Atvinnuveganefnd hefur boðað fulltrúa undirskriftasöfnunarinnar Þjóðareign.is á fund sinn á morgun,föstudag, klukkan 8:30. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum söfnunarinnar. Umdeilt makrílfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er nú til meðferðar hjá nefndinni.
Alls hafa rúmlega 31 þúsund manns skrifað undir áskorun til forseta Íslands á síðunni Þjóðareign.is frá því að henni var hrint úr vör 1. maí síðastliðinn. Það er vel yfir tíu prósent kosningabærra manna á Íslandi. Þar er skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu væntanlegum lögum um úthlutun makrílkvóta og öðrum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.
Í tilkynningu frá aðstandendum undirskriftarsöfnunarinnar segir að hún hafi gengið vonum framar. „Að undirskriftasöfnuninni standa einstaklingar sem hvorki hafa fjölmenn samtök né ríkt bakland sem getur látið mikla fjármuni af hendi rakna til auglýsinga. Hvatning til þátttöku hefur eingöngu farið fram í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlunum og það hefur skilað okkur hinni glæsilegu útkomu undirskrifta sem söfnunin stendur núna í.“
Jón Steinsson hagfræðingur, Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, Guðrún Pétursdóttir, fyrrum forsetaframbjóðandi, Þorkell Helgason, fyrrverandi prófessor, Elín Björg Ragnarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, hagfræðingarnir Henný Hinz og Bolli Héðinsson og Agnar K. Þorsteinsson, sérfræðingur í upplýsingatækni standa að undirskriftasöfnuninni.