Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Viðskiptaráð Íslands hljóta frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar, sem eru verðlaun sem Samband ungra sjálfstæðismanna veita á hverju ári þeim sem þau telja hafa „aukið veg frelsishugsjónarinnar á Íslandi.“
Vilhjálmur hlýtur verðlaunin vegna frumvarps síns um frjálsa sölu áfengis, en SUS segir hann hafa staðið í langri og strangri málefnabaráttu „þar sem hann kvikaði hvergi í rökfestu sinni fyrir auknu viðskipta- og einstaklingsfrelsi.“
Um Viðskiptaráð segir SUS að ráðið hafi lagt fram málefnalegar og vel ígrundaðar tillögur sem hafi hlotið verðskuldaða athygli og reynst gott innlegg í samfélagsumræðuna. Þá hafi ráðið fjallað um „lágmörkun opinberra afskipta, hagfellt skattkerfi og ókosti þess að ríkið standi í samkeppnisrekstri við einkaaðila.“
Samband ungra sjálfstæðismanna hefur veitt verðlaun sín á hverju ári frá árinu 2007, ein ávallt fá einn einstaklingur og einn lögaðili verðlaun. Átta karlar hafa nú fengið einstaklingsverðlaunin frá SUS og ein kona, Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar.
Fyrri verðlaunahafar:
2007: Andri Snær Magnason og Andríki
2008: Margrét Pála Ólafsdóttir og Viðskiptaráð Íslands
2009: Davíð Scheving Thorsteinsson og Hugmyndaráðuneytið
2010: Brynjar Níelsson og InDefence
2011: Ragnar Árnason og Advice
2012: Hannes Hólmsteinn Gissurarson og AMX
2013: Gunnlaugur Jónsson og Samtökin '78
2014: Pawel Bartoszek og Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt