Í umræðum um hina forkastanlegu breytingatillögu meirihluta atvinnumálanefndar (Jón Gunnarsson og Co) við tillögu umhverfisráðherra um Rammaáætlun hefur afhjúpast að hjá sumum hefur klukkan staðið kyrr í 30 til 40 ár. Gamla dólga-stóriðjustefnan lifir enn góðu lífi í hugum sumra stjórnmálamanna og jafnvel heilla flokka. Í þágu hennar á að henda á haugana allri viðleitni til að sætta sjónarmið nýtingar í þágu orkuframleiðslu og verndar eða annars konar nýtingar. Lögbundið ferli Rammaáætlunar og fagleg vinnubrögð skulu víkja í þágu þess að áfram verði hægt að hafa opið hús fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar.
Þetta er þeim mun merkilegra þar sem ekki linnir fréttum af áframhaldandi og örum vexti ferðaþjónustunnar, stærstu gjaldeyrisöflunargreinar íslenska þjóðarbúsins. Óumdeilt er að sterkasta aðdráttarafl erlendra ferðamanna til landsins er íslensk náttúra. Margendurteknar rannsóknir sýna að að minnsta kosti 70 til 80 prósent erlendra ferðamanna sem landið sækja heim nefna íslenska náttúru sem fyrstu eða meginástæðu þess að þeir kjósa Ísland sem áfangastað. Engu að síður er talað og aðhafst eins og hagsmunir þeirrar greinar séu hrein afgangsstærð þegar kemur að álitamálum um verndun íslenskrar náttúru. Gildir þá einu hvort í hlut á framganga stjórnarmeirihlutans í atvinnuveganefnd eða áform Landsnets um risavaxna háspennulínu þvert yfir og í gegnum miðhálendi Íslands, helst með Vegagerðina í eftirdragi með uppbyggðan veg. Lítum nú aðeins nánar á þjóðhagslegt samhengi þessara hluta.
Hreinar gjaldeyristekjur
Áætlað er að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hafi farið yfir 300 milljarða króna á síðasta ári. Ef vöxtur greinarinnar í ár verður eitthvað nálægt því yfir árið eins og verið hefur á fyrstu fjórum mánuðunum (35 prósent í janúar, 35 prósent í febrúar, 27 prósent í mars og 21 prósent í apríl) þá er varlega áætlað að gjaldeyristekjurnar verði 350 milljarðar króna í ár. Nálgæt 80 prósetn af veltu greinarinnar verður eftir í íslenska hagkerfinu. Með öðrum orðum, hreinar, nettó, gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu stefna í nálægt 280 milljarða króna.
Í öðru sæti kemur sjávarútvegurinn og við skulum áætla að útflutnings- eða gjaldeyristekjur hans verði ívið meiri en í fyrra eða um 280 milljarðar. Nota má svipuð hlutföll um það sem eftir verður í innlenda hagkerfinu í tilviki sjávarútvegsins og ferðaþjónustunnar eða 80 prósent. Auðvitað er það eitthvað breytilegt milli ára, lægra hlutfall þegar mikið er samtímis flutt inn af skipum og/eða olíuverð er hátt, en hærra þegar svo er ekki. Þar með má áætla að hreinar gjaldeyristekjur frá sjávarútvegi verði um 225 milljarðar.
Og þá að orkufrekri stóriðju. Ef við ætlum henni sömuleiðis að gera ívið betur í ár en í fyrra gætu gjaldeyristekjurnar orðið um 230 milljarðar. En þá ber svo við að skilahlutfallið til þjóðarbúsins, það sem endar innan hagkerfis landsins, er allt annað og lægra en í fyrri tilvikunum tveimur. Nálægt 35 prósent af veltu stóriðjunnar endar hér og það gerir hreinar gjaldeyristekjur uppá nálægt 80 milljarða.
Samanburðurinn leiðir þá þetta í ljós: Ferðaþjónustan skilar hreinum gjaldeyristekjum upp á 280 milljarða, sjávarútvegurinn 225 og stóriðjan 80.
Framtíðin
Í hverju liggja þá okkar framtíðarhagsmunir skoðað í þessu þjóðhagslega samhengi? Að bregðast gæsluhlutverki okkar gagnvart landinu og náttúrunni og fórna hagsmunum ferðaþjónustunnar á altari stóriðjunnar sem skilar þjóðarbúinu minna en þriðjungi þess gjaldeyris sem ferðaþjónustan gerir? Tæplega getur það talist skynsamleg áhersla fyrir land sem á fjárhagslega afkomu sína undir því að afla gjaldeyristekna og viðhalda jákvæðum greiðslujöfnuði næstu árin og væntanlega langt inn í framtíðina. Eða um hvað snýst hinn þjóðhagslegi vandi samfara afnámi hafta?
Með þessu er alls ekki sagt að hófsamleg uppbygging fjölbreyttrar orkukrefjandi starfsemi, gjarnan í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, geti ekki áfram orðið hluti af okkar atvinnuuppbyggingu. En, þjóðhagslegar forsendur fyrir áframhaldandi blindri, dólga-stóriðjustefnu eru einfaldlega horfnar með öllu og voru nú raunar aldrei beysnar.
Það er svo efni í næstu grein að ræða þennan öra vöxt ferðaþjónustunnar og þau umhverfislegu og þjóðhagslegu álitaefni sem honum tengjast. Þar þarf vissulega einnig að stíga yfirvegað til jarðar og viðamikilla innviðafjárfestinga og fyrirbyggjandi aðgerða er þörf.
Höfundur er þingmaður.