Blaðamanninum Jóhanni Haukssyni var sagt upp störfum hjá DV í gær. Þetta staðfestir Eggert Skúlason, ritstjóri blaðsins, í samtali við Kjarnann.
„Það eru bara áframhaldandi hagræðingaraðgerðir í gangi á DV, og það er svo sem eina skýringin,“ segir Eggert aðspurður um ástæður uppsagnarinnar. Hann vill ekki upplýsa um hvernig að starfslokum Jóhanns verði staðið, en staðfestir að blaðamaðurinn muni ekki mæta aftur til starfa á ritstjórnina. „Hvernig starfslokunum er háttað er trúnaðarmál milli okkar og hans.“
Aðspurður um hvort von sá á fleiri hagræðingaraðgerðum hjá DV, segir ritstjórinn svo ekki vera. „Nei, ég á ekki von á því. En eins og þið þekkið væntanlega á Kjarnanum þá eru menn stöðugt að horfa í krónur og aura og þessir fjölmiðlar þurfa allir að reyna í það minnsta að reka sig, út á það gengur þetta.“
Rekstur DV gengur betur
Eggert segir blaðið nú á réttri leið, en eins og kunnugt er sögðu margir áskrifendur DV upp áskrift sinni að blaðinu eftir að nýir eigendur og ný ritstjórn tók við útgáfunni og uppsagnir blaðamanna sem fylgdu í kjölfarið. „Reksturinn gengur orðið miklu betur. Við höfum náð að stórauka auglýsingasöluna eins og sést á síðum blaðsins, og sama skapi auglýsingar á vefnum. Áskriftarátakið hefur lukkast vel, en það er svo sem skuldahali sem menn eru að vinna með og það er verkefnið. En það gengur vel.“
Samkvæmt síðasta ársreikningi DV ehf. fyrir árið 2013 nam skuldastaða félagsins rúmum 116 milljónum króna í árslok þess árs. Þá nam rekstrartap félagsins árið 2013 samtals 37,1 milljón króna.
Ekki náðist í Jóhann Hauksson við vinnslu þessarar fréttar. Hann hlaut blaðamannaverðlaun ársins 2009 fyrir „leiðandi umfjöllun um fall og myndun ríkisstjórna og fréttaskýringar um mikilvæg þjóðfélagsmál,“ eins og segir í rökstuðningi dómnefndar.