Stjórnir Blaðamannafélags Íslands og Félags fréttamanna lýsa yfir furðu sinni á málflutningi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum og þeim sjónarmiðum sem liggja honum til grundvallar varðandi fréttaflutning af kynferðisbrotamálum sem upp kunna að koma á Þjóðhátíð.
Þetta segir í ályktun sem stjórnir félaganna sendu frá sér í dag. „Sú tilraun til þöggunar sem þar er lögð til er algerlega úr takt við þau meginsjónarmið um upplýsta og opna umræðu sem lýðræðissamfélög hljóta að styðjast við vilji þau standa undir nafni,“ segir í ályktuninni. Hana má lesa í heild hér að neðan.
Greint var frá því í gær að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sendi bréf til allra viðbragðsaðila sem tengjast þjóðhátíð í Eyjum og brýndi fyrir þeim að upplýsa ekki um kynferðisbrot sem upp koma á þjóðhátíð um helgina. „Ég legg því til að allir viðbragðsaðilar, allir gæslumenn, starfsmenn neyðarmóttöku, heilbrigðisstarfsmenn, sjúkraflutningsmenn og allir þeir sem koma að þessum brotum og fá upplýsingar starfa sinna vegna gefi engar upplýsingar um þessi mál. Með engum upplýsingum á ég við að hvorki verði gefið upp hvort að það hafi komið upp brot eða ekki. Besta svarið hvað ykkur varðar er „Við höfum enga heimild til að veita slíkar upplýsingar“,“ skrifaði Páley.
Skylda fjölmiðla að segja frá ofbeldisglæpum
Í ályktun stjórnanna tveggja segir að það sé skylda fjölmiðla að segja frá ofbeldisglæpum og það þjóni hagsmunum engra nema ofbeldismannanna að þegja um þá.
Ályktunin í heild:
„Stjórnir Blaðamannafélags Íslands og Félags fréttamanna lýsa yfir furðu sinni á málflutningi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum og þeim sjónarmiðum sem liggja honum til grundvallar varðandi fréttaflutning af kynferðisbrotamálum sem upp kunna að koma á Þjóðhátíð. Sú tilraun til þöggunar sem þar er lögð til er algerlega úr takt við þau meginsjónarmið um upplýsta og opna umræðu sem lýðræðissamfélög hljóta að styðjast við vilji þau standa undir nafni. Það er skylda fjölmiðla að segja frá ofbeldisglæpum og það þjónar hagsmunum engra nema ofbeldismannanna að þegja um þá. Um það þekkjum við því miður alltof mörg dæmi frá liðnum áratugum. Það er engin betri aðferð til að fyrirbyggja og lágmarka ofbeldi heldur en að tala um það af hreinskilni. Hvernig eigum við með öðrum hætti að takast á við fordóma og ranghugmyndir og fyrirbyggja gróusögur af öllu tagi? Stjórnir BÍ og FF hvetja lögreglu og aðra viðbragðsaðila til þess að ræða þau ofbeldisbrot, kynferðisbrot jafnt sem önnur, sem upp kunna að koma á þjóðhátíð með opinskáum hætti með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Það er beinlínis samfélagsleg og lýðræðisleg skylda þeirra að greina skilmerkilega frá því sem gerist og fréttnæmt þykir á þjóðhátíð í þágu þeirra sem sækja hátíðina heim og heimamanna í Vestmannaeyjum.“