Þar sem náttúruverndarrökin virðast því miður ekki duga á alla skulum við staldra við og kanna nánar Silicor Materials sem samstarfsaðila út frá markaðslögmálunum.
Silicor Materials hefur farið stórum orðum um mikla uppbyggingu á risaverksmiðju í Hvalfirðinum. Þeir segjast ætla að fjárfesta fyrir tugi milljarða og skapa hundruði starfa, lofa nýrri tækni sem á ekkert að menga og vera einstök í heiminum. En hvað og hverjir er á bak við stóru orðin?
Staðreyndin er sú að Silicor Materials sem áður hét Calisolar hefur áður verið með miklar yfirlýsingar um stór áform sem síðan ekkert hefur orðið úr. Í Mississippi fylki átti að skapa hundruði starfa og fjárfesta fyrir tugi milljarða en ekkert varð úr því frekar en í Ohio fylki þar sem Silicor Materials sem hét þá Calisolar hafði farið af stað með svipuð loforð skömmu áður. Í báðum tilfellum voru þarlend yfirvöld búin að eyða miklum tíma og fjármunum í að undirbúa samstarfið enda í góðri trú um að í vændum væri mikil fjárfesting og atvinnuuppbygging.
Erum við, Íslendingar núna þriðji aðilinn á fáum árum sem látum draga okkur á asnaeyrum?
Við hljótum að spyrja okkur af hverju hefur gengið svona brösulega hjá Silicor/Calisor til þessa? Einföld google leit á Silicor Materials og Calisolar vekur upp margvíslegar spurningar um trúverðuleika Silicor Materials og þeirra áform. Hafa yfirvöld hér á landi í Hvalfjarðarsveit og/eða Faxaflóahafnir rætt við kollega sína í Lowndes sýslunni í Mississippi um þeirra reynslu.
Joe Max Higgins, forstjóri Columbus Lowndes Development Link, hafði þetta um Silicor Materials að segja í samtali við þarlenda fjölmiðla eftir að þeir hættu við áform sín í Mississippi:
„Við skiljum einfaldlega ekki hvernig einhver sem segist ætla að ráðast í framkvæmdir fyrir rúmlega 200 milljónir dollara eigi í erfiðleikum með að leggja fram 150 þúsund dali í vörslufé fyrir tvo mikilvæga eindaga.“
Ég skil það ekki heldur!?
Ef tækninýjungarnar eru eins magnaðar og forsvarmenn Silicor Materials vilja sjálfir meina af hverju eru þá ekki nú þegar stórir fjárfestar búnir að fjárfesta í félaginu og tryggja framgang þess? Af hverju er Silicor að leita logandi ljósi að fjárfestum/lánveitendum á Íslandi. Lánakjör á Íslandi eru mun verri heldur bjóðast núna á evrusvæðinu eða í Norður-Ameríku þar sem vextir eru í sögulegu lágmarki.
Getur einfaldlega verið að sökum þess að heimsmarkaðsverð á sólarkísil hefur hríðlækkað undanfarin 10 ár að viðskiptamódel Silicor Materials gangi ekki upp? Það er margsannað að fyrirtæki verða að geta staðið á eigin fótum til lengri tíma án fyrirgreiðslu frá hinu opinbera eða með aðrar ívilnanir. Ég vona svo sannarlega að innlendir fjárfestar skoði þessi mál gaumgæfulega áður en lengra er haldið ekki síst þar sem erlendir greinendur eru flestir sammála um að verðið á sólarkísil muni halda áfram að lækka eða haldast lágt næstu árin sökum gríðarlegrar framboðsaukningar og mun ódýrari framleiðsluaðferðum. Það er mjög algengt að "nýjasta" tæknin er orðin úreld áður en hún lítur dagsins ljós. Hver hefur sannreynt að svo sé ekki í þessu tilfelli?
Fyrr á öldum köstuðu forfeður okkar ljótum fiski aftur fyrir borð þó að hér bjuggu þá flestir við sult. Í dag hristum við hausinn yfir þessari vitleysu. Sagan endurtekur sig nema núna erum við að kasta einni helstu náttúruperlu okkar, Hvalfirðinum fyrir borð fyrir eitt stykki stóriðju.
Það væri sennilega með verri dílum Íslandssögunnar.
Höfundur er forstjóri WOW Air.