Skattrannsóknarstjóri hefur fengið afhent gögn um 400 til 500 félög skráð í skattaskjólum og tengjast Íslendingum. Gögnin voru afhent síðastliðinn föstudag. Kaupverð var um 30 milljónir króna en í fyrstu vildi seljandinn fá 150 milljónir króna.
„Næsta skref er að átta sig betur á gögnunum og fara yfir þau. Gögnin eru í samræmi við það sýnishorn sem við höfðum áður séð. En það þarf að greina þau og setja upp áætlun um hvernig unnið verði úr þessu svo farsælast verði. Þetta er mikið magn,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. „Það er best að segja sem minnst um það,“ segir hún, spurð um hvað búast mætti við að þessi vinna tæki langan tíma.
Ríkisstjórnin samþykkti í apríl síðastliðnum aukafjárveitingu til embættis skattrannsóknarstjóra upp á 37 milljónir króna til þess að kaupa gögnin um fjárhagslegar eignir íslenskra aðila í þekktum skattaskjólum. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei fyrr keypt gögn sem þessi en bæði bandarísk og þýsk stjórnvöld hafa farið þessa leið með nokkrum ávinningi.
Skattrannsóknarstjóri fékk sýnishorn af gögnunum send í fyrra, og lét fjármálaráðuneytið vita af málinu. Sýnishornin 50 sem embættið fékk bentu sterklega til þess að skattaundanskot hafi átt sér stað.