Stóra fréttin í menningarlífinu þetta vorið er Bögglapóststofan eftir Braga Ólafsson, bók sem var útgefin í lok síðasta árs í 300 eintökum fyrir útvalda elítu og ekki seld á almennum markaði. Verkið er ófáanlegt á bókasöfnum, hvergi skráð í Bókatíðindum og var ósýnilegt í fjölmiðlum þar til í síðustu viku. Líkt og svo oft áður voru það bloggararnir sem tóku ómakið af blaðamönnunum: Vefsíðan Druslubækur og doðrantar fjallaði um bókina í stuttri grein þar sem söguþráður verksins er rakinn í meginatriðum. Útgefandi Bögglapóststofunnar er Gamma, hið dularfulla fjármálafyrirtæki sem enginn veit hver á. Grunur leikur á að lífeyrissjóðirnir séu meirihlutaeigendur í Gamma og ef sá grunur er réttur hefur fyrirtækinu tekist að gefa út sannkallað tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu – bók sem er fjármögnuð af almenningi en er ekki ætluð honum.
Bögglapóststofa Braga Ólafssonar varpar ljósi á þá viðleitni auðstéttarinnar að aðgreina sig frá fjöldanum, ekki bara efnislega heldur líka menningarlega. Sagan kennir okkur að menningin hefur tilhneigingu til að verða til hjá auðstéttinni og leka síðan niður til almúgans. Þannig voru skemmtiferðaskip til dæmis hönnuð í upphafi fyrir efnafólk en nú til dags eru flest skemmtiferðaskip heimsins drekkhlaðin af flíspeysuklæddum fólksmassa. Í heimi þar sem er búið að plebbavæða allan lúxus þarf auðstéttin sífellt að leita nýrra leiða til að aðgreina sjálfa sig, búa til menningarlega upplifun sem hún ein hefur aðgang að. Þetta þekkjum við frá því á árunum fyrir hrun og í raun var það bara tímaspursmál hvenær menningarlífið hérlendis færi að hneigjast aftur í þessa átt. Sjálfur átti ég ekki von á því að bókmenntirnar yrðu sá vettvangur þar sem þetta myndi gerast fyrst. Bókmenntirnar bjóða ekki upp á boðsmiða og eftirpartý, þær felast ekki í performans þar sem sumir fá að mæta en aðrir ekki; bókmenntirnar lifa í sinni eigin tímavídd og verða vart meðteknar öðruvísi en í einrúmi og með yfirlegu. Í textasamfélagi nútímans er útilokun frá bókmenntum nær óhugsandi en Gamma vill samt láta á það reyna og Bragi Ólafsson er til í að reyna með þeim. Ímyndið ykkur ef Gerpla hefði bara verið gefin út fyrir viðskiptavini Kveldúlfs hf. og væri óaðgengileg almennum lesendum. Væru ekki aðrar forsendur fyrir rannsóknum á öllu höfundarverki Halldórs Laxness í slíku ástandi ef það væri mögulegt?
Fyrsti áratugur þessarar aldar var blómatími fólksins sem taldi eðlilegt að auðstéttin ætti sína menningarsköpun óskipta og ótruflaða af almúganum og þetta fólk hafði almenningsálitið sér til siðferðilegs stuðnings.
Mótstöðuaflið gegn menningarsköpun sem byggir á útilokun ætti að vera sterkara á sviði bókmenntanna en víða annars staðar og dæmin sanna að þannig getur það stundum verið. Sjálfur var ég starfsmaður Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2007, í þá tíð þegar banksterarnir borðuðu gullkryddað risotto, Bryn Terfel og Elton John skemmtu fyrir luktum dyrum og jafnvel jaðarskáldin voru í boði Landsbankans. Bókmenntahátíð í Reykjavík var sponsuð í bak og fyrir af bönkum, flugfélögum og bókaforlögum. Samt voru allir viðburðir hátíðarinnar opnir og aðgengilegir hverjum sem var. Styrktaraðilar fengu ekki annað að launum en heiðurinn plús lógó í kynningarbæklingi. Það er auðvitað ekki annað en sjálfsagt að auðstéttin styrki listir og menningu ef útfærslan er með réttu lagi. Fjármálafyrirtækið Gamma hefur til dæmis styrkt Sinfóníuhljómsveit Íslands af miklum myndarbrag síðustu fjögur árin. Sá styrkur er almenns eðlis og felst í því að niðurgreiða miðaverð á tónleika sem standa okkur öllum til boða. Eins og Ragnar í Smára orðaði það: „Auður er hvorki góður né vondur; það er afstaða manna til auðsins, sem er annaðhvort góð eða vond.“
Fyrsti áratugur þessarar aldar var blómatími fólksins sem taldi eðlilegt að auðstéttin ætti sína menningarsköpun óskipta og ótruflaða af almúganum og þetta fólk hafði almenningsálitið sér til siðferðilegs stuðnings. Svo kom hrunið og síðan þá hafa listamenn í öllum deildum keppst við að skilgreina sjálfa sig burt frá fjármálaelítunni, rjúfa á tengslin við snobbið, skapa sér nýtt andrými, lofta út. En nú er súrefnið bráðum á þrotum. Og kanarífuglinn í kolanámunni heitir Bragi Ólafsson.
