Hvalaskoðunarsamtök Íslands lýsa furðu sinni á því að hrefnuveiðar séu hafnar á ný í Faxaflóa, sem sé eitt mikilvægasta hvalaskoðunarsvæði landsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum sem send var fjölmiðlum í dag. Þar mótmæla samtökin harðlega áframhaldandi hrefnuveiðum í Faxaflóa.
Í áðurnefndri fréttatilkynningu velta Hvalaskoðunarsamtök Íslands fyrir sér efnahagslegu gildi hrefnuveiða og fullyrða að uppi séu ýmis merki um slæma afkomu veiðanna.
„Í ár bætist aukinn kostnaður við veiðarnar þar sem greiða þarf veiðigjald skv. svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um hvalveiðar og verðmæti hvalkjöts og nýtingu og landa þarf afla á vigt sem misbrestur hefur verið á. Í sama svari kemur fram að útgerðin fái 1 milljón króna fyrir hvert landað dýr til vinnslu. Til samanburðar má nefna að miðasala í einni hvalaskoðunarferð með um 125 farþega skilar sömu innkomu. Sá fjöldi farþega er algengur í hverri hvalaskoðunarferð í Reykjavík yfir sumarið og farnar eru margar ferðir á degi hverjum,“ að því er fram kemur í tilkynningunni frá samtökunum.
Þá gagnrýna þau að hrefnuveiðar séu stundaðar rétt fyrir utan afmarkað hvalaskoðunarsvæði í Faxaflóa. „Áhyggjuefni er að hvalatalningar Hafrannsóknarstofnunnar síðustu ár hafa sýnt fram á mikla fækkun hrefnu. Hvalveiðar einar og sér útskýra ekki þá fækkun en ljóst er að veiðar úr stofnu sem þegar er undir álagi vegna ýmisa umhverfisþátta geta ekki hjálpað til í stöðunni. Samtökunum er einnig umhugað um velferð dýranna, sem hvalaskoðunarfyrirtækin byggja afkomu sína á, og benda á að enn hafa ekki verið gerðar nægilegar mælingar á dauðatíma hrefna til að skera úr um hvort þær geti talist til mannúlegra veiða. Eftir sem áður teljum við því að eina skynsamlega, sjálfbæra og réttlætanlega nýtingin á hval við Ísland sé hvalaskoðun.“