Framlag Svía, lagið Heroes í flutningi Måns Zelmerlöw, varð hlutskarpast á úrslitakvöldi Eurovision sem fram fór í Vínarborg í kvöld. Ekki er hægt að segja að úrslitin hafi komið mikið á óvart, en helstu veðbankar heims höfðu spáð Svíum sigri í söngvakeppninni. Svíar enduðu með 365 stig eða 62 stigum meira en Rússar sem urðu í öðru sæti.
Annars fóru úrslitin eins og veðbankarnir höfðu spáð. Rússar enduðu í öðru sæti og Ítalir því þriðja.
Stigagjöfin var æsispennandi nánast frá byrjun. Ítalir smelltu sér í fyrsta sætið skamma stund í upphafi, en síðan seig Rússland framúr og náði nokkru forskoti og allt stefndi í um tíma að lagið A Million Voices í flutningi Polina Gagarina myndi sigra. Þá sóttu Svíar í sig veðrið, söxuðu jafnt og þétt á forskot Rússa, náðu fyrsta sætinu og slepptu ekki úr greipum sér eftir það.
Hér má sjá flutning sigurlagsins á úrslitakvöldi Eurovision í kvöld.