Fjölmiðlamaðurinn og borgarfulltrúinn fyrrverandi Gísli Marteinn Baldursson snýr aftur á sjónvarpsskjá landsmanna í haust, þegar hann byrjar með nýjan þátt á RÚV. Vangaveltur hafa verið uppi um hlutverk Gísla Marteins hjá RÚV, en hann tók sér ársleyfi frá störfum í apríl í fyrra til að setjast á skólabekk við Harvard. Þá hafði hann stýrt sjónvarpsþættinum Sunnudagsmorgunn.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, staðfestir að Gísli Marteinn sé væntanlegur aftur til starfa. „Hann tekur sumpart upp þráðinn þar sem frá var horfið því í vetur mun hann stýra frétta-, dægurmála og -menningartengdum spjall- og viðtalsþætti , auk þess að sinna öðrum ansi áhugaverðum verkum,“ segir Skarphéðinn í samtali við Kjarnann.
Í beinni útsendingu á eftir fréttum
Umræddur sjónvarpsþáttur verður í beinni útsendingu á föstudagskvöldum að loknum fréttum og hefur göngu sína í haust. „Þátturinn hefur enn ekki hlotið nafn og efnistök eru enn í mótun. Við gerum þó ráð fyrir að honum muni um margt svipa til Sunnudagsmorguns að uppbyggingu, en stefnan er meðal annars að gera upp fréttavikuna, fjalla á upplýstan, opinn, aðgengilegan og hressilegan hátt um það sem efst er á baugi hverju sinni, jafnt í þjóðmálum sem og menningarlífinu," segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins.
Ekki náðist í Gísla Martein við vinnslu þessarar fréttar.