk þurfi ekki að sitja undir því. Það á engin manneskja að þurfa eða sætta sig við.
Að því sögðu hefur stjórn Samtakanna ‘78 að vandlega ígrunduðu máli i samráði við lögmann samtakanna komist að þeirri niðurstöðu að kæra tiltekna einstaklinga sem hafa beitt háværum röddum og hatursfullri orðræðu í garð hinsegin fólks á opinberum vettvangi. Orðræðu sem er til þess fallin að breiða út fordóma gegn hinsegin fólki í íslensku samfélagi og gera því lífið leitt.
Samtökin ‘78 - félag hinsegin fólks á Íslandi hafa það meðal annars að markmiði að tryggja að hinsegin fólk njóti fyllstu réttinda i íslensku samfélagi. Samtökin leitast við að ná því markmiði með því að vinna að baráttumálum hinsegin fólks eftir þeim leiðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni.
Íslenskt samfélag er meðal fremstu samfélaga heims í réttindamálum hinsegin fólks. Það vekur athygli víða og mörg ríki taka okkur sér til fyrirmyndar. Undanfarin 30 ár hafa átt sér stað vatnaskil í baráttunni sem Samtökin ‘78 eru stolt af að hafa tekið þátt í. Þeir einstaklingar sem við höfum ákveðið að kæra hafa kynt undir orðræðu sem við teljum vega gróflega að rétti hinsegin fólks til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og fyllsta jafnréttis. Réttinda sem vernduð eru af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland er aðili að, þar með talið mannréttindasáttmála Evrópu. Þar að auki höfum við komist að þeirri niðurstöðu að orðræðan sem kærur þessar ná til flokkist sem hatursorðræða í garð hinsegin fólks sem ekki er heimiluð skv. íslenskum lögum; einkum almennum hegningarlögum en einnig fjölmiðlalögum í ákveðnum tilvikum.
Samtökin ‘78 vísa kærunni til stuðnings til þess að afdráttarlaust bann er lagt við ákveðinni tjáningu sem lýst er sem refsiverðri skv. 233. gr.a. almennra hegningarlaga sem hljóðar svo:
„Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Samtökin ‘78 gera sér að sjálfsögðu grein fyrir þvi að kærðu eiga rétt til skoðana sinna og láta þær i ljós sbr. 1. og 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasattmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Við teljum á hinn bóginn augljóst að tjáningarfrelsi megi ekki hagnýta til að níðast á öðrum réttindum manna og að löggjöf gegn misrétti vegna kynhneigðar og kynvitundar sé nauðsynleg í lýðræðisríki til að vernda minnihlutahópa. 233. gr. almennra hegningarlaga er því lögbundið frávik frá tjáningarfrelsinu. Ummælin sem Samtökin ‘78 kæra fela í sér háð, róg og smánun í garð hinsegin fólks vegna kynhneigðar þess og/eða kynvitundar og þau eru sett fram á opinberum vettvangi, í formi sem engum rökum eru studd. Jafnræði fólks án tillits til kynhneigðar eða kynvitundar er lögfest grundvallarregla sem byggist á virðingunni fyrir mennskunni. Þótt tjáningarfrelsið sé jafnframt eitt af mikilvægustu réttindum manna og ein af grundvallarstoðum lýðræðisins, er orðnotkun sem lýsir hatri eða fordómum á hinsegin fólki á opinberum vettvangi ekki refsilaus að mati Samtakanna ‘78.
Að morgni dagsins 27. apríl 2015, kl. 8:30, munu fulltrúar úr stjórn Samtakanna ‘78, ásamt lögmanni samtakanna, leggja fram kærur á Lögreglustöðinni á Hverfisgötu á hendur 10 einstaklingum vegna ummæla sem hlutaðeigandi hafa látið falla í umræðu um hinsegin fólk og samtökin telja refsinæm samkvæmt framangreindu.
Við hjá Samtökunum ‘78 erum alltaf boðin og búin að mæta jákvæð til leiks, taka þátt í umræðunni og fræða. En það verður heldur ekki litið framhjá þeim hrottaskap sem einkennt hefur umræðuna síðustu daga. Það eru takmörk fyrir því skítkasti sem hinsegin fólk lætur bjóða sér að sitja undir, án þess að aðhafast neitt. Gleymum því ekki að opinber rógburður og umræða sem niðurlægir og níðir ákveðna hópa heggur fast að rótum lýðræðisins. Slík orðræða grefur undan þeim samfélagssáttmála sem við höfum komið okkur saman um: að hér eigum við öll að geta þrifist í samfélagi hvert við annað. Jöfn að rétti og jöfn að virðingu."