Upplýsingarnar sem systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir hótuðu að gera opinberar snúast um fjárhagsleg tengsl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Björns Inga Hrafnssonar fjölmiðlamanns. Vísir greinir frá þessu og segir að samkvæmt heimildum sínum snúist upplýsingarnar um kaup Björns Inga á DV.
Tilkynnt var um kaup Björns Inga á DV í nóvember síðastliðnum. Fyrir átti hann Vefpressuna sem rekur Pressuna, Eyjuna og Bleikt.is. Eins og Vísir greinir frá voru Björn Ingi og Hlín í sambandi um nokkurra ára skeið, þar til í fyrra.
Samkvæmt Stundinni voru upplýsingar systranna tölvupóstur sem á að hafa farið á milli Sigmundar og Björns Inga í tengslum við kaupin á DV. Í samtali við Stundina segir Björn Ingi að hann viti ekkert um það hvaða upplýsingar systurnar hafi haft undir höndum. „Ég veit ekki um það, ég veit ekkert um þetta mál. Það hefur enginn spurt mig um það. Maðurinn hefur ekkert að fela enda vísaði hann málinu til lögreglunnar,“ sagði Björn Ingi.
Malín og Hlín hafa játað að hafa sent Sigmundi bréf þar sem þær reyndu að kúga fé út úr honum. Þetta kom fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru þær ekki nafngreindar, en sagt að þær hafi játað við yfirheyrslur og verið sleppt að þeim loknum. Lögreglan segir að málið teljist upplýst og verði sent ríkissaksóknara að lokinni rannsókn.
Malín er blaðamaður á Morgunblaðinu. Hún er komin í leyfi frá störfum fram til 1. ágúst. Hlín er fyrrverandi ritstjóri Bleikt.is, sem er hluti af Vefpressunni.
Vísir greindi frá því í morgun að í bréfi sem hafi borist Sigmundi og fjölskyldu hans á föstudag var þess krafist að þau myndu reiða fram nokkrar milljónir króna eða upplýsingar sem áttu að vera viðkvæmar fyrir þau yrðu gerðar opinberar.
Málið var strax tilkynnt til lögreglu, og hún réðist í umfangsmiklar aðgerðir sem leiddu til handtöku tveggja einstaklinga.
Á vef DV er greint frá því að bréfið frá Hlín og Malín hafi hafist á blíðum nótum en fljótlega hafi tilgangur þess komið í ljós. Sigmundi Davíð og fjölskyldu hans hafi verið verulega brugðið þegar handskrifað bréf með meintri fjárkúgun barst á heimili þeirra. Þar segir að í bréfinu hafi verið farið fram á ákveðna upphæð auk þess sem nákvæm lýsing var á því hvar ætti að afhenda fjármunina. Sá staður var við Krísuvíkurveg, unnan Vallahverfis í Hafnarfirði. Samkvæmt DV var lögð þung áhersla það í lok bréfsins á að afleiðingarnar yrðu alvarlegar ef að haft yrði samband við lögreglu.