Lengsta mögulega vegalengd sem fólk þarf að ganga frá bíl sínum til að komast í alla verslun og þjónustu á Laugaveginum er 350 metrar ef lagt er í bílastæðahúsi, sem jafngildir um þriggja mínútna gangi miðað við meðalgönguhraða.
Þetta kemur fram í úttekt sem Andri Gunnar Lyngberg, arkitekt hjá Trípólí arkitektum, og Björn Teitsson upplýsingafulltrúi unnu.
Í úttektinni var lengsta mögulega göngufjarlægð sem einstaklingur þarf til að koma sér frá bílastæði og að verslun könnuð, annars vegar á Laugavegi og hins vegar í Kringlunni. Munurinn á göngulengdinni er 140 metrar, eða um ein mínúta, samkvæmt úttektinni.
Bílastæðahúsin í miðborginni eru merkt með upphafsstöfum þeirra. T er Traðarkotssund, B Bergstaðastræti, V Vitastígur og S Snorrabraut.
Lengsta mögulega gönguvegalengd á Laugavegi er 350 metrar, en sú vegalengd gæti til dæmis komið til ef ökumaður leggur bíl við Bergstaðastræti en á leið í verslun á horni Frakkastígs og Laugavegs.
Í samanburði við Kringluna er lengsta mögulega vegalengd frá bílastæði og að verslun 210 metrar. Það gæti til dæmis verið ef ökumaður leggur í horni bílastæðis hvorum megin við Kringluna sem er, en þurfi að komast í Vínbúðina í Kringlunni.
Lengsta mögulega vegalengd frá bílastæði og að verslun í Kringlunni.
Höfundar úttektarinnar segja að hún sýni fram á það að málflutningur Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg um að takmarkaður bílastæðafjöldi eða lengd bílastæða frá verslun hafi slæm áhrif á viðskipti standist ekki skoðun. „Munurinn á gönguvegalengd er einungis ein mínúta í versta falli. Að búast við að fá bílastæði við hlið verslunar á Laugavegi er eins og að búast við því að geta ekið bíl upp að verslun inni í Kringlunni miðri. Sem er augljóslega fjarstætt.“