No comment
Áslaug Karen Jóhannsdóttir, blaðakona á Stundinni, hringdi í Braga og vildi spyrja hann nánar út í bókina og samstarfið við Gamma. Það sem Bragi hafði um málið að segja var hið sama og hann hefur haft fram að færa sem rithöfundur síðasta áratuginn: Ekkert. Auðvitað ímyndum við okkur að Bragi dauðskammist sín fyrir þetta uppátæki sitt, hann hafi látið græðgina hlaupa með sig í gönur og sitji nú uppi með hneisuna. Sú tilgáta er allténd ekki verri en hver önnur og verður að duga í bili fyrst Bragi vill ekkert tjá sig um málið. Við þurfum raunar ekki að leita langt aftur í menningarsöguna til að finna listamenn sem selja sig og dauðsjá eftir því stuttu síðar. Dæmin eru mörg frá því á árunum fyrir hrun og stundum hafa menn jafnvel beðist afsökunar opinberlega á því að hafa tekið þátt í sukkinu, ýmist beint eða óbeint. Vandinn við að greina þessa umræðu er fyrst og fremst heimildaskortur og almenn óvissa. Fregnir af samkvæmisleikjum auðstéttarinnar frá því fyrir hrun eru nokkurn veginn jafn þokukenndar og ljósmyndin þar sem rapparinn 50 Cent stillir sér upp með Björgólfsfeðgum á Jamaíka. Þeir listamenn sem létu til leiðast á sínum tíma vilja helst ekkert ræða um það núna. Í slíku þagnarbindindi grasséra kjaftasögur þar sem veislurnar verða enn þá stærri, kampavínsflöskurnar enn þá fleiri, dekadensinn enn þá tilþrifameiri. Hafið þið heyrt þessa um íslenska rithöfundinn sem varð fimmtugur og fékk glæsiveislu frá Björgólfi Guðmundssyni á afmælisdaginn? Björgólfur var eigandi Eddu útgáfu á þessu méli og fékk að útfæra eignarhald sitt á höfundinum svona; sagt er að hann hafi sjálfur staðið í sínum teinóttu jakkafötum og tekið í höndina á öllum gestum þegar þeir mættu í veisluna.
Nú, líkt og þá, birtist meðvirkni kunningjasamfélagsins fyrst og fremst sem hrópandi þögn.
Nú, líkt og þá, birtist meðvirkni kunningjasamfélagsins fyrst og fremst sem hrópandi þögn. Fæstir kollegar og vinir Braga munu láta hafa nokkuð eftir sér um Bögglapóststofuna, ekki heldur þeir sem eru með óbragð í munni yfir auðmannadekrinu. Einhverjir munu stíga fram til varnar, ásaka gagnrýnendur um öfund, ýkt viðbrögð, óþarfa tilfinningasemi eða annarlega hagsmuni, ítreka að það sé réttur listamanna að beita óhefðbundnum leiðum til að hafa í sig og á, listamenn þurfi jú að lifa mannsæmandi lífi eins og aðrir. Í frétt Stundarinnar er rætt við Egil Örn Jóhannsson, formann Félags íslenskra bókaútgefenda, en viðbrögð hans við málinu eru dregin saman í eina kjarnyrta málsgrein: „Almennt hljótum við þó að gleðjast yfir því að bækur séu gefnar.“ Röksemdafærslan minnir á málflutning SGI búddista sem líta svo á að hin kosmíska og altæka hamingja mannkynsins aukist eftir því sem fleiri kyrja daimoku á hverju augnabliki. Það að gefa bækur sé öllum til hagsbóta og andlegra framfara, jafnvel þótt bækurnar sé bara ætlaðar tilteknum forrétindahópi „og engum öðrum“. Egill Örn vill miklu frekar að fyrirtæki og stofnanir gefi viðskiptavinum sínum bækur en konfektkassa. Var ég búinn að nefna að Egill Örn er útgefandinn hans Braga Ólafssonar?
Ef þið þekktuð þessa tilfinningu...
Bögglapóststofan vekur upp spurningar um erindi rithöfunda og skyldur þeirra við lesendur sína. Umræðan er vandkvæðum háð eins og listumræða almennt, einkum í ljósi þess að gjarnan eru miklar tilfinningar í spilinu; góðir listamenn tala til okkar milliliðalaust, standa með okkur á erfiðum stundum, deila okkar sýn á veruleikann. Oft upplifum við sambandið við þetta fólk líkt og það einkennist af gagnkvæmu trausti og þegar aðdáendum finnst listamaður hafa brugðist sér geta þeir sýnt af sér hegðun sem virðist fullkomlega órökræn, ekki ósvipað og einstaklingur í ástarsorg. Munið þið eftir því þegar Valur Gunnarsson jarðaði Bubbaplöturnar sínar? Gjörningurinn var hafður að háði og spotti en samt var Valur ekki að gera annað en það sem hjartað bauð honum. Fólk sem tekur bókmenntir og listir alvarlega á sífellt á hættu að uppskera hrokafullar og háðskar athugasemdir frá þeim sem telja sig sérfróða um „merkilegri“ hluti – vísi að slíku má sjá í skrifum hinna ljóðelsku aðstandenda Herðubreiðar um Bögglapóststofuna. Þar er talað um að í „bókmenntakreðsum“ (þ.e. meðal kjánanna sem hafa ekki metnað til að helga sig raunverulegum viðfangsefnum) hafi „ýfst fjaðrir“ (þ.e. að þessir sömu kjánar séu auðsæranlegir og æsi sig út af algjörum smámunum).
Opinberir styrkir hafa gert Braga Ólafssyni kleift að þroskast og verða til sem rithöfundur og það má vel halda því fram að ef þessara styrkja nyti ekki við væri hann ekki starfandi rithöfundur heldur eitthvað allt annað. En því skyldi ríkissjóður veita fé til listamanna sem skapa eingöngu fyrir lokaða elítu?
Í þrengri skilningi vekur Bögglapóststofan líka upp spurningar um aðild hins opinbera að menningarsköpun í landinu og samspilinu við hinn frjálsa markað í því samhengi. Rökin með því að veita skattfé í launasjóð rithöfunda eru þau að bókmenntasköpun sé gagnleg fyrir samfélagið allt, hún stuðli að auknu læsi, styrki gagnrýna hugsun og sé okkur öllum til góðs með margvíslegum en ill-skilgreinanlegum hætti. Sá sem er fylgjandi ritlaunum verður að sætta sig við þá staðreynd að ritlaunin fara líka til lélegra höfunda; úthlutunarreglurnar eru ekki fullkomnar en standa engu að síður fyrir sínu því þær eru jú (á endanum) í þágu okkar allra. Hver verður hins vegar staðan þegar bókmenntakerfið klofnar og til verða bókmenntir sem eru ekki ætlaðar öllum? Í þessu samhengi má nefna eftirfarandi: Bragi Ólafsson upplifði síðast ritlaunalausan dag árið 2001. Frá því að úthlutað var úr úr launasjóði rithöfunda snemma árs 2002 hefur hann verið á framfæri hins opinbera tólf mánuði ársins. Opinberir styrkir hafa gert Braga Ólafssyni kleift að þroskast og verða til sem rithöfundur og það má vel halda því fram að ef þessara styrkja nyti ekki við væri hann ekki starfandi rithöfundur heldur eitthvað allt annað. En því skyldi ríkissjóður veita fé til listamanna sem skapa eingöngu fyrir lokaða elítu? Er ekki eðlilegast að bókmenntir sem útiloka þorra skattgreiðenda séu alfarið á forræði markaðsaflanna? Aukaspurning: Finnst ykkur líklegt að Bragi Ólafsson muni telja saman vinnutímana sem fóru í Bögglapóststofuna og leggja þá fram til frádráttar næst þegar hann sækir um ritlaun?
Íslenskar bókmenntir eru skrifaðar fyrir örmarkað og það kemur kannski ekki á óvart að einhverjir rithöfundar séu tilbúnir að hætta sér inn á dökkgráa svæðið til að drýgja tekjurnar. Tilvera listamanna meðal smáþjóða er sjaldnast munaðarlíf en samt er það staðreynd að fjöldi listamanna hérlendis hefur á síðustu árum afþakkað samstarf við vafasamar fjármálastofnanir. Þetta er fólk sem hefur neitað að setja verðmiða á listamannsheiður sinn, neitað að taka að sér aðalhlutverk í samkvæmisleikjum auðstéttarinnar. Aldrei hafa þessir listamenn fengið hrós fyrir prinsíppfestuna og við vitum ekki einu sinni almennilega hvaða hóp er hér um að ræða. Þegar hrunið var gengið um garð fannst mörgum þeir skulda þessu fólki eitthvað en upphæðin er óljós og móttakandinn nafnlaus, svo að það er erfitt að senda lofsyrðin þangað sem þau eiga að fara. Í staðinn getum við hins vegar haldið gagnrýninni lifandi og hæðst að sleikjuskapnum, híað á sellátið. Bragi Ólafsson er búinn að senda aðdáendum sínum fingurinn og það er eðlilegt – nei, óhjákvæmilegt – að þeir svari honum í sömu mynt.
Höfundur er bókmenntafræðingur